12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

131. mál, störf flugvallanefndar

Fyrirspyrjandi (Axel Jónsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að bera fram á þskj. 249 eftirfarandi fsp.: „Hvað líður störfum n. þeirrar, er ráðh. skipaði á árinu 1965 til að gera till. um framtíðarstefnu í flugvallarmálum höfuðborgarsvæðisins?“

Það er eðlilegt, að nokkur áhugi sé meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins fyrir því, hvað sé fyrirhugað varðandi framtíðarskipan í uppbyggingu flugvalla fyrir þetta svæði. Reykjavíkurflugvöllur er ekki lengur fullnægjandi fyrir þann flugvélakost, sem nú er í eigu Íslendinga, þar sem hinar stóru vélar Loftleiða geta ekki notað völlinn, og heyrzt hefur, að hin nýja, þota Flugfélags Íslands muni einnig fara um Keflavíkurflugvöll, en ekki Reykjavíkurflugvöll. Það hefur og komið fram, að vafasamt sé að gera ráð fyrir því, að flugvöllur verði starfræktur á þessum stað, er fram líða stundir. Til athugunar mun m.a. hafa komið, hvort gera ætti ráð fyrir því, að byggður verði nýr flugvöllur á Álftanesi. Meðan á þessari athugun hefur staðið hafa skipulagsyfirvöld ekki leyft neinar nýbyggingar á þessu svæði. Það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að svo væri gert um stund, meðan á slíkri athugun stóð, en til langframa er það óviðunandi fyrir íbúa Bessastaðahrepps að vera sviptir leyfi til nýbygginga, ef ekki verður að því horfið, að flugvöllur verði byggður í hreppnum. Það er því brýnt hagsmunamál hreppsbúa að fá ákveðnar niðurstöður um, hvað sé fyrirhugað í þessu máli varðandi Álftanesið. Þar sem flugið er svo snar þáttur í okkar samgöngumálum sem raun er á, þá er og eðlilegt, að almennur áhugi sé á að vita, hvaða fyrirætlanir séu uppi um framtíðarskipan í þessu máli. Því er spurt, hver sé árangur af störfum þeirrar n., sem ráðh. skipaði til að gera athuganir á þessum málum.