12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

74. mál, verðstöðvun

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hafa orðið nokkrar umr. um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Aðalatriði þess virðist vera, að það eigi að stöðva verðlagið, þar sem það er nú, og verðhækkanir megi ekki eiga sér stað nema með leyfi ríkisstj. Sannleikurinn er sá með verðlagseftirlit, þá hefur ríkisstj. það þegar í sinni hendi, ef hún vill framfylgja því, og getur sett reglur um það. Ef hún vill framfylgja því strangara en nú er gert, hefur hún aðstöðu til þess, án þess að samin séu sérstök lög. Útsvörin eru hins vegar nýmæli. Ég geri ekki ráð fyrir, að fólkið í landinu sé neitt á móti því, að það sé hindrað, að útvör hækki, það er gott, ef þau hækka ekki. Þau hafa farið síhækkandi og hafa verið mörgum erfiður baggi. Það gefur auga leið, að fyrir þau sveitarfélög, sem þurfa að standa í framkvæmdum, þá verður ekki hjá því komizt, ef framkvæma á mikið, að útgjöldin geti hækkað í bili. Við þann lið geri ég ráð fyrir, að ríkisstj. veiti undanþágur, ef nauðsyn ber til, þannig að þar verði ekki um stóra hluti að ræða. Laun hafa farið hækkandi, vegna þess að framfærsluvísitalan hefur hækkað, og það var tekið upp skv. þessu júnísamkomulagi að reikna kaup út eftir framfærsluvísitölu, þannig að kaupgjaldið hefur hækkað um ca. 15% síðan eða eitthvað nálægt því. Landbúnaðarvörur hafa einnig hækkað, meðfram vegna þessara kauphækkana. Satt að segja virðist vísitalan hafa hækkað síðan júnísamkomulagið var gert eitthvað um 32 stig.

Ég fór mér til gamans yfir það í Hagtíðindum, hvað það var, sem aðallega varð þess valdandi, að vísitalan hækkaði. Þetta var ekki alveg nákvæmlega sundurliðað í Hagtíðindum, en virtist, eftir því sem ég gat dregið saman, að opinber gjöld, söluskattur og slíkt, hefðu hækkað vísitöluna um 2–3 stig, fatnaður, erlendar matvörur o.fl. slíkt 3.5 stig, skemmtanir, rafmagn, hiti, strætisvagnar o.fl. slík þjónusta um 6.6, sem kemur vafalaust að miklu leyti af hækkuðum launum og ýmsum öðrum liðum, fiskur, smjörlíki, ávextir, brauð og annað slíkt um 6.2 vísitölustig, vín og tóbak 0.9, kjöt, mjólk og smjör um 7 stig, ber þá að athuga, að það er komin lækkun vegna þess, að það er greitt svo mikið niður á smjörinu núna, — dreifing á mjólk og landbúnaðarvörum 1–1.5 stig, húsnæðisliðurinn um 2.6 stig. Það er ekki alveg nákvæmlega tekið fram í Hagtíðindum, þannig að maður getur ekki alveg náð brotum, en þetta fer ekki fjarri þessu. Og það er sannarlega ástæða til að athuga það, hvort ekki væri vegur með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir þessar sífelldu hækkanir. Það hefur verið um sífelldar hækkanir að ræða á vísitölunni, raunar í miklu lengri tíma en meðan þessi stjórn var. Og því ber ekki að leyna náttúrlega, að hækkaðir skattar eiga geysilegan þátt í hækkun vísitölunnar. Þó að það komi ekki beint fram, kemur skattahækkunin, sem lögð er á vörurnar með innflutningsgjöldum og háum sölusköttum, fram í hækkaðri vísitölu. Þetta gerir það, að fólkið þarf meiri fjárhæðir til þess að geta komizt af og gerir auknar kröfur. Auk þess eru Íslendingar nú seinni árin kröfuhörð þjóð, og það er nú þannig með mannskepnuna, að eftir því sem meira er látið eftir henni, eftir því heimtar hún meira, og mér hefur virzt það í sumum tilfellum, að kröfurnar og heimtufrekjan gangi nú fram úr hófl. Á ég þar alls ekki sérstaklega við verkamenn eða sjómenn. Sannleikurinn er sá, að við þau skipti, sem ég hef átt við fólkið, virðist mér þeir vera jafnvel sanngjarnastir í kröfunum, sem lægst hafa launin, en þeir, sem allra hæst hafa launin, eru einna ýtnastir, þegar verið er að gera upp við þá. Þar sannast hið gamla máltæki: „mikið vill meira“.

Það er ekki sagt beinlínis í frv., að ríkisstj. ætli að gerast samningsaðili í launamálinu og þá um leið í verðlagningu landbúnaðarvara, en þó virðist mér láta nærri, að svo sé, ef ekki mega verða neinar hækkanir, án þess að ríkisstj. leyfi það. Vitanlega er þetta allt þýðingarlaust. Það er raunar tekið fram í grg.: „ef laun almennt hækka“. En ef skattar almennt standa í stað, eða eru jafnvel hækkaðir, þá leiðir a.m.k. skattahækkun um leið af sér launahækkun. Mér virðist því, að með þessu frv. sé að því látið liggja, að ríkisstj. ætli í raun og veru að gerast samningsaðili í launamálum og þar með í verðlagningu landbúnaðarvara. Ég er ekki að segja, að þetta sé neitt rangt. En ríkisstj. lýsti því hins vegar yfir 1960, þegar efnahagsráðstafanir voru gerðar, að hún ætlaði ekki að skipta sér af þessum hlutum, atvinnurekendur væru samningsaðilar, og ríkisstj. hefur reynt að skipa nefndir til að semja um öll þessi mál, einhvers konar nefndir eða ráð. M.a. var alltaf ákveðið af Alþ. og vafalaust að mestu leyti í samráði við viðkomandi ríkisstjórnir um laun opinberra starfsmanna. En nú eru það orðnir sérstakir aðilar, þeir eru orðnir samningsaðilar að sínum launum. Launin eru ekki skömmtuð eins og áður var, og þeir eru orðnir samningsaðilar, og hefur oft staðið í þrasi út af þessu, en mér virðist, að samkv. þessu hljóti ríkisstj. að ætla að verða sá samningsaðilinn, sem ræður úrslitum í öllum þessum málum. Nú má vera, að þróunin hafi undanfarið verið í þá átt. Ég tel t.d., að viðvíkjandi verði á landbúnaðarvörum hafi ríkisstj. átt mikinn þátt í því að leysa það mál s.l. haust, og ég hygg, að ekki hafi verið gerðir neinir verulegir samningar í launamálum, án þess að hún hafi lagt blessun sína yfir þá. En þarna virðist ríkisstj. vera horfin frá þeirri yfirlýsingu, sem hún gaf árið 1960.

Nú er það tvennt til, hvort réttara er, að ríkisstj. sé samningsaðili um þessa hluti eða hvort atvinnurekendur eigi að vera það og sé svo einhvers konar gerðardómur viðvíkjandi landbúnaðarvörum, sem byggist vitanlega á, að bændur hafi svipuð kjör og aðrir menn í landinu. Það er mál út af fyrir sig. En það má vera, að ríkisstj. fái með þessu frv. eitthvað meiri völd í kaupgjaldsmálum og um verðlagningu á landbúnaðarvörum, ef frv. er samþykkt, og þó dreg ég það í efa. Það hefur nú verið þannig núna, að aðstaða frystihúsanna hefur farið versnandi og sömuleiðis fiskibáta af lítilli stærð. Raunar skal ég viðurkenna það, að tíðarfarið nú í vetur hefur haft sitt að segja í þessu efni og gert erfiða aðstöðu bæði fyrir frystihúsin og bátana. En auk þess hraðversnaði aðstaða frystihúsanna á s.l. ári. Veldur þar tvennt um, og er annað, að kaup hefur hækkað allmikið eða um 12–18% sennilega, og auk þess héfur hráefni verið takmarkað, og við þetta bættist mikil hækkun á fiski um áramótin í fyrra. Ofan á þetta allt saman bættust ráðstafanir, sem gerðar voru skv. þessu júnísamkomulagi og ég taldi vera miður viturlegar, þar sem kom launaskattur og hækkað orlof, og allt þetta hefur sitt að segja. Ég held satt að segja, að í þessum launamálum sé annað tveggja, að láta atvinnurekendur og launþega semja um hlutina algerlega og ríkið sé ekkert að sletta sér inn í það með neinni löggjöf, hvorki með launaskatti né lögboðnu orlofi eða neinu slíku, eða þá að ríkisstj. semji algerlega um kaup allra launþega í landinu. Má vera, að það væri það heppilegasta, en ekki að þessu sé skipt í tvennt, þannig að ríkisstj. sé að ákveða orlof, ýmiss konar fríðindi og skattleggja atvinnutæki, sem ekki eru fær um að borga neina skatta, eins og t.d. minni bátarnir og frystihúsin, og svo komi atvinnurekendur og eigi að fara að semja við launþega um ýmis atriði þar fyrir utan. Það er bezt, að þetta sé annaðhvort þannig, að atvinnurekendur semji og þetta sé alltaf laust og bundið og það sé hægt að gera þá tilhliðranir, bæði hvernig atvinnan er framkvæmd og eins hvað borgað er fyrir hana, eða þá hreinlega að ríkisstj. sé samningsaðilinn og þá að sjálfsögðu viðvíkjandi öllum stéttum þjóðfélagsins. Það er að sjálfsögðu skynsamlegast, að það sé önnur hvor þessi leið farin.

Svo eru náttúrlega ýmsir hlutir. Það er kannske hægt að segja, að um þessi opinberu gjöld muni ekki mikið. En það er ekki hægt að leggja á fyrirtæki, sem eru rekin með halla. Það er ekki sanngjarnt að leggja á þau há opinber gjöld, eins og t.d. launaskattinn og aðstöðugjöld á taprekstur. Þetta er ekki réttlátt. Og svo geri ég ráð fyrir, að bátarnir hreinlega borgi ekki þessa hluti, hvorki aðstöðugjöld né launaskattinn, af því að þeir hreinlega geta það ekki, svo að það er eins og hver annar barnaskapur að vera að svona löguðu. Þeir geta það ekki nema fá aukna hjálp frá ríkissjóði, og þá borgar ríkið til bátanna og þeir svo aftur. Það finnst mér bara skoplegt. Ég varaði strax við þessu.

Nú er talað um, að það sé dálítil mikil lækkun á framleiðsluvörunum, lýsi, síldarmjöli og jafnvel freðfiski. Sannleikurinn er sá, að það virðist í bili a.m.k. ætla að verða minna úr þessu en verið hefur. Ég hef séð það í blöðum, að það er gert ráð fyrir því, að tonnið af lýsinu sé komið upp í 65 £. Það hefur alveg hraðhækkað, það var komið niður í 50 £. Getur skeð, að það hækki meira. Síldarmjölið hefur frekar verið að hækka aftur. Nú eru verksmiðjurnar búnar að semja við bátana um, að síldarverðið lækki um 5/17 hluta, úr 170 kr. 100 kg og í 120 kr. Vera má, að síldin sé heldur lakari núna. En þó virðist mér, að þetta ætti að vera frekar hagkvæmt fyrir síldarverksmiðjurnar, að vera búnar að koma síldarverðinu þetta niður og fá svo þessa hækkun án þess að þurfa að skila henni til bátanna.

Viðvíkjandi hraðfrystihúsunum er allt öðru máli að gegna. Það er hnútur, sem ég hygg, að ríkisstj. muni ganga dálítið erfiðlega að leysa, þegar þar að kemur. Ég ætla nú ekki að fara að spyrja hana um það, hvað hún ætli að gera í því efni, því að ég er alveg sannfærður um, að hún veit ekki enn þá, hvað hún ætlar að gera í þeim hlutum, og er ef til vill ekki ástæða til þess, því að þetta mál þarf eflaust ýtarlegrar athugunar við. En það er eitt, sem ég hef bent á áður, og það er, að þetta svokallaða hagræðingarfé, við vitum það allir þm., að það hefur ekki verið um neina hagræðingu þar að tala, það hefur verið borgað til fiskvinnslustöðvanna, svo að þær gætu borgað hærra verð fyrir fiskinn, en það hefur engin hagræðing verið framkvæmd með því. Það hefur bara verið gert á þann hátt, að þau frystihús, sem hafa bezta aðstöðuna, mest hráefnismagnið, hafa fengið þetta hér um bil alveg. Það hefur orðið þannig, að þau frystihús, sem helzt þurfa hjálpina, fá minnsta hjálpina, og það er þetta, sem ég held að ríkisstj, verði að finna einhverjar nýjar leiðir til að leysa, að þau frystihús, sem hafa haft lítið magn, hafa verið alveg í vandræðum. Sannleikurinn er sá viðvíkjandi fiskverkuninni, að þangað til s.l. ár var fiskverkunin hagkvæm fyrir þau frystihús, sem höfðu nokkurn veginn viðunandi hráefnismagn, og eins fyrir söltunarstöðvarnar, og það var allt að því ógerlegt að gera út fiskibát án þess að verka fiskinn sjálfur. Þetta gerbreyttist á síðasta ári, eins og ég kom að áðan, bæði vegna kauphækkananna, nýrra skatta, sem lagðir voru á fyrirtækin, og hækkaðs fiskverðs, þannig að ég er ekki viss um, að þeir, sem hafa saltað fiskinn á s.l. ári, hafi haft verulegan ágóða. En það var mjög mikill ágóði, á meðan fiskurinn var að hækka, því að hann hækkaði alltaf eftir á. En þessi atriði eru breytt núna. Hitt gefur svo auga leið, að við vitum, að kaupmáttur krónunnar hefur farið sílækkandi, um 10–12% á ári. Hafi gengið verið rétt skráð 1960, er áreiðanlegt, að það er ekki orðið rétt skráð núna. Það eina, sem hefur gert það mögulegt að láta ekki krónuna lækka, er það, að verð á sjávarafurðum hefur farið síhækkandi. Ef það fer að lækka, kemur auðvitað í ljós, að gengið er ekki orðið rétt. Það er um tvennt að velja: að greiða stórkostlega styrki til fiskvinnslustöðvanna eða bátanna úr ríkissjóði eða að lækka gengið og bera þannig uppi kostnaðinn, nema fara þá leið, sem bezt væri, en aldrei hefur tekizt að fara, og það er að fara lækkunarleiðina. En lækkunarleiðina er ekki hægt að fara nema lækka skattana. Ég hef ekki talað um fjárlögin núna, en ég er sannfærður um, að ef það væri tekið föstum tökum, væri hægt að stórlækka þá, en ríkisvaldið sjálft verður að ganga á undan með ráðdeild og sparsemi.

Það var nú kostur á að lækka einn lið fjárl., og ég var búinn að tala um það fyrir tveimur eða þremur árum, og það var til kennimannanna. Svo var skipuð n. í það mál. Hvað kemur út úr því? Ekki nokkur einasta lækkun, ekki ein króna, bara búinn til nýr sjóður, ef það á einhver hagræðing að fara fram, og prestunum á svo að halda áfram að fjölga í þéttbýli, en ef um einhvern sparnað er að ræða í dreifbýlinu, er myndaður einhver sérstakur sjóður. Þetta er nefnilega stefnan. Það má aldrei spara, aldrei sýna ráðdeild eða hagsýni í nokkrum sköpuðum hlut. Það á alltaf að hækka og hækka, og hækkunin hefur orðið svo ör, að þetta eru um 20% á ári. Segjum, að fólki fjölgi, og segjum, að þjóðartekjurnar hafi farið vaxandi, þannig að gjaldþolið hafi aukizt. En þetta getur ekki endalaust gengið. Og þó að gott árferði sé, megum við ekki alveg sleppa öllum hömlum af allri ráðdeild og allri sparsemi.

Ég er alveg sannfærður um, að það mætti taka flestalla liði fjárl. og spara: Það mætti víða fækka opinberum starfsmönnum. En það verður náttúrlega að hugsa jafnframt um, að vinnutilhögunin sé gerð eitthvað skynsamleg og að þessir menn verði að vinna, þeir mega ekki vera að dunda í vinnutímanum. En annaðhvort verður að gera, að reka þjóðarbúið af meiri ráðdeild og hagsýni en gert hefur verið eða það mun leiða til þess, að það verði fyrr eða síðar að lækka gengi krónunnar enn þá.

Hvers vegna er ríkisstj. að koma með þetta frv.? Ég er sannfærður um, að með þeirri aðferð, sem hún hefur þegar tekið upp, að greiða niður hækkandi kostnaðarliði, hún er þegar jafnvel farin að lækka vísitöluna með niðurgreiðslum, það er farið að greiða niður saltfisk, þá væru miklar líkur til að henni takist að halda vísitölunni óbreyttri án nokkurra lagaheimilda. Hún hefur aðgang að Seðlabankanum. Það er ekki líklegt, að fólk geri mjög miklar kaupkröfur fram yfir kosningar. Í fyrsta lagi er aldrei hægt að segja um, hvernig vinnudeilur snúast, hvort það verður til pólitísks hagnaðar eða óhagræðis fyrir þá aðila, sem þær hefja. Það er aldrei hægt að fullyrða neitt um það. Fólkið í landinu fylgist náttúrlega með verðlagi. Það veit, að eins og stendur eru ekki miklar líkur til þess, að það fáist fram miklar kauphækkanir, þannig að ég geri ekki ráð fyrir, að fram yfir kosningar verði gerðar miklar kaupkröfur. Það hefur ekki mikið breytzt verð á útlendum vörum, og með svipaðri stefnu og ríkisstj. hefur haft, með því að greiða niður hækkanir, og það getur hún visst tímabil, af því að hún ræður yfir Seðlabankanum, getur hún haldið því gangandi, álít ég, að það mundi takast fram yfir kosningar, þó að engin lög væru samþykkt. En hvers vegna kemur ríkisstj. með þetta? Hefur hún sjálf trú á því, að þetta muni hafa mikil áhrif? Ég held, að þetta sé eiginlega leiksýning hjá ríkisstj., sem sé sett fram á mjög hagkvæmum tíma, því að það eru ekki miklar líkur fyrir því, að farið verði fram á miklar kauphækkanir, a.m.k. ekki fram yfir kosningar, hvað sem síðar verður, og það er þess vegna ekki líklegt, að mikil breyting verði á vöruverði. En þegar komið er með svona frv., gæti þetta verkað sem dálítill áróður í kosningum. Og mér finnst það ekki nema skynsamlegt og eðlilegt, ef ríkisstj. álítur það, að hún komi með það. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til, að við séum að beita okkur, hvorki með né móti. Ég lít á þetta sem leiksýningu, klóklega framsetta og skynsamlega. Jafnvel þó að mér sé alveg ljóst, að þetta getur ekki haft nein úrslitaáhrif á verðbólguna í framtíðinni, finnst mér ekki vera nema eðlilegt og skynsamlegt af ríkisstj. vegna kosninganna að setja þetta svona fram. Aftur var það mjög klaufalegt hjá ríkisstj. fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, — og ef hún hefði spurt mig ráða, hefði ég ráðið henni frá því, en hún gerir það því miður allt of sjaldan, — þegar hún fór að taka niðurgreiðslur af smjörlíki og fiski rétt fyrir kosningarnar, láta þetta snarhækka, húsmæðurnar öskuvondar. Það var náttúrlega miklu klóklegra að draga þetta þangað til eftir bæjarstjórnarkosningar og enn vitlausara að taka þessar niðurgreiðslur af fyrir kosningarnar og vera svo búinn að taka þær aftur upp eftir kosningarnar að einhverju leyti, enda satt að segja var ég ríkisstj. sammála um, að það er eiginlega dálítið vitlaust að vera að greiða niður smjörlíki, og fiskinn tel ég líka rangt að greiða niður. Hins vegar er álagning í smásölu hjá verzlununum alveg óhófleg í mörgum tilfellum á fiski, þannig að hún nær engri átt, og þar ætti ríkisstj. sannarlega að taka í taumana, því að þetta er selt fyrir tvöfalt, þrefalt verð miðað við það; sem fiskimaðurinn fær, þegar fiskurinn kemur upp úr sjónum, bara í milliliðakostnað, og jafnvel meira í sumum tilfellum.

Ég hef sannarlega ekki á móti því, að það sé hert á verðlagseftirlitinu, bara að ríkisstj. geri það. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem korna frá öðrum löndum, hafa sagt mér dæmi um það, að það er til svo margfalt verð hér á vissum hlutum, að jafnvel þó að innflutningsgjöldin séu svona há og söluskatturinn bætist ofan á og há álagning, af því að kaupið ef hátt hér á Íslandi og allir menn þurfa mikið til að, lifa af, dýrtíðin er mikil, finnst mér alveg óeðlilega hátt verð á ýmsum hlutum, og það væri sannarlega ástæða til þess, að ríkisstj. tæki vel á slíkum hlutum og eins að koma í veg fyrir alls konar svindl viðvíkjandi innflutningi, ef það væri mögulegt.

Við vitum, að það liggur orð á því, að það séu rangar faktúrur, sem koma, að Íslendingar fljúgi út og kaupi, íslenzku konurnar, og kaupi mikið af vörum erlendis og flytji þetta inn, tollfrítt vafalaust. Ég hélt, að það væri nú farið að líta betur eftir þessu en gert hafði verið. Það er ákaflega æskilegt, ef hægt er að taka fyrir slíkt. Ég er ekki að efa, að ríkisstj. er í hjarta sínu á móti öllu slíku. Ég veit, að það er ákaflega erfitt að koma í veg fyrir þetta, en það væri vafalaust æskilegt, að það væri reynt meira en gert hefur verið. En allt þetta gæti ríkisstj. gert án þessara laga.

Afstaða mín til þessa frv. er því sú, að ég tek þetta eins og smárevíu fyrir kosningar. Það gleður mig, ef ríkisstj. tekst að stöðva verðbólguna, satt að segja er hún búin að sprengja utan af sér fötin. Ég átti tal um þetta við Jónas Haralz. Hann sagði, að verðbólgan væri í sjálfu sér runnin út í sandinn. Ég sagði svana við hann: Ja, hún er búin að sprengja utan af sér fötin, segi ég. Hann eiginlega samsinnti því. Það er nefnilega ekki skilyrði til þess, að verðbólgan geti aukizt hratt, ef lækkandi verð er á vörum og stórminnkandi atvinna, eins og hefur verið núna, viðvíkjandi t. d, vinnunni í frystihúsunum. Og það leiðir af sjálfu sér, að þá fer að draga úr byggingarvinnu og öðru slíku. En ríkisstj. er náttúrlega alveg sjálfráð að því.

Það er engin ástæða til þess fyrir okkur að vera að deila um þetta frv. Ég satt að segja held ekki, að það geti orðið neitt til ills, en ef til vili verður það eitthvað til hagsbóta fyrir ríkisstj. í kosningunum, og þá er ekki nema mannlegt og eðlilegt, að hún leggi slíkt frv. fram. Ég er ekkert að lá henni það. Við mundum vafalaust gera það líka, ef því væri að skipta. En ef það er nóg bara að leggja fram frv. um verðstöðvun til þess að stöðva verðbólgu, er það náttúrlega alveg dæmalaust, að ríkisstj. skuli ekki vera búin að gera þetta fyrir lifandi löngu. Og ef íslenzku ríkisstj. tekst þetta, það sé nóg að leggja fram frv. um verðstöðvun og ríkisstj. ein hafi úrslitavald, skulum við segja, í verðlagsmálum, hvort sem það er heldur á landbúnaðárvörum, erlendum vörum eða jafnvel jaðrar við, að það eigi að vera í launamálum líka, þó að það sé ekki skýrt fram tekið, ekki ákveðið, er það náttúrlega ákaflega auðvelt, og þá gætu aðrar þjóðir farið að læra af okkur, við gætum farið að miðla þeim af vizku. Þá væri hægt að ráða við þennan erfiðasta hlut í efnahagslífinu fyrir þjóðir. Einmitt þar sem vel gengur, þar vill alltaf aukast verðbólgan. Þá gætum við kennt þeim aðferð, þessum stórþjóðum, hvernig ætti að fara að, bara með einu pennastriki að stöðva þetta allt saman, bara frv. um það, að verðbólga væri hér með stöðvuð. Og ef ríkisstj. tekst þetta til langframa með svona einföldum hætti, er ég sannarlega ekki að vilja vera á móti slíku. Ég hef alltaf óskað, að þessari ríkisstj. gengi vel, og ekki vinnur þjóðin við það, að allt gangi öfugt og illa, og ég vona, að þetta verði að einhverju gagni. En ég hef litla trú á því. Ég sé ekki ástæðu til að beita mér neitt á móti þessu frv. eða greiða atkv. á móti því, en ég hef ekki trú á því, að það komi að raunhæfum notum til langframa, þó að ég viti það, að ríkisstj. muni geta haldið vísitölunni nokkurn veginn óbreyttri með aðstoð Seðlabankans fram yfir næstu kosningar, ég efast ekkert um það. En það mundi hún geta án þessara l. Af þeim ástæðum, sem ég hef þegar tekið fram, læt ég þetta frv. afskiptalaust.