20.10.1966
Neðri deild: 5. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ríkisstj. hefur lagt hér fram frv. til laga um námslán og námsstyrki, og hæstv. ráðh. hefur nú gert grein fyrir meginefni þessa frv. Enda þótt ég hljóti að viðurkenna og virða þá viðleitni, sem hér er sýnd til að koma nokkru lagi á þessi mál, þá hlýt ég þó að undirstrika, að niðurstaðan, sem hér er komizt að, er alls ekki þess eðlis, að stúdentar geti sætt sig við hana, hvað þá að hún geti talizt fullnægjandi. l;g held við megum ekki gleyma því, nú, þegar við virðum fyrir okkur þær breytingar til batnaðar, sem hér er gerð tillaga um, að ástandið í þessum málum er og hefur verið nánast hneyksli. Lánin hafa verið mjög ófullnægjandi, að ekki sé meira sagt. Svo að ég nefni dæmi, þá hafa menn getað verið 3 missiri í Háskóla Íslands, án þess að eiga nokkurn tíma kost á því að fá námslán á þessum tíma.

Hæstv. ráðh. hefur hér bent á helztu kosti, sem fylgja þessu nýja kerfi, sem nú á að innleiða. Ég held, að þá sé ekki úr vegi, að einhver annar verði til þess að benda á ýmsa augljósa vankanta, sem enn eru og munu verða á fyrirkomulagi opinberrar aðstoðar við námsmenn, ef frv. þetta verður samþ. óbreytt.

Ég mun ræða hér fyrst og fremst um 5 meginatriði. Í fyrsta lagi vil ég benda á, að þó að framlag ríkisins hækki nú töluvert, þá hækka mjög óverulega lán til þeirra stúdenta, sem hafa fengið lán hingað til og hafa verið taldir þurfa mest á þeim að halda. Aðeins 1.7 millj. kr. af þessari hækkun mun renna til þessara manna. Hin hækkunin stafar fyrst og fremst af fjölgun stúdenta, af dýrtíðarþróuninni í landinu og af allmikilli útvíkkun námsmannakerfisins, en hið síðast nefnda er út af fyrir sig ágætur áfangi. Í öðru lagi vil ég benda á, að þótt nýir stúdentahópar fái nú í fyrsta sinn lán, þá hækka lánin ekki nema um 8% að meðaltali í hlutfalli við umframfjárþörf stúdenta, og samkvæmt frv. kemur í ljós, að þá verður aðeins fullnægt 46% af umframfjárþörf stúdenta. Í frv. er hins vegar talað um, að stefnt skuli að því, að lánað verði fyrir allri umframfjárþörfinni. Þetta kemur fram í 2. gr. Samt er hvergi á það minnzt í frv., hvenær þessu marki skuli náð. Þetta tel ég vera mjög alvarlegan ókost á frv. Í þriðja lagi eru vextir af lánum hækkaðir verulega, og það tel ég fráleita ráðstöfun. Í fjórða lagi er ekkert tillit tekið til þess, að mjög margir námsmenn hafa fyrir fjölskyldum að sjá. Og í fimmta lagi er ekkert litið til þarfa nemenda í menntaskólum, kennaraskólum og öðrum hliðstæðum stofnunum.

Ég vil nú víkja að þessum fimm atriðum, sem ég hef hér nefnt. Það hefur lengi verið ljóst, að núgildandi lánareglur væru algjörlega ófullnægjandi. Stúdentar hafa hins vegar verið þolinmóðir, vegna þess að þeir hafa vitað, að lög um lánasjóð stúdenta hafa verið í endurskoðun, og þeir hafa verið sannfærðir um, að niðurstaðan yrði veruleg hækkun til stúdenta almennt. En niðurstaðan, sem hér liggur fyrir, hlýtur óhjákvæmilega að vekja nokkur vonbrigði. Eins og ég hef tekið fram, þá er hér um sáralitla hækkun að ræða til þeirra, sem hafa fengið lán hingað til og hafa mesta þörf fyrir lán, og þessi breyting táknar meira að segja lækkun lána til fjölmargra. Eins og kemur fram í grg. frv., þá er hér um að ræða 9.7 millj. kr. aukningu námslána. Langmestur hluti þessa fjár eða 4 millj. stafa af fjölgun námsmanna almennt og vegna dýrtíðarinnar í landinu, — 4 millj. af þessum 9.7. 1 millj. af þessum 9.7 er til kandídata, en þeir hafa hingað til ekki fengið neitt, og er það góðra gjalda vert. Í þriðja lagi munu 3 millj. fara til nýstúdenta við Háskóla Íslands, sem hingað til hafa ekkert fengið. En hækkunin til þeirra, sem hafa verið við nám og fengið hafa lán, nemur aðeins 1.7 millj. Ég held, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um það, að þessi hækkun er aðeins dropi í hafið. Þessi mikla lífskjarabót, sem básúnuð hefur verið út um leið og þetta frv. hefur verið kynnt í blöðum, er heldur lítilfjörleg. Ég er hræddur um, að verulegur hluti stúdenta, sem hafa fengið lán áður, muni ekki taka eftir þessari breytingu, enda verður væntanlega um lækkun til margra þeirra að ræða. Breytingin er sem sagt fyrst og fremst í því fólgin, að lánþegum er fjölgað. Það er út af fyrir sig ágætt og löngu orðið nauðsynlegt, en þeir, sem áður voru taldir hafa mesta þörf fyrir lánin, fá litla úrbót nú.

Í 2. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Stefnt skal að því, að opinber aðstoð við námsmenn skv. lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar.“ Að sjálfsögðu hafa flestir stúdentar möguleika til að vinna a.m.k. 31/2 mánuð á ári hverju. Hér er um það að ræða, að þessir tekjumöguleikar stúdenta eru dregnir frá þeim námskostnaði, sem áætlaður er á hvern stúdent, og þá fáum við út það hugtak, sem nefnist hér „umframfjárþörf“. Stefnan í frv. er sú að veita stúdentum lán, sem nemur allri umframfjárþörfinni. En hvað erum við komin nálægt þessu marki, ef fyrirhuguð breyting nær fram að ganga? Er þessi breyting stórt stökk áleiðis að þessu marki? Það er rétt að athuga það svolítið nánar.

Á bls. 13 í frv. kemur fram, að gamla kerfið fullnægði 38% af umframfjárþörf stúdenta við Háskóla Íslands og námsmanna erlendis, sem notið hafa lána. En nýja kerfið mun væntanlega aðeins fullnægja 46% af umframfjárþörf sömu námsmannahópa. Við þessa breytingu færumst við aðeins 8% nær markinu, og það er því augljóst, að markið er býsna fjarlægt með ekki meira áframhaldi en þessu. Í þessu sama fskj. kemur einnig fram, að eftir að nýja kerfið verður komið á, muni stúdentar við Háskóla Íslands aðeins fá lán fyrir 36% af umframfjárþörfinni. En hvar eiga þeir að fá þau 64%, sem þá vantar upp á? Ekki fá þeir þetta fé með vinnu sinni, því að eins og áður segir, hafa hugsanleg vinnulaun fyrir sumarvinnu þegar verið dregin frá í þessum útreikningi. Hvar eiga þeir að fá 64% af umframfjárþörfinni? Ég spyr og vona, að einhver annar geti svarað. Vissulega er það góðra gjalda vert, að því skuli vera lofað í frv., að einhvern tíma í framtíðinni muni stúdentar fá möguleika til að fá lán fyrir allri umframfjárþörf sinni. En ég spyr: Hvers virði er slíkt loforð? Hvenær á að efna það? Á að efna þetta loforð eftir 5 ár, á að efna það eftir 10 ár eða á að efna það eftir 100 ár? Þess er alls ekki getið í frv., á hve löngum tíma þessu markí skuli náð.

Íslendingar eru sagðir fjórða tekjuhæsta þjóð í heimi. Hér er þó ekki um það að ræða, eins og allir vita, að þjóðfélagið ætli að gefa stúdentum sínum stórfé. Það ætlar aðeins að lána þeim peninga, svo að þeir geti lokið námi og greitt skuld sína, annars vegar í peningum og hins vegar með þeirri andlegu endurgreiðslu, sem allir viðurkenna nú, að er ómetanlegt verðmæti fyrir þjóðina, þ.e.a.s. með þekkingu sinni og þjálfuðum hæfileikum. Þjóðfélagið ætlar sem sagt að lána þessum mönnum það fé, sem þeir þurfa og geta ekki unnið sér inn á námstímanum, til þess að koma í veg fyrir, að hundruð stúdenta gefist hreinlega upp við nám og flæmist frá námi vegna fjárhagsörðugleika og vinnuálags. Ef við Íslendingar, fjórða tekjuhæsta þjóð í heimi, höfum ekki efni á því að lána þetta fé í dag, hvenær höfum við þá efni á því? Ef það væri svo, að hér væri um einhver stórkostleg verðmæti að ræða, liti málið kannske öðruvísi út. En mér virðist, að ríkið þurfi ekki að leggja þessum sjóði til nema um það bil 20–25 millj. kr. á ári til viðbótar því, sem nú er ráðgert að sjóðurinn fáí, til þess að unnt væri að lána stúdentum fyrir allri umframfjárþörf þeirra, — aðeins 20–25 milljónir, en þá reikna ég að sjálfsögðu með, að sjóðurinn taki að láni á hverju ári einar 10 millj. Hann tekur núna tæpar 5 millj. að láni, að ég hygg. Hér er sem sagt um svo litlar fjárhæðir að tefla, miðað við það málefni, sem í húfi er, að mér finnst ekkert áhorfsmál, að stíga beri þetta skref til fulls þegar á þessu hausti.

Í þessu frv. á að slá því föstu, að stúdentar geti fengið lán fyrir allri svokallaðri umframfjárþörf. Nú væri að vísu hægt að hugsa sér að þessu marki yrði náð í nokkrum áföngum, t, d, á 3 árum eða 5 árum. Ríkið gæti sett sér það mark að komast yfir þennan stórkostlega þröskuld á 3–5 árum. Ég er þó ekki að leggja það til hér, því að ég sé ekki, hvaða ástæða ætti að vera til þess að fresta því, að markinu yrði náð nú þegar. Þjóðfélagið getur í dag tekið á sig þessa lítilfjörlegu lánabyrði að fullu, og ég held því, að hvers konar frestun sé út í hött.

En þeim mun furðulegra er, úr því að þessi leið er ekki farin, að í frv. skuli ekki vera minnzt á það, hvenær markinu skuli náð. Þar segir aðeins, að stefnt skuli að því, að lánveitingar nægi hverjum námsmanni til að greiða námskostnað hans, þegar fjáröflunarmöguleikar hans séu frádregnir. En það er ekkert sagt um það, hvort markinu skuli náð, eigum við að segja, eftir 100 ár? Nei, ég held, að ef ríkisstj. treystir sér ekki til að setja neitt tímatakmark í þessum efnum, þá sé sennilegast, að hún örvænti um, að hún komist yfir þennan þröskuld í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í þriðja lagi vil ég víkja að því, að í frv. er gert ráð fyrir, að ársvextir af lánum verði hækkaðir úr 31/2% í 5%. Eins og kunnugt er, hafa lánin verið vaxtalaus, á meðan á námi stendur, og það er ekki ætlunin, að á því verði nein breyting. Nú vil ég taka það fram, að ég teldi eðlilegast og sjálfsagðast, að aðstoð hins opinbera við námsmenn væri fyrst og fremst námslaun og aðeins að litlu leyti námslán. Þessi gamla hugsun, að þjóðfélagið sé að gera námsmönnum einhvern stórkostlegan greiða með því að lofa þeim að læra og mennta sig, ég held, að þessi hugsun sé löngu orðin úrelt og hafi raunar verið fráleit frá upphafi. Hitt er sönnu nær, að sérhver þjóðfélagsþegn, sem menntar sig og eykur þekkingu sína, er fyrst og fremst að gera þjóðfélaginu stórkostlegan greiða. Félagsfræðingar, hagfræðingar og stjórnmálamenn um heim allan eru að skilja, að með engum hætti er unnt að ávaxta fjármuni betur en með því að leggja þá í aukna menntun þjóðfélagsþegnanna. Krafan um það, að námsmenn séu launaðir af þjóðfélaginu, er einnig um leið krafa um aukið jafnrétti til menntunar, sígild og sjálfsögð réttlætiskrafa. En því miður er því ekki að heilsa, að krafan um námslaun hljóti skilning meðal ráðandi manna. Ég get líka viðurkennt, að lánakerfið er ekki með öllu óviðunandi, á meðan við búum við hina stöðugu dýrtíðarþróun í landinu. En lánin ættu hins vegar tvímælalaust að vera vaxtalaus með öllu.

Hitt er svo auðvitað fjarri öllu lagi, að ætla að fara að hækka vextina upp í 5%. Mér virðist, að hér gægist fram það „bisness“-sjónarmið, sem nú virðist vera að gagnsýra þjóðfélagið í æ ríkari mæli. Menn virðast ímynda sér, að námsmaðurinn geti ávaxtað lánsfé á sama hátt og fyrirtæki, sem tekur lán í reksturinn, fyrirtæki, sem getur skilað láninu aftur með hæfilegri ágóðaþóknun, með vöxtum. En námsmaðurinn eyðir láninu jafnóðum til brýnustu lífsnauðsynja, og hann getur ekki skilað því aftur með vöxtum. Það eru ekki nema fáir háskólamenntaðir menn, sem fá hærri laun að loknu námi vegna þess, að þeir hafa setið áratug í menntaskóla og háskóla. Þeir, sem sigla um loftin blá eða stýra skipum, múra hús eða vinna í braskinu, þeir hafa flestir langtum hærri laun en t.d. náttúrufræðingar, íslenzkufræðingar, sagnfræðingar og vísindamenn í þjónustu ríkisins. Hins vegar er augljóst, að þjóðfélagið hefur gífurlegan hagnað af menntun þessara manna. Ef þjóðfélagið tekur ekki á sig að greiða námslaun, en lætur sér nægja að veita lán, er hitt þó sjálfsagt mál, að það greiði vextina. Það er því sannarlega stórfurðulegt, að nú skuli vera lagt til að hækka þessa vexti, sem auðvitað hefði átt að afnema með öllu. Ég efast um, að það þekkist í nálægum löndum, að námsmenn greiði 5% vexti af námslánum frá ríkinu. Ég hef að vísu engar öruggar upplýsingar um þetta atriði á reiðum höndum. En það má vera, að hæstv. ráðherra hafi einhverjar upplýsingar um þetta atriði og geti þá leiðrétt þessa fullyrðingu mína.

Samkv. skýrslu um könnun á námskostnaði, sem Þórir Bergsson hefur gert og dreift hefur verið til þingmanna, er gert ráð fyrir, að um þriðjungur allra námsmanna, sem lánakerfið nær til, sé í hjónabandi. Eins og ég tók fram í formálsorðum, tel ég það mjög illa farið, að ekkert tillit skuli tekið til þess við úthlutun lána, ef námsmaðurinn hefur fjölskyldu á framfæri sínu. Sá námsmaður, sem er svo heppinn eða óheppinn að ganga í hjónaband og eignast börn, á ekki margra kosta völ í þessu þjóðfélagi. Hér er ekki völ á stúdentagörðum hjóna, eins og á hinum Norðurlöndunum. Hins vegar býðst hverjum kvæntum stúdent sá kostur að taka á leigu húsnæði með okurkjörum, svo svimandi háum, að hann þarf sennilega að vinna a.m.k. 6 tíma í verkamannavinnu á hverjum degi allan ársins hring til þess bara að geta borgað húsaleiguna.

Margoft hefur verið bent á það, hve ótrúlega stór hluti stúdenta lýkur ekki námi í háskólanum, heldur hrökklast í önnur störf, áður en kemur að prófi. Ég man nú ekki í svipinn þessa tölu, sem oft hefur heyrzt nefnd, m.a. fyrir 1–2 árum af rektor háskólans. En ég veit, að þessi tala er mjög há. Mér þykir ekki ósennilegt, að hæstv. menntmrh. geti líka frætt okkur um þetta atriði, og kannske gerir hann það hér á eftir. Sumir halda nú kannske, að þessi stórfelldu afföll, sem verða í stúdentahópnum, áður en námi lýkur, stafi af leti og áhugaleysi stúdenta við námið. Ég ætla ekki að fara að rökræða þetta atriði út af fyrir sig. Ég held, að mönnum hljóti að vera það ljóst, að mjög margir stúdentar hrökklast beinlínis frá námi gegn vilja sínum af eintómum fjárskorti. Aðrir missa áhugann, þegar þeir neyðast til að vinna árið um kring í fastri vinnu með námi og sjá, að vinnufélagar þeirra hafa álíka há laun, ef ekki hærri, þótt þeir hafi aldrei lagt á sig þetta langa nám. Enn aðrir þola ekki það stórkostlega vinnuálag, sem fylgir því að ætla sér að vinna með námi, og gefast þess vegna upp eða missa áhugann. Þjóðfélagið ber fulla ábyrgð á því, að þetta fólk neyðist til að hætta námi. Ég hef nefnt hér húsnæðisvandræði stúdenta og húsaleiguokrið, sem enginn getur víst neitað, að ríkisstj. ber höfuðábyrgð á, og líklega vita allir, hvernig ástandið er í barnagæzlmálunum. Þar er trassaskapur ríkisvaldsins óheyrilegur, eins og allir vita. Ég sagði ríkisvaldsins, því að enginn átti von á því, að einkaframtakið hefði áhuga á slíkum málum. En þessi trassaskapur ríkisvaldsins kemur einmitt mjög þungt niður á stúdentum. Margar eiginkonur stúdenta geta ekki unnið úti og aflað heimilinu tekna, vegna þess að börnin komast ekki að á dagheimilum eða leikskólum eða vöggustofum. Ofan á þetta allt saman neitar ríkisvaldið að taka tillit til erfieika fjölskyldumanna við nám og ætlar að skammta þeim 30–50% af því, sem einhleypur stúdent þarfnast umfram sumartekjur sínar.

Ég hef nefnt hér ýmis atriði, sem ég vonast til, að verði lagfærð við meðferð frv. í n. Eins og ég hef þegar tekið fram, álít ég, að lánasjóður íslenzkra námsmanna eigi að lána fleirum en þeim, sem eru við nám í Háskóla Íslands, erlendum háskólum, tækniskólum eða hliðstæðum erlendum kennslustofnunum, eins og segir í 1. gr. frv. Mjög margir nemendur í menntaskólum, kennaraskólum og öðrum hliðstæðum skólum hafa einnig mikla þörf á námslánum, að ég tali ekki hreinlega um námslaun. Hins vegar virðist mér, að meðan opinber aðstoð við háskólastúdenta er enn svo skammt á veg komin sem raun ber vitni, sé tæplega raunhæft að leggja mjög mikla áherzlu á rétt nemenda í framhaldsskólum. En ég vil undirstrika, að þessir nemendur eiga rétt til aðstoðar og þeir munu öðlast þennan rétt fyrr eða síðar, þegar þröngsýnin og íhaldssemin hafa verið sigraðar.

Ég held, að ég láti þessar aths. nægja að þessu sinni. Ég vil vænta þess fastlega, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi gaumgæfilega, hvort íslenzka þjóðin hefur ekki efni á því að gera betur við íslenzka námsmenn en fyrirhugað er með þessu frv.