17.12.1966
Efri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

74. mál, verðstöðvun

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Það er aðeins örstutt aths. Ég ætla mér ekki að hindra það, að hér sé hægt að hafa þingfrestunarfund eftir nokkrar mínútur, en ég sé mig tilneyddan að leiðrétta mjög bagalegan misskilning, sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. varðandi þær tölur, sem ég fór hér með varðandi aukinn hlut verzlunarinnar. Það er víst rétt, að ég sagði, að ég teldi, að þetta dæmi, sem ég setti upp, þyrfti endurskoðunar við, en viss atriði þurfa að mínu viti engrar endurskoðunar við. Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að álagningargrundvöllur verzlunarinnar hefur nærri ferfaldazt síðan 1959, vaxið um 269%. Það geta menn gengið úr skugga um með því að lesa Hagtíðindin. Og það er líka alrangt, að ég hafi ekki miðað við þjóðartekjurnar, aukningu þeirra, því að ég tók það einmitt skýrt fram og miðaði mína útreikninga við það, að hlutur verzlunarinnar miðað við aukningu þjóðartekna annars vegar 1959 og hins vegar 1965 hefði vaxið um 65%. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður haggað og að mínu viti þurfa ekki neinnar endurskoðunar við. Hitt er svo aftur rétt, að mínar tölur varðandi, hvað álagningarupphæðin af innflutningnum væri mikil, það eru hreinar ágizkunartölur og þær þurfa fullkomlega endurskoðunar við. Þær geta verið 3 milljarðar, eins og ég hélt fram, þær geta verið eitthvað minna, en þær geta líka verið meira.