16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Menntnrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Að gefnu tilefni í ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég lýsa því yfir, að verði þetta frv. samþykkt, mun heimildin, sem í því felst til þess að endurgreiða togurum verðjöfnunargjald af olíum, sem þeir nota, verða notuð, og jafnframt lýsa því yfir, að verðjöfnunargjald á fuelolíu og gasolíu mun ekki verða hækkað í því sambandi. Annars vil ég benda á, að þetta frv. var afgreitt með shlj, atkv. í hv. Ed. samkv. shlj, meðmælum hv. fjhn. þeirrar d., og ég kemst ekki hjá að segja, að ég er dálítið hissa á því og mér eru það nokkur vonbrigði, að ekki skuli eins geta farið hér í þessari hv. d. Mér þykir miður, að hv. síðasti ræðumaður skuli vera ósammála í þessu - að vísu ekki stórmáli — sínum ágæta flokksbróður Birni Jónssyni í Ed. og að framsóknarmennirnir tveir, sem að brtt. standa, milli þeirra og flokksbræðranna í Ed. skuli vera ágreiningur um þetta efni. En við því er auðvitað ekkert að segja. Ég vona samt, að frv. nái fram að ganga hér í þessari hv. d., því að ég tel, að hér verði um nokkurt hagsmunamál að ræða fyrir íslenzka togaraútgerð.

Auðvitað er það rétt, að í kjölfar þess, að heimildin yrði notuð, mundi verðjöfnunarsjóðurinn missa nokkrar tekjur. Hv. þm, gat þess, að n. hefði áætlað þennan tekjumissi verðjöfnunarsjóðsins 4–5 millj. Sjálfur áætlaði hann tekjumissinn 2–3 millj. Ég vil enga tilraun gera til þess að áætla þessa upphæð, því að hún fer að sjálfsögðu eftir því, hvernig rekstri togaranna yrði hagað á næsta ári. Hins vegar vil ég undirstrika, að um hvora upphæðina sem væri að ræða, er hér um að ræða mjög lítinn hluta af heildarveltu verðjöfnunarsjóðsins, en hún er um 60 millj. kr. Hér er því aðeins um mjög lítið brot að ræða af heildarveltu sjóðsins. En hitt er auðvitað rétt, sem hv. þm. sagði, að notkun heimildarinnar mundi hafa það í för með sér, að togaraútgerðin nyti nokkurs styrks af verðjöfnunarkerfinu, og þá er mjög eðlilegt, að spurt sé: Hver á að greiða þennan styrk? Það er skynsamlega spurt. En högum verðjöfnunarsjóðsins er þannig komið nú vegna þess, hvernig hæð verðjöfnunargjaldsins hefur verið undanfarin ár, að hagur hans leyfir það, að hann sjálfur greiði þennan smávægilega styrk til togaraútgerðarimar. Ef menn spyrja, hvort það sé réttmætt, að verðjöfnunarsjóðurinn greiði þennan smávægilega styrk til togaraútgerðarinnar, er því einu til að svara, að togaraútgerðin hefur undanfarin ár tvímælalaust styrkt sjóðinn. Ég hefði getað haft hér meðferðis tölur um þetta efni, ef mér hefði dottið í hug, að það yrði vefengt, enda vefengdi hv. þm. það í sjálfu sér ekki, heldur vildi gera lítið úr því. En eins og menn hljóta að sjá í hendi sér, ef menn athuga það, að næstum allir, að undanteknum þremur Akureyrartogurunum, næstum allir þeir togarar, sem nú eru í rekstri eða hafa verið í rekstri undanfarin ár, 22 togarar, eru gerðir út frá Reykjavík eða Hafnarfirði og taka auðvitað langmestan hluta sinnar olíu hér í Reykjavík, þá gefur auga leið, að þeir hljóta að hafa borgað allmiklu meira fé til sjóðsins en þeir hafa fengið greitt úr honum, og er auðvelt að sýna fram á með athugunum á reikningum sjóðsins, að þetta hefur verið svo. En þetta leyfi ég mér að fullyrða, og mér datt satt að segja ekki í hug, að neinn mundi andmæla þessu. Þetta var ekki svo, þegar verðjöfnunarkerfið var tekið upp á árinu 1953. Þá mun mega telja, að nokkur jöfnuður hafi verið á milli þess, sem togararnir greiddu í sjóðinn, og þess, sem þeir fengu greitt úr honum. En meginbreytingin, sem orðið hefur á þessum 13 árum, sem síðan eru liðin, er sú, að þungi togaraútgerðarinnar hefur flutzt til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þar sem olíuverð er hærra en það ætti að vera, ef ekki væri verðjöfnun, og hins vegar hafa komið til ákaflega stórir gasolíunotendur utan Reykjavíkur, þ.e.a.s. síldarverksmiðjurnar vegna síldarverksmiðjurekstrarins á Austfjörðum, sem notið hafa góðs af verðjöfnunarkerfinu. M.ö.o.: nokkur undanfarin ár hefur það verið þannig, að verðjöfnunarkerfið hefur íþyngt togaraútgerðinni, en aftur á mótí verið síldarverksmiðjunum úti á landi, sérstaklega á Austfjörðum, í vil. Þó að togaraútgerðin fái á næstu árum smávægilegan beinan styrk úr verðjöfnunarkerfinu, tel ég það ekki vera annað en réttmæta endurgreiðslu á þeim bagga, sem togaraútgerðin hefur borið undanfarin ár vegna verðjöfnunarkerfisins.

En mergur málsins er auðvitað sá, og á því vil ég enda þessi fáu orð mín, að þó að heimildin verði notuð — og hún verður notuð, er ríkisstj. staðráðin í því, að af því leiði ekki hækkun á verðjöfnunargjaldinu, og þar af leiðandi verður engin verðhækkun af þeim sökum á fuelolíu og gasolíu.