15.03.1967
Sameinað þing: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (2756)

118. mál, binding sparifjár innlánsstofnana á Norðurlandi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessari stuttu ræða hv. síðasta ræðumanns voru svo miklar og augljósar fjarstæður, að það væri mjög freistandi að gera það ýtarlega að umræðuefni. En ég skal ekki misnota mína aðstöðu til að halda hér langa ræðu yfir hv. þm., þar sem hans ræðutími er takmarkaður, enda þarf ég ekki mjög mörg orð til að sýna fram á grundvallaratriðin í alröngum málflutningi hans.

Hann segir, að veitt hafi verið afurðalán, áður en bindiskyldan kom til skjalanna. Þetta var raunverulega það eina, sem hann sagði og var algerlega óaðfinnanlega rétt. Auðvitað var það gert. Það var gert um langt skeið þannig, að ekki var til tjóns fyrir efnahags- eða fjármálalíf þjóðarinnar, þ.e. á meðan Seðlabankanum var útvegað jafnmikið fé til ráðstöfunar og hann notaði til aukinna afurðavíxlakaupa. En á áratugnum 1950—1960 var það þetta, sem fyrst og fremst fór úrskeiðis í stjórn íslenzkra efnahagsmála, í stjórn íslenzkra peningamála, að Seðlabankinn jók ár frá ári endurkaup sín á afurðavíxlum án þess að fá samtímis nokkurn veginn jafnmikið aukið ráðstöfunarfé, án þess að fá samtímis aukið fé til að binda í hinum auknu afurðakaupum, og afleiðingin varð sú, sem raun varð á allt þetta tímabil, 1950—1960, einkenndist af gjaldeyrisskorti, af innflutningshömlum, af stöðugu kapphlaupi milli verðlags og kaupgjalds. Áratugurinn 1950—1960 er áratugur hafta og gjaldeyrisskorts, og höfuðástæðan til, að hann var áratugur hafta og gjaldeyrisskorts, var þessi, að þeirri grundvallarreglu var ekki fylgt í stjórn á Seðlabankanum, í stjórn á Landsbankanum, að útvega honum aukið starfsfé á móti auknum afurðavíxlakaupum hans. Þetta var frumorsök verðbólgunnar á áratugnum 1950—1960, frumorsök gjaldeyrisskortsins, frumorsök viðskiptahaftanna. Þessari stefnu var gerbreytt á árinu 1960. Síðan 1960 hefur verið fyrir því séð, fyrst og fremst með bindiskyldunni, að Seðlabankinn hefur fengið aukið starfsfé á móti þeim skuldbindingum, sem hann hefur tekið að sér, sem sumpart hefur verið varið til að koma upp gjaldeyrisvarasjóðnum og sumpart að gera á síðari árum kleift að stórauka kaup afurðavíxla.

Það verður með engu móti staðhæft, að sú verðbólga, sem því miður hefur átt sér stað enn á þessum árum, eigi rót sína að rekja, til rangrar stefnu í peningamálum, til rangrar stefnu Seðlabankans í þeim málum, sem honum er falið að hafa forsjá fyrir. Það ætti að vera alveg augljóst, ef litið er á efnahagsreikning Seðlabankans, að það, sem ég hef sagt um þetta efni, er óyggjandi sannleikur. Ég hef hér af tilviljun efnahagsreikning Seðlabankans einmitt í lok sama mánaðar og tölurnar, sem ég nefndi áðan, gilda fyrir, lok nóv. s.l. Það fé, sem Seðlabankinn hafði þá til ráðstöfunar, var 3600 millj. kr. 1000 millj. kr. voru fengnar með seðlar útgáfunni, bindiskyldan nam þá 1700 millj., það fé, sem hann hafði fengið í gegnum bindiskylduna, var 1700 millj. og að eigin fé Seðlabankans var 900 millj. Það eru einfaldar tölur: 1000 millj., 1700 og eigið fé 900, eignir Seðlabankans nettó 900 millj. Þessar 3600 millj. notaði Seðlabankinn með tvennum hætti og aðeins með tvennum hætti í grundvallaratriðum. Annars vegar lánaði hann það út, keypti afurðavíxla fyrir 1600 millj. kr., og hins vegar notaði hann það til þess að eiga gjaldeyrisvarasjóðinn, 2000 millj. kr. Er nú ekki alveg augljóst mál, að ef bindiskyldan væri afnumin, þ.e. ef Seðlabankinn væri látinn skila aftur til viðskiptabankanna þessum 1700 millj., yrði hann að gera annað hvort, hann yrði að strika út öll endurkaupin og meira að segja meira, — bindiskyldan er 1700 millj. og endurkaupin eru 1600 millj., — ef bindisjóðurinn væri tekinn af honum, gæti það þýtt það, að hann yrði að segja upp öllum afurðalánunum og meira að segja dygði ekki algerlega til, það vantaði 100 millj. á eða þá hann mundi missa á skömmum tíma 1700 millj. af 2000 millj. gjaldeyrisvarasjóði. Það þriðja er ekki til í dæminu. Þess vegna er það fullkomlega út í bláinn, þegar hv. síðasti ræðumaður talar þannig, að Seðlabankinn gæti haldið áfram að eiga gjaldeyrisvarasjóð og haldið áfram að endurkaupa víxla, en hætt bindiskyldunni. Þetta er fullkomlega út í bláinn. Maður gæti náttúrlega sagt eins og einn hv. framsóknarmanna sagði í blaðagrein, ég held nú að vísu óviljandi, sjálfur ritari Framsfl., að það væri langbezt að selja gjaldeyrisvarasjóðinn og nota hann til dána hér innanlands. Ég held, að hann hafi ekki einu sinni talað fyrir munn sins eigin flokks, þegar hann mælti þessi ógætilegu og mér liggur við að segja fávíslegu orð. En hitt stendur eftir óhagganlegt, að minnkun bindiskyldunnar þýðir annaðhvort minnkun afurðakaupa eða minnkun gjaldeyrisvarasjóðsins. Auðvitað geta menn sagt, að menn vilji annaðhvort minnka gjaldeyrisvarasjóðinn, eins og ritari Framsóknar glopraði út úr sér, eða að menn vilji minnka endurkaupin. En það er ekki hægt að segja allt þrennt í senn, það er fjarstæða., að þeir vilji halda gjaldeyrisvarasjóðnum, halda endurkaupunum, en minnka bindiskylduna. Þetta er sjálfsmótsögn.

Þá er það eitt atriði í ræðu hv. fyrirspyrjanda, seinni ræðu hans, sem mig langaði til að svara eða réttara sagt gefa upplýsingar, sem sýna, að sú staðhæfing var röng, og hún er jafnröng, hversu oft sem hún er sögð og þó að hún væri sögð hundrað sinnum hér á Alþingi og í blöðum. Ég veitti því athygli, að hann sagði, án efa af því að hann trúir því, að það sé rétt, mér dettur ekki í hug að væna hv. 4. þm. Norðurl. e. um, að hann segi slíkt, án þess að hann trúi því sjálfur, að það sé satt, — hann sagði, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefði skapazt fyrir auknar lántökur erlendis. Hann sagði, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefði orðið til með þeim hætti, að landið hafi tekið ný lán erlendis. Þetta er búið að segja, svo oft í Þjóðviljanum og Tímanum, að það er kannske afsakanlegt, að jafnvel þm., jafnvel mikilhæfir þm. trúi því. En þetta er algerlega rangt, og það get ég sýnt fram á með tölum, sem ég nánast fyrir tilviljun hafði í töskunni, — ég hafði ekki búizt við því að þurfa að svara enn þá einu sinni fullyrðingu eins og þessari. (Gripið fram í.) Það kemur oft að gagni að vera varkár. En þetta sér maður með því að bera saman erlendar skuldir í árslok 1959, eða áður en þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda, og um s.l. áramót. Þetta er einfaldur samanburður og einfaldar tölur. Ég nefni fyrst tölurnar um árslok 1959, þau áramót, sem ríkisstj. tók við störfum, síðustu áramótin áður en tekið var að framfylgja núverandi stefnu í efnahagsmálum. Þá var gjaldeyrisstaða bankanna neikvæð um 144 millj. kr., erlend gjaldeyrisskuld 144 millj. kr. Föst erlend lán voru þá 2491 millj. kr. og skuld vegna stuttra vörukaupalána 50 millj. kr. Samtals voru því erlendar skuldir landsmanna, skuldir bankanna, föst erlend lán og stutt vöraukaupalán. 2685 millj., auðvitað reiknað á núverandi gengi. Um s.l. áramót voru sambærilegar tölur þessar: Gjaldeyrisstaða bankanna var jákvæð, gjaldeyriseign um 1912 millj. kr. Föst erlend lán voru hins vegar orðin 3912 millj., hafa hækkað — það er rétt — um 1500 millj. Stutt vörukaupalán hafa líka hækkað, þau voru orðin 554 millj. kr. Föst erlend lán og stutt vörukaupalán voru því samtals, öll erlend lán samtals 4466 millj. kr. Þegar nú gjaldeyrisvarasjóðurinn, gjaldeyriseign bankanna er dregin frá öllum föstum erlendum lánum þjóðarinnar, föstum og lausum við síðustu áramót, verður niðurstaðan 2554 millj. kr., svo að heildarniðurstaðan af öllum erlendum lánum, stuttum og löngum, og gjaldeyrisstöðu bankanna var um s.l. áramót 2554 millj. kr., en sams konar tala var í lok 1859 2685 millj. kr., munurinn er m.ö.o. 130 millj. kr. M.ö.o.: á sama gengi hefur heildarstaða landsins í erlendum gjaldeyri gagnvart útlöndum lækkað eða batnað um um það bil 130 millj. kr. síðan í árslok 1959, og samt átti landið gjaldeyrisvarasjóð upp á 1912 millj. kr. Það er því gersamlega úr lausu lofti gripið, hversu oft sem það kann að hafa verið sagt, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi skapazt með aukningu á erlendum lánum. Það er algerlega út í bláinn. Það er á móti tölum, sem birtar eru í skýrslu Seðlabankans og skýrslum Efnahagsstofnunarinnar, svo að mér finnst nú satt að segja vera mál til þess komið, að menn hætti að lesa aðra eins fjarstæðu og þetta í blöðum, að menn hætti að þurfa að hlusta á hana hér í sölum hins háa Alþ. Og til viðbótar, til þess að meta þessa tölu rétt, þennan 130 millj. kr. bata á gjaldeyrisstöðunni gagnvart útlöndum, er þess að geta, að á þessu tímabili hefur útflutningurinn um það bil tvöfaldazt. 1959 var útflutningurinn um það bil 2500 millj. kr., á s.l. ári var hann um 5000 millj. kr., hann hefur aukizt um 100%, svo að það gefur auga leið, að gjaldeyrisskuld að upphæð 4460 millj. kr. nú brúttó og nettó 2554 er miklu léttbærari í hlutfalli við 5000 millj. kr. innflutning heldur en nettógjaldeyrisskuld í árslok 1959 að upphæð 2685 millj. kr. var í hlutfalli við 2500 millj. kr. innflutning. Nettógjaldeyrisskuld þjóðarinnar 1959 var hærri en árlegi útflutningurinn. 1959 — og það er mjög athyglisvert — voru erlendu skuldirnar samtals meiri en árlegur útflutningur. Nú eru nettóskuldirnar ekki helmingur haf árlegum útflutningi. Þetta talar kannske skýrara máli en nokkuð annað um það, hversu stórkostlegum breytingum gjaldeyrisstaðan hefur tekið á undanförnum 6—7 árum.