14.03.1967
Efri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Frsm. menntmn. hefur þegar gert rækilega grein fyrir efni þessa frv., og skal ég ekki fara almennt út í það að rekja það. Ég lít þannig á, eins og nál. ber með sér, að þetta frv. sé í meginatriðum til verulegra bóta frá því, sem nú er, þó að ég telji hins vegar, að nokkuð skorti á, til þess að maður geti verið ánægður með frv. eins og það er. Og eru það þó einkum tvö atriði, sem ég tel að þurfi að vera á annan veg en frá er gengið í þessu frv. Hið fyrra atriði og það, sem skiptir að mínu viti mjög miklu máli, er það, að ákveðið verði, hversu langan tíma það skuli taka að ná því lofsverða takmarki, sem stefnt skal að samkv. ákvæðum 2. gr., en þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Stefnt skal að því, að opinber aðstoð við námsmenn samkv. l. þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af árlegum námskostnaði, þegar eðlilegt tillit hefur Verið tekið til aðstöðu hans til fjáröflunar.“

Þetta er vissulega eðlilegt takmark og lofsvert, að setja það í lög, en það er hætt við, að á því geti orðið nokkur bið, að þetta takmark náist, ef löggjafinn ákveður ekki einhver tímatakmörk, þannig að þetta náist í áföngum á fáeinum árum.

Hitt atriðið, sem ég tel, að þyrfti að koma inn í þetta frv., er það, að þeir námsmenn, sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá, það sé skýrt tekið fram í lögunum, að tillit skuli tekið til þeirra aðstöðu og þeirra sérstöku þarfa. Það er kunnugt, að þeim hefur á síðari árum farið mjög fjölgandi, námsmönnum til að mynda við háskólanám og tækninám, sem eru kvæntir og eiga orðið börn. Námsmenn eru orðnir allfullorðnir, þegar háskólanámi eða tækninámi lýkur, gjarnan komnir hátt á þrítugsaldur, og það er viðbúið, að það fari enn fjölgandi þeim, sem þá eru jafnvel fyrir nokkuð löngu orðnir heimilisfeður.

Það eru þessi tvö atriði, sem námsmenn og talsmenn þeirra hafa lagt alveg sérstaka áherzlu á, að tekið verði tillit til í þessari nýju og að ýmsu leyti góðu löggjöf um námsstyrki og námslán.

Því er ekki að leyna, að hér er um nokkurt fjármagn að ræða, sem til þess þarf að ná því takmarki, sem sett er þarna í 2. gr., en þó ekki svo mikið, að mönnum þurfi að blöskra það. Á fjárl. nú eru samtals ætlaðar til lána og styrkja íslenzkum námsmönnum heima og erlendis rúmar 19 millj. kr. Þar við bætist eigið fé lánasjóðs, þ.e.a.s. það fé, sem innheimtist af gömlum lánum á hverju ári. Það mun nú vera um 3 millj. á ári, en fer allmikið vaxandi með hverju ári og ætti einkum að gera það nú eftir 4–5 ár, þegar farið verður að borga af hinum nýrri og hærri lánum. Enn fremur hefur verið í lögum um þessi efni heimild fyrir stjórn lánasjóðs að taka að láni hjá lánastofnunum nokkra fjárupphæð nú árlega um takmarkað áraskeið, meðan lánasjóðurinn er að eflast, og þessi fjárupphæð mun að líkindum á þessu ári, lántaka lánasjóðs, nema 2–3 millj., þannig að heildarfjárveitingin til námsmanna, þ.e.a.s. ríkissjóðsframlagið, eigið fé lánasjóðs og heimiluð lántaka, mun nema um 25 millj. kr. Þar af fara, að ég hygg, á þessu ári um það bil 15 millj. til námsmanna erlendis og um það bil 10 millj. til stúdenta við Háskóla Íslands.

Á síðustu tveimur árum, 1965–1966 fór fram mjög ýtarleg og umfangsmikil könnun á því, hversu mikil væri raunveruleg fjárþörf íslenzkra námsmanna, sem stunda nám erlendis. Það var athugað í fyrsta lagi, hver dvalar- og námskostnaður er raunverulega í hverju landi, og jafnframt var reynt að kanna eftir föngum, hver aðstaða námsmanna er til þess að afla sér einhverra tekna með námi. Það kom í ljós, eins og við var að búast, að þörf námsmanna fyrir stuðning í formi lána eða styrkja er mjög misjöfn. Kostnaður í hinum ýmsu löndum er misjafn, og aðstaða til tekjuöflunar er það einnig. Í stórum dráttum má segja, að í ljós hafi komið, að stuðningur hins opinbera, eins og hann mundi vera í ár, miðað við það fé, sem til ráðstöfunar er eða verður, um 25 millj., það láti nærri, að þessi stuðningur nægi til þess að standa undir allt frá 75% af hinni raunverulegu þörf námsmanna í einstökum tilfellum og allt niður í það að vera aðeins 30% af hinni raunverulegu þörf. Meðaltalið, hygg ég, að sé mjög nálægt 50%. í gegnum þetta lána- og styrkjakerfi fá námsmenn að meðaltali um það bil helming þess, sem á vantar, til þess að eigið aflafé nægi til að standa undir náms- og dvalarkostnaði. Þetta á við námsmennina erlendis, en mér er ekki um það kunnugt, að hliðstæð könnun hafi farið fram að því er snertir stúdenta við Háskóla Íslands.

Nú liggur það ljóst fyrir, eins og ég áðan sagði, að árlegar tekjur lánasjóðs fara allmjög vaxandi á næstu árum. Lánasjóðurinn er nú þegar að verða allmyndarleg stofnun. Ég hygg, að nú eigi hann útistandandi í lánum eitthvað milli 30 og 40 millj. kr., og þetta fé vex ört með hverju ári. Og það, sem innheimtist, — innheimta hefur yfirleitt gengið mjög vel, — og það, sem innheimtist, kemur síðan til úthlutunar jafnóðum og inn kemur. Nú má að vísu fastlega gera ráð fyrir því, að námskostnaður fari smám saman vaxandi víðs vegar um lönd. Þróunin er sú, að maður tali nú ekki um kostnaðinn hér innanlands. En ég tel, að það ætti að mega vænta þess, að tekjur lánasjóðs gætu a.m.k. að því er varðar kostnaðinn erlendis, vaxandi tekjur lánasjóðsins af eigin fé gætu mætt þeirri dýrtíðaraukningu nokkuð eða kannske alveg þeirri dýrtíðaraukningu, sem má búast við að verði á næstu árum. Til þess að ná því marki, sem sett er í 2. gr. frv., sýnist mér, að það láti nærri, að það þurfi að tvöfalda tekjuöflunina til sjóðsins eða a.m.k. framlag hins opinbera, það megi gera ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs þurfi að hækka úr 19 millj. kr. í 38 millj.

Með brtt. þeirri, sem ég flyt við frv., er gert ráð fyrir, að því marki, sem um er rætt almennum orðum í 2. gr. frv., skuli náð á 4 árum með nokkuð jöfnu átaki. Þetta sýnist mér, að þýði þá um það bil 5 millj. kr. hækkun á hinu opinbera framlagi á ári. Þá miða ég að vísu ekki við þá væntanlegu fjölgun, sem vafalaust verður á námsmönnum, og nauðsynlegu fjölgun, heldur miða ég við þann fjölda, sem er nú í dag. Verði tekið tillit til fjölskyldumanna og þeim ætlaður nokkru meiri hlutur með hliðsjón af því, að þeir hafi fyrir fjölskyldu að sjá, yrði þetta að vísu nokkru meira, en þó hygg ég, að ég hafi sýnt fram á, að hér er ekki um neinar gífurlegar upphæðir að ræða.

Á það vil ég leggja áherzlu, að margt mundi vinnast við það, að þessu ágæta takmarki, sem sett er í 2. gr., verði náð á sem allra skemmstum tíma. Í fyrsta lagi mundi það vinnast, að þá væri það ekki lengur efnahagur foreldra eða annarra vandamanna, sem réði því að einu eða neinu leyti, hvort menn geta stundað framhaldsnám eða ekki. Þá mundi það úr sögunni, að menn, sem eru af takmörkuðum efnum að brjótast í löngu og erfiðu framhaldsnámi, þyrftu að gera hlé á námi sínu til þess að vinna fyrir sér, en þess eru allmörg dæmi, að menn hafa tafizt og tefjast enn í dag frá námi af þessum sökum. Þá mundi það einnig úr sögunni, að menn kæmu heim að námi loknu með þunga bagga lausaskulda á bakinu. Þá mundi fyrst og fremst vera þar um að ræða samningsbundin lán með hagkvæmum vaxta- og greiðsluskilmálum. Þess eru dæmi, að námsmenn, sem hafa orðið að hleypa sér í stórskuldir fyrir utan þær skuldir, sem stafa af lánum úr lánasjóði, — lausaskuldir, sem gjarnan þurfa að greiðast á skömmum tíma og oft með háum vöxtum, þeir menn, sem hafa orðíð að sæta slíku, hafa, þegar þeir hafa lokið námi erlendis, tekið tilboðum um há laun í viðkomandi landi til þess að reyna að losa sig sem allra fyrst við lausaskuldirnar. Í sumum tilfellum veit ég, að þetta hefur orðið til þess, að menn, sem vissulega ætluðu sér að koma heim að loknu námi og hefðu gjarnan viljað gera það, þeir hafa tekið að sér betur launuð störf erlendis og jafnvel festst í þeim störfum, ef svo mætti segja, ytra og ekki komið heim fyrir bragðið.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vil aðeins endurtaka það, að frv. þetta í beild, að því er fyrirkomulag snertir og að því er snertir það stefnumið, sem um ræðir í 2. gr., þá er þetta frv. til mikilla bóta að mínum dómi frá því, sem verið hefur. En á það vil ég að lokum leggja áherzlu, að hér skortir aðeins nokkuð á, til þess að þetta frv. megi teljast gott og koma að því gagni, sem það þyrfti að gera, að trygging væri fyrir því, að takmarkið, sem 2. gr. setur réttilega, náist á sem skemmstum tíma. Ég er þess fullviss, að hv. alþm. gera sér þess ljósa grein, að á þessu sviði er ekki skynsamlegt að spara allt of mikið, því að það vitum við, að stuðningur við námsmenn, stuðningur við menn til þess að stunda háskóla- og tækninám, er einhver allra bezta og öruggasta fjárfesting, sem um er að ræða í nútíma þjóðfélagi.