14.02.1967
Neðri deild: 41. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað allýtarlega um frv. um námslán og námsstyrki og ýmist fengið á sinn fund eða aflað sér álitsgerða frá höfundum frv. og samtökum stúdenta heima og erlendis.

N. er sammála öllum þessum aðilum um það, að þetta frv. sé þýðingarmikið spor í rétta átt, ef það verður að lögum, enda sé brýnt nauðsynjamál fyrir þjóðina að búa svo að námsfólki, að efnilegt æskufólk geti aflað sér þeirrar menntunar innanlands eða utan, sem hugur þess hneigist til, enda mun þjóðinni fátt eins mikilvægt á komandi árum og það að eiga vel menntaða kynslóð til að taka við landinu.

Menntmn. gerir á þskj. 214 nokkrar brtt. við frv., en rétt er að taka það fram, að þær snerta ekki þær meginbreytingar, sem gerðar eru á námslána- og námsstyrkjakerfinu með frv., eða það meginsamkomulag, sem hefur orðið á milli þeirra, sem áður hafa um málið fjallað, bæði varðandi fjárhagshlið þess og varðandi stjórn á lánasjóðnum. Skal ég nú gera stutta grein fyrir þessum brtt., sem n. flytur, en einstakir nm. áskilja sér allan rétt til þess að flytja eða fylgja frekari brtt.

Í 1. gr. frv. er þessi mgr.: „Lán skulu að jafnaði því aðeins veitt til náms erlendis, að eigi sé unnt að leggja stund á það hér á landi.“ Um þetta munu ekki hafa verið ákvæði í lögum fyrr, en að jafnaði höfð nokkur hliðsjón af því, þegar veittir hafa verið styrkir til náms erlendis, hvort unnt væri að stunda það nám hér. Menntmn. virðist ekki vera ráðlegt að festa slíka reglu í lögum, enda þótt sjálfsagt sé, að í framkvæmdinni verði nokkuð á þessi atriði litið til þess að forðast, að gengið sé út í neins konar öfgar, og er rétt að hafa í huga, að stjórn lánasjóðs mun að jafnaði hafa framkvæmdina í sínum höndum. Fljótt á litið mætti ætla, að það væri óhyggilegt að veita nokkra styrki til þess að nema þau fræði erlendis, sem unnt er að nema hér á landi. En rétt er að minnast þess, að flestallar fræðigreinar eru háðar mismunandi skoðunum á veigamiklum atriðum, mismunandi stefnum og kenningum, og þar sem háskóli okkar er og hlýtur um langt árabíl að verða talinn lítill háskóli, miðað við aðra háskóla, er óhjákvæmilegt, að þar verði tiltölulega fáir menn við kennslu á mörgum greinum. Því getur vel farið svo, að þar séu ágætismenn, jafnvel miklir menn á sínum sviðum, sem samt sem áður halli sér að sérstökum stefnum eða sérstökum skoðunum. Og þótt æskilegt sé, að flest okkar fólk, sem næmi slíkar greinar, væri við Háskóla Íslands, er ekki rétt að loka fyrir það, að eitthvert námsfólk gæti farið annað og kynnzt öðrum sjónarmiðum. Tel ég, að það horfi til víðsýni að hafa þá möguleika, að það sé hægt að senda nemendur til annarra skóla og annarra manna, og það muni, þegar fram í sækir, verða til þess að auðga þær greinar hér á landi. Þá er á það bent, að slíkt lagaákvæði mundi torvelda mjög námsmannaskipti, sem nú færast óðum í vöxt. Þó að ekki yrði haft lögbann við því að veita styrki til náms erlendis í greinum, sem hugsanlegt er að nema hér á landi, hygg ég, að það muni ekki á nokkurn hátt draga frá Háskóla Íslands. Það verður ávallt hagstæðara að nema hér heima og ódýrara, þannig að gera verður ráð fyrir, að allur þorri stúdenta muni gera það, ef þess er kostur, ef ekki eru sérstakar ástæður til þess, að þeir vilji leita út fyrir landssteinana.

Við 2. gr. er gerð sú brtt. um stjórn lánasjóðsins, að fulltrúar stúdenta, bæði þeirra, sem heima eru, og þeirra, sem erlendis eru, verði skipaðir til 2 ára, en aðrir stjórnarmeðlimir til 4 ára. Er augljóst, að námsmenn eiga erfitt með að sitja 4 ár í stjórn slíks sjóðs, þar sem gera má ráð fyrir, að þeir geti lokið námi á því tímabili og horfið úr röðum stúdenta, og að stúdentar muni þá ekki telja þá eins góða fulltrúa fyrir sig eins og þá, sem enn þá eru við nám. Um þetta atriði bárust óskir bæði frá stúdentaráði háskólans og samtökum stúdenta erlendis, og hefur n. farið eftir þeim óskum.

Brtt. við 4. gr. er nánast leiðrétting og augljós.

Við 5. gr. eru þrjár brtt. Sú fyrsta stafar af því, að nm. þótti betur fara að fella niður nokkur orð, en efni breytist ekki. 2. brtt. er á þá lund, að það skuli ekki ákveðið í þessu frv., að setja skuli. tryggingu fyrir lánum, heldur telur n. rétt, að stjórn lánssjóðsins hafi það í hendi sinni að ákveða, hvenær, hvort og hvernig trygginga skuli krafizt af stúdentum fyrir þeim lánum, sem þeir fá. Þessi breyt. stafar eingöngu af því, að menntmn. vill forðast, að það geti komið til mála, að þetta ákvæði verði fátækum námsmönnum til trafala.

Loks er sú brtt. við 5. gr. að bæta þar við ákvæði þess efnis, „að látist námsmaður eða verði öryrki, verði lán hans óafturkræf“. Þessari reglu hefur verið fylgt, og er því aðeins verið að lögfesta hana hér, og þykir n. það sjálfsagt.

Brtt. við 8. gr. er efnislega hin sama og við 1. gr.

Loks er brtt. við 9. gr. Í þeirri grein er talað um styrki til framhaldsnáms, og þarf þá að ákveða, hvenær telja má, að framhaldsnám hefjist. Eru í frv. ákvæði um, að það skuli að jafnaði vera lokið 5 ára námi, áður en til þess gæti komið, en er lagt til hér að breyta því í 4 ára nám. Barst um þetta ábending m.a. frá stúdentaráði háskólans. Vitað er, að uppi er mikill áhugi á því að reyna að stytta háskólanám, þar sem það þykir í mörgum greinum vera óþægilega langt, og nú þegar eru uppi ýmsar hugmyndir, t.d. þær að lengja skólaárið og geta þannig stytt heildartíma námsins, og einnig munu a.m.k. í einni deild Háskóla Íslands vera á döfinni breytingar, sem stytta það nám niður í 4 ár.

Virðist því eðlilegra, að framhaldsstyrkur geti komið til eftir a.m.k. 4 ára nám frekar en 5 ára.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að þessar breytingar snerta í engu meginatriði þessa frv. og raska í engu því samkomulagi, sem náðist um fjárhagshlið þeirra breytinga, sem gera á, eða um stjórn væntanlegs lánasjóðs eða önnur meginatriði, og að frv. með þeim meginbreyt. fyrst og fremst er mikið skref í rétta átt, þótt augljóst sé, að þess er ekki kostur á þessu stigi að stíga svo stórt skref sem margir mundu vilja óska eða þannig, að hægt væri að uppfylla svo til allar þarfir námsmanna á lánsfé eða styrkjum, fram yfir það, sem gera má ráð fyrir að þeir hafi að meðaltali annars staðar að.