28.10.1966
Efri deild: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

34. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er misjöfn vigstaða þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Annars vegar eiga læknarnir sinn forsvarsmann í hv. 9. þm. Reykv., en stjórn Sjúkrasamlagsins, sem liggur hér undir mjög hörðum ádeilum af hans hendi, enginn úr þeirri stjórn getur komið hér við vörnum. Í öllum sínum hugleiðingum um heilbrigðismál í þessum umr, hefur hv. þm. verið með svigurmæli í garð stjórnar Sjúkrasamlagsins og talið, eins og hann sagði, að þar skorti á allan raunhæfan vilja og dug til að snúa sér að lausn heilbrigðismálanna hér í Reykjavík sérstaklega, eins og þyrfti að gera. Þetta hygg ég almennt talað, að sé ekki langt frá sannleikanum um meginefnið í hans ræðu. Þá er eðlilegt, að við, sem erum leikmenn í þessum málum, spyrjum sem svo, þar sem hann hefur talið höfuðástæðuna þetta skilningsleysi af hálfu stjórnar Sjúkrasamlagsins: Hvers vegna vilja læknar ekki vinna á vegum Sjúkrasamlags Reykjavíkur? Um þetta eru mjög miklar getgátur meðal almennings, samfara því sem ríkisstj. er fremur legið á hálsi fyrir þær tilslakanir, sem hún gerði í launadeilunni s.l. sumar, heldur en hitt, að hún hafi ekki gengið nógu langt til móts við óskir lækna. Ég held, að það væri hollt öllum hlutaðeigandi aðilum að fá að vita hið sanna. Hvers vegna vilja læknar ekki vinna á vegum Sjúkrasamlagsins? Það er rétt, að við því fáist skýr og greið svör hér. Það eru nógu margar getgátur uppi um það meðal almennings, hver sú ástæða sé, og það sumar ekki góðar getgátur í garð læknanna, og það er eðlilegt, þar sem þeir eiga málsvara hér, að við því komi skýr og greið svör.