14.03.1967
Efri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

22. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. hefur nú gert grein fyrir brtt., sem hann flytur á þskj. 307. Hann nefndi ýmsar tölur í því sambandi, hvað fjárveitingar þyrftu að hækka mikið í heild til námsmanna til þess að ná einmitt því marki, sem samkv. 2. gr. frv. er lagt til að stefnt verði að. Hann nefndi, ef ég tók rétt eftir, að á mundi skorta 35 millj. kr., til þess að mætt yrði umframfjárþörfinni, eins og hún er í dag, eða ég tók svo eftir. Þessi tala kemur einnig fram í álitsgerð Sambands íslenzkra stúdenta erlendis, sem prentuð er sem fylgiskjal með nál. menntmn. Nd. En þar er einnig vikið að því, hvað fjárveitingin þyrfti að fara hátt, ef taka ætti tillit til þess, að námsmaður hefur fjölskyldu á framfæri sínu, þegar reiknaður er út námskostnaður, og kemst stjórn Sambands íslenzkra stúdenta erlendis að þeirri niðurstöðu, að til þess þurfi hún að hækka upp í 80 millj. kr., og hefur þá verið tekið tillit bæði til útvíkkunar lánakerfisins, eins og frv. gerir ráð fyrir, og verðlagshækkana, en álitsgerðin er frá því í janúar nú á þessu ári. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari tölu, sem þarna er sett fram, einmitt vegna þess, að brtt. hv. þm. felur það í sér, að tekið sé tillit til þess, ef námsmaður hefur fjölskyldu á framfæri.

Alveg samhljóða brtt. þessari var flutt í hv. Nd. Alþingis, en náði þar ekki samþykki. Hún var flutt þar af einstökum þm., nefndin í heild treysti sér ekki til þess að standa að slíkri brtt., og þessari brtt. var einnig hreyft í menntmn. þessarar hv. þd. við umr. þar um málið, en hér var niðurstaðan sú sama og í Nd., að nefndin treysti sér ekki til að standa að brtt. og það því síður, eðlilega, þegar búið var að fella slíka brtt. í hinni þd.

Hitt er annað mál, að það er mjög æskilegt, að hægt yrði að ná þessum áfanga á fjórum árum, og ég mundi álíta, að það væri ekkert ósennilegt, að það gæti tekizt. En eins og nú standa sakir, er verið með þessu frv. að ná mjög góðum áfanga í þessum málefnum námsmanna, bæði með mikilli útvíkkun á kerfinu sjálfu og endurbótum á skipulagi öllu, sem horfa mjög í rétta átt, og þeirri hækkun á framlögum, sem þegar þarf að koma vegna frv., og þá held ég, að við verðum nú að svo stöddu að staldra við.

Hin mikilvæga stefnuyfirlýsing í 2. gr. frv. hlýtur hins vegar að vera á hverju þingi hv. þm. hvatning að ná markinu sem fyrst, og tel ég, að það sé hægt við það að una. Hitt er ofureðlilegt, að samtök námsmanna beri fram óskir um, að því verði slegið föstu, á hve löngum tíma þessu marki skuli né, og að sjálfsögðu mundu þeir kjósa helzt, að það yrði gert nú þegar, og láir sjálfsagt enginn samtökum námsmanna, þó að þau setji fram ýtrustu kröfur, ella mundu fyrirsvarsmenn þeirra sjálfsagt vera taldir standa sig illa fyrir sína hagsmunahópa.

Ég vil sem sé endurtaka það, að þótt æskilegt væri að stefna að markinu strax og lögbinda það, á hvað löngum tíma það skuli vera gert, þá mun ég, eins og háttar, ekki geta stutt brtt. hv. þm. og ætla, að ég mæli þar fyrir munn a, m. k. sumra af meðnefndarmönnum mínum í menntmn.