12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til meðferðar í fjhn., og svo sem fram kemur á þremur nál., hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Ná1. meiri hl. n. er á þskj. 120.

Við 1. umr. um þetta frv. gerði hæstv. forsrh. grein fyrir tildrögum þess, að ríkisstj. hefur talið rétt og óhjákvæmilegt að leggja til við Alþ., að frv. þetta um verðstöðvun verði samþ. sem heimild fyrir ríkisstj. til verðstöðvunar, en hann lýsti því jafnframt yfir, að sú heimild yrði notuð, jafnskjótt og frv. væri orðið að lögum.

Tildrögin, eins og hann lýsti þeim, eru þær uggvænlegu breytingar á verðlagi útflutningsafurða, sem orðið hafa undanfarna mánuði. Hæstv. viðskmrh. rakti einnig við 1. umr. málsins þessar verðbreytingar og sýndi fram á með glöggum dæmum, hvað þær þýddu nú og hvað þær gætu þýtt á næsta ári, ef ekki yrði breyting á til batnaðar.

Umr. um verðbólgu og bölvun hennar fyrir atvinnuvegina hafa verið allfyrirferðarmiklar undanfarin ár, en þrátt fyrir það að menn greini lítt á um það atriði og séu sammála um nauðsyn þess að stöðva verðbólguþróunina, hættir mönnum mjög til þess að tala og haga sér svo sem við þurfum lítið tillit að taka til þess, sem annars staðar gerist. Mönnum er, að því er virðist, flestum illa við að horfast í augu við þær staðreyndir. Þetta kom t.d. mjög greinilega fram við 1. umr. um þetta frv., að hv. stjórnarandstæðingar vildu sem minnst gera úr þeim verðbreytingum og þeim stórkostlegu verðlækkunum, sem orðið hefðu, eða hugsanlegum áhrifum þeirra. En slíkt er ekki óalgengt, eins og ég sagði, í umr. um þessi mál. Hér liggur að mínu viti meginvilla, og ef menn gera sér ekki grein fyrir henni og hversu mjög íslenzkt atvinnu- og efnahagslíf er háð erlendum aðstæðum, er hætt við, að illa fari.

Það mun í sannleika sagt vera leitun að því landi, þar sem efnahagsþróunin er háðari áhrifum utan frá en einmitt hér hjá okkur. Þetta ætti raunar að vera augljóst, þegar litið er á þá miklu þýðingu, sem utanríkisviðskiptin hafa í okkar efnahagskerfi. Við skulum aðeins taka eitt lítið dæmi í sambandi við sjávarútveginn. Þar rekum við okkur strax á þrennt, sem er mjög eftirtektarvert: Að af okkar útflutningi eru um 95% frá sjávarútvegi eða af okkar gjaldeyrístekjum koma 65–70% frá sjávarútvegi, og á hinn bóginn, að sjávarútvegurinn verður að flytja út og selja á erlendum mörkuðum um 95% af því, sem hann framleiðir. Þetta ætla ég, að sé algerlega einstætt, ef litið er til þeirra þjóða, sem teljast meiri háttar fiskveiðiþjóðir. Við verðum því að selja okkar sjávarafurðir nær allar á útlendum mörkuðum og oftast í mjög harðri samkeppni, þar sem seljendurnir fá oftast mjög litlu ráðið um það, hvernig verðlagsþróunin verður. Þetta, að okkar sjávarútvegur og okkar efnahagslíf skuli vera svo mjög háð erlendum aðstæðum, hefur að sjálfsögðu tvær hliðar. Þegar verðlagsþróunin er góð, eins og hún hefur verið undanfarið, er þetta til góðs, en á ógæfuhlið sígur, þegar verðfall verður á einni afurð eða fleiri. Þetta eru alkunnar staðreyndir.

Undanfarin ár höfum við góðu heilli fundið hin góðu áhrif verðlagsþróunarinnar á mörkuðunum á flestar okkar afurðir, svo til allar afurðir, mætti segja, þó misjafnlega mikið. Þessi hagstæða verðlagsþróun ásamt framleiðsluaukningu og framleiðniaukningu, sem hefur verið hvor tveggja mikil í sjávarútveginum undanfarin ár, hafa verið meginforsendur fyrir hinni öru efnahagsþróun undanfarinna ára, og því er ekki að neita, að öll þjóðin hafi þar notið góðs af. Þegar hins vegar litið er á reynslu undanfarandi ára og áratuga, má segja, að slík hagstæð þróun, sem verið hefur hér undanfarin ár á þessu sviði, mundi ekki eiga fyrir sér að standa ótrufluð áfram. Að vísu eru smávægilegar breytingar alltaf að verða. En breytingarnar á þessu ári hittu í senn helztu afurðirnar, þar sem voru síldarafurðirnar og frysti fiskurinn, þær afurðir, sem eru meira en 2/3 hlutar af öllum útflutningnum. Slíkt er sem betur fer ekki algengt, að slíkar breytingar nái svo vítt sem hér hefur orðið raun á. Þetta hefur gerzt þannig, að afleiðingin af verðhækkun á frystum fiski nú undanfarin ár, sem hefur verið óvenjulega mikil, hefur aukið framboð. Framleiðendur víða um lönd hafa lagt meira kapp á það en áður að auka sína framleiðslu og aukið framboð, sem þannig hefur leitt til verðlækkunar. Þessi aukning á framboðinu tók reyndar lengri tíma en oft hefur gerzt áður, sem stafaði af því, að framleiðsla á fiski hentugum fyrir frystingu hefur verið minni nú undanfarin ár frá þeim svæðum, sem aðallega hefur komið frá framboð á frystum fiski á mörkuðum austan og vestan megin Atlantshafs. Slíkar breytingar hafa oft skeð fyrr en nú hefur gerzt, en það gerðist samt nú eins og áður, að mjög hækkandi verðlag hafði þessar afleiðingar, sem maður getur alltaf reiknað með að það hafi. Að því er snertir fiskmjöl eða síldarmjöl aðallega þó, leiddi verðhækkunin á því undanfarin ár til minnkandi eftirspurnar, og sama má segja um lýsið. Þar hagar svo til, að meginhluti af mjölinu fer til fóðurblöndunar, blöndunar á fóðri fyrir búfé, — og þegar verðlagið verður mjög hátt, eins og það hefur orðið nú undanfarin ár og hæst snemma á þessu ári, draga fóðurvöruframleiðendurnir saman það magn, sem þeir nota af mjöli, af síldarmjöli eða fiskmjöli, til sinnar fóðurblöndu, og það leiðir aftur smám saman til minnkandi eftirspurnar á mjölinu. Svipað hefur gerzt með lýsið. Það fór hins vegar saman, að því er snerti báðar þessar afurðir, að eftirspurnin minnkaði, a.m.k. jókst ekki, eins og hún hafði gert jafnt og þétt áður, heldur minnkaði, um leið og framboðið jókst, eins og ljóst er af því, þegar litið er á þá miklu framleiðsluaukningu eða þá miklu aflaaukningu, sem orðið hefur bæði í Noregi, hér á Íslandi og í Perú á þessu ári.

Allt sýnir þetta, hversu mikilli óvissu þessar breytingar eru háðar. Ef dæma á eftir reynslu undanfarandi ára, er óhætt að telja, að það tekur ávallt nokkurn tíma að skapast jafnvægi á mörkuðum aftur, eftir að slíkar breytingar, slíkar stökkbreytingar hafa gerzt, eins og hér hafa orðið. Það tekur ávallt nokkurn tíma að skapa aftur skilyrði til áframhaldandi hagstæðrar þróunar. Eftirspurnin eftir mjöli mun ekki aukast skyndilega, þó áð verðið hafi stórlækkað, það tekur tíma að breyta til. Sama má segja um lýsið. Við höfum séð nú undanfarna daga fréttir um það, að verðlag á mjöli og lýsi hafi aftur farið hækkandi. Það væri betur, að það væri merki um það, að hér væri að verða breyting á aftur, en maður hlýtur að meta slíkar fréttir með nokkurri varúð, þegar athugað er, að þessar breyt. hafa orðið fyrir mjög sérstakar aðstæður suður í Perú, sem er langstærsta framleiðslulandið, þar sem sjómenn hafa staðið í margra vikna löngu verkfalli og allt í óvissu um það, hvort tekst að leysa það verkfall fyrr eða síðar. Þetta hefur haft þau áhrif á markaðinn nú í bili, að verðlag hefur farið hækkandi. Það hefur gripið um sig sú skoðun, að ef verkfallið stæði lengi í Perú, þá yrði skortur á þessum vörum, framboðið mundi stórminnka. Um það er sem sagt ómögulegt að segja, en ástæðan fyrir þeim verðbreytingum, sem orðið hafa síðustu daga, er sú ein, að verkfallið í Perú hefur komið í veg fyrir framleiðslu þar í landi. En þrátt fyrir þetta ber allt hér að sama brunni. Ástandið á þessum mörkuðum er gerbreytt frá því, sem áður var, og þar af leiðandi er ástandið hér innanlands, að því er tekur til útflutningsatvinnuveganna, einnig gerbreytt. Þessir atvinnuvegir hafa undanfarin ár getað tekið á sig miklar hækkanir. Kaupgjald hefur hækkað, verðlag í landinu hefur hækkað, og þetta hafa útflutningsatvinnuvegirnir orðið að borga af sinni framleiðslu og hafa getað það m.a. fyrir hagstæða verðlagsþróun á þeirra afurðum. Sú forsenda er nú ekki lengur fyrir hendi, a.m.k. ekki um sinn, og enginn neitar því, að útflutningsatvinnuvegunum er um megn að taka á sig frekari kostnaðarhækkanir en orðið er.

Það frv., sem hér liggur fyrir, skapar skilyrði fyrir því, meðan þau lög gilda, að kostnaðarhækkanir eigi sér ekki stað nú um sinn, og miðað við það ástand, sem nú hefur skapazt, er þetta skynsamleg ráðstöfun og mun, ef vel tekst til um framkvæmd þeirrar stefnu, sem frv. túlkar, verða til mikils gagns fyrir útflutningsatvinnuvegina.

Svo sem fram kemur í nál. meiri hl. n., flytur meiri hl. eina till. til breytinga við frv. Meðan málið var í athugun í n., óskaði ríkisstj. eftir því, að inn í frv. yrði bætt einni mgr., eins og segir í nál., þannig að í 1. gr. komi eftir 1. málsl., eins og segir í nál., að leyfi til slíkrar verðhækkunar skal vera háð samþykki ríkisstj. Meiri hl. n. varð við ósk ríkisstj. og flutti þessa brtt. Með þessari brtt. er ætlað að skapa algert samræmi í framkvæmd þessara mála. Svo sem fram kemur í grg. fyrir frv. og alkunnugt er, eru verðlagsmálin í höndum nefnda og stjórnvalda og það þótti öruggara, enda sjálfsagt, að ríkisstj., sem mótar stefnuna með þessu frv. og hefur lýst því yfir, að heimild frv. muni verða notuð, hafi það í hendi sér að ákveða þá stefnu, sem þessi mál taka, þannig að verðlag megi ekki hækka að ákvörðun verðlagsnefnda, sem um slík mál fjalla, eða annarra stjórnvalda, nema samþykki ríkisstj. komi til. Þetta er svo sjálfsagður hlutur, að eðlilegt verður að teljast, að slíkt ákvæði verði í þessum lögum.

Meiri hl. n. leggur svo til, að frv. verði samþ. með þessari breytingu.