12.12.1966
Neðri deild: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það voru nokkur orð, sem ég vildi segja í tilefni af ræðu hæstv. forsrh., en hann vék hér að nokkru af því, sem ég hafði sagt fyrr í þessum umr., og reyndar ýmsum fleiri atriðum, sem gefa tilefni til þess, að um þau sé rætt nokkuð frekar.

Ég veitti því athygli, að hæstv. forsrh. sagði: Við viljum semja við verkalýðshreyfinguna um þessi mál, og ég skildi hann þannig, að hann vildi leggja nokkuð þunga áherzlu á það einmitt, að það væri meining ríkisstj., að hún vildi hafa samkomulag við launastéttirnar varðandi þessi þýðingarmiklu efnahagsmál, sem hér er um að ræða. Ég þykist líka vita, að hann hafi veitt því athygli, að hv. 5. þm. Vestf., sem jafnframt er forseti Alþýðusambands Íslands, sagði í sinni ræðu í kvöld, að hann teldi að afstaða verkalýðshreyfingarinnar mundi mjög fara eftir því, hvort hún teldi sig geta treyst á framkvæmd þessarar verðstöðvunar og hvort hún teldi, að snúizt væri gegn dýrtíðarvandamálinu af fullum heilindum. Ég efast nú ekkert um það, að hæstv. ríkisstj. hlýtur í rauninni að líta svo á, að það sé þýðingarmikið fyrir hana að ná samstöðu við launþegasamtökin í landinu varðandi þessi þýðingarmiklu mál. Það er nokkurn veginn gefinn hlutur. En þá vaknar sú spurning í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram: Hvað vill þá ríkisstj. á sig leggja í þessum efnum? Hvað vill hún gera?

Hér hefur verið á það bent af mér og einnig af hv. 5. þm. Vestf., að við teldum, að þetta frv. væri allt of laust í reipunum og það gæfi of litlar tryggingar fyrir því, að staðið yrði eðlilega að verðstöðvun í landinu eða ráðstöfunum yfirleitt í verðlagsmálum. Og við höfum bent á nokkur atriði, sem við teldum, að færu miklu betur til þess einmitt að tryggja örugga framkvæmd. Ríkisstj. heldur sig við í frv. að hafa hér aðeins heimildir til verðstöðvunar, eftir því sem stjórninni þykir við horfa hverju sinni: En ef ríkisstj. ætlar í raun og veru að nota þessar heimildir, eins og hæstv. ráðh. hefur sagt hér, hvers vegna þá ekki að ákveða það skýrt og ákveðið í l., að um verðstöðvun skuli vera að ræða? Ég veit, að hæstv. forsrh. skilur, að það er allmikill munur á því t.d. fyrir launþegasamtökin í landinu að fjalla um þetta mál við ríkisstj. og aðra, ef það lægi fyrir, að lög hefðu verið sett um verðstöðvun og það væri meiningin að reyna að halda þeim l. fram, svo framarlega sem enginn gerði það ókleift að halda þeim fram, heldur en fyrir verkalýðshreyfinguna að eiga að fjalla um sín kjaramál við vinnuveitendur og ríkisstj., ríkisstj. með það í erminni, að hún hafi heimild til þessa eða hins, sem hún vill láta semja um. Það er vitanlega allt annað viðhorf fyrir launþegasamtökin í landinu að eiga samstarf við ríkisstj. á þeim grundvelli, hafi verið sett ákveðnari lagafyrirmæli um stöðvunina en lög, sem aðeins væru um heimildir fyrir ríkisstj. Þetta held ég, að hæstv. forsrh, hljóti að viðurkenna. Og mér fyndist því ekki nema eðlilegt, að ef ríkisstj. í raun og veru leggur á það áherzlu, bæði að ná árangri í þessum efnum, þ.e.a.s., að henni megi takast að stöðva verðlagið, og hún vilji hafa samstarf við launþegasamtökin í landinu um það, ætti hún nú að fallast á þetta sjónarmið, hún þurfi ekki að víkja lengra en svo frá því, sem hún segir að sé sitt markmið, en það, að hún ætli að gera þetta.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. vitnaði hér nokkuð í verðstöðvunarlögin eða stöðvunarlögin frá 1956, sem vinstri stjórnin gaf út. Og hann þóttist hafa tekið upp ýmis ákvæði einmitt úr þeim lögum inn í þetta lagafrv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir. En hann hefur ekki tekið það meginatriði úr þeirri löggjöf upp, þar sem fyrir var mælt í þeirri löggjöf alveg skýlaust, að um verðstöðvun skyldi vera að ræða. Það var ekki um neina heimild fyrir ríkisstj. Þar var alveg skýlaust ákveðin verðstöðvun í 4 mánuði. En sú löggjöf auðvitað var á allt annan veg en sú, sem hér um ræðir, því að þar var um það að ræða, að ný ríkisstj. hafði tekið við völdum í landinu og vildi stöðva verðlagið í 4 mánuði og þá einnig kaupbreytingar með samkomulagi við launþegasamtökin í 4 mánuði, meðan hún var að útbúa sínar till. eða koma sér nánar saman um aðgerðir í efnahagsmálum. En hér er um það að ræða, eftir því sem hæstv. ríkisstj. túlkar þetta frv., að hún er að gera tilteknar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem eiga að gilda um tæplega eins árs skeið. Og af því sýnist manni það vera miklu eðlilegra, að það sé tekið af skarið í þessum efnum og ákveðið alveg ótvírætt, að hér skuli verðlag stöðvað, nema aðeins í þeim tilfellum, þar sem ríkisstj. veitir sérstakar undanþágur frá stöðvuninni, þar sem hún telur, að það sé alveg óhjákvæmilegt.

Það hefur einnig komið fram í þessum umr., bæði hjá mér og hv. 5. þm. Vestf., að við teldum eðlilegt, þegar ráðstafanir eru gerðar í verðlagsmálum, að sett yrði ný verðlagsnefnd til þess að reyna að tryggja á sem beztan hátt framkvæmdir þessara mála. Við höfum bent á það, að framkvæmdin af hálfu þeirrar verðlagsnefndar, sem hefur verið að störfum að undanförnu, er ekkert traustvekjandi, t.d. fyrir launþegasamtökin í landinu eða þá, sem vilja raunverulega verðstöðvun, síður en svo. Þessi n. hefur alveg óumdeilanlega leyft margvíslegar hækkanir á verðlaginu. Og einmitt talsmenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu benda á, að þeir vildu fá fram þessa breytingu til þess að reyna að tryggja sem bezta framkvæmd á verðstöðvuninni, að ný verðlagsnefnd verði kosin.

Ég hef lagt til í minni till., að þessi nýja n. verði kosin hlutfallskosningu hér á Alþ. og kosnir verði 7 menn í n. Það mundi m.a. tryggja það, að hér fengju allir flokkar, sem eru á Alþ., fulltrúa í þessari n. Það er auðvitað hægt að hugsa sér aðra skipun á verðlagsnefnd, t.d. þá, að samtökum launþega yrði gefinn kostur á því að eiga fulltrúa í n. Vill ríkisstj. leggja sig svo mikið fram til þess að reyna að ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna í þessum málum, um þessi þýðingarmiklu efnahagsmál, að hún vilji verða við slíkum kröfum sem þessum, eða telur hún það ekki ómaksins vert? Ég spyr um þetta, vegna þess að hæstv. forsrh, lagði á það áherzlu, að ríkisstj. vildi ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna í landinu um þessi mál, teldi það þýðingarmikið. En þá líka reynir á það, hvað mikið ríkisstj. vill á sig leggja til þess að reyna að ná trúnaði þessara þýðingarmiklu samtaka um þessi mál.

Í till. mínum er lagt til, að það verði sett á laggirnar af hæstv. ríkisstj. sérstök n. til þess að hafa eftirlit með því, að ákvæðin um stöðvun húsaleigu verði virt, verði haldin. Hv. 5. þm. Vestf., sem er jafnframt forseti Alþýðusambandsins, lagði hér mjög ríka áherzlu á það, að þetta væri eitt af því þýðingarmesta fyrir launafólk í landinu, að fá fulla tryggingu í þessum efnum, að fá fram ákvæði, sem tryggðu það, að húsaleiga hækkaði ekki, eftir að stöðvunin hefur verið ákveðin, fá fram ákvæði, sem tryggðu, að húsaleiga væri við hóf í hverju einu tilfelli. Og nú spyr ég: Þykir nú hæstv. forsrh. það mikið úrleiðis fyrir ríkisstj. í þessum efnum að fallast á till. eins og þessa? Ég efast ekkert um það, að hæstv. ráðh. er á þeirri skoðun, að hin almenna verðlagsstöðvun, sem gert er ráð fyrir í frv., eigi einnig að ná til húsaleigu. En þá þarf hér að vera um meira en það að ræða, að það sé búið að gefa út eina fyrirskipun um, að ekki megi hækka húsaleigu. Það þarf að gera ráðstafanir til þess, að þessi fyrirskipun verði framkvæmd í veruleikanum. Og það verður ekki gert á annan hátt en þann að tryggja leigjendum, að þeim verði ekki sagt upp húsnæði, nema þá sú eftirlitsnefnd, sem kosin hefur verið eða skipuð væri í þessu máli; gæti fallizt á uppsögn húsaleigunnar.

Mér finnst nú, að ef það er í raun og veru svo, að ríkisstj. vill nokkuð á sig leggja til þess að ná samkomulagi við launþegasamtökin um framkvæmd þessara mála, ætti hún einnig að geta fallizt á till, eins og þessa. Hið sama er að segja um þá till., sem ég flyt um það, að þegar þessi lög koma til framkvæmda, skuli Seðlabankinn ákveða lækkun á vöxtum í landinu með fullu tilliti til þess, að verðlag hafi þá verið stöðvað. Hér er um mikið hagsmunamál margra aðila í landinu að ræða, en hér er líka um rökrétt framhald að ræða á verðstöðvun. Það er vitanlega ekkert vit í því að halda sér við það að krefja menn um 10% vexti, eftir að verðlag hefur verið stöðvað. Við vitum, að þessir háu vextir, sem í gildi hafa verið að undanförnu, eru að verulegu leyti rökstuddir með því, að eigendur fjármagnsins þurfi að fá nokkuð upp í verðfall sinna peninga. Fáist ríkisstj. ekki til þess að ákveða það, að vextir skuli endurskoðaðir, finnst mér, að það bendi greinilega til þess, að hún reikni ekki með því, að verðstöðvunin verði svo mikil í framkvæmd, að það þurfi að gripa til neinna slíkra ráðstafana, eða hún reiknar ekki með því, að þessi verðstöðvun standi lengi.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. vildi víkja frá sér þeim vanda að ræða um það, hvað mundi þurfa að gera til stuðnings atvinnuvegunum, og hann sagði eitthvað á þá leið, að ef það kæmi í ljós við nánari athugun, að styrkja þyrfti sjávarútveginn miklum mun meira en gert hefði verið á þessu ári, kæmu auðvitað upp ný viðhorf og þá gæti svo farið, að grípa yrði hér til allt annarra ráða. En mér finnst óeðlilegt af ríkisstj. að víkja sér þannig undan að ræða þetta meginvandamál, sem fyrir okkur liggur nú í dag og er auðvitað í beinu samhengi við það frv., sem hér liggur fyrir. Frv. er m.a. flutt eflaust, ef full heilindi eru á bak við flutning þess, a.m.k. sem liður í því að koma í veg fyrir vaxandi útgjöld hjá framleiðslunni með því að stöðva verðlag. Þetta á að vera stuðningur við framleiðsluna. En hvernig geta menn þá vikið sér undan því að ræða það, hvort þetta hafi veruleg áhrif fyrir framleiðsluna, eins og nú er komið? Og ég held, að það geti engum manni dulizt lengur, að það þarf á miklu víðtækari ráðstöfunum að halda fyrir ýmsar greinar sjávarútvegsins en verið hefur á þessu ári.

Mér fannst, að hæstv. forsrh. vildi leggja þá merkingu í orð mín, að ég hefði í rauninni ekki viljað gera ýkjamikið úr þessum vanda. En þannig má ekki skilja mín ummæli. Ég stillti þessu vandamáli þannig upp, að ég sagði, að það væri mín skoðun, að hér væri fyrst og fremst um þann vanda að ræða, sem snerti útgerð bátaflotans, þess hluta bátaflotans, sem á viðskipti við fiskverkunarstöðvarnar, og svo vandamál togaraflotans. En þetta þýðir það í raun og veru, að ég er á þeirri skoðun, að það þurfi að hækka fiskverð til bátanna til mikilla muna frá því, sem nú er, ef útgerð bátanna á að geta borið fullan árangur. Hins vegar er það mín skoðun, að ef slíkar ráðstafanir væru gerðar til þess að rétta við hag bátanna og örva þá útgerð í landinu, mundi allmikill hluti af vandamálum fiskvinnslunnar leysast um leið. Það er að vísu rétt, að það er enn ríkjandi allmikil óvissa um, hvernig muni fara með markað á næsta ári á afurðum frystihúsanna, og það er afar erfitt að segja um það nú, hvernig það mál fer, og sú óvissa getur eflaust orðið nokkuð fram eftir næsta ári. En ég held, að aðalvandinn liggi í þessu, að fiskverðið til þeirra, sem eiga að afla hráefnisins til fiskvinnslunnar í landinu, fiskverðið til þeirra er allt of lágt. En rétt aðeins til þess að gera það ljósara fyrir mönnum, hvað hér getur verið um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða, má benda á, að ef fiskverðið til bátanna yrði t.d. hækkað um svona eins og 1 kr. á kg. mundi það vera á milli 200 og 300 millj. kr., þ.e. 1 kr. frá því, sem nú er. Ýmsir hafa hins vegar sett fram þá skoðun, að fiskverðið þyrfti ekki aðeins að hækka um 1 kr., heldur um 1.75 kr. á kg, og það einmitt út frá því, sem hefur gerzt hér í Reykjavík, þegar borgarstjórinn í Reykjavík og viðskmrn. ákveða að styrkja sjósókn hér í Reykjavík, þ.e.a.s. borga styrk með útgerð þeirra báta, sem fiska fyrir bæjarmarkað í Reykjavík. Þeir hafa talið, að það þyrfti að borga til viðbótar við gildandi fiskverð 1.75 kr. á kg. Ef fiskverðið yrði talið þurfa að hækka um þetta fyrir útgerðina í landinu almennt, væri hér um upphæð að ræða, sem er á milli 300 og 400 millj. kr. Nú vil ég skjóta því inn hér um leið, að ég auðvitað tel, að þessi sérstaka fiskverðshækkun, sem greidd er úr ríkissjóði með útgerð fyrir Reykvíkinga eina til þess að afla þeim soðningar, nái vitanlega engri átt, hún hljóti að þurfa að ganga til allra landsmanna, því að það er hægt að nefna marga staði' í landinu, sem eru verr á vegi staddir með það að hafa nýjan fisk í matinn en Reykjavík er, og verða ýmist að sætta sig við það að hafa ekki þennan nýja fisk á nýja fiskverðinu eða þá að þeir verða að flytja til sín fiskinn með ærnum kostnaði frá öðrum byggðarlögum. Og það er vitanlega ekkert réttlæti í því að borga úr hinum almenna ríkissjóði einhvern sérstakan soðningarstyrk með fólki í Reykjavík, en neita öðrum landsmönnum um það. Slíkt vitanlega fær ekki staðizt. En ég nefni aðeins þessa tölu hér vegna þess, að hún hefur komið á pappír og það hefur fengizt ákveðin viðurkenning fyrir því, að það muni vera erfitt að fá báta til þess að stunda sjó, ef þetta fiskverð fæst ekki.

Þegar ég legg því áherzlu á það, að það muni þurfa að gera hér miklu meiri ráðstafanir til þess að tryggja öfluga útgerð á næsta ári með því að hækka fiskverðið, er ég ekki á neinn hátt að gera lítið úr þeim vanda, sem hér er við að glíma. Hann er vissulega stór, eins og komið er. Ég er ekki í neinum vafa um það, að fiskverðið þarf að hækka mikið, og ég tel það í rauninni ekki verjandi á nokkurn hátt af ríkisstj. að koma þannig fram hér á Alþ. nú rétt fyrir jólin, að hún látist í rauninni ekki vita um, hvort það þurfi á meiri fjárframlögum að halda til útgerðarinnar í landinu á næsta ári en var veitt til hennar á þessu ári. Ríkisstj. hlýtur að hafa gert sér fulla grein fyrir því, að hér er um miklu, miklu stærri upphæð að ræða en var á þessu ári. Og af því spurði ég og ýmsir fleiri í þessum umr., hvað ríkisstj, hugsaði sér að gera til þess að afla fjár í þessu skyni. Ég benti á, að bæði fjmrh. og viðskmrh. hefðu látið orð um það falla, að ef til meiri greiðslna þyrfti að koma til sjávarútvegsins á næsta ári en á þessu, yrði að leggla á nýjar álögur. En jafnframt hefur því verið haldið fram, að ef þurfi að leggja á nýjar álögur, sé grundvöllurinn hruninn undan þessari verðstöðvun, sem hér er verið að ræða um. Þegar hæstv. forsrh. er spurður um þessi mál, víkur hann sér hins vegar undan og segir:

Ef þarf að styrkja sjávarútveginn meira en verið hefur, geta komið upp ný viðhorf. — En þetta kalla ég í rauninni að víkja sér undan því að vilja ræða um vandamálið, sem hér ætti að ræðast í sambandi við þessa verðstöðvun, því að það er vitanlega til harla lítils gagns að vera að setja lög nú um miðjan des. um verðstöðvun í landinu, ef til þess á svo að koma eftir 1–2 vikur, að það þarf að fara að leggja á nýjar álögur til þess að afla nokkur hundruð millj. kr. til þess að styðja sjávarútveginn í landinu, svo að hann geti gengið, og koma þá og segja: Stöðvunarlögin fá ekki lengur staðizt. Þetta hefur ekki neitt haft að segja, nú eru komin upp ný viðhorf, nú skulum við hverfa frá þessu öllu saman. — Af þessum ástæðum hef ég talið eðlilegt, að þessi vandamál væru rædd, því að ég tel, að þau liggi alveg fyrir og því þurfi við þennan vanda að fást, hvernig á við honum að bregðast. Og ég efast heldur ekkert um það, að afstaða launþegasamtakanna í landinu til þessara mála, þ.e.a.s. þegar þau gera það upp við sig, hvernig þau muni haga sínum kröfum í sínum kjaramálum, afstaða þeirra hlýtur vitanlega að miðast mjög við það, hvað á að gera nú á næstu vikum og mánuðum í þessum þýðingarmiklu greinum efnahagslífsins.

Ég hef lagt áherzlu á það í þessum umr., að það er mín skoðun, að stöðvun verðlagsins ein út af fyrir sig nægi ekki. Hún er góð ein og út af fyrir sig, einkum og sérstaklega, ef að henni er staðið þannig, að það megi vænta einhvers árangurs, ef hún er meira en bara yfirlýsingar, og af því á vitanlega að setja inn í þetta frv. ákvæði um það að gera framkvæmdina miklu tryggari en hún yrði samkv. frv. ríkisstj. En eigi að síður þurfa menn að gera sér grein fyrir því, að það þarf að gera meira en aðeins að stöðva verðlagið, þar sem það er komið nú. Það þarf að reyna að færa það niður í öllum þeim greinum, þar sem hægt er, og það þarf að gera ýmiss konar aðrar ráðstafanir í efnahagskerfinu, sem gætu minnkað vandamálið, sem við er að glíma. Og ein er einmitt sú ráðstöfun að ákveða það, að um leið og verðlag í landinu er stöðvað, séu allir vextir færðir niður og þeir mest, álít ég, sem kæmu einmitt framleiðsluatvinnuvegunum mest að gagni, eða það, sem yrði þeim mest að gagni.

Ég hef nokkuð í þessum umr. lagt áherzlu á, að það væri ástæða til þess að taka verðlagsmálin sem heild nokkuð öðrum tökum en þau hafa verið tekin að undanförnu, það væri ástæða m.a. til þess að lækka álagningu í ýmsum greinum, þar sem hún hefur hækkað alveg óeðlilega, og ekki aðeins álagningu, heldur einnig að færa niður gjald á ýmiss konar þjónustu, sem mjög verkar á hið almenna verðlag í landinu. En mér hefur fundizt, að hæstv. ríkisstj. vildi í rauninni ekkert um þennan þátt tala. Það, sem helzt kemur frá ríkisstj., er þetta: Það kemur nú í ljós, segja þeir hjá ríkisstj., að hækkun á erlendum vörum í hinu almenna verðlagi innanlands er ekki ýkjamikil á síðustu árum. Og það getur því ekki verið um mjög miklar aukaálögur þarna að ræða hjá þeim, sem fást við það að selja þessar vörur, þó að þeir kunni í einstaka tilfellum að hafa hækkað sína álagningu nokkuð. Þetta er nú heldur léttilega á málinu tekið, segi ég. Í fyrsta lagi er um meira en það að ræða í hinu almenna viðskiptalífi, að það sé um að ræða sölu á erlendum vörum. Vitanlega fer hér fram sala á margvíslegum innlendum vörum líka, og hér er um að ræða í hinu almenna verðlagi í landinu gjald fyrir margvíslega þjónustustarfsemi, sem alls konar stofnanir og fyrirtæki hafa sín miklu áhrif á. Og nú liggur það fyrir, að verðlagning í þessum greinum hefur verið gefin frjáls í mjög mörgum tilfellum, og þá hafa viðkomandi aðilar notað tækifærið og marghækkað, síhækkað sitt þjónustugjald frá því, sem áður var. Þessu er ekki hægt að neita. Auk þess liggur það svo fyrir, sem ég hef m.a. tilgreint hér í mínu nál. og ég veit þó, að ríkisstj, hefur í sínum höndum miklu lengri skýrslu um en þá, sem ég birti, að álagning bæði í heildsölu og smásölu hefur á flestum vörutegundum farið stórhækkandi hin síðari ár, og í ýmsum tilfellum hefur álagningarprósentan fyllilega tvöfaldazt. En auk þess er svo þess að gæta, að þessi álagningarprósenta er nú lögð á miklum mun hærra grunnverð en áður var, meðan verðlagsákvæðin voru í gildi á þessum vörum. Ég held, að ríkisstj. ætti að viðurkenna það, að þessir þættir hafa mikið að segja um það, hvernig tekst að ráða við þróun verðlagsmálanna í landinu. Meira að segja hefur það mjög mikið að segja fyrir afstöðu alls almennings í landinu til dýrtíðarmálsins í heild, hvort almenningur trúir á það, að allir sitji hér við sama borð, eða hvort menn yfirleitt álíta, að ýmsir hafi hér forréttindi og megi taka sér laun eða þóknun, eftir því sem þeir skammta sér sjálfir. En ef sú trú verður almenn, er ósköp hætt við því, að menn hagi kröfum sínum í öðrum greinum eftir því.

Forsrh. spurði í sinni ræðu: Hvers vegna hækkaði vísitalan frá júní-samkomulaginu 1964 og t.d. fram til þessa tíma? Hvers vegna hækkaði hún? Hann hefur áður vikið að þessu, og ég hef ekki getað skilið hann á annan veg en bann, að hann aðhyllist þá skoðun til skýringar á þessu, að í rauninni mætti rekja flestallar hækkanir. sem orðið hefðu á verðlaginu á þessu tímabili, á beinan eða óbeinan hátt til kaupgjaldsins í landinu. Ég held, að þessi kenning sé mjög hættuleg og sérstaklega þegar sjálfur forsrh. hallast að slíkri kenningu, ef rétt er.

Í júnímánuði 1964 var samið um sáralitlar breytingar á kaupi. Í rauninni var ákveðið, að kaup verkamanna skyldi ekki taka neinum breytingum í heilt ár á þann hátt, sem verkamennirnir mæla sitt kaup. En nokkur fríðindi voru veitt. Ég tek eftir því, að þegar Efnahagsstofnunin reynir að gera sér grein fyrir því, hvað hafi verið að gerast á tímabilinu frá júní 1964 til júní 1965 eða á þessu eina ári, telur hún, að á árinu hafi kaupgjald verkamanna hækkað. Þegar hún er búin að meta inn í kaupið öll fríðindi verkamönnum veitt með auknu orlofi o.s.frv., telur hún, að á þessu tímabili hafi kaup verkamanna hækkað um 5.9%, en kaup íðnaðarmanna hafi á sama tíma hækkað um 3.9%. En hvað gerðist svo í verðlagsmálunum á þessu tímabili? Á þessu tímabili hækkaði verðlag í landinu miklum mun meira en þetta. Það hækkaði um 16–17 vísitölustig á þessu ári, og ríkisstj. greiddi þessa hækkun niður að talsverðum hluta, til þess að ekki kæmi til vísitöluuppbóta á kaup m.a.

Nú vitum við það, að einmitt á þessu tímabili, frá miðju ári 1964 til miðs árs 1965, var sérstaklega góð afkoma í okkar þjóðarbúi, sívaxandi framleiðsla og síhækkandi verðlag á okkar útflutningsafurðum og síhækkandi þjóðartekjur. Það voru auðvitað engin rök fyrir því, að þessi tiltölulega litla kauphækkun, sem þarna var samþ. og mestmegnis var í óbeinu eða óeiginlegu formi, gæti ekki rúmazt innan getu efnahagskerfisins, ef stjórnvöldin hefðu þar reynt að fylgja á eftir. En þegar hinir ýmsu aðilar nota tækifærið og segja: Við þurfum nú að hækka þessi flutningsgjöld eða þennan kostnað m.a. af því, að okkar útgjöld af kaupi hafa hækkað svolítið, — má lengi auðvitað rekja til kauphækkananna allar breytingar, sem orðið hafa á verðlagi í landinu. Spurningin stóð auðvitað um það í þessu tilfelli eins og mörgum fleirum, hvort menn vildu viðurkenna, að það gæti yfirleitt farið fram nokkur kauphækkun, sem vinnuveitendur í landinu eða þeir, sem fara með milliliðaþjónustu, ættu að taka á sig. En það var í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum allt of mikið ríkjandi, að það mætti heimila þeim, sem elgi að greiða kaup, að velta af sér kauphækkuninni út í hið almenna verðlag, og af því hélt boltinn áfram að velta. Ég held, að ef ríkisstj. vill í fullri alvöru takast á við dýrtíðarvandamálið, verði hún að viðurkenna þá staðreynd, að það verður að leggja hömlur á það, hvað ýmsir milliliðir og ýmsir aðilar, sem ráða yfir verðlaginu í landinu, taka mikið til sín. Þar á ég ekki eingöngu við kaupmenn, heldur er hér um miklu fleiri aðila að ræða. Stundum eru þetta opinberar stofnanir, sem hér eiga hlut að máli og alltaf vilja taka meira og meira til sín.

Það verður m.ö.o. að hafa nákvæmt eftirlit með því, hvernig verðlaginu í landinu er háttað. Það þarf að hafa sterkt verðlagseftirlit, sérstaklega á svona tímum, eins og nú ganga ýfir í okkar efnahagslífi, þar sem mikil spenna er í öllum greinum, þar sem framkvæmdir eru í mörgum atriðum meiri en við fáum ráðið við með góðu móti, einmitt undir slíkum kringumstæðum er alveg nauðsynlegt að hafa náið auga með því, hvernig verðlagsmálin þróast í landinu. En ríkisstj. hefur að mínum dómi að allt of miklu leyti haft þá afstöðu, sem raunverulega kemur fram í þessum umr., að segja sem svo: Þetta með álagninguna, jafnt í smásölu sem heildsölu, skiptir engu máli. Þótt þeir hafi verið að hækka rafmagnsverð og símagjöld og strætisvagna og hvað það heitir nú allt saman, þetta skiptir engu máli í þessu öllu saman. Þetta má vera frjálst. Þessi afstaða brýtur í rauninni niður alla möguleika til þess að hafa einhvern hemil á verðlaginu. Hún leiðir af sér þau áhrif hjá almenningi, að menn trúa því, að ríkisstj. vilji að vísu halda kaupgjaldi og öllu slíku sem mest föstu, en henni sé nokkuð sama um það, þó að ýmiss konar milliliðir mati sinn krók.

Þessi frjálsræðisstefna ríkisstj., kenning um, að það eigi að gefa verzlunina frjálsa og frjálst framboð og eftirspurn eigi að ráða öllu verðlagi, er ekki heppileg undir þeim kringumstæðum, sem við eigum við að búa í okkar efnahagskerfi. Það verður erfitt að hemja verðlagið, meðan slíkt er prédikað af stjórnarvöldum landsins. Ég vildi því vænta þess, að ríkisstj. sýndi það nú í verki, að hún meinti það, sem hæstv. forsrh. sagði í þessum umr., að hún vildi leggja sig fram um það að ná samkomulagi við verkalýðssamtökin í landinu í verðlagsmálunum og í því að leysa þessi erfiðu efnahagsmál, hún sýndi það nú með því einmitt að skapa þá tiltrú, sem þarf, að hún m.a. fallist á þær till., sem við Alþb.-menn höfum lagt hér fram, en þá ætla ég einmitt, að nokkur grundvöllur hefði skapazt að því, sem hv. 5. þm. Vestf., forseti Alþýðusambandsins, sem hér talaði, sagði, en hann sagði einmitt, að afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessa máls mundi mjög fara eftir því, hvort hún teldi, að treysta mætti framkvæmd verðstöðvunarinnar og hvort treysta mætti því, að það væri verið að snúa sér af fullri alvöru gegn dýrtíðarvandamálinu.

Að lokum langar mig svo aðeins að minnast á það, að hæstv. forsrh. gaf hér eina mjög ákveðna og athyglisverða yfirlýsingu, sem ég veitti mjög athygli. Og hún var á þá leið, að þó að hann gæfi að vísu enga yfirlýsingu um það, að hann yrði alltaf á móti gengislækkun um alla framtíð, væri hann þó tilbúinn að gefa þá yfirlýsingu nú, að þessi ríkisstj. undir hans forsæti mundi ekki fallast á neina gengislækkun eftir kröfum ýmissa aðila, sem vildu gjarnan hugsa sér að græða á henni, án þess að þeir sömu aðilar skyldu verða látnir borga kostnaðinn af slíkri gengislækkun. Þetta var hraustlega mælt á margan hátt, og það er þá a.m.k. meiningin, skilst mér, samkv. þessu að standa að framkvæmd gengislækkunar, ef hún kemur, á nokkuð annan veg en gert hefur verið að undanförnu. Með þessu viðurkennir hæstv. forsrh. það, sem við allir vitum, að það eru auðvitað til ýmsir aðilar í okkar þjóðfélagi, sem hugsa gott til þess að græða 5, gengislækkun og hafa oft grætt á slíkum fjármálalegum ráðstöfunum. Og þeir aðilar ýta jafnan ú eftir um það, að þetta heillaráð fyrir þá verði notað. En það er alveg víst, að launafólkið í landinu óskar ekki eftir gengislækkun. Það hefur aldrei grætt á gengislækkun. En það þarf bara meira til en það að segja, að maður sé á móti gengislækkun. Það þarf þá að gera ráðstafanir í tíma til þess að reyna að koma í veg fyrir, að gengislækkunin hvolfist yfir mann, þannig að maður fái ekki við neitt ráðið. Og því miður sýnist mér, að ef svo heldur lengi áfram sem haldið hefur verið um skeið hjá okkur, sé afskaplega hætt við því, að engar yfirlýsingar dugi til þess að koma í veg fyrir gengislækkun. Ég held því, að það sé fyllilega kominn tími til þess að samþykkja verðstöðvun, eins og lagt er til með þessu frv. út af fyrir sig, og taka verðlagsmálin sem heild mjög föstum tökum og vinna að því að lækka verðlag í öllum þeim greinum, sem það er hægt, og taka verðmyndunina sem heild undir eftirlit, og það eigi því að fallast m.a. á þær brtt., sem við Alþb.-menn viljum gera við þetta frv. og allar miða að því að gera framkvæmdina í þessum málum öruggari en stefnt er að með frv. sjálfu.