29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

74. mál, verðstöðvun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tel, að þær upplýsingar, sem hæstv. viðskmrh. var að gefa hér úr þessum ræðustól um áhrif verðlagsbreytingar, séu vægast sagt mjög hæpnar. Ég minnist þess sérstaklega, að hann gaf nokkuð svipaðar upplýsingar þessum hér haustið 1961, það var rétt um miðjan nóvembermánuð, og þá kom hann með afskaplega áþekka útreikninga þessum um það, hvernig fara mundi á því ári um framleiðslu landsmanna og þjóðarframleiðsluna og þjóðartekjurnar, og það fór heldur illa fyrir þeim útreikningum. Ég held líka, að þessir útreikningar, sem hæstv. viðskmrh. kom hér fram með, séu mjög villandi og lítið á þeim byggjandi. Ég vil þó ekki draga úr því á neinn hátt, sem vakti fyrir honum eflaust að undirstrika hér í sinni ræðu, og það er, að við höfum orðið fyrir allmiklu áfalli nú á síðari hluta ársins með verðfalli á okkar útflutningsafurðum. Það er rétt, en enn sem komið er vitum við harla lítið um það, hvað þetta áfall er mikið. Sannleikur málsins er sá, að verð á okkar útflutningsvörum yfirleitt hækkaði mjög verulega á fyrri hluta þessa árs, en hins vegar á seinni hluta ársins lækkaði verðið nokkuð. Mjög mikið af þeim afurðum, sem framleiddar hafa verið nú á seinni hluta ársins, hefur ekki verið selt enn þá, vegna þess að þeir, sem framleitt hafa þessar vörur, hafa ekki viljað sætta sig við það verðlag, sem hefur verið skráð á þessum vörum nú í bili, enda er þegar komið í ljós, að þær vörur, sem einkum hafa lækkað í verði, eins og síldarlýsi, eru þegar farnar að hækka aftur. Það er um talsverða hækkun að ræða nú einmitt síðustu dagana, og margt bendir til þess, að það reynist rétt, sem hinir stóru framleiðendur í Noregi og víða í kringum okkur hafa haldið fram, að það ætti enginn vafi að leika á því, að verð á þessum vörum ætti einmitt að fara hækkandi nú á næstunni. En Norðmenn höfðu einmitt valið þá leið að selja lítið sem ekkert af sinni framleiðsluvöru, en stafla henni hins vegar upp eða geyma hana. Slíkir útreikningar sem hæstv. viðskmrh. flutti í þessum efnum eru mjög villandi og segja harla lítið um það, hvernig staðan sé í raun og veru, að ég tali nú ekki um þá aðferð að kasta svo yfir og reikna út alla framleiðslu ársins 1966 á því verðlagi, sem menn hafa vitað lægst að varð á því ári, og finna þannig út, að þannig sé áfallið allmikið. Slíkt vitanlega segir ekki nokkurn skapaðan hlut og getur vitanlega ekki haft aðra þýðingu en þá, að það er verið að draga hér upp einhverja hryllingsmynd, sem á raunverulega engan stað í veruleikanum.

Það hefur verið bent á það í þessum umr., að það frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj. um heimild til stöðvunar á verðlagi, sé í rauninni ekki um það, sem hefur verið látið í veðri vaka, að frv. fjallaði um, en það væri um stöðvun á verðlagi, heldur sé miklu líklegra, að á bak við flutning þessa frv. liggi tilhneiging ríkisstj. til þess að skjóta sér undan ákveðnum vanda nú og láta sem hún vilji stefna að verðstöðvun. Ég veit, að allir hv. þm. hafa tekið eftir því, að frv. er þannig uppbyggt, að það mælir ekki fyrir um verðstöðvun. Það eru engin fyrirmæli í þessu frv., sem segja til um það, að verðlagið skuli stöðva, heldur er hér á ferðinni frv., sem leitar eftir heimild handa ríkisstj. til þess að mega grípa til slíkra ákvarðana, ef ríkisstj. sýnist vera þörf á því. Ef ríkisstj. hefði stefnt að því nú að ætla sér að stöðva verðlagið, eins og það er nú komið, þá hefði auðvitað hin leiðin verið miklu eðlilegri, að sett hefði verið löggjöf nú um það að stöðva verðlagið, þar sem það er komið, og síðan hefði þá verið að finna í frv. ákvæði um undantekningu frá þessu í þeim tilfellum, þar sem hefði þótt alveg sérstök ástæða gera til að víkja frá þeim. En sem sagt, ríkisstj. fer ekki þessa leið, af því að það virðist enn vera hik á henni í því, hvort eigi að stöðva verðlagið. Þess vegna biður hún aðeins um að fá heimild sér til handa til þess að geta fjallað um þessi mál á þann hátt, sem hún telur sér henta. Enda gat ég ekki annað betur heyrt á ræðu hæstv. forsrh. um þessi atriði en að það væri megintilgangurinn með því að flytja þetta frv. og óska eftir þessum heimildum, að ríkisstj. teldi nauðsynlegt fyrir sig að hafa þessar heimildir í höndunum í þeim samningum, sem hún ætti nú fyrir dyrum við launþegasamtökin í landinu um ákvörðun á kaupgjaldi, hún þyrfti gjarnan að hafa svona heimildir í þessari samningagerð, og svo auðvitað, eins og hefur komið fram í þessum umr., þykir ríkisstj. eflaust gott að láta svo líta út í leiðinni, að það sé hún, sem vilji fara verðstöðvunarleið, en það jafnvel standi á öðrum að fara þessa leið.

Nú vitum við öll hér, að það hefur verið stefna núv. ríkisstj., eins og ríkisstj. hefur formað það, að láta framboð og eftirspurn í landinu ráða verðlaginu. Það hefur verið stefna ríkisstj., að það bæri ekki að hafa nema sem allra minnst opinber afskipti af verðlaginu, og því er það, að hún hefur haldið þannig á þeim lagafyrirmælum, sem eru annars til um afskipti af verðlagsmálum, að jafnt og þétt hefur stefnt í þá átt að afnema þær reglur um eftirlit með verðlagi, sem í gildi hafa verið, eða gera þær á annan hátt óvirkar með miklu eftirlitsleysi eða með því að leyfa svo ríflega álagningarhækkun á þeim vörum, sem enn eru undir verðlagsákvæðum, að það má segja, að verðlagseftirlitið sé í rauninni frá því, sem áður var, að mestu orðið óvirkt. Þetta hefur verið stefna ríkisstj., svona hefur verið haldið á þessum málum allar götur þangað til nú. Ég held, að það efist enginn um það, sem lesið hefur t.d. Morgunblaðið á undanförnum árum, að þar hefur þessari kenningu verið haldið fram í sífellu allan tímann, að hin opinberu afskipti af verðlagsmálum ættu að vera sem minnst, það ætti að ríkja fullkomið frelsi hjá þeim, sem hafa með sölu á vörum að gera, að ákveða verðlag vörunnar og svo ætti frjálst framboð og eftirspurn að ráða verðlaginu. Nú hefur reynslan skorið alveg ótvírætt úr um, að þessi stefna hefur leitt til stórhækkaðs verðlags í landinu, og það virðist vera, að með flutningi þessa frv. sé ríkisstj. að viðurkenna það að nokkru leyti, að þessi stefna fái ekki staðizt, það þurfi að víkja frá henni, þó að hún hiki enn þá í því að taka skrefið þarna til fulls.

Það eru fleiri en hæstv. ríkisstj., sem virðast nú hafa komizt að þessari niðurstöðu, að þessi margyfirlýsta stefna ríkisstj. í verðlagsmálum fái ekki staðizt. Ég hef einu sinni áður hér á Alþ. gert það lítillega að umtalsefni, að þessi skoðun komi einnig fram nú í síðustu ársskýrslu Seðlabankans hjá seðlabankastjóranum Jóhannesi Nordal, þar sem hann lýsir því beinlínis yfir, að reynslan hafi sannað, að það virðist þurfa að koma eitthvað meira til til þess að hafa áhrif á þróun verðlagsmálanna en þau ráð, sem notuð hafa verið til þessa. Í þessari yfirlýsingu seðlabankastjórans segir m.a. orðrétt á þessa leið:

„Reynsla undanfarinna ára bendir hins vegar eindregið til þess, að ráðstafanir í peningamálum og fjármálum ríkisins séu ekki einhlítar til lausnar verðbólguvandamálum af því tagi, sem við hefur verið að etja hér á landi.“

Fram að þessum tíma hefur þó alltaf verið hamrað á því, að það væru þessar peningalegu ráðstafanir, sem ættu að geta ráðið við þennan vanda, og síðan ætti þetta yfirleitt að „kontrolera“ sig sjálft. Seðlabankastjórinn segir enn fremur í þessari skýrslu sinni til frekari skýringar á þessu orðrétt sem hér segir:

„Þessar ráðstafanir virðast hafa reynzt miklu árangursríkari í því að draga úr aukningu innflutnings og varðveita greiðslustöðu þjóðarbúsins út á við heldur en að koma í veg fyrir áframhaldandi innlendar verðhækkanir. Ástæðurnar fyrir þessu liggja tvímælalaust að verulegu leyti í því, hve lokaðar mikill hluti íslenzka hagkerfisins er fyrir utanaðkomandi samkeppni, svo að ört vaxandi eftirspurn hefur fljótlega áhrif til verulegra verðhækkana.“

Það er einmitt þetta, sem ég og margir fleiri hér höfum haldið fram öll þessi ár, þegar þessi mál hafa verið rædd hér á Alþ., við höfum einmitt haldið því fram, að þær ástæður væru ríkjandi í íslenzku efnahagskerfi, að það væri með öllu útilokað að ætla að treysta á það að heimila þeim aðilum, sem verzla með varning eða ráða verðlagi á þjónustu, einræði um það, hver verðlagningin væri, því að þeir hefðu fulla aðstöðu til þess að taka til sín óeðlilegan gróða eftir þessum leiðum. Það væri ekki hægt, þó að talað væri um það, að innflutningur á vörum til landsins væri að mestu frjáls og að ríkjandi væri á ýmsum öðrum sviðum tiltölulega mikið frjálsræði, þá væri ekki hægt að treysta á slíkt. Hér þyrfti því að halda uppi öflugu verðlagseftirliti og verðlagsákvæðum, ef það ætti á tímum, eins og hér hafa gengið yfir að undanförnu, að hafa nokkurn hemil á verðlaginu í landinu. Hæstv. ríkisstj. hefur haldið sig í kenningar sinna efnahagssérfræðinga allar götur fram að því, að hún leggur fram þetta frv., og neitað okkar skoðunum, sem höfum haldið því fram, að hér þyrfti að byggja á allströngu verðlagseftirliti, og hún hefur haldið því fram, að hér væri í rauninni ríkjandi eðlilegt verðlag og það þyrfti ekki frekari ráðstafana við en hér hafa gilt.

Nú er sem sagt komið að því, og það er þó viðurkennt að nokkru leyti með því að flytja þetta frv., að það sé komið nokkuð illa í þessum verðlagsmálum öllum. Maður getur samt ekki annað en minnzt á það með örfáum orðum, að nokkuð fram eftir þessu ári hélt ríkisstj. sér enn mjög fast við þessar fyrri kenningar sínar. Þá hikaði hún ekki við að gera ýmsar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hlutu að leiða til stórhækkandi verðlags í landinu og til aukins vanda fyrir útflutningsframleiðslu landsmanna. Við afgreiðslu fjárl. um síðustu áramót gerði hæstv. ríkisstj. ráðstafanir til að hækka allt rafmagnsverð í landinu um 15–18%, var talið. Hún vissi mætavel, að þessar ráðstafanir hlutu vitanlega að bitna t.d. á íslenzkum sjávarútvegi eða fiskiðnaði, sem þarf allmikið á raforkukaupum að halda, auk þess sem vitanlega þétta hlaut að hafa áhrif á kostnað heimilanna í landinu. En ríkisstj. sagði: Það þarf að létta útgjöldum af ríkissjóði, við þurfum að fá meiri peninga til fjmrh., og af því þarf að létta af ríkissjóði tilteknum greiðslum til Rafmagnsveitna ríkisins, sem ríkissjóður hafði þó borgað um margra ára skeið, en í staðinn átti að láta almenning í landinu í gegnum hækkað raforkuverð borga þessa fjárhæð. — Við í stjórnarandstöðunni bentum auðvitað á, hverjar afleiðingarnar yrðu. Og afleiðingarnar urðu þær, að í júlímánuði hækkaði rafmagnsverð um 15.3% og hækkaði vísitöluna þá um 0.6 stig.

Um síðustu áramót ákvað ríkisstj. einnig að hækka benzínverð í landinu mjög verulega, vegna þess að það þurfti enn að auka við tekjurnar hjá fjmrh., það þurfti að létta af ríkissjóði 47 millj. kr. greiðslu til vegamála í landinu, en þá upphæð var ríkissjóður skuldbundinn til þess að inna af höndum. Nú átti að fella þessa greiðslu niður úr ríkissjóði og láta umferðina í landinu, almenning í landinu borga þessa fjárhæð með hækkuðu verðlagi. Auðvitað hafði þetta sín áhrif í sambandi við öll flutningsgjöld og öll útgjöld yfirleitt hjá þorra manna í landinu. Þetta leiddi svo auðvitað það af sér, þessar ráðstafanir m.a., sem ríkisstj. stóð fyrir, að Reykjavíkurborg greip til margvíslegra hækkana og rökstuddi þær með öllum þessum hækkunum, sem höfðu átt sér stað hjá ríkisstj. Af þeim ástæðum hækkaði líka í júlímánuði heita vatnið hjá Hitaveitunni um 30% samkvæmt því, sem Hagstofa Íslands segir, og vísitalan hækkaði þá um 0.9 stig, bara af þeim ástæðum. Hitaveitan hækkaði svo auðvitað mælaleigu og smærri gjöld, ekki aðeins um 30%, heldur um 100%. Strætisvagnagjöld voru hækkuð um þetta leyti um 18.2%, sem orkuðu til hækkunar á vísitöluna um 0.7 stig. Þegar þessi mál voru hér til umr. á Alþ., bentum við í stjórnarandstöðunni ríkisstj. á það, hverjar afleiðingarnar mundu verða, að áframbald á þessari braut mundi þýða hækkandi verðlag, aukna erfiðleika fyrir útflutningsframleiðslu landsmanna og að því hlyti að koma, áð það yrði að takast á við þessa erfiðleika. Þá fékk maður þau svör eins og stundum áður hjá ráðunautum ríkisstj. í efnahagsmálum, að þá sagði m.a. hæstv. forsrh., að þessar ráðstafanir ríkisstj. til þess að gera hag ríkissjóðs betri en áður var væru prófsteinn á það, hvort menn vildu gera nokkuð til að hamla gegn verðbólgu í landinu, — væru prófsteinn á það. Þeir, sem voru á móti þessum ráðstöfunum, eins og við í stjórnarandstöðunni, voru þar með afhjúpaðir og staðnir að því að vilja verðbólgu. Þannig var túlkunin. Þetta liggur alveg fyrir.

Auðvitað hafa þessar ráðstafanir leitt til þess vanda, sem við erum komnir í nú. Sem sagt, verðhækkunarstefnan, sem ríkisstj. hefur haldið sig við, hefur leitt til svo hækkandi verðlags í landinu, að upp er kominn stórkostlegur vandi fyrir aðalatvinnuvegi landsmanna. Um þetta sama leyti var ríkisstj. svo forhert í þessum efnum, eða um s.l. áramót, að þá ákvað hún að minnka niðurgreiðslur á fiski seldum innanlands, neyzlufiski, stórlega frá því, sem verið hafði um langan tíma. Þetta þýddi það, að neyzlufiskur hækkaði í verði til heimilanna um 50–80%. Hér voru menn því í upphafi ársins alveg á skeiði á gömlu dýrtíðarstefnunni. Þeir héldu, að það væri enn hægt að hafa sömu ráðin og áður, sem sagt að halda áfram verðhækkunarstefnunni. Við Alþb.-menn fluttum á síðasta þingi, frv. um það, að lögum um verðlagsmál yrði breytt, m.a. þannig, að verðlagsnefnd, sem hafði sýnt sig að því að vera inni á stefnu ríkisstj. í þessum verðlagsmálum öllum og hafði leyft hækkanir og álagningu, hafði gefið vörur frjálsar í álagningu o. s. frv., að þessari verðlagsnefnd yrði breytt. Hún hefur núna, þessi n., verið kosin þannig, að 5 menn hafa verið kosnir af Alþ. og svo hefur skrifstofustjórinn í viðskmrn. verið sjálfkjörinn í n. Þessi skipan tryggði þó það, að við Alþb.-menn áttum engan mann í n., sem höfum allan tímann verið kröfuharðastir í þeim efnum, að hér yrði haldið uppi sómasamlegu verðlagseftirliti Við lögðum til, að þessari n. yrði breytt þannig, að þingið kysi 7 menn í n. og að þannig yrðu nokkur þáttaskipti í sambandi við þessa n., það yrði sem sagt breytt um: Og í okkar frv. var einnig það lagt til, að það skyldi verða verkefni þessarar nýju verðlagsnefndar að taka fyrir allt verðlag í landinu og ákveða ýmist hámarksverð á öllum vörum og þjónustu eða hámarksálagningu. Það var sem sagt bein skylda samkvæmt okkar frv., að þessi nýja verðlagsnefnd skyldi kanna verðlagið í landinu, eins og það var orðið, og hún skyldi nú taka upp önnur vinnubrögð en áður hafði verið, þ.e.a.s. að ákveða nú hámarksverð og hámarksálagningu á allri vöru og þjónustu í landinu. Ríkisstj. leit auðvitað ekki við till. eins og þessari. Frv. fór í n. og kom aldrei úr n. aftur. Við fluttum aftur þetta frv. nú á þessu þingi, og það hefur ekki fengið neinar undirtektir enn. En í staðinn kemur þetta frv., sem fjallar um það að veita ríkisstj, tilteknar heimildir, sem ríkisstj. hefur auðvitað út af fyrir sig, eins og hér hefur verið bent á, hefur í l. um verðlagsmál og gæti notað, ef hún bara vildi, en hún hefur bara verið á annarri stefnu allt til þessa. Það virðist því, að það hafi ekki aðeins verið þannig, að ríkisstj. hafi þarna verið á allt annarri skoðun, heldur sé hún það jafnvel enn eða enn hiki hún við að taka upp nýja stefnu í þessum efnum.

Svo er annað atriði, sem er vitanlega mjög þýðingarmikið í þessum efnum, en það er það, að ef svo kynni nú að fara, að ríkisstj. notaði þessar heimildir, sem hún óskar nú eftir að fá, og færi inn á þá braut að stöðva verðhækkanir í landinu, þá hugsar hún sér að stöðva verðlagið, þar sem það er komið nú í dag, að út frá því verðlagi eigi að ganga. Það á sem sagt að löggilda þá álagningu, sem orðin er í dag í hinum ýmsu tilfellum. Hún á að fá að gilda. En hækkanir verða ekki neinar frekar, ef þessi heimild yrði þá notuð.

Nú efast ég ekkert um það, að hæstv. ríkisstj. veit mætavel, að það hafa farið fram allmiklar athuganir á því hjá verðlagsyfirvöldunum í landinu og ýmsum fleirum, hvernig ástatt er orðið með verðlagið og verðlagninguna. Og hún veit, að þessar athuganir hafa leitt það í ljós, að á síðustu árum hefur álagningin í landinu stórkostlega hækkað frá því, sem áður var, og hvergi meira yfirleitt en þar sem álagningin var alveg gefin frjáls. Sú álagningarprósenta, sem hér hefur verið í gildi í ýmsum tilfellum hjá ýmsum ríkisstjórnum, eða sú hámarksálagning, sem leyfð hafði verið, hefur þannig verið þverbrotin. Ýmist hefur verðlagsnefnd heimilað verulegar hækkanir prósentvís á álagningunni eða þá, þar sem varan hefur verið gefin frjáls í álagningu, þá hafa kaupsýslumenn hækkað álagninguna til mikilla muna. Ég skal nefna hér nokkur dæmi sem sýnishorn um það, hvernig hefur verið haldið á þessum málum. Ég hef að vísu ekki haft aðstöðu til þess að fara nákvæmlega í gegnum þær skýrslur, sem liggja fyrir um þetta, en mér hefur verið kunnugt um þessar skýrslur, og það mikið veit ég úr þeim, að það er ekkert um það að villast, að þeir, sem fást við sölu í landinu, hafa nú fengið á síðustu árum að taka til sín miklu meira en þeim var heimilað áður, og þetta er hæstv. ríkisstj. mætavel kunnugt um.

Fyrst er þá aðeins að nefna hér nokkur dæmi um vörur, sem enn eru undir verðlagsákvæði, en þar sem breytt hefur þó verið álagningarheimildinni. Ég nefni þá fyrst aðeins um heildsölu. Hér er t.d. vöruflokkur, sem er prjónagarn, vefnaðarvara, metravara alls konar, fatnaður, leðurvörur, ótalið annað, og samsvarandi vörur. Árið 1960 voru verðlagsákvæði þannig, að heildsalar máttu hafa 9% álagningu í þessum vöruflokki. Nú er búið að heimila 15% álagningu á þessum vöruflokki. Ég sé hér annan vöruflokk, það eru rafmagnsrör og rafmagnsvírar og ýmsar þess háttar vörur. Árið 1960 máttu heildsalar leggja á slíkan innflutning 9.5%, nú mega þeir leggja á 16%. Hér er önnur vara, sem notuð er til bygginga, það er rúðugler. Árið 1960 máttu heildsalar leggja á slíkan varning 15%, nú mega þeir íeggja á 19%. Þetta er aðeins í heildsölu. Hér er vöruflokkur eins og smíðajárn og smíðastál í stöngum og plötum. 1960 var heimilt að leggja á slíkar vörur 9%, nú er heimilt að leggja á 12%.

Ég skal svo nefna nokkrar vörur í sambandi við smásöluálagningu, sem ekki eru undir verðlagsákvæði, en álagningin hefur verið hækkuð á. Hér sé ég fyrir mér gúmmístígvél, þar var álagningin 1960 heimiluð 15%, en er nú 22%, og allur annar skófatnaður var 20%, er orðinn 27%. Hér er liður um búsáhöld, borðbúnað, eldhúsáhöld, einnig handverkfæri, járnvörur ýmiss konar og aðrar slíkar vörur. Þar var álagningarheimildin 27%, en er orðin 35%. Hér er liðurinn prjónavörur, vefnaðarvörur, metravara og alls konar þess háttar vörur. Þar var álagningin í smásölu 25%, en er orðin 40%.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi, en yfirleitt er hér um stórfellda hækkun að ræða, bæði í heildsölu og í smásölu. En þó kastar fyrst tólfunum, þegar kemur yfir í þær vörurnar, sem gefnar hafa verið alveg frjálsar, en sem dæmi um þær vil ég aðeins nefna þetta: Í heildsölu er hér t.d. fyrsti flokkurinn, niðursoðnir ávextir og þurrkaðir ávextir, kex o.fl. þess háttar. Í verðlagsákvæðunum 1960 var þetta í heildsölu 7.5%, en nú orðið í framkvæmd 18.3%. Hér er vöruflokkur, hreinlætisvörur og snyrtivörur. Í verðlagsákvæðum 1960 var hámarksálagning heildsala á þessum vörum 9.5%, en er orðið 23.3% í heildsölu. Hækkunin er 145%. Ytri fatnaður kvenna var í álagningarreglunum 1960 9.5%, en er kominn upp í 14.2%. Ytri fatnaður karla, unglinga og barna var 8.5%, en er kominn upp í 15.7%. Sokkar og leistar og annað þess háttar var í flokki með 8% álagningu, er komið upp í 19.2%. Og ýmiss konar fatnaður kvenna var í flokki 9%, en er kominn upp í 22.3%. Þannig hefur sem sagt álagningin hækkað alveg stórkostlega, bæði í heildsölu og smásölu, og þá mest, þegar vörurnar hafa verið undanþegnar öllu eftirliti.

Dæmi um það, hvernig farið hefur um álagninguna í smásölu, þar sem fullt frelsi ríkir orðið, eru t.d. þessi: Ytri fatnaður kvenna, það voru heimiluð 27% í álagningu 1960, en er komið upp í 41.4%, og ýmiss konar annar fatnaður kvenna var í flokki 25%, er kominn upp í 39.2%. Sokkar og leistar voru í 24%, eru komin upp í 42.1%. Vinnufatnaður og úlpur voru í 20%, eru komin upp í 32.9%. —[Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði, þegar ég lauk ræðu mínni hér, þegar þingfundi var frestað, gert nokkra grein fyrir því, hvernig til hefur tekizt með framkvæmd verðlagsmála á undanförnum árum, þar sem farið hefur verið eftir stefnu ríkisstj. í öllum meginatriðum. Það kom mjög greinilega fram í því, sem ég sagði um þessi mál, að álagning hefur á undanförnum árum hækkað mjög verulega í mörgum greinum, og þó hefur álagningin tvímælalaust hækkað langmest á þeim vöruflokkum, sem hafa verið undanþegnir verðlagsákvæðum. Ég hafði bent á, að hæstv. ríkisstj. hlýtur að vita vel um, að það hefur farið fram allnákvæm athugun á þessum málum og gerðar hafa verið allýtarlegar skýrslur um það, hvernig verðlagsmálin í þessum greinum hafa þróazt, svo að öll þau atriði, sem ég tilgreindi hér, hljóta að hafa verið hæstv. ríkisstj. kunn. Ég tel, að það sé í rauninni skylt, þegar þessi mál eru rædd, að leggja þessar athuganir opinberlega fram og skýra þjóðinni alveg hiklaust frá því, hverjar niðurstöðurnar séu í sambandi við þennan þátt í þróun verðlagsmálanna. Ekki sízt tel ég vera þörf á því, þegar ríkisstj. hugsar sér þá leið í þessum efnum, að e.t.v. komi til mála að löggilda í rauninni það verðlag, sem nú er gildandi í dag, og ákveða, að verðlagið skuli fest, þar sem það er nú komið, og þar með í rauninni löghelga þannig þær gífurlegu hækkanir á álagningu, sem átt hafa sér stað frá þeim reglum, sem hér giltu um langan tíma. Ég hefði talið miklu réttara, ef menn virkilega ætluðu sér að glíma við verðlagsvandamálin, eins og þau liggja nú fyrir, að fara þá leið, sem upp á er stungið í okkar frv. Alþb.- manna um breytingar á verðlagslögunum, en það er að leggja fyrir þá n., sem á að hafa með framkvæmd þeirra mála að gera, að byrja nú á sínu verki að nýju og ákveða á nýjan leik hámarksálagningu og vinna að því á þann hátt að lækka milliliðakostnaðinn frá því, sem hann er nú orðinn. Ég held, að hæstv. ríkisstj. geti ekki skotið sér undan því, þegar þessi mál eru nú rædd og það á þeim grundvelli, sem hún vill móta þessar umr., að gera Alþ. grein fyrir þessum athugunum, sem ég hef hér vikið að um það, hvernig þessi mál hafa þróazt, og hún hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, vilji hún taka á þessum málum í fullri alvöru, að það sé óhjákvæmilegt að fara niður í þessi efni á nýjan leik og breyta álagningunni aftur. Hér er um svo stórkostlega aukningu að ræða á álagningu og á milliliðakostnaði, að þegar verðlagið í landinu er orðið jafnhátt og það er nú og vandinn jafnmikill og raun ber vitni um, er óhjákvæmilegt að snúast einnig gegn þessum vanda.

Ég hef heyrt það nokkrum sinnum, að hæstv. forsrh. vill víkja sér undan þessum vanda, þegar hann ræðir þessi mál, á þann hátt að segja: Græðir Samband ísl. samvinnufélaga? Græða kaupfélögin? Græðir KRON? Og ef þau græða ekki að þeirra dómi sjálfra, er verðlagið í landinu í lagi og álagningin í lagi. Þetta er vítanlega að víkja sér alveg undan vandamálinu og vilja í rauninni ekki um það tala. Hvað svo sem þessir aðilar segja um afkomu sína nú, réttlæta vitanlega umsagnir þeirra ekki á neinn hátt þessa gífurlegu hækkun á milliliðakostnaði, sem þarna hefur sannanlega átt sér stað. Ef kaupfélögin í landinu og KRON og aðrir þeir, sem fást við sölumál, hafa ekki bætt rekstraraðstöðu sína allverulega með þessari álagningarhækkun, hlýtur það að stafa að verulegu leyti af því, að annaðhvort hefur komið einhver nýr aukakostnaður á alla þessa aðila eða þá hitt, að það er búið að gera það skipulag, sem hér var þó í sambandi við dreifingu á vörum, enn þá lakara en það var áður. Það er búið að dreifa þessari starfsemi á enn þá fleiri hendur. Það er búið í rauninni að eyða hér aukafjármunum í sambandi við dreifingarspursmálið langt umfram það, sem þörf er á. Reynslan hafði sýnt það, að það var hægt að reka verzlun á Íslandi á árunum fyrir 1960 og það með allgóðum árangri, og satt að segja hygg ég, að flestum hafi fundizt, að þá sækja í verzlunina á Íslandi fremur of margir en of fáir, svo að sá grundvöllur, sem verzlunin þá starfaði eftir, var ekki svo lakur, að það þyrfti þá að hækka álagninguna í mörgum tilfellum um helming frá því, sem þá var, hvorki til heildsölu né til smásölu. Nú er líka að sjá á þessum tölum, sem ég nefndi, að það er ekkert um það að villast, að innflutningsverzlunin hefur ekki sízt tekið stóran hluta af þessari hækkun til sín. Ég býst við því, að það sé enn þá svo, eins og það hefur lengi verið hér á landi, að á ýmsum matvörum sé álagningin tiltölulega hóflegust. Og þær verzlanir, sem að yfirgnæfandi meiri hluta fást við slíka dreifingu, þar sem álagningin liggur tiltölulega lægst, það má búast við því, að þeirra hagur sé ekki jafngóður og hjá ýmsum sérverzlunum, sem virðast núna blómstra, þar sem álagningin er miklum mun meiri. En elgi að síður fer álagningin hjá þessum sérverzlunum líka út í verðlagið, á sinn þátt í því að auka dýrtíðina í landinu og gera vandamálið, sem við er að glíma, enn þá meira.

Það eru því till. okkar Alþb.- manna í sambandi við þessi mál, að fremur verði farið inn á þá braut, sem við leggjum til í okkar frv., að hressa nú upp á verðlagsnefndina, sem á að hafa þessi mál með höndum, og leggja fyrir hana að framkvæma þessi mál í fullri alvöru, en ekki leggja fyrir hana að stefna í öfuga átt, eins og ég álít að hafi verið gert, og síðan beinlínis að gera þessari n. það að skyldu að kanna verðlagið í landinu, eins og það er nú á flestöllum vörum og allrí þjónustu, og færa það niður, þar sem hægt er að færa það niður, og mætti þá sú niðurfærsla verða til þess að standa nokkuð á móti ýmsum hækkunum, sem e.t.v. og án efa þurfa kannske að ganga yfir í einstaka tilfellum, m.a. vegna verðbreytinga, sem hafa orðið erlendis. Hæstv. ríkisstj. leggur nú til eigi að síður eða lætur í það skína, að það sé hennar stefna nú orðið að vilja stöðva verðlagið í landinu, þar sem það er nú komið, og segja má að sjálfsögðu, að það sé betra en að láta allt leika lausum hala, eins og það hefur gert. En þegar menn leggja það nú til að festa verðlagið, þar sem það er nú komið, hljóta þeir að hafa í huga, að það verðlag, sem nú er orðið, sé þó ekki orðið hærra en svo, að það sé hægt að halda framleiðslunni í landinu yfirleitt í gangi við það verðlag, sem nú er. Ég er hins vegar á allt annarri skoðun. Ég tel, að verðlagið innanlands sé þegar orðið svo hátt, að það sé ekki lengur grundvöllur fyrir mikinn hluta af þýðingarmiklum atvinnurekstri landsmanna til þess að geta haldið áfram og það sé því ekki lausn á vandamálinu, jafnvel þótt hægt væri að festa verðlagið í því, sem það er nú. Ég hélt satt að segja, að hæstv. ríkisstj. hefði líka átt að hafa hjá sér upplýsingar um það, að svona er þessu í rauninni komið, eins og mitt álit er.

Ríkisstj. skipaði fyrir nokkru sérstaka n., sem átti m.a. að athuga um rekstraraðstöðu vélbátaflotans í landinu, þ.e. hinna smærri báta upp að 120 rúml. stærð. Þessi n. hefur skilað ýtarlegu áliti til ríkisstj., og hún telur, að það sé ekki rekstrargrundvöllur miðað við það verðlag, sem gilti á Íslandi á miðju þessu ári, fyrir þessa báta. Sú n., en í henni voru þrír stjórnarsinnar og tveir stjórnarandstæðingar, var sammála um það, að t.d. ef gerður er samanburður á fiskverði þessara báta og miðað við verðlag á árinu 1962 og aftur á árinu 1965, hafi þróunin orðið sú, að fiskverðið til bátanna á árinu 1965 hafi verið 18% of lágt, til þess að það geti jafngilt þeirri rekstraraðstöðu, sem var hjá þessum bátum á árinu 1962. Og þegar n. lauk störfum, var tiltölulega nýlega búið að hækka fiskverð meira en hafði þó verið gert lengi áður, en þó taldi n., að það væri algerlega óhjákvæmilegt að hækka fiskverð til þessara báta um a.m.k. 10% auk ýmissa annarra sérbóta, sem bátarnir þyrftu, ef þeir ættu að hafa svipaða rekstraraðstöðu eins og þeir höfðu á árinu 1962. Nú benda útvegsmenn á, að rekstraraðstaða bátanna á árinu 1962 hafi verið mun verri en hún var fyrir 1960, og það er mín skoðun, að hún hafi þá verið lakari. Þessi n. gerir margar till. um, hvað megi gera þessum bátum til stuðnings. Mér er ekki kunnugt um það, þ6 að alllangt sé um liðið síðan þessi n. skilaði till. til ríkisstj., að ríkisstj. hafi blátt áfram gert nokkurn skapaðan hlut í þá átt, sem till. n. ganga í. Síðan þessi n. skilaði sínum till., hefur svo verðlagið í landinu haldið enn áfram að hækka á ýmsum sviðum, sem valda þessari útgerð auknum erfiðleikum. Útkoman hefur auðvitað orðið sú, að reksturinn hjá þessum bátum hefur dregizt saman jafnt og þétt, og það má segja, að víða á landinu sé svo komið, að þessir bátar séu að mestu hættir rekstri. Og það veldur vitanlega frystihúsunum miklum vanda. Það mundi ekki bjarga þessum þýðingarmikla rekstri, þó að verðlagið í landinu yrði fest við það, sem það er nú í dag: Það leysir ekki þennan vanda. Það þarf miklu meira til, eins og m.a. kemur fram í þessari nefndarathugun, sem liggur fyrir hjá hæstv. ríkisstj. Og það er enginn vafi á því, að það þarf stórar fjárfúlgur eða allmiklar efnahagslegar aðgerðir, til þess að hægt sé að koma í rauninni þessum rekstri á stað á nýjan leik þannig, að reksturinn geti verið með eðlilegum hætti. Þessi n., sem skipuð var til þess að athuga um afkomu bátanna, benti á, að svo var komið afkomu þessa bátaflota, að bátarnir skulduðu á miðju þessu ári í afborganagreiðslur til fiskveiðasjóðs 53 millj. kr., auk þess sem þeir skulduðu vitanlega allmikið í vaxtagreiðslur. Margir þessara báta eru nú auglýstir til uppboðs vegna þess fjárhagsástands, sem upp er komið hjá þeim. Þessi bátanefnd benti einnig á það, að sá háttur hefur verið hafður á nú í alllangan tíma, að raunverulega hefur útgerð þessara báta verið skattlögð til stuðnings rekstri togaranna í landinu í gegnum bæði aflatryggingasjóð og eins í gegnum vátryggingasjóð. Og n. benti á, að það þarf auðvitað að gera ráðstafanir til þess að leiðrétta þetta og létta þessum álögum af þessari bátaútgerð. En frá ríkisstj. hefur ekki heyrzt neitt í málinu, ekki nokkur skapaður hlutur.

Önnur n. var skipuð af stjórninni til þess að athuga um afkomu togaraflotans. Sú n. mun hafa skilað áliti fyrir nokkru. En Alþ. hefur ekki verið gerð nein grein fyrir því, hver er niðurstaða þessarar n. En þó held ég, að það leiki enginn vafi á því, að togaraútgerð landsmanna sé þannig stödd í dag, að hún þurfi á verulegum stuðningi að halda í einu eða öðru formi.

Um rekstur frystihúsanna skal ég ekki mikið segja. Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh, sagði, að það væri margt á huldu um það, hvernig afkoma þeirra væri og hvað fyrir þau þyrfti að gera, eins og komið væri. En ég held þó, að það geti enginn vafi leikið á því, miðað við það, hvað ákveðið hefur verið áður um afkomu frystihúsanna, einnig hér á Alþ., að þá þurfi þau nú á auknum stuðningi að halda og það allverulega auknum stuðningi í einhverju formi.

Mér sýnist því, að málið liggi þannig fyrir, að það sé augljóst, að mikill hluti af atvinnurekstri landsmanna þoli ekki það innanlandsverðlag, sem komið er í dag, og það sé því mjög takmörkuð lausn á vandanum að binda till. sínar við það að festa verðlagið innanlands, þar sem það er komið nú, það þurfi miklu fleiri ráð að koma til, það þurfi sem sagt að breyta um stefnu í miklu fleiri atriðum en þeim, sem aðeins snúa að hækkandi innanlandsverði. Það er látið liggja að því í þessu frv., að meiningin sé að reyna að stöðva verðlagið innanlands, þó að engin bein lagafyrirmæli séu um það. En í þeim efnum vaknar spurningin um það, hvað hæstv. ríkisstj, hugsar sér að gera í sambandi við húsaleigu í landinu og kostnað almennings af húsnæði. Væntanlega er það ætlunin að banna, ef heimildirnar yrðu notaðar, einnig hækkun á húsaleigu. En hvað á að gera til þess að tryggja það í framkvæmd, að slíkt bann hafi eitthvert gildi?

Hæstv. ríkisstj. hefur verið á þeirri skoðun fram til þessa, að ekki væri rétt að hafa í gildi nein húsaleigulög, nein ákvæði um hámark húsaleigu eða neitt eftirlit í þeim efnum. Nú vitum við, að húsaleigan vegur mjög mikið fyrir allan almenning eða útgjöld í sambandi við húsnæðismál. Það hefur því mjög mikið að segja að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér, ef hún notaði heimildir frv. um verðstöðvun, að koma því fyrir að stöðva húsaleiguokrið, sem sannanlega fer fram í landinu. Hvernig hugsar hún sér að setja reglur til þess að koma í veg fyrir hækkaða húsaleigu? Skoðun okkar Alþb.-manna er sú sama viðvíkjandi húsaleigunni og í sambandi við hið almenna verðlag. Við álítum, að það sé engan veginn nægilegt að ákveða það að banna frekari hækkun húsaleigu en nú er orðin. Við teljum, að það leiki enginn vafi á því, að húsaleigan sé í mjög mörgum tilfellum orðin hrein okurleiga og það eigi að færa þá leigu niður og gera ráðstafanir til þess. Það er eflaust rétt, að það getur verið talsverðum vandkvæðum bundið að tryggja fulla og örugga framkvæmd á slíkri lagasetningu. En ég held, að það sé þó enginn vafi á því, að ef fullur vilji væri á, væri þó hægt að áorka allmiklu í þeim efnum.

Ég vil undirstrika það sem skoðun okkar Alþb.-manna, að við teljum nú eins og áður, að það sé mikil þörf á því að taka verðlagsmálin í landinu fastari tökum en verið hefur. Við teljum, að það eigi ekki að láta sitja við það að flytja frv. um heimildir handa ríkisstj., heldur eigi beinlínis að setja lög, sem hafi að geyma alveg ákveðin lagaboð í þessum efnum, og síðan eigi að fela tiltekinni stofnun að sjá um framkvæmd á þeim lagaboðum. Og við álítum, að það eigi ekki að binda ráðstafanir í þessum efnum við samninga um launakjör í landinu. Eðlilegir samningar um launakjör eiga yfirleitt að fara þannig fram, að það sé við það miðað, að hækkuð laun eigi að berast uppi af atvinnurekendum í öllum aðalatriðum og það eigi að koma þeim kostnaði fyrir, sem verður vegna hækkaðra launa, með því að taka upp aukna tækni og hagkvæmari vinnubrögð eða þá beinlínis með því að ganga nokkuð á hlut vinnuveitandans, en það eigi ekki að hafa þann hátt á að velta hækkuðu kaupgjaldi í sífellu beint út í verðlagið, þannig að þeir, sem hafa samið um hækkað kaupgjald, hafi í rauninni ekkert af því að segja nema jafnvel til þess beinlínis að auka tekjur sínar, eins og dæmi eru til um. Þetta hefur alltaf verið okkar skoðun, og við höfum alltaf staðið á því, og það er aðeins um hreinar rangfærslur að ræða, þegar reynt hefur verið að halda því fram, að við höfum einhvern tíma staðið með því að velta út í verðlagið umsömdu hækkuðu kaupi. Hitt er svo allt annað mál, að það eru til dæmi um það, að atvinnurekstur hreinlega framselur vinnulaun. Og við höfum gert okkur fulla grein fyrir því, að þar sem er um að ræða hreina framsölu á vinnulaunum á milli aðila, er ekki hægt að reikna með öðru kaupi en því, sem um hefur verið samið. En það er vitanlega hægt að lækka það álag eða þá álagsprósentu, sem þeir aðilar fá að lögum, sem framselja vinnuafl til annarra og taka ákveðna þóknun fyrir að framselja vinnuaflið. Og það er það, sem á að gera. En hinu vitanlega verður ekki neitað að reikna með því kaupgjaldi, sem um hefur verið samið hverju sinni.

Ég tel, að þetta frv. sé nokkur viðurkenning frá hálfu ríkisstj. á þeirri þörf, sem fyrir hendi er til þess að láta verðlagsmálin taka hér nokkuð til Alþ. eða láta Alþ. skipta sér af þeim málum. En hins vegar sýnist mér, að frv. beri þannig að og það sé þannig saman sett, að margt bendi til þess, að ríkisstj. sé ekki enn búin að taka ákvörðun um það að snúa sér að því að stöðva verðhækkanirnar í landinu, hún sé enn að hugsa meira um hitt; að láta þannig líta út, að hún sé út af fyrir sig á móti verðhækkunum, það séu aðrir, sem knýja þær fram, og hún vilji gjarnan hafa heimildir eins og felast í þessu frv. sem eitthvert samningamál við launþegasamtökin nú á þessum vetri. En ég tel, að það sé vissulega kominn tími til þess, að ríkisstj. viðurkenni í verki, að það þarf að breyta um frá þeirri stefnu, sem hún hefur markað fram til þessa í verðlagsmálunum. Hennar stefna hefur verið röng. Hún hefur leitt til þess ófarnaðar, sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum. Og sú stefna, sem sérstaklega hefur komið fram hjá verðlagsnefndinni, sem hefur verið á undanförnum árum, að leyfa hækkandi álagningu eða veita ýmsum aðilum leyfi til þess að ráða að öllu leyti verðlaginu, sú stefna hefur verið röng.

Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. fari til n. og þar verði það athugað. Og þá má að sjálfsögðu koma fram ýmsum breytingum á þessu frv. Ég mun freista þess að koma á framfæri brtt. í þá átt, og mætti þá kannske koma í ljós, hversu mikil alvara er á bak við það að ætla að skipta um stefnu í þessum málum eða breyta um stefnu í þessum málum, hversu mikil alvara er á bak við það að reyna að hamla gegn frekari verðhækkunum innanlands.

Á það hefur verið bent í þessum umr., að einmitt núv. stjórnarflokkar hafa áður leikið mjög svipaðan leik þessum í verðlagsmálum. Árið 1959 beittu þeir sér fyrir lagasetningu undir því loforði, að þeir væru með stöðvunarstefnu, þeir vildu stöðva hið sífellt hækkandi verðlag í landinu. Og þá var þetta gert meira að segja á þann veg, að það var ákveðið með lögum að færa niður kaupgjald allt í landinu, ekki aðeins verkamanna og annarra launþega, heldur einnig umsamið fiskverð til sjómanna og umsamið kaup bænda. Þetta var allt fært niður með lögum, og því var haldið fram, að nú hefði verið tekin upp ný stefna í verðlagsmálunum, stöðvunarstefna. Og það tóku býsna margir undir þetta á þessum árum, af því að menn trúðu því í fyrstu, að það væri meiningin að reka hér stöðvunarstefnu og koma í veg fyrir frekari verðlagshækkanir. En það sýndi sig á því ári, að þegar þessir flokkar, sem að stöðvunarfrv. þá stóðu, voru komnir í gegnum kosningahríðina, sneru þeir við blaðinu og sögðu, að þetta hefðu allt aðeins verið bráðabirgðaráðstafanir, sem vitanlega gætu ekki staðið áfram, og þá kom verðhækkunarflóðið yfir á eftir. Það er vitanlega ekki nema eðlilegt, að þetta rifjist upp fyrir mönnum nú, þegar þeir flokkar, sem hafa haldið hér fram allt annarri stefnu í verðlagsmálunum öll þessi ár síðan, þegar þeir vita, að skammt er til kosninga. Þegar þeir nú koma fram með stöðvunarfrv. eins og þetta, sem hér liggur fyrir, þá er ekki nema von, að það rifjist upp fyrir mönnum, hvað hefur gerzt hér áður í hliðstæðum efnum. Ég held því, að ef hæstv. ríkisstj. vill, að mark verði tekið á þessum till. hennar og tali um verðstöðvun, verði hún að ganga betur frá lagasetningu um þau efni en felst í þessu frv. En á þetta verður nú reynt, og þá má betur sjá, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir í þessum efnum.