20.02.1967
Neðri deild: 43. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þetta atriði hefur því miður ekki komið til umr. á þeim mörgu fundum, sem menntmn. hefur um málið haldið, en ef flett er upp á bls. 15 og litið á fskj. II með frv., er þar talað um till. að samræmingu núgildandi úthlutunarreglna, og segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Gildandi úthlutunarreglur eru samdar af þeim tveimur aðilum, sem annazt hafa úthlutunina. Ef upp verður tekin sú skipan, sem lagt er til í frv. þessu, að úthlutun námslána verði framvegis á einni hendi, þ.e. stjórnar sjóðsins, leiðir af því, að það verður hún, sem semur úthlutunarreglur og fær þær staðfestar. Úthlutunarreglur verða því nánast reglugerð sett af ráðh., sem gildir til óákveðins og væntanlega skamms tíma í senn.“

Síðan er fjallað um þetta áfram, og á bls. 19 í sama fskj. er talað um undirbúning að úthlutun og úthlutunarreglur, og þar segir: „Varðandi úthlutunina sjálfa verður eftirfarandi verkefni úthlutunaraðila: 1. Að ákveða, hverjir eigi rétt á láni samkv. 1. gr. laganna. Sjóðsstjórnin verður að meta, hvort erlend kennslustofnun er hliðstæð háskóla eða tækniskóla.“ Þarna virðist vera um orðalag að ræða, sem bendir til þess, að þeir, sem frv. sömdu, litu á innlendu aðilana sem háskóla eða tækniskóla, þar sem talað er um erlenda aðila, sem séu hugsanlega hliðstæðir. En ég mundi lita þannig á, eins og þarna segir, að þetta atriði verði í höndum sjóðsstjórnarinnar, og er raunar rétt að átta . sig á því, að í þessum lögum eru aðeins mjög almenn ákvæði um þessi atriði, en það verður á valdi sjóðsstjórnarinnar að setja nánari úthlutunarreglur. — Frekari svör við fsp. hv. þm. get ég því miður ekki gefið, en sjálfsagt væri að athuga þetta mál nánar, t.d. áður en málið fer út úr þinginu.