29.11.1966
Neðri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

74. mál, verðstöðvun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég sé ekki ástæðu til þess að halda þessum almennu umr, áfram nú mjög, því að þetta mál er alveg á fyrsta stigi. Það er aðeins út af því, sem hæstv. forsrh. sagði. Stjórnarflokkarnir hafa gert mjög mikið úr því, sem þeir kalla verðstöðvunarstefnu, og hafa flutt það mál þannig, að þar væri á ferðinni frambúðarlausn. Þáð hefur enginn getað skilið öðruvísi þennan málflutning þeirra. Það væri nú tekin upp verðstöðvunarstefna, og enginn hefur getað skilið málflutning þeirra á aðra lund en þá, að þar væru á ferðinni varanlegt úrræði. En ég verð að segja, að ég kann betur við þann tón, sem var í ræðu hæstv. forsrh. áðan, og sýnist mér hann vera farinn að sjá missmíði á þessum málflutningi öllum saman, því að nú lagði hæstv. ráðh. mikla áherzlu á, að það bæri að skoða þetta frv. í því ljósi, að hér væri aðeins verið að gera ráðstafanir um skamman tíma, sem gætu haft vissa þýðingu, þó að það ástand, sem þær sköpuðu, gæti ekki staðið til frambúðar, og talaði um í því sambandi jafnvel bráðabirgðaneyðarúrræði, sem yrðu að geta komið til greina, og menn ættu að hafa það í huga. Þar á meðal gæti það komið til athugunar að gera eitthvað, sem gæti skapað einhverja kyrrð fram yfir kosningar, skildist mér, og jafnvel einhverja mánuði eftir kosningar, á meðan menn hugsuðu um, hvað þyrfti að gera, þegar því bráðabirgðaástandi hlyti að ljúka, sem með þessu væri skapað. Ég verð að segja, að ég kann miklu betur við þennan tón hjá hæstv. ráðh. og vona, að hann haldi áfram að tala í þessum anda. Þetta mun vera nær raunveruleikanum, að hér sé ekki verið að gera neinar ráðstafanir, sem miðað við allar kringumstæður geti gefið nokkra mynd af því, hvað fram undan er, eins og við höfum lagt áherzlu á, sem talað höfum úr andstöðuflokkum stjórnarinnar. En því færi betur, að hv. stjórnarflokkar og hæstv. ríkisstj. hefðu hreinskilni til þess að flytja mál sitt framvegis á aðra og sannari lund en gert hefur verið hingað til í sambandi við þennan áróður allan. En mér sýnist hér vera byrjað að draga í land og fagna því, ef framhald gæti orðið á slíku.