16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Auðvitað er það laukrétt hjá hv. þm., að verðjöfnunarsjóðurinn á að jafnast á hverju einstöku ári eða árabili, þ.e. tekjur hans af verðjöfnuninni og gjöld hans í sambandi við hana eiga að vera jöfn. Það er þó aldrei hægt að tryggja það, að á ákveðnu ári verði um jöfnuð að ræða. Það er komið undir því, hversu gjöldin hafa verið ákveðin há og hver olíunotkunin hefur verið á hinum einstöku tegundum, hvort jöfnuður næst eða ekki, og reynslan hefur sýnt, að stundum er hagnaður á ákveðnum árum og stundum er halli. Og venjan er þá sú og hefur verið sú, eins og ég veit að hv. þm. er algerlega ljóst, að þessi hagnaður eða halli er þá fluttur á milli ára, þannig að verðjöfnunarkerfið í heild á auðvitað alltaf að jafnast, tekjur þess og gjöld tekið yfir 10 ára tímabil eiga auðvitað að skila fullum jöfnuði. En hv. þm. talar eins og verðjöfnunarkerfið fyrir hverja einstaka atvinnugrein eigi líka að jafnast. Það er mikill misskilningur aftur á móti. Það, sem er honum þyrnir í augum í þessu sambandi, er, og nú kemur það alveg skýrt fram, ef heimildirnar eru notaðar, og það játað, við gerum það alveg með opnum augum, við vitum alveg, hvað við erum að gera, gerum það vísvitandi, það er beinlínis tilgangur þessa frv., að togaraútgerðin njóti nokkurs góðs af verðjöfnunarkerfinu á næstu árum. Það raskar ekki þeirri staðreynd, að verðjöfnunarkerfið eftir sem áður mun sýna fullkominn jöfnuð. Það, sem hv. þm. er að finna að, er, að það skuli geta komið fyrir innan verðjöfnunarkerfisins, að ákveðin grein njóti góðs af verðjöfnunarkerfinu. Nú kemur í ljós, um það er enginn ágreiningur, það befur verið skýrt tekið fram af minni hálfu frá byrjun, að af þessu mun það hljótast, að togaraútgerðin mun hljóta lítinn, smávægilegan stuðning af verðjöfnunarkerfinu, ef þessar heimildir verða notaðar. Og það er þetta, sem hv. þm. vill ekki sætta sig við og stingur upp á, að ríkissjóður standi þá undir þessum stuðningi. Með nákvæmlega sama hætti gæti ég látið fara fram athugun á því, hvort síldarverksmiðjur á Austurlandi nytu hagnaðar eða halla af verðjöfnunarkerfinu. Ég bjóst ekki við þessari umr. hérna, svo að ég bjó mig ekki undir það. Það er enginn vandi með litlum fyrirvara að gera það dæmi upp, rétt eins og með togarana. En ég veit, hver niðurstaðan af þessu yrði. Síldarverksmiðjurnar á Austurlandi njóta stórhagnaðar, njóta milljónahagnaðar af verðjöfnunarkerfinu. Með nákvæmlega sama hætti mætti segja, að þær ættu að skila ríkissjóði þessum hagnaði. Ef hv. þm. hefði viljað vera sjálfum sér samkvæmur, hefði hann gjarnan mátt hafa það einnig í sinni till., að ef það kæmi í ljós við athugun, að t.d. síldarverksmiðjurnar í heild, það er heil atvinnugrein eins og togararnir eru heil atvinnugrein, — ef það kæmi í ljós, að þær græddu á verðjöfnunarkerfinu, skyldu þær skila gróðanum í ríkissjóð. Og þá væri lítill vandi að styðja togarana, ekki aðeins með þessari upphæð hér, heldur miklum mun myndarlegar. Eg mæli ekki með slíku. Mér dettur slíkt ekki í hug, af því einmitt að ég vil láta verðjöfnunarkerfið verka eins og hv. þm. sagði að það ætti að verka. Það á að verka sem heildarverðjöfnun um allt landið, og það á ekki að skipta nokkru máli, hvort einstök grein eins og togaraútgerð nýtur hagnaðar af því núna eða mun gera á næstu árum, eins og síldarverksmiðjurnar hafa notið hagnaðar af því um mörg undanfarin ár, eftir að gasolíunotkun þeirra jókst eins stórkostlega og hún nú hefur vaxið. Mér hefur aldrei komið til hugar og ég held engum að sjá ofsjónum yfir því, hversu mjög síldarverksmiðjurnar hafa hagnazt á þessu kerfi, vegna þess að ekki er hægt að koma í veg fyrir það. Verðjöfnunarkerfi hlýtur í sjálfu sér að geta leitt til slíks. Það hlýtur að geta leitt til slíks, og við því er ekkert að gera. Verðjöfnun er gerð sem félagsleg ráðstöfun til þess að tryggja sama verð á tiltekinni vöru kringum allt land. Það er jöfnuð aðstaðan milli þéttbýlís og dreifbýlis. Um þetta hefur þingið verið nokkurn veginn sammála, að það skyldi gert að því er snertir olíu, og þá verða menn að taka afleiðingunum af því, sem geta orðið þær, að sumar atvinnugreinar geta orðið að bera bagga þess vegna, eins og togararnir hafa gert undanfarið, og sumar atvinnugreinar geta hagnazt á þessu, eins og síldarverksmiðjurnar gera nú. Þetta er óhjákvæmilegur fylgifiskur verðjöfnunarkerfis. Auðvitað mætti segja, að það hefði verið hægt vegna þess ástands, sem nú er orðið að því er togarana snertir, að þeir séu raunverulega teknir út úr verðjöfnunarkerfinu sem gjaldendur, en fái að vera kyrrir í því sem njótendur. Það er það, sem raunverulega gerist. Þeir eru teknir út úr kerfinu sem gjaldendur, en fá að vera inni í því sem njótendur. Auðvitað má segja, að það hefði verið hægt að taka þá alveg út úr kerfinu, bæði sem gjaldendur og njótendur, það hefði verið hægt, og við það hefði verðjöfnunarsjóðurinn sparað nokkur útgjöld, og þá má auðvitað segja, að hægt hefði verið að lækka verðjöfnunargjaldið frá því, sem það er í dag. Svona hefði auðvitað mátt hugsa. En það er nú í ár svo hátt, að það þarf ekki að hækka það. Það er það, sem ég sagði. Það þarf ekki að hækka það. Það hefði verið hægt að lækka það, ef þetta hefði verið gert, það er alveg rétt, það hefði verið hægt. En ég tel það rangt, beinlínis rangt í þeirra garð að taka togarana út úr kerfinu og lækka verðjöfnunargjaldið eitthvað örlítið. Það mundi varla finnast fyrir því, af gasolíunni eiginlega alls ekki, vegna þess hve gasolíunotkun togaranna er örlítill hluti af heildargasolíunotkuninni. Það mundi áreiðanlega ekki hafa nokkur áhrif á gasolíuverðjöfnunargjaldið, en það gæti haft örlítil áhrif á verðjöfnunargjaldið á fuelolíunni. En ég tel það, og þess vegna getur það örugglega staðizt, að ekki þurfi að hækka verðjöfnunargjaldið á fuelolíu og gasolíu, þó að heimildin verði notuð, það er alveg öruggt. En hitt er rétt hjá þeim, sem því vilja halda fram, að það hefði verið hægt að lækka verðjöfnunargjaldið á fuelolíu eitthvað örlítið, ef togararnir hefðu verið teknir algerlega út úr kerfinu. Ég tel rangt að gera það. Ég tel Akureyrartogarana eftir sem áður eiga að fá að njóta góðs af verðjöfnunarkerfinu. Um það var Ed. mér algerlega sammála, öll Ed., allir þm. Ed. Þeir eiga áfram að geta notið góðs af verðjöfnunarkerfinu, og tel ég sanngjarnt, að verðjöfnunarkerfið, eins og ég vil orða það, greiði þennan stuðning, vegna þess að það hefur haft tekjur af togurunum um mörg undanfarin ár. Hér er raunar ekki um annað að ræða en endurgreiðslu á því, sem togararnir sannanlega hafa ofborgað í verðjöfnunarkerfið á undanförnum árum.