15.11.1966
Neðri deild: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í skattal., sem samþ. voru á næstsíðasta Alþ., var sú breyting gerð, að ákveðið var, að hér eftir skyldi árlega breyta frádráttarliðum til skattálagningar í samræmi við vísitölu, svokallaða skattvísitölu, sem ákveðin skyldi af fjmrh. fyrir hvert ár. Áður hafði það verið venja, að skattal. var breytt þing eftir þing með það í huga að endurskoða skattstiga og frádráttarreglur með hliðsjón af verðlagsþróuninni. Þetta þótti að vonum óeðlilegur háttur, og því var þessi nýskipan mála tekin upp.

Það kom hins vegar í ljós, þegar kom til skattálagningar á s.l. vori, að ekki hafði verið gerð hliðstæð breyting á l. um tekjustofna sveitarfélaga, þannig að ef ekki hefðu verið gerðar sérstakar ráðstafanir, hefði ekki verið unnt að taka tillit til verðlagshækkana við álagningu útsvara á s.l. vori. Því miður var þetta ekki ljóst fyrr en eftir að störfum Alþ. lauk, og þótti því nauðsynlegt að gefa út brbl. þess efnis, að sama regla skyldi gilda einnig varðandi útsvör, og með hliðsjón af því, að þetta ákvæði mun á sínum tíma hafa hlotið einróma stuðning hér á hinu háa Alþ. í sambandi við álagningu skatta til ríkisins, þótti nokkurn veginn víst, að þetta mundi hljóta sama fylgi varðandi útsvör.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um staðfestingu á umræddum brbl. Málið er í eðli sínu svo einfalt, að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það. Hin sama skattvísitala var notuð til viðmiðunar við álagningu útsvara og við álagningu tekjuskatts á s.l. vori.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.