29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

74. mál, verðstöðvun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er rétt, að það komi skýrt fram, að Alþfl. styður einhuga þær ráðstafanir, sem í þessu frv. felast, og þá stefnu, sem liggur frv. til grundvallar. Öll þessi mál voru rædd mjög ýtarlega á 31. flokksþingi Alþfl., sem haldið var nú um helgina. Flokksþingið gerði einróma samþykkt, sem styður þá stefnu, sem þetta frv. grundvallast á. Menn gerðu sér þar almennt ljósa þá grundvallarbreytingu á viðhorfum í íslenzkum efnahagsmálum, sem átt hefur sér stað nú á siðari hluta þessa árs. Það má vera sérhverjum ábyrgum manni ljóst, að íslenzk útflutningsframleiðsla þolir nú ekki hækkaðan framleiðslukostnað innanlands. Ef framleiðslukostnaður innanlands hækkar, getur ekki af því hlotizt annað en minnkun útflutningsframleiðslunnar og minnkun atvinnunnar. En í kjölfar minnkaðrar útflutningsframleiðslu og minnkaðrar atvinnu mundu fylgja lækkaðar tekjur alls almennings, minnkaður innflutningur og versnandi lífskjör. Þess vegna er það nú brýnasta hagsmunamál íslenzks almennings, að snúizt verði vasklega til varnar og komið í veg fyrir það, að framleiðslukostnaður innanlands hækki. En einn liður í því að koma í veg fyrir, að framleiðslukostnaðurinn innanlands hækki, hlýtur að vera og verður að vera sá vilji launþegasamtakanna, þess konar samstarf launþegasamtaka, atvinnurekenda og ríkisvalds, að ekki verði þær kauphækkanir, sem geri verðstöðvunarstefnuna óframkvæmanlega.

Mér er nokkuð til efs, að almenningur í landinu yfirleitt geri sér nægilega ljósa þá grundvallarbreytingu, sem orðið hefur í íslenzkum efnahagsmálum, í framleiðslu- og verðlagsmálum útflutningsatvinnuveganna nú á síðari hluta þessa árs. Mér er jafnvel til efs, að þm. almennt geri sér nógu ljóst, hversu alvarlegir hlutir hafa verið að gerast í þessum efnum á undanförnum mánuðum. Þess vegna langar mig til þess að bæta örfáum atriðum við upplýsingar hæstv. forsrh. í framsöguræðu hans áðan um þróunina í verðlagsmálum, í framleiðslumálum, sérstaklega sjávarútvegsins, og verðlagsmálum útflutningsatvinnuveganna.

Ég veit ekki, hvort menn hafa almennt gert sér það nógu ljóst enn þá, að fram til þessa tíma hefur heildarframleiðsla sjávarafurða verið minni á þessu ári en hún var á sama tíma í fyrra. Miðað við verðlagið 1965 er verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar í ár 80 millj. kr. minna en það var í fyrra. Þetta segir þó ekki nema aðeins upphaf þeirrar sögu, sem segja þarf og öll þjóðin þarf að þekkja. Kjarni vandans er fólginn í þeim verðlagsbreytingum, sem átt hafa sér stað á síðari hluta þessa árs. Það er öllum kunnugt, að verðlag hækkaði mjög síðari hluta ársins 1965 og fyrri hluta þessa árs, ársins 1966. En á síðari hlutanum hafa átt sér stað gífurlegar verðlækkanir á útflutningsvörum sjávarútvegsins. Ef borið er saman meðalverð þorskafurða á þessu ári frá ársbyrjun til miðs nóv. annars vegar og meðalverð þorskafurða á öllu árinu 1965, kemur það í ljós, að meðalverðið á þorskafurðum á þessu ári er um það bil 10% hærra en meðalverðið á árinu 1965, og meðalverð skelfiskafurða er u.þ.b. 5% hærra á þessu ári en það var í fyrra, en hins vegar er meðalverð útfluttra síldar- og loðnuafurða 12% lægra, meðalverð í ár er 12% lægra en meðalverðið var í fyrra. Þetta veldur því, að ef allar sjávarafurðir eru teknar sem ein heild, þá er meðalverðið í ár fram til þess tíma um 2% lægra en í fyrra. En þetta segir þó ekki nema hálfan þann sannleika, sem öll þjóðin, ekki aðeins allir alþm., heldur öll þjóðin þarf að þekkja. Hvernig er verðlagið í dag? Hvernig er ríkjandi verðlag á helztu útflutningsvörum sjávarútvegsins? Ef verðið nú, um miðjan nóv., hefði gilt allt þetta ár, hefði verðmæti útfluttra þorskafurða verið um 3–4% hærra í ár en í fyrra, en verðmæti síldar- og loðnuafurðanna hefði þá verið 28% lægra í ár en í fyrra. Heildarverðlækkkunin í ár á þorsk-, síldar- og loðnuafurðum er 13%, þ.e. heildarframleiðslan til miðs nóv. á verðlaginu þá hefði verið 13% lægri en hún var í fyrra.

Það er fróðlegt að athuga, hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þjóðartekjurnar, umreikna þetta í krónur, í hundruð millj., og þá hefur verið áætluð framleiðsla til áramóta eftir reglum, sem árum saman hefur verið fylgt um það efni, og óbreytt verð frá því, sem síðast er vitað. Á þeim grundvelli kemur í ljós, að ef miðað er við verðlagið í fyrra, hefði framleiðslan í ár numið 5675 millj. kr., þ.e.a.s. framleiðslan í ár hefði að óbreyttu verðlagi frá því í fyrra numið 5675 millj. kr. En ef fiskframleiðslan í ár er reiknuð á því meðalverði ársins, sem nú er þekkt, þá reynist fiskframleiðslan í ár 5555 millj. kr. eða 120 millj. kr. lægri en í fyrra. Meðalverðið í ár er svo miklu lægra en verðið í fyrra, að það nemur 120 millj, kr. lækkun á fiskframleiðslunni. En ef við nú reiknum fiskframleiðsluna í ár alla á núgildandi verði til þess að gera okkur hugmynd um það, hvað fram undan sé, ef ekki verður aftur verðhækkun, — ef við reiknum alla fiskframleiðsluna í ár á því verði, sem gildir í dag eða um miðjan nóv., þá reynist sjávarafurðaframleiðslan í ár 4925 millj. kr. eða 750 millj. kr. minni en hún var í fyrra, m.ö.o.: ef það kæmu 12 mánuðir með því verði, sem nú gildir í dag, — enginn veit, hvort það verður eða ekki, við vonum allir, að svo verði ekki, hljótum að vona það, — en ef það kæmu 12 mánuðir, ef það kæmi heilt ár með því verði, sem gildir í dag, þá þýðir það, að verðmæti fiskframleiðslunnar er 750 millj. kr. minna en það var á 12 mánuðum ársins 1965. Á þessu geta menn glöggt séð, um hversu alvarlega hluti er að ræða, hversu alvarlegu lágmarki verðið á okkar útflutningsvörum hefur náð.

Um landbúnaðarframleiðsluna er það að segja, að allar líkur benda til, að hún verði í ár óbreytt frá því, sem hún var í fyrra. Nokkur lækkun hefur orðið á mjólkurframleiðslu til 1. sept., en þó ekki nema 3%, en aukning á öðrum framleiðsluvörum landbúnaðarins, sem fyllilega vegur þessa minnkun mjólkurframleiðslunnar upp, og iðnaðarframleiðslan mun í ár reynast svipuð og hún var í fyrra.

Gerð hefur verið áætlun um magnaukningu þjóðarframleiðslunnar á þessu ári og þá áætluð framleiðslan til áramóta frá því, sem síðast var vitað, og það er talið, að magnaukning þjóðarframleiðslunnar muni verða um 3–31/2% á þessu ári. En vegna þeirrar rýrnunar viðskiptakjara, sem ég var að ræða um áðan, verður aukning þjóðarframleiðslunnar, aukning ráðstöfunartekna þjóðarinnar ekki nema um 2%. Og það er sama aukning og er á fólksfjölguninni, það er sama hundraðstala og mannfjöldinn á Íslandi vex um. M.ö.o.: það var engin aukning á þjóðartekjunum á mann. Þjóðartekjurnar á mann munu því reynast óbreyttar í ár frá því, sem þær voru í fyrra. En ef þessu til viðbótar verðlækkunin helzt, ef það verð helzt, sem nú gildir á útflutningsafurðum okkar, þá vegur það upp á móti u.þ.b. 4% aukningu á þjóðarframleiðslunni, en það er sá vöxtur, sem á nokkrum undanförnum árum hefur orðið hér að meðaltali á þjóðarframleiðslunni. Verðlækkunin, sem orðið hefur undanfarið, hefur því jafnmikil áhrif á þjóðartekjur eins árs og 4% framleiðsluaukning hefur. Það þarf m.ö.o. 4% framleiðsluaukningu til þess að vega upp á móti tekjurýrnunaráhrifum þess verðfalls, sem orðið hefur á síðari hluta þessa árs. Hér er um mikilvægar staðreyndir að ræða, og það eru þessar staðreyndir, sem eru bakgrunnur þess, að þjóðinni er það lífsnauðsyn að staldra við og koma í veg fyrir, að útflutningsframleiðslan minnki að magni til vegna hækkandi framleiðslukostnaðar innanlands.

Það er ekki ofsagt, að það er nú brýnast hagsmunamál íslenzks almennings, að það takist að halda verðlagi föstu á komandi mánuðum, til þess að útflutningsatvinnuvegirnir geti haldið áfram starfsemi sinni.