15.11.1966
Neðri deild: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki kvatt mér hljóðs til að gera neinar aths. við það frv., sem hér liggur fyrir. Eins og hæstv. ráðh. gat um, var fyrir skömmu gerð sú breyting á skattal., að það var tekin upp gamla umreikningsreglan svokallaða, sem lengi hafði verið í gildi, en var felld niður, ég held eftir að núv. ríkisstj. kom til valda, en hún hefur verið tekin upp aftur, og það er gott.

En þótt ég hafi ekkert við þetta að athuga, vil ég í sambandi við málið benda á, að það er brýn þörf að gera fleiri breytingar á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Síðustu árin hafa mörg sveitarfélög lagt svonefnd aðstöðugjöld á atvinnurekstur til tekjuöflunar fyrir sig samkv. heimild í l. um tekjustofna sveitarfélaga. Sá galli er á álagningu aðstöðugjaldanna, eins og hún hefur verið framkvæmd, að þau koma mjög misjafnlega þungt á gjaldendur eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu, og þetta veldur miklu ranglæti. Til skýringar á málinu skulu hér nefnd dæmi um álagningu aðstöðugjalda á iðnaðar- og verzlunarfyrirtæki árið 1965. Í Reykjavík var álagningin 0.9% á iðnað ótalinn annars staðar, eins og það heitir á tolla- og skattamáli. Í 4 öðrum kaupstöðum og 13 hreppum var álagningin á iðnaðinn 1.5% eða um 67% hærri en í Reykjavík. Í einum kaupstað og einum hreppi var álagið 1.25% og í 6 kaupstöðum og 13 hreppum 1% eða 11% hærra en í Reykjavík. Þegar athuguð er álagning aðstöðugjalda á verzlanir, kemur fram, að þar er murturinn enn meiri. Árið 1965 voru aðstöðugjöld á nýlenduvöruverzlunum í Reykjavík 0.5% og á verzlunum ótöldum annars staðar 0.7%. En þá var álagningin á verzlanir í 7 öðrum kaupstöðum og kauptúnum 2%. Í 3 kauptúnum voru aðstöðugjöldin 1.7% og í 18 kaupstöðum og kauptúnum voru aðstöðugjöldin á verzlunum 1.5%. Á nokkrum stöðum var álagningin 1.1 –1.35% og í 18 kaupstöðum og kauptúnum var álagning aðstöðugjalda á verzlanir 1%. Hér kemur fram, að aðstöðugjöld á verzlunum á mörgum stöðum á landinu hafa verið 200–300% hærri en í Reykjavík og víða 100% hærri. Nokkur hækkun varð á aðstöðugjöldum í Reykjavík 1966, en eigi að síður eru þau langtum hærri í mörgum kaupstöðum og kauptúnum annars staðar á landinu.

Oft er um það rætt og viðurkennt af mörgum, að nauðsynlegt sé að vinna að eflingu atvinnurekstrar og stofnun nýrra atvinnufyrirtækja sem víðast á landinu, t.d. á iðnaðarsviðinu, m.a. til þess að koma í veg fyrir, að fólk haldi áfram að flytjast á eitt takmarkað landssvæði, en byggileg héruð leggist í auðn. Og nefndir hafa verið settar niður til þess að athuga um atvinnuuppbyggingu í einstökum landshlutum og eru að störfum. En því aðeins verður mögulegt að auka atvinnu og byggð í fámennari kaupstöðum og kauptúnum, að ekki sé haldið áfram að íþyngja fyrirtækjum þar með miklu hærri opinberum gjöldum en hliðstæður atvinnurekstur í höfuðborginni þarf að bera. Fréttir hafa borizt af því, að nágrannaþjóðir okkar styrki stofnun iðnaðarfyrirtækja í fámennari byggðarlögum til þess að stuðla að jafnvægi. En hér er farið öfugt að. Með því að leggja langtum hærri opinber gjöld á fyrirtæki utan höfuðstaðarins heldur en þau, sem þar eru rekin, er verið að vinna á móti því, að t.d. iðnaður geti þrifizt annars staðar en í Reykjavík.

Ég hef hér skýrt frá því, að verzlanir í mörgum kaupstöðum og kauptúnum þurfa að borga langtum hærri aðstöðugjöld en hliðstæð fyrirtæki í höfuðborginni, í nokkrum tilfellum 200–300% hærri. Þetta gerir samkeppnisaðstöðu þeirra verzlunarfyrirtækja, sem starfa víða úti um landið, mjög örðuga, og ranglætið í þessu efni bitnar á fólkinu, sem býr á þeim landssvæðum, þar sem háu aðstöðugjöldin eru. Háu gjöldin verða til þess að gera viðskiptin óhagstæðari fyrir það fólk heldur en aðra. Fengin reynsla af álagningu aðstöðugjaldanna sýnir, að það er óhjákvæmilegt að breyta lagaákvæðunum um það efni. Sömu reglur eiga að gilda um álagningu gjaldanna hjá öllum sveitarfélögum, sem nota þau sem tekjustofn.

Annað atriði í þessum l. vil ég einnig gera að umtalsefni. Í V. kafla l. um útsvör segir svo í 34. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kemur í ljós, að útsvör samkv. 32.–33. gr. l. þessara reynast hærri eða lægri en fjárhagsáætlunin segir til um, og skal þá lækka eða hækka hvert útsvar að réttri tiltölu, unz hinni áætluðu upphæð að viðbættum 5–10% er náð. Hækkun útsvara má þó eigi fara fram úr 20%.“

Þannig segir nú í lagagr.

Á árinu 1965 þurftu nokkrir kaupstaðir og hreppar að nota heimild nefndrar lagagr. til þess að hækka útsvörin frá þeim gjaldstiga, sem ákveðinn er í 32. gr. 1., og á nokkrum stöðum var hækkunin á útsvörunum 20%, eins og mest er leyfilegt að hækka þau. Telja verður, að hér sé of langt gengið í því að leggja aukaskatt á íbúa þeirra sveitarfélaga, sem af ýmsum ástæðum eiga við fjárhagsörðugleika að búa og fá ekki nægar tekjur af álagningu útsvara, sem lögákveðin eru. Hins vegar má segja, að rétt sé, að áður en sveitarfélag fær aukaframlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkv. d-lið 15. gr. 1., þurfi íbúar þess að taka á sig nokkra hækkun á útsvörum, en þarna finnst mér allt of langt gengið. Og vel mætti hugsa sér þetta þannig, að ef til þess þyrfti að koma að leggja þannig aukagjöld á fyrirtæki og einstaka gjaldendur, yrði leyfð hlutfallslega jafnmikil hækkun á aðstöðugjöldum og útsvörum á þeim stöðum. Við því má búast, að allt að 20% aukaálag á útsvör verði til þess, eins og sérstaklega há aðstöðugjöld, að fæla menn frá búsetu í vissum sveitarfélögum og stuðla að óheppilegum fólksflutningum milli landshluta. Því er brýn þörf að létta hvort tveggja útsvarsbyrðarnar og aðstöðugjöldin á þeim, sem nú bera hæstu skattana til sveitarfélaga. Það á að vera hlutverk jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að styðja þau sveitarfélög, sem fá ekki fullnægt tekjuþörfum sínum með álagningu gjalda eftir almennum reglum.

Ég hef, herra forseti, viljað vekja athygli á þessu máli nú þegar við 1. umr. um þetta frv., og ég vil mjög ákveðið skora á hv. þn., sem fær málið til athugunar, að taka þetta til athugunar.