29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

74. mál, verðstöðvun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem mig langaði til þess að bæta hér við. Því miður er nú hæstv. forsrh. horfinn af fundi, en til hans vildi ég nú sérstaklega beina máli mínu. Ég hafði spurt m.a. um það, hvort ríkisstj. hefði í raun og veru breytt um skoðun varðandi stefnuna í verðlagsmálum, hvort hún væri í raun og veru að hverfa frá frjálsræðiskenningunni um verðmyndun og hallast meira og meira að því, að til ríkisafskipta þurfi að koma í þessum efnum. Forsrh. svaraði á þá lund, að hann hefði ekki í þessum efnum skipt um skoðun, hann teldi enn sem fyrr, að frjálsræðisstefnan væri sú bezta undir öllum venjulegum kringumstæðum, en lagði áherzlu á, að þegar um væri að ræða algjörlega óvenjulegar aðstæður, þá mætti grípa til bráðabirgðaráðstafana, aðeins í stuttan tíma, hliðstæðra þeim, sem hér er lagt til að grípa til. Og síðan sagði forsrh., að það væru hinar miklu verðbreytingar á erlendum mörkuðum, sem gerðu það, að óhjákvæmilegt væri, að ríkisstj. fengi slíkar heimildir sem felast í þessu frv., og forsrh. lagði megináherzlu á þetta, að það væru verðlækkanirnar á erlendum mörkuðum, sem gerðu það að verkum, að nú yrði að grípa til þessara bráðabirgðaráðstafana, til þessa fráviks frá meginstefnunni. Ég hefði gjarnan viljað, að hæstv. forsrh. hefði verið hér, og mér þykir miður, að hann skuli ekki vera hér, til þess að reyna að fá hann til að fylgja eftir þessari skoðun eða þessari kenningu sinni og athuga hana svolítið betur.

Nú hefur það verið upplýst í þessum umr., að það er ekki um að ræða nú á þessari stundu lækkun á útfluttum þorskafurðum frá landinu. Viðskmrh. upplýsti það beinlínis, að meðaltalsverð þessarar framleiðslu, þorskafurðanna, lægi 10% hærra á þessu ári, 1966, en á árinu 1965. Og bann upplýsti einnig, að verð á skelfiskafurðum mundi vera í kringum 5% hærra en á árinu 1965, en að .verðlækkunin væri aðallega fólgin í síldarafurðunum. Ef maður fer nánar út í það, þá liggur það dæmi þannig fyrir, að verð á saltsíld hefur hækkað í ár frá því, sem það var í fyrra, og verð á frosinni síld til útflutnings hefur staðið fyllilega í stað. Það, sem hefur lækkað núna á seinni hluta ársins, er aðallega verð á síldarlýsi og nokkuð á síldarmjöli. Þessi fullyrðing hæstv. forsrh. ætti þá að þýða það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir um heimildir handa ríkisstj. til verðstöðvunar, sé flutt vegna þess, að síldarverksmiðjurnar í landinu séu komnar í vanda. Þessi fullyrðing leiðir það af sér, að það sé gripið til þessa fráviks frá meginstefnunni í verðlagsmálum vegna þess, að síldarlýsi hafi lækkað í verði og síldarmjöl og að þessi rekstur landsmanna, þ.e.a.s. síldarverksmiðjureksturinn og svo þá útgerð þeirra báta, sem skipta við síldarverksmiðjurnar, það sé þessi rekstur, sem sé kominn í strand.

Ekkert er nú fjær en þetta. Svona liggur málið ekki fyrir, það vita allir. Ég fullyrði það, að þrátt fyrir þessi áföll, sem þarna hafa orðið og eru býsna mikil fyrir þjóðarbúið, ef framhald verður á þessu verði, þá fullyrði ég það eigi að síður, að það er einmitt þessi þáttur útgerðarinnar í landinu, sem bezt stendur upp úr í dag. Afkoman hjá síldarverksmiðjunum og afkoman hjá þeim bátum, sem eiga viðskipti við síldarverksmiðjurnar í dag, þetta er bezti reksturinn, og ríkisstj. getur sparað sér allar áhyggjur út af fyrir sig á þessari stundu, að þarna liggja liggi aðalvandinn. Það þarf því ekki að grípa til fráviks frá meginstefnunni út af þessu. Eigi að síður er þetta áfall. Þetta kemur m.a. fram í því, að síldarverksmiðjurnar hafa lækkað hráefnisverðið til bátanna. Bátarnir hafa hins vegar fiskað miklu meira en áður, og þeir, sem afla sæmilega vel, eru enn með allgóðan rekstur. Það sýna reikningar þeirra; og enginn þeirra reynir að neíta því. Og efnahagssérfræðingar ríkisstj. hafa þegar haldið því beinlínis fram, að hið háa kaup sjómanna á þessum bátum væri jafnvel ein frumorsök verðbólgunnar í landinu. Þrátt fyrir það, þó að hráefnið hafi nú lækkað til þessara báta, þá er kaup sjómannanna á bátunum hreint ekki lélegt enn þá. Svo er fyrir að þakka allri þeirri tækni, sem þarna stendur á bak við. Nei, það er verið að gera þessar ráðstafanir í verðlagsmálunum nú vegna þess, að verðlagið innanlands er orðið svo hátt, að ýmsar greinar útflutningsframleiðslunnar fá ekki staðizt það verðlag, sem orðið er, og frystihúsin og annar fiskiðnaður sem býr við það, að verðið í ár er hærra á framleiðsluvörum þeirra en það var á s.l. ári, þau eru komin í vanda. Og fiskibátarnir, sem leggja upp afla til þessara fiskverkunarstöðva, þar sem verðið er beinlínis hærra en það var í fyrra, þeir eru líka komnir í strand. Vandinn í þessum málur liggur núna einmitt í þorskverðinu til bátanna, í aðstöðu frystihúsanna og ýmissa annarra aðila, sem framleiða fyrir erlendan markað.

Það er því algjörlega rangt eða fær ekki staðizt, sem hæstv. forsrh. segir, að þetta frv. sé flutt sem undantekning frá meginreglunni vegna lækkunarinnar, sem orðið hefur á verði á síldarlýsi og síldarmjöli. Ég vildi fyrir mitt leyti undirstrika þetta nokkuð betur en áður var gert; og þetta á hæstv. ríkisstj. að viðurkenna. Vandinn liggur á allt öðrum stöðum en þarna. Það er ekki verið að fara út í þessa verðstöðvun vegna þeirrar stöðu, sem síldarverksmiðjurnar hafa í dag, eða þeir síldarbátar, sem leggja upp mestan síldaraflann. Það er ekki verið að fara út í þessar ráðstafanir vegna þeirra. Það er hins vegar dýrt fyrir þjóðarbúið sem heild, þegar framleiðslugrein, sem skilaði miklu í þjóðarbúið, skilaði ekki eins miklu og hún skilaði áður. Það er annað mál. En hitt er svo líka jafnrétt, sem ég hafði vikið hér að í minni fyrri ræðu, að þó að verðlagið sé stöðvað við það, sem það er orðið nú í dag, þá bjargar það ekki rekstri frystihúsanna, eins og komið er, þá bjargar það ekki rekstri fiskibátanna, sem skipta við frystihúsin. Til þess að bjarga þessum rekstri þarf miklum mun meira en felst í verðstöðvun miðað við það verðlag, sem orðið er. Skýringar hæstv. forsrh. á þessu fráviki frá meginstefnunni fá því ekki staðizt, það er alveg augljóst mál.