15.12.1966
Efri deild: 29. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

74. mál, verðstöðvun

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er nógsamlega kunnugt, að nú hefur í rúman aldarfjórðung ríkt hér verðbólga, sem er að vísu minni en víða þar sem svo stendur á, svipað og hér, að af einni eða tveim kynslóðum hefur þurft að gera það, sem unnið hefur verið af mörgum kynslóðum í öðrum löndum. Hins vegar er verðbólgan hér meiri en í hinum þróuðu iðnaðarlöndum, a.m.k. flestum, sem við höfum mest skipti við og eru okkur að ýmsu leyti skyldust.

Um ástæður þess, að verr hefur gengið að halda föstu verðlagi hér en í þeim löndum, má margt segja. Við blasir, hversu atvinnuvegir okkar eru einhæfir, mismunandi arðbærir innbyrðis og þó hinir þýðingarmestu, ákaflega háðir sveiflum, bæði varðandi afla, afrakstur og eins það verð, sem afurðir þeirra seljast fyrir. Um þetta er augljóst dæmi nú á síðustu mánuðum sá atvinnuvegur, sem hin síðari missiri hefur veitt þjóðinni mestar tekjur, síldveiðarnar. Þar hefur að vísu gengið ágætlega um afla, betur en nokkru sinni fyrr, þó að mjög sé það misskipt á landshluta, en verð afurðanna lækkaði hins vegar stórlega síðari hluta sumars og fram á haust, svo að segja má að 1/3, hækkaði svo aftur skyndilega nú fyrir 2–3 vikum, en að því er virðist sýnist nú aftur vera farið að lækka, þó að við vonum, að það sé ekki um varanlegt fyrirbæri að ræða. Þessar miklu sveiflur á síldveiðunum valda þó minni röskun á þjóðarhögum en ella vegna þess, eins og ég sagði, hversu aflamagnið nú á þessu ári hefur verið mikið, svo að segja má, að aukinn afli hafi vegið upp á móti því verðhruni, sem varð og nú hefur að nokkru leyti verið bætt úr.

Alvarlegri er sú verðbreyting, sem orðið hefur á afurðum hraðfrystihúsanna. Þar hafði verið vaxandi verðhækkun síðustu missiri, þangað til nú á s.l. vori, þannig að vegna aukinnar framleiðni og hækkandi verðlags stóðu hraðfrystihúsin fyllilega undir þeim verðhækkunum innanlands, sem þau urðu að bera. Má raunar fullyrða og skýrslur sýna, að hraðfrystihúsin hafi aldrei búið við betri hag en einmitt á árunum 1964 og 1965 og allsæmilegan a.m.k. nú fram eftir ári. En þá kemur þrennt til. Það eru verðhækkanir innanlands, sem einnig hafa orðið á þessu ári, en eru þó ekki meiri en svo, að ekki mundu vandræði hafa skapazt af, ef hitt tvennt hefði ekki orðið, annars vegar minna af efnivöru, sem húsin hafa úr að vinna, en áður og hins vegar verðfall eða a.m.k. fullkomin óvissa um verð. Af öllu þessu leiðir, að það er ljóst, að þessi mikilvægi atvinnuvegur mun ekki standa undir hækkuðum kaupgreiðslum og auknum kostnaði á næsta árí. Þess vegna er það höfuðnauðsyn, sem enginn út af fyrir sig ber brigður á, að komið verði eftir föngum í veg fyrir aukinn innlendan kostnað, er leggist á þessa atvinnugrein. Þetta frv. miðar að því að koma í veg fyrir, að slíkur kostnaðarauki verði, með þeirri heimild til verðstöðvunar, sem þar er veitt.

Frv. byggist á þeirri forsendu, að það takist með þeim ráðstöfunum, sem þar eru heimilaðar, að koma á samkomulagi um, að kaupgjald hækki ekki á næstu mánuðum eða á meðan á gildistíma frv. stendur. Það hefur þegar verið af hálfu ríkisstj. unnið að því að koma í veg fyrir hækkanir og vísitala raunar lækkuð með miklum niðurgreiðslum úr ríkissjóði, — niðurgreiðslum, sem nú eru mögulegar vegna mjög bætts hags ríkissjóðs frá því, sem áður var. En þetta eitt dugir ekki þegar af því, að verkalýðsfélög og launþegar segja, að ekki sé til hlítar að marka vísitöluna eina, þar komi fleira til, ef þeim eigi að vera fært að halda kaupgjaldi óbreyttu, þar verði einnig að líta á margháttaðar vörur og þjónustu, sem utan vísitölu séu. Og í viðurkenningu þessa m.a. og einnig til þess að gera auðveldara að halda vísitölunni niðri eru ríkisstj. veittar þær heimildir, sem í frv. eru. En forsenda beitingar þeirra heimilda er, að það takist að halda kaupgjaldi svo óbreyttu, að verðstöðvun verði ekki óframkvæmanleg að mati ríkisstj. sökum kauphækkana.

Frv. fjallar um heimildarlög, vegna þess að það er ekki miðað við kaupbindingu, heldur frjálsa samninga af hálfu verkalýðsfélaga og launþega, gagnstætt því, sem var í festingarlögunum frá 1956, þar sem um beina lögþvingun var að ræða. En að breyttu þessu breytanda má segja, að lögin, einkanlega 1. gr., séu nú sniðin eftir því, sem var ákveðið í lögunum 1956. Hins vegar eru í 3. gr. víðtækari heimildir en í l. frá 1956 voru, þar sem nú er ætlazt til þess, að ríkisstj. fái færi til að fylgjast með og taka ákvarðanir um hækkun gjalda, sem á eru lögð af sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum, hvort sem þeir heyra beint undir ríkisvaldið eða ekki.

Mér er ljóst, að um það er deilt, hvort þetta frv. sé nógu víðtækt, hvort það ráði til hlítar við þann vanda, sem nú er fram undan. Úr því fær reynslan ein skorið. Ég vil fullyrða, að miðað við það, að ekki verði um mjög verulegar verðlækkanir á afurðum hraðfrystihúsanna að ræða og þau geti fengið efnivöru til vinnslu með svipuðum hætti og áður, þá mun þetta frv. geta mjög greitt fyrir því, að þau haldi óhindrað áfram starfsemi. Ef hins vegar svo verður metið, að verðfallið sé meira en menn enn vilja viðurkenna, horfir það öðruvísi við. Í þessum efnum eru ekki öll kurl komin til grafar, og er bezt að láta allar fullyrðingar um það efni bíða, þangað til það mál er betur athugað en enn er færi á. En við sjáum af dæminu um síldarlýsið, og vitum við þó, að það er háð meiri verðsveiflum en hraðfrystur fiskur, þá sjáum við samt af því, hversu í þessum efnum getur á skammri stundu skipazt veður í lofti. Og því miður eru okkar undirstöðuatvinnuvegir háðir þessari óvissu, og stjórnvöld verða að miða sínar ráðstafanir við ástandið hverju sinni, eftir því sem það þá blasir við.

Ég skal ekki fara að ræða hér frekar um orsakir þess ástands, sem nú þarf úrlausnar við, af hverju þær hækkanir stafa, sem orðið hafa hin síðustu missiri og við allir játum að séu meiri en æskilegt væri. Um það er miklar upplýsingar að fá í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs á s.l. sumri. Þetta er einnig eitt meginþrætuefni í stjórnmálum, og skal ég ekki byrja að rekja það að fyrra bragði. Aðalatriðið er, að nú verður að horfast í augu við vandann eins og hann er í dag.

Þetta á allt eftir að skýrast betur í þeirri rannsókn og viðræðum, sem nú eru hafnar á milli ríkisvaldsins annars vegar og fulltrúa hraðfrystihúsaeigenda hins vegar, og er nægur tími til þess að íhuga það, þegar allar skýrslur eru fyrir hendi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið á þessu stigi. Ég leyfi mér að leggja til, að það verði samþ. til 2. umr. og fengið hv. fjhn. til athugunar.