06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

40. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þegar frv. til l. um breyt. á l. um vernd barna og ungmenna var lagt hér fram á Alþingi fyrir nokkrum missirum, voru í því till. um að setja mjög ströng aldurstakmörk fyrir þá, sem sitja mega í barnaverndarnefndum og í barnaverndarráði. Við meðferðina á þessu máli hér á þingi voru þessar takmarkanir felldar burt. Hins vegar var látið standa það ákvæði, að formaður barnaverndarráðs skuli vera embættisgengur lögfræðingur. Það þótti sjálfsagt að tryggja, að í barnaverndarráði væri lögfræðingur, þar sem ráðið hefur að ýmsu leyti völd, sem eru sambærileg við dómstóla um líf og örlög einstaklinga í landinu. En þetta ákvæði, „embættisgengur lögfræðingur“, felur í sér aldurstakmark, og þegar það kom á daginn, að þarna hafði orðið eftir aldurstakmark, á sama tíma sem þingið hafði fellt slík aldurstakmörk burt úr frv., voru gefin út brbl. þau, sem hér eru til staðfestingar. Lögin eru því aðeins um það að tryggja samræmi í öllum barnaverndarlögunum á þá lund, að ekki séu sett aldurstakmörk, enda var það niðurstaða hér, að rétt væri á þessu sviði að hafa opna möguleika til þess að nýta starfskrafta manna fram yfir þau takmörk, sem eru talin eðlilegri við fullkomin embættisverk.

Menntmn. hefur fjallað um frv. þetta og mælir einróma með því, að það verði samþykkt.