20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Við 2. umr. um frv. þetta komu bæði fram nokkrar brtt. umfram þær, sem menntmn. flutti, og nokkrar aths., sem beint var til n. að athuga á milli umr.

Brtt. eru frá þeim hv. 5. landsk. og 3. þm. Reykv. Þær eru um efni, sem rætt var við meðferð málsins í n. og ganga lengra en frv. Þær ganga í þá átt, að við getum kallað þær óskhyggju okkar allra, en því miður er ekki hægt að ná almennu samkomulagi um að samþykkja slíkar till. Er þá rétt að minnast þess, að með þessu frv. er stigið stórt skref í framfaraátt, og samkv. því aukast þeir fjármunir, sem ríkið veitir til styrkja og lána fyrir stúdenta, um margar millj. kr. Er því miður ekki raunhæft að fara fram á samþykkt þessara till. og gæti raunar stofnað í hættu því samkomulagi, sem þegar er um frv., og þar með þeim endurbótum, sem stúdentar fá með frv. Get ég því aðeins sagt um þær till., að ég vona, að þau þing, sem á eftir okkur koma, geti bætt eins mikið um fyrir stúdentum hvað námslán og námsstyrki snertir eins og þetta þing gerir, ef það samþykkir þetta frv. Þá mun innan skamms koma að því, að till. þeirra tvímenninga verði að veruleika.

Nokkrar aths. voru gerðar við þær brtt., sem menntmn. flytur sameiginlega. Hefur n. komið saman á milli umr. og orðið sammála um að flytja tvær brtt. við fyrri brtt. Ef menn vilja hafa þann hátt, má einnig líta á þetta sem brtt., sem kæmu í stað hinna, og n. tæki þá fyrri till. aftur.

Gerð var aths. við brtt. n. við 5. gr. frv., till. 4.b á þskj. 214. Þar er lagt til að taka út orðin „og setja tryggingu samkv. ákvörðun stjórnar sjóðsins“ í lok 3. mgr. Það kom greinilega fram í grg., svo og við umr., að tilgangur menntmn. er sá að girða með öllu fyrir það, að ákvæði um, að taka megi tryggingu af stúdentum fyrir lánum, sem þeim eru veitt, verði til þess, að stúdentar missi af lánum. Vel er hægt að hugsa sér, að einhverjum stúdentum gæti gengið erfiðlega að útvega viðunandi tryggingar fyrir allmiklum lánum. Hins vegar var það dregið í efa, að stjórn lánasjóðs mundi hafa lagalega heimild til að setja nokkrar tryggingar, ef þessi till. væri samþ. og ákvæðið fellt úr lögum. Um þetta atriði er, að því er ég fæ bezt séð, enginn efnislegur ágreiningur, en til þess að forðast allan misskilning hefur menntmn. viljað flytja brtt. við brtt. sína og mundi sú till, orðast þannig: „Í stað orðanna í 5. gr. „og setja tryggingu samkv. ákvörðun stjórnar sjóðsins“ komi: og ákveður stjórn sjóðsins eftir aðstæðum umsækjenda, hvort eða hverra trygginga skuli krafizt.“

Menn veltu fyrir sér hugmyndum, sem ýmsir höfðu áhuga á, hvort taka ætti fram, að ekki mætti krefjast trygginga af efnalitlum stúdentum. Þar á móti kom það sjónarmið, að við megum helzt ekki flokka íslenzka borgara í lögunum eftir efnum þeirra, og þess vegna var fundið þetta orðalag, að það skyldi fara eftir aðstæðum umsækjenda, hvort eða hvernig sjóðsstjórnin krefðist trygginga. Er þá tryggt með öllu, að stjórn sjóðsins hefur lagalega heimild til að krefjast trygginga. En það sjónarmið kemur hér fram svo ljóst, að aldrei má um það verða nokkur efi, að vilji Alþ. er sá, að krafa um tryggingu verði ekki til þess að hindra það, að nokkur maður fái lán. Ef um annaðhvort efnalitla stúdenta er að ræða eða stúdenta, sem af einhverjum öðrum ástæðum eiga erfitt með að koma með venjulegar tryggingar fyrir lánum, má það ekki verða til þess að hindra það, að þeir geti haldið áfram námi, og vona ég, að þessi viðbótartill. frá menntmn. leysi þetta mál.

Önnur viðbótartill., sem menntmn. hefur orðið sammála um að flytja, er við 8. gr. Var við 2. umr. nokkuð um það rætt, hvort það ætti að banna með öllu, eins og frv. gerir upphaflega ráð fyrir, að veita lán eða styrk til þess að nema utanlands þær greinar, sem hægt er að stunda hér heima. Menntmn. telur varhugavert að festa slíkt ákvæði nú í lögum og lagði þess vegna til, að ákvæði um það í 1. og 8. gr. féllu niður. Hins vegar kom fram í n. till. um, að í 8. gr., sem fjallar um námsstyrki, verði orðin „í þeim greinum, sem eigi verður lögð stund á hérlendis“ ekki aðeins felld niður, heldur komi þar í staðinn þetta: „og skulu þeir að jafnaði ganga fyrir, sem nema greinar, er eigi verður lögð stund á hérlendis“. Mundi með því orðalagi verða tryggt, að að jafnaði skuli þeir menn ganga fyrir um styrki, sem eru neyddir til þess að fara til annarra landa til þess að stunda nám sitt. Virðist mér, að um þetta hljóti að verða samkomulag, enda sé eðlilegt, að þeir, sem ekki eiga þess nokkurn kost að stunda nám hér heima, skuli að jafnaði ganga fyrir, enda þótt aðrir séu ekki útilokaðir, ef fjármunir eru fyrir hendi, sem við vonum að verði eftir fá ár.

Þessar tvær till. flytur menntmn. til viðbótar, og hafa þær verið settar hér fram sem brtt. við fyrri brtt. Vil ég biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir þeim.