16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar aths. — Mér kemur heldur einkennilega fyrir að heyra sumt af því, sem hæstv. viðskmrh. upplýsti hér um þetta mál, einkum og sérstaklega það, að hagur verðjöfnunarsjóðsins væri þannig, að hann gæti tekið á sig það gjald, sem hér væri um að ræða. Sú regla hefur verið, eftir því sem ég bezt veit, ég fylgdist með því allnákvæmlega í nokkur ár, að verðjöfnunarsjóðurinn hefur alltaf verið gerður upp árlega og tekjur sjóðsins, sem eru verðjöfnunargjald, sem lagt er á alla innflutta olíu, sem myndar tekjur sjóðsins, eru notaðar til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af því leiðir að flytja olíutegundirnar frá innflutningshöfn og út á land. Og þannig er séð um það, að tekjurnar standist í rauninni alltaf á við útgjöldin, og þetta er hreyft til eftir því. Ég ræddi einmitt núna, meðan n. hafði þetta mál, við forstöðumann verðjöfnunarsjóðsins í rn., og hann sagði alveg skýrum orðum, að verðjöfnunarsjóðurinn gæti ekki tekið neitt á sig út af fyrir sig, vegna þess að tekjur hans væru alltaf látnar ganga upp í sambandi við útgjöldin. Standi svo á eftir eitt ár, að það myndist einhver lítils háttar afgangur, vegna þess að tekjurnar hafi orðið heldur meiri en útgjöldin á því ári, ber beina skyldu til þess að gera áætlun aftur fyrir næsta ár þannig, að þetta verði jafnað. Það hefur aldrei verið til þess ætlazt, að verðjöfnunarsjóðurinn gæti farið að hafa nettótekjur, sem hægt væri að ráðstafa til einhvers allt annars. Þá væri þarna orðið um skattlagningu á olíu að ræða og alveg ranga framkvæmd á verðjöfnunarkerfinu.

Nei, það er rétt að viðurkenna það eins og það er, að hér er auðvitað verið að fara inn á þá braut að undanþiggja einn aðilann frá því að leggja til tekjur í sjóðinn til þess að standast þau útgjöld, sem þessi aðili á jafnframt að njóta kostanna við. Og þetta verður vitanlega ekki gert í gegnum þetta kerfi án þess að leggja á einhvern annan aðila. Og spurningin er þá bara: Er ætlunin, að t.d. ríkissjóður taki þetta að sér? Ef verðjöfnunargjaldinu verður ekki breytt, getur það líka komið út í því, að það yrði greiðsluhalli í verðjöfnunarkerfinu, það yrði ekki hægt að standa undir þeim kostnaði, sem af því leiðir, að það þarf að flytja olíutegundirnar út á land. Nei, þetta er vitanlega ekki hægt að gera, en það er oft hægt að gera slíkt um nokkurra mánaða skeið, sem sagt að fela einhverja upphæð eða láta það vera að greiða eitthvað af því, sem maður er í rauninni skuldbundinn að greiða. En verðjöfnunarkerfið er byggt þannig upp, að þar eiga tekjur og gjöld að standast á í þessum efnum.

Ég heyrði, að hæstv. viðskmrh. hefur alveg greinilega gert sér rangar hugmyndir um það, hvernig þessi sjóður hefur starfað að undanförnu í sambandi við afkomu togaranna. Það hefur einmitt verið sveigzt til þess að ákveða ýmis útgjöld úr sjóðnum togurunum í hag, m.a. vegna þess, að það hefur orðið breyting á togaraútgerðinni, eins og t.d. gjaldið í sambandi við Hafnarfjarðartogarana hefur nú verið ákveðið svona, en á tímabili var þarna ekki um nema óverulegt gjald að ræða, enda er þetta gjald alveg greinilega ákveðið til þess að jafna hér nokkuð metin.

Ég get auðvitað ekki sagt annað í þessum efnum en það viðvíkjandi því, hvort togararnir hafa að undanförnu í rauninni tapað eitthvað á verðjöfnunarfyrirkomulaginu út af fyrir sig, annað en það, sem einn af þeim mönnum, sem eru í stjórn verðjöfnunarsjóðsins, og einn af forstjórum olíufélaganna sagði um þetta efni. Þar þurfa að koma auðvitað til nákvæmir útreikningar, en það út af fyrir sig sannar ekki, að það hafi hallazt á togarana, þó að það séu flestir togarar gerðir út frá Reykjavík, á meðan það er þannig, að það kostar miklum mun meira en 130 kr., sem eru teknar af hverju tonni í verðjöfnunarsjóðinn, að koma hverju tonni út á afgreiðsluhafnirnar úti á landi, að það kostar upp í 300 kr. Þá geta vitanlega togararnir, þó að þeir séu færri úti á landi, tekið fullt eins mikla upphæð og hinir koma til með að leggja í sjóðinn, og þegar þess er svo gætt einnig, að togararnir, sem eru hér í Reykjavík, verða í mjög mörgum tilfellum að taka olíur handa sér úti á landi. En út af því, að um það er rætt, að það geti komið upp, að það hallist hér nokkuð á á milli síldarverksmiðja, sem nota sömu olíutegundir, og svo togara, er tiltölulega hægur vandi að nota þau lög, sem í gildi eru, og reglur, sem í gildi eru um verðjöfnunarkerfið, til þess að koma í veg fyrir slíkt. Og það er vitanlega sjálfsagt að gera það. En þar verður sem sagt að vera um fullkomna og eðlilega verðjöfnun að ræða, en ekki skattlagningu öðrum til handa. Það leyfa þau lög ekki.

Það er rétt, eins og ég sagði hér í mínni fyrri ræðu, að hér er ekki um neina stóra fjárhæð að ræða. Ég held, að þessi stuðningur við togaraútgerðina verði ósköp óverulegur, því að sannleikurinn er sá, að togaraútgerðin er rekin þannig nú hér, að hún kaupir eins mikið af þessari olíu, sem hún notar, í erlendum höfnum og hún mögulega getur, því að þar er verðið miklu lægra en innanlands, og togararnir eru reknir þannig, að þeir sigla með meiri hlutann af sínum afla á erlendan markað. Olíukaup þeirra hér heima eru því ekki mjög veruleg, eins og horfurnar eru. En ef líka breytist verulega um rekstraraðstöðu togaranna, þannig að það yrði miklum mun hagstæðara að reka togara en verið hefur og hagstæðara sérstaklega fyrir þá að leggja upp afla hér innanlands, gæti hér líka orðið um að ræða miklu meiri upphæð en 4–5 millj. Þá gæti hér orðið um miklu hærri fjárhæð að ræða, því að þá gætu líka togararnir orðið fleiri í rekstri en þeir eru nú. Og þá er ég ósköp hræddur um það, að þá færu aðrir olíunotendur í landinu að segja til sín, ef þeir ættu að kosta flutninginn á olíum, sem togararnir nota, því að þeir nota bæði gasolíu og fuelolíu, — ef þeir ættu að kosta það í krafti þessarar lagabreytingar, sem hér er stefnt að því að gera.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að átta sig á því, að það eðlilega er, að við höldum áfram verðjöfnunarkerfinu á olíu og benzíni, það sé nauðsynlegt, og það eigi að starfa alveg óhindrað sem verðjöfnunarkerfi, þ.e.a.s. að afla tekna í sérstakan verðjöfnunarsjóð af innfluttri olíu til þess að tryggja það, að hægt sé að halda uppi jöfnu olíuverði um allt land. Það á svo ekki að blanda inn í þetta verðjöfnunarkerfi stuðningi til eins eða neins og ekki skattlagningu í einu eða neinu formi. Í þeim tilfellum, þegar þarf að aðstoða einhvern vegna lélegrar afkomu, á að gera það eftir öðrum leiðum heldur en blanda því inn í þetta kerfi, og það er það, sem við viljum, að gert verði, sem flytjum hér brtt. Við getum tekið undir það, að rétt sé að veita togurunum þessa hjálp, sem hér um ræðir, en við viljum ekki gera það á þennan hátt, sem þarna er fyrirhugað, og ekki einu sinni þó að því sé lýst yfir, að menn ætli ekki að breyta neinum gjöldum, því að við vitum það, að í gegnum verðjöfnunarkerfið er þetta ekki hægt nema þá örstuttan tíma, því að vitanlega er ekki hægt að greiða stuðning til ákveðins aðila, 3–4 millj., án þess að einhver verði að borga. Um það er ekkert að villast. Það er hægt að fela þetta örstuttan tíma, en svo vitanlega kemur að því, að einhver verður að greiða þetta, og við erum á móti því, að sjálft verðjöfnunarkerfið sé látið greiða þetta. En ég fyrir mitt leyti teldi mjög eðlilegt, að að því leyti sem þarna yrði um beinan stuðning að ræða, hlypi ríkið undir bagga eða þá að leitað yrði annarra ráða, ef ríkisstj. sýndist, að það væri þægilegra.