16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Mál þetta er komið frá Ed. og var afgreitt þar samhljóða. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft málið til athugunar og leggur til á þskj. 172, að það verði samþ. 3 nm. skrifa þó undir ná1. með fyrirvara og bera fram brtt. á sérstöku þskj., þskj. 176, þess efnis, að ef heimildin verði notuð til endurgreiðslu á verðjöfnunargjaldi togaranna, skuli sjóðurinn ekki heldur bera neinn kostnað af að flytja olíu fyrir togarana milli útsölustaða. Samstaða n. nær þess vegna til þess, að togararnir verði undanþegnir verðjöfnunargjaldinu, sem nemur 130 kr. á tonn af fuelolíu, en 16.50 kr. á lítra af gasolíu.

Togaraútgerð er nú starfrækt nær eingöngu frá Reykjavík og Hafnarfirði annars vegar og hins vegar frá Akureyri. Aðstæður eru nú mjög breyttar frá því, að verðjöfnunargjaldið var lögfest á árinu 1953. Togurum hefur fækkað mjög, og einkum hefur togaraútgerð dregizt saman úti um land, en jafnframt hefur fjölgað öðrum aðilum, sem nota sömu olíutegundir. Eins og afkomu togaraútgerðarinnar er nú háttað, er það beinlínis ósanngjarnt, að togarar í Reykjavík og Hafnarfirði, sem ekki njóta verðjöfnunar úr sjóðnum, greiði fyrir aðrar og sterkari atvinnugreinar. Akureyrartogararnir njóta að vísu verðjöfnunar úr sjóðnum, en olíunotkun þeirra er hverfandi lítill hluti af heildarolíunotkuninni, enda munu togararnir kaupa olíu erlendis, eftir því sem við verður komið. Eigi að síður mundi þetta vera nokkur búbót fyrir þessa fáu togara, að losna við verðjöfnunargjaldið, en njóta jafnframt þeirrar þjónustu, sem þarna er um að ræða, a.m.k. fyrir Akureyrartogarana. Við megum líka gjarnan minnast þess, að lengst af á þessari öld hafa togararnir verið beint og óbeint lyftistöng annarra atvinnuvega í landinu og ekki er ýkjalangt síðan þeir bjuggu við annað og lægra fiskverð en bátaflotinn og var því beinlínis um stórfellda verðjöfnun að ræða á þeirra kostnað. Enn fremur má minna á það, að þeir urðu að víkja af sumum af sínum beztu fiskimiðum til hagsbóta fyrir aðra aðíla. Togararnir eiga því vissulega inni hjá öðrum aðilum og þjóðarheildinni, þó að eitthvað sé reynt að hlynna að þeim í erfiðleikum þeirra, eins og nú er ástatt. Ráðstöfun sú, sem nú er gert ráð fyrir hér, mundi fjárhagslega aðeins vera mjög lítill hluti af umsetningu verðjöfnunarsjóðsins, og er ekki talið líklegt, að olía þyrfti að hækka í náinni framtíð af þeirri ástæðu. Að svo miklu leyti sem hér er um að ræða, að einhver borgaði fyrir annan, er um það að ræða að styrkja þessa sárafáu togara, sem enn eru eftir úti á landsbyggðinni. Togaraútgerðin hefur hins vegar mikla þýðingu fyrir atvinnulíf þessara staða, sem byggja frystihúsrekstur sinn að verulegu leyti á þeim, og ég legg því til, herra forseti, að frv. verði samþ. óbreytt.