12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er með verðbólguna eins og syndina, flestir kvarta undan henni, en nærri því enginn gerir nokkuð á móti henni. Ástæða er til að ætla, að flestum vegni sæmilega vel í sambúð við hana. Öllum þykir minni verðbólga en er vera til góðs, en enginn vill eða getur borgað það, sem kosta mundi að draga úr henni, af því að menn grunar, að hinir séu ekki fúsir til að gera það af sinni hálfu. Af því leiðir breytingar á samningum, sem ákafir bardaga menn gegn verðbólgunni standa fyrir, menn, sem ýta fyrst undir kostnaðarverðbólguna og búast síðan skjaldbrynju móti tilfinnanlegum aðgerðum af hálfu ríkis og stjórnmálamanna. Afleiðing af öllu þessu er sú, að sjaldan er gripið til verulega áhrifamikilla ráða gegn verðbólgu, nema mjög mikil efnahagsvandamál blasi við, eins og gjaldeyrisskorturinn nú í Englandi, eða vegna þess að erfitt er að selja framleiðsluvöru erlendis, af því að hún er orðin of dýr í samkeppni við aðra vöru.“

Þetta, sem ég hef nú sagt, gætum við Íslendingar sennilega vel tekið undir allir, ef við vildum segja okkar hug eins og hann er, en þetta er ritað af sænskum fræðimanni og er birt í síðasta hefti af „Nordisk kontakt“ og lýsir ástandinu í Svíþjóð, að því er þarna er sagt. Nú vitum við, að verðbólgan þar er tiltölulega minni, ég skal ekki fara út í að rekja orsakir þess, en hér er um vandamál að ræða, sem með ýmsum hætti þjáir nú ýmsar eða flestar þjóðir, þar sem frjálsræði ríkir, og erfitt hefur reynzt að finna fullnægjandi lausn á.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða það, sem hv. þm. Framsfl., samþm. úr Norðurlandskjördæmi vestra, sögðu. Þeir ímynduðu sér, að þeir væru hér í revíu, og léku sin hlutverk alveg prýðilega og voru eins og trúðar báðir tveir og ættu skilið orðu fyrir, a.m.k. annar. En látum það eiga sig.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði mikið úr því, að stjórnin ætlaði að reisa sér hurðarás um öxl með því að leggja ætti undir hennar ákvörðun samþykki á verðhækkunum. Hann þarf nú ekki annað en halla sér að sínum sessunaut, hv. 5. þm. Austf., og fá hjá honum upplýsingar um það, að sams konar ákvæði var í lögum frá því seint í ágúst 1956 til áramóta það ár, án þess að sú stjórn, sem þá sat að völdum, yrði fyrir þær sakir óstarfhæf. Hún vann ákaflega mörg verk á þessum haustmánuðum. Það kann að vera, að ég vildi, að hún hefði haft öðru að sinna en að vinna sum þau verk, það er annað mál, en það er alveg víst, að þetta ákvæði varð ekki til að torvelda henni störfin. Það ákvæði, sem hv. þm. gerði sem sagt mest gabb að, það var tekið úr brbl., sem vinstri stjórnin setti hinn 28. ágúst 1956. Það má efast um, hver nauðsyn sé á slíku ákvæði, vegna þess að segja má, að ríkisstj. hafi þetta nokkuð hvort eð er í sinni hendi. En þar sem hér er um nokkra ólíka aðila að ræða og eðlilegt, að þess sé gætt, að samræmi sé á milli, og til frekari áherzlu þess, að engar óþarfar verðhækkanir séu samþykktar, þótti rétt að taka þetta ákvæði skýrt fram. Þetta var hið eina efnisatriði, sem kom fram hjá þessum hv. þm.

Ég gerði þó nokkurn mun á milli, vegna þess að hv. 5. þm. Norðurl. v. sagðist þó ekki ætla að taka þátt í atkvgr., að því er mér skildist, en hans virðulegi samþm. sagðist einmitt ætla að greiða atkv. með málinu af því, að hann taldi það svo fráleitt! Ég þarf ekki frekar að eiga orðaskipti við slíka herra.

Það var mjög ólíkt, sannast að segja, að hlusta á hv. þm. Alþb. tala um þetta mál. Þeir töluðu báðir um það efnislega. Ég var þeim ekki sammála um margt, sem þeir sögðu, en það er vitanlegt, að þeir höfðu velt málinu fyrir sér, þeim vanda, sem þar er við að etja, og komu fram með aths., sem vissulega eru íhugunarverðar.

Þeir telja það höfuðgalla á þessu frv., að hér sé ekki um varanlegt verðlagseftirlit að ræða, og þeirra brtt. snúast fyrst og fremst um það að koma slíku varanlegu verðlagseftirliti á. Það er ekki tilgangur þessa frv. að efna til slíks varanlegs verðlagseftirlits, einmitt vegna þess, að við margir í stjórninni höfum ekki trú á því, að varanlegt verðlagseftirlit eða verðlagsreglur komi að gagni, þó að við teljum hins vegar, að fyrirmæli um verðstöðvun og þar af leiðandi strangt verðlagseftirlit um ákveðinn tíma geti haft mikil áhrif.

Nú er auðvitað enginn vandi að segja, að við, sem búum við fullt frjálsræði, séum okkur ósamræmir í þessu. Vitanlega er hægt að benda á ýmislegt, sem við höfum sagt á síðustu 7 árum, sem sé ekki í fullu samræmi við það, sem við nú höldum fram eða ráðgerum. Slíkt er í raun og veru ákaflega eðlilegt. Núverandi ríkisstj. hefur setið lengur en nokkur ríkisstj. önnur. Hingað til var það venja, að ríkisstjórnir fóru frá að meðaltali eftir rösklega 2 ár eða í mesta lagi 21/2 ár, vegna þess að þær gátu ekki lengur haldizt við völd, m.a. af stórkostlegum sveiflum, sem höfðu orðið í atvinnulífi, atvinnumálum, þannig að gera þurfti róttækar ráðstafanir, allt annars eðlis en menn höfðu gert sér grein fyrir 2–3 árum áður að þyrfti að gera. Íslenzkt atvinnulíf er nú einu sinni þess eðlis, kannske frekar en flestra annarra þjóða, að það er mjög erfitt að sjá langt fram í tímann, og á ólíkum tímum verður að beita ólíkum ráðum. Ekkert sýnir í raun og veru betur, hversu það er fráleitt að ætla að binda sig við einhverja alveg tiltekna fyrir fram ákveðna lausn á vandamálum og segja: Þessu ætla ég að fylgja, hvað sem á dynur, heldur en þetta, sem hér hefur réttilega verið bent á, að fyrir 2 vikum tæplega stóðum við hér á Alþ. og reiknuðum með, að síldarlýsi væri komið niður í 50 pund. Það var von á því, að það mundi e.t.v. staðfestast þar, fara ekki neðar. Þeir, sem bjartsýnastir voru, sögðu, að það væri að þokast upp á við. Nú er það komið upp í 65 pund. Það veit enginn í dag, hvort það verður þar deginum lengur, hvort það hækkar eitthvað enn eða hrynur aftur. Þar sem við slíka óvissu er að eiga í atvinnulífi og í þeirri atvinnugrein, sem mestar tekjur veitir, þá er það ljóst, að ekki tjáir að ætla að binda sig fast við einhver alveg tiltekin úrræði, heldur verður að líta á hvert vandamál, þegar þar að kemur, og leysa þá úr því með þeim ráðum, sem tiltæk eru að beztu manna yfirsýn.

Það er nú orðið fyrir löngu ljóst, að hvort heldur algert afskiptaleysi ríkisins, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. virtist gera sig talsmann fyrir, eða fullkomin ríkisafskipti og forsjá, á hvorugt við. Þarna verður að fara millileiðir, og það verður að taka ákvörðun um það eftir atvikum hverju sinni, hvora leiðina hyggilegt sé að fara.

Nú er á það bent, og sagt: Með þessu frv. er ekki allur vandi leystur. Það er fyrirsjáanlegt, að mikil óvissa er um útgerð bátaflotans, jafnvel togara, og rekstur hraðfrystihúsa á næsta ári. — Ég get fyllilega tekið undir þetta. En ég tek líka fyllilega undir það, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að ef hraðfrystihúsin geta verið sæmilega örugg um að fá efnivöru, þá sé vandi þeirra trúlega miklu minni en ýmsir vilja nú vera láta, að það sé fyrst og fremst um það að ræða, hvernig eigi að afla efnivöru til þessa mikilsverða iðnaðar. Enn fremur er ljóst, að það eru ekki enn þá fullnægjandi skýrslur til um afkomu hraðfrystihúsanna, hvorki 1965 né 1966, þær hafa a.m.k. ekki verið lagðar fyrir ríkisstj., þó að ég hafi heyrt fullyrt, að fram hafi komið, að a.m.k. fram á mitt þetta ár hafi afkoman verið sæmileg. Hvaða áhrif verðlækkunin hefur, er ekki ljóst enn þá, m.a. vegna þess að við vitum ekki, hversu verðlækkunin er mikil. Einmitt þetta dæmi um síldarlýsið, þótt þar sé í eðli sínu um óvissari vörutegund að ræða samkv. fenginni reynslu, sýnir, að það er bezt fyrir okkur að láta allar fullyrðingar um þessi efni eiga sig, þangað til það liggur ljósar fyrir en a.m.k. enn er. Nú er ráðgert, að viðtöl hefjist á milli fulltrúa hraðfrystihúsanna og fulltrúa ríkisstj. Slík viðtöl hafa oft átt sér stað áður. Ég vil ekki né get á þessu stigi sagt, hver niðurstaða þeirra verður. Það verður að skoða málið í heild. Ef það kemur til þess, að eitthvað þurfi að gera, sem ríkisstj. telur sig ekki hafa heimild eða getu til, meðan á þinghléi stendur, þá verður ríkisstj. að afla sér heimilda til þeirra aðgerða, sem hún þá að athuguðu máli telur þörf á. Eins og málin liggja fyrir í dag, höfum við talið, að það væri forsenda þess, að þessum málum yrði heillavænlega til lykta ráðið, að þetta frv. yrði samþ. og þær heimildir notaðar, sem í frv. eru ráðgerðar. Ég legg áherzlu á það.

Auðvitað er ljóst, að ef það kemur á daginn, eins og hv. 5. þm. Vestf. sagði, að vandinn sé eitthvað í líkingu við þær tölur, sem hann nefndi, þá dugir ekki slíkt frv. eins og þetta, þá verður að gera miklu róttækari ráðstafanir. En ég spyr hv. þm., eins og hann spyr mig: Trúir hann því sjálfur, að vandinn sé svo mikill? Skyldi það ekki vera með þessa góðu menn eins og suma aðra, að þeir telja, að ef ég kvarta ekki sjálfur, þá hlustar enginn á mig, ef ég kvarta ekki nógu mikið, þá er ekkert mark á mér tekið? Mér heyrðist það a.m.k. á 5. þm. Austf., að hann teldi vandann miklu minni. Þetta er mál, sem á eftir að kanna ofan í kjölinn, og ég gerði fyllilega grein fyrir því í minni framsöguræðu hér á dögunum, að þarna væru ekki öll kurl komin til grafar og málið allt þyrfti að skoðast, þegar gögn öll lægju fyrir. Ég gerði líka þá fyllilega grein fyrir því, að það væri ekki verðfallið á síldarvörunum, sem gerði þetta frv. nauðsynlegt, vegna þess að magnið af síldinni, sem hefði veiðzt, bætti vonandi upp verðfallið, heldur væri ástand hraðfrystihúsanna og þeirra, sem legðu stund á þorskveiðar, hið alvarlega í þessu. Þetta er aðalatriði málsins, sem við skulum ekki vera að fara fram hjá. Þar kemur auðvitað til verðlagið erlendis, sem við vitum enn ekki nóg um, þar kemur aflamagnið, þar kemur kostnaðurinn innanlands.

Þá komum við að því, hvernig stendur á þessari kostnaðarhækkun, sem orðið hefur. Ég vitna til minna inngangsorða um það, að þar þykjast allir, hver um sig, vera saklausir. Ég nenni ekki enn þá einu sinni að fara að berja þá bumbu.

Ég tek undir margt af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um aðdraganda júnísamkomulagsins, en ég vil hins vegar fullyrða, að ég hef aldrei né ríkisstj. í heild lofað því, að það samkomulag mundi leiða til algjörrar verðstöðvunar. Ég er mér þess ekki meðvitandi, að það hafi í einu eða neinu brugðizt, sem þá var sagt af hálfu ríkisstj. Ég þori hins vegar að fullyrða án þess að vera að ásaka neinn, nokkurn mann, út af þeim sökum nú, — það er nógur tími til þess að rífast um það við önnur tækifæri, — að meiri hækkanir urðu á kaupgjaldi 1964 en menn höfðu gert sér grein fyrir í upphafi. Einkanlega átti það við um samningana 1965, og þess vegna fengu ekki staðizt ráðagerðir þá um, að hægt væri að halda slíkum hækkunum utan við áhrif á verðlag. Þær fengu ekki staðizt þegar af því, að hinar raunverulegu kauphækkanir urðu meiri en lá í augum uppi og í fyrstu var frá skýrt. Það átti raunar einnig við um samkomulagið 1964. Þetta breytir hins vegar ekki því, að hvorir tveggja þessir samningar eru í öðrum anda og hafa reynzt verkalýðnum og einnig atvinnurekendum miklu heillaríkari en aðrir samningar, sem hér hafa verið gerðir um langt árabil, vegna þess að þeir, þrátt fyrir þá galla, sem á voru, voru þó í nokkru samræmi við veruleikann og getuna til þess að standa undir því, sem þá var um samið. Slíkt er óumdeilanlegt.

Það er svo aftur hægt að benda á, að síðan hafa orðið verðhækkanir. Hv. 5. þm. Norðurl. v. brá sér úr revíuhlutverkinu og las upp úr Hagtíðindum skýrslu um það, af hverju þær verðhækkanir hefðu orðið. Í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs í sumar var einnig gerð tilraun til að skýra þetta. Ég hef áður rætt um það hér á Alþ. og vikið að þeim orsökum, sem þar eru taldar. Auðvitað á hækkun á erlendu vöruverði og álagning kaupmanna nokkurn þátt þar í, en eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, er sú hækkun sáralítil. Ef sú skýrsla er röng, þá verður að sýna fram á, að hún sé röng, en ekki tala eins og sú hækkun sé höfuðorsök, þar sem hún er ekki höfuðorsök.

Ég vil segja við hv. 3. þm. Reykv., sem hélt um þetta ræðu við 1. umr. þessa máls, að verðsamanburður hans á einstökum vörum hjá KRON og kaupmönnum er í raun og veru alveg út í bláinn þegar af því, að hann gerði enga grein fyrir því, að þar væri um sambærilega vöru að ræða. Það verður auðvitað að vera sama vörutegund, sem borin er saman, ef fullyrða á, að annar aðili selji lægra en hinn. Ég hef með höndum lista, — ég skal ekki fara að lesa hann hér upp, — sem sýnir alveg hið gagnstæða við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði. Munurinn er bara sá, að þar er örugglega gengið úr skugga um það, að sambærileg vara, það er sami hluturinn í sömu umbúðum, er seld mun ódýrar hjá kaupmönnunum en hjá KRON. En slíkt hlýtur auðvitað ætíð að verða, ef um einhverja samkeppni er að ræða, að einn hlutur er ódýrari í annarri búð og hinn í hinni. Þótt það væri nú ekki margt skynsamlegt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði að þessu sinni, aldrei þessu vant, rataðist honum þó satt á munn með það, að það er höfuðgalli, að neytendur skuli ekki sjálfir ganga úr skugga um það, hvar er ódýrustu vöruna að finna. Það er auðvitað einn höfuðágalli við varanlegt verðlagseftirlit, að almenningur er vaninn af slíkum ráðstöfunum. Það skiptir hins vegar ekki sama máli um slíka skyndiráðstöfun, gerða af sérstöku tilefni, eins og þá löggjöf, sem hér er um að ræða.

Ég beini því bæði til hv. 5. þm. Vestf. og annarra, sem af alvöru vilja hugsa um þessi mál: kynnið ykkur, við skulum kynna okkur í sameiningu og þingheimur þarf að kynna sér, af hverju þær verðhækkanir eru orðnar, sem t.d. hafa verið frá 1964. Það er ekki lengri tími en svo, að þar á að vera hægt að fá alveg skorið úr án þess að þurfa alltaf að vera að deila og kenna hver öðrum um, bara gera sér grein fyrir, af hverju þetta kemur.

Hv. þm. hafði rangt fyrir sér, þegar hann segir: Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. nú hefur gert til að greiða niður verðlag, skerða ekki verðbólguna sjálfa. Eitthvað í þá átt sagði hann. Þetta má segja á fyrsta stigi, en ef ráðstafanir verða til þess, — þ.e. ef þær blessast, — að verðhækkanir, t.d. á landbúnaðarvörum, verða miklu minni næsta ár en ella og ef til vill engar og ef hægt er að gera þetta án þess að bæta á nýjum sköttum, þá er þarna að svo miklu leyti um áhrifaríkt og raunhæft ráð gegn verðbólgunni að ræða. Gegn þessu tjáir ekki að mæla.

Hitt er svo alveg rétt, bæði hjá hv. þm. og eins hjá Alþýðusambandinu í þess ályktun, og ég vil taka það fram, að ég hef ekki enn þá getað athugað bréf þess rækilega, það barst mér fyrst í morgun, enda ekki dagsett fyrr en á laugardag, — en það er auðvitað rétt, að það eitt að borga vísitöluna niður nægir ekki. Ríkisstj. hefði auðvitað getað haldið vísitölunni einni niðri með niðurgreiðslunum. En við látum okkur það ekki nægja, vegna þess að við viðurkennum þá aths. og ábendingu verkalýðshreyfingarinnar, sem m.a. kom glögglega fram í viðtölum við fulltrúa verkalýðssambandsins, að það er ekki nóg, þótt vísitölunni sé haldið niðri með niðurgreiðslum, það verður líka að standa á móti því, að aðrar vörur hækki. Einmitt til þess öflum við okkur þessarar heimildar til þess að standa á móti því, til þess að koma þannig í veg fyrir, að verðlagið í landinu raunverulega hækki.

Hv. 5. þm. Vestf. segir síðan: Það eru allt of mörg göt í þessari löggjöf. Það eru hinar og þessar undanþágur. — Nú vil ég taka það fram, eins og ég sagði við 1. umr., að við óskum eftir þessari heimild til þess að beita henni. Og í þessu á ekki að felast kaupbinding, eins og hv. þm. réttilega tók fram. En mér var sagt, að hann hefði bætt við, á meðan ég fór fram, að ef kaupið valsaði algerlega lausbeizlað, þýddi ekkert að vera að tala um að standa á móti verðbólgu. Er það ekki rétt hermt? (Gripið fram í: Jú.) Já, þannig að þarna er auðsætt samhengi á milli. Og þess vegna verðum við að hafa þetta sem heimild, af því að við erum ekki að fara fram á lögfestingu á kaupi, af því að við viljum semja frjálst við verkalýðshreyfinguna og jafnvel viljum við segja við verkalýðshreyfinguna, þó að við óskum eftir samningum til sem lengst tíma: Setjið þá fyrirvara, sem þið teljið nauðsynlega til þess að gæta hagsmuna ykkar umbjóðenda. Takið okkur ekki trúanlega fyrr en jafnóðum, eftir því sem verkin sýna, að við meinum það, sem við erum að segja.

Þetta er efni þess frv., sem við hér leggjum fram, það, sem ég hef áður sagt, og það, sem er í okkar huga. En jafnvel þegar kaupið var bundið og landbúnaðarvörurnar voru algerlega bundnar, eins og í þessum lögum, sem ég vitnaði til frá 1956, voru sams konar undanþáguheimildir og nú eru. Þá voru sams konar undanþáguheimildir og nú, vegna þess að jafnvel þó að innlent kaupgjald sé bundið, jafnvel þó að innlend landbúnaðarvara sé bundin, geta erlendar verðhækkanir gert óumflýjanlegt, að hækkanir eigi sér stað. Ríkisstj. sagði þá: Innflutningsskrifstofan getur veitt undanþágur frá þessu bandi. En hún verður að fá til þess samþykki ríkisstj. Í 5. gr. brbl. frá 28. ágúst 1956 segir: „Innflutningsskrifstofan getur veitt undanþágur frá banni því, sem um ræðir í 1. mgr. 4. gr., ef hún telur verðhækkun algerlega óhjákvæmilega, enda sé hún samþykkt af ríkisstj.“ Það er rétt, að ætlazt er til, að það verði sleppt þarna úr „algerlega óhjákvæmilega“. Ég skal játa það, að ég réð því, að þessu var sleppt, vegna þess að annaðhvort er hluturinn óhjákvæmilegur eða ekki. Það er bara hreinn hortittur að segja, að hann sé „algerlega“ óhjákvæmilegur. Annaðhvort er eða er ekki, þarna er ekki þriðji möguleiki til. Efnið er þarna sama, við höfum farið eftir því fordæmi, sem við fundum strangast í fyrri löggjöf, bætum því svo við, að við tökum fleiri þjónustu undir en í þeirri löggjöf var, miklu fleiri þjónustu, þ. á m. sveitarfélögin og ýmiss konar ríkisaðila, sem hafa getað tekið sínar ákvarðanir meira og minna sjálfstætt. Meðal þess, sem þarna er ætlað að ná til, er húsaleiga og sala á íbúðum, eftir því sem hægt er að staðreyna slíkt. Við töldum, að það kæmist undir 2. mgr. 1. gr., eins og hún er, en til frekara öryggis bar ég mig saman við ágæta lögfræðinga, og í samráði við þá hef ég flutt brtt., sem er búið að útbýta, — er það ekki?

Nú, já, til þess, að þar sé ekki um að villast, að það mál nái m.a. til þess, sem hér er um að ræða, og vonast ég til þess, að það valdi ekki ágreiningi. Hitt er annað mál, að við höfum mjög takmarkaða trú á því að setja upp sérstakt bákn til þess að eltast við húsaleigu og annað slíkt. Við teljum, að reynslan hafi, til góðs eða ills, skorið úr um það, að hin ýtarlega húsaleigulöggjöf, sem hér gilti áður fyrr, var því miður nafnið eitt og leigjendum alls ekki það skjól, sem hún átti að vera, heldur uppspretta margs konar lögbrota og spillingar. En ætlun okkar er að reyna með þessu að hafa þarna hemil á og gera þær ráðstafanir, sem tiltækar eru, í þessu skyni. Ég hef hins vegar miklu meiri trú á því, sem hv. 5. þm. Vestf. er einn af upphafsmönnunum að, og það er að fá fleiri aðila til að keppa hér um húsbyggingar, reyna að koma þessu í nýtt horf með þeirri ráðstöfun, sem nú er að þokast af stað, að ríkið eða húsnæðismálastofnunin beiti sér fyrir byggingum. Ég skal játa, að það er ú þessu sá galli, að ég hef takmarkaða trú á því, að ríkinu takist að gera hluti ódýrari en einstaklingum. En með nýjum aðferðum, með góðvild og skilningi verkalýðsfélaganna, með vakandi vissu um, að hér þarf að verða stórleg umbót á, taldi ég sjálfsagt að gera þá tilraun. Og ég vil ekki, fyrr en reynslan sker úr, trúa því, að hún verði ekki til góðs.

Þá spurði hv. 5. þm. Vestf. mig að því í fyrsta lagi, hvort það væri ætlunin að leita eftir nýjum sköttum til þess að standa undir þeim niðurgreiðslum, sem nú hafa verið ákveðnar. Ég þori að fullyrða, að sú er ekki ætlunin. Og ég þori að fullyrða gagnstætt því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að fjárlög eru þannig úr garði gerð, að það rúmast innan þeirra ásamt öðru því fé, sem ríkisstj. nú með eðlilegum hætti hefur yfir að ráða, möguleikinn til þess að greiða árið 1967 þær niðurgreiðslur, sem nú þegar hafa verið ákveðnar í því skyni. Hitt kann svo að vera, og þar hef ég fullan fyrirvara um, ef málið með bátaflotann, með hraðfrystihúsin, togarana verður slíkt, að það krefjist mikilla fjárfórna úr ríkissjóði, þá verði að skoða þetta mál aftur og athuga þá, til hvaða úrræða grípa skuli, vitanlega með það í huga að gera ekki neitt, sem eyðileggi þá viðleitni, sem hér er höfð uppi til þess að ráða við það vandamál, sem við nú erum sammála um, a.m.k. í orði kveðnu, að leysa þurfi.

Loks vil ég gefa þá afdráttarlausu yfirlýsingu út af síðustu fsp. hv. 5. þm. Vestf., að núv. ríkisstj. kemur ekki til hugar að fella gengið. Það er að vísu rétt, að þannig getur staðið á í þjóðfélagi, að það sé nauðsynlegt að fella gengi, eins og dæmin sýna bæði hér og annars staðar. Og það væri auðvitað alger fásinna, ef ég ætlaði að segja, að aldrei kæmi til mála að fella gengi á Íslandi. Slíkt mun ég ekki segja, einfaldlega af því, að ég ræð því ekki, og það mundi enginn maður trúa mér. Hitt segi ég, og við það skal ég standa, að ég skal aldrei verða með gengislækkun framar, nema því aðeins að ráðstafanir verði gerðar til þess, að þeir, sem ætla sér að knýja fram gengislækkun til þess að græða á henni sjálfir, fái að borga sinn brúsa fyllilega.