02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég gat þess, þegar frv. þetta var hér til umr. víð 2. umr. þess, að heilbr.- og félmn. mundi taka til athugunar þá till., sem þá kom fram frá hv. 5. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, og er prentuð á þskj. 256. N. tók till. til meðferðar á fundi hjá sér, sendi hana til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga og einnig til ráðuneytisstjórans í félmrn., Hjálmars Vilhjálmssonar, sem mjög þekkir allar aðstæður við niðurjöfnun útsvara hér á landi. Ég vil leyfa mér að kynna hv. Alþ. umsagnir þessara aðila. Þær koma báðar fram í bréfi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem dags. er 1. marz og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Með bréfi, dags. 23. f. m., sendið þér f.h. heilbr.- og félmn. Nd. til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga brtt. við frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 1965, um breyt. á l. nr. 51 1964, um tekjustofna sveitarfélaga. Síðan bréf ýðar barst, hefur ekki verið haldinn fundur í stjórn sambandsins, en áður hafði heilbr.- og félmn. Ed. leitað umsagnar stjórnarinnar á frv. því, er Alfreð Gíslason flytur, og taldi sig ekki geta mælt með því frv., þar eð það skerti rétt einstakra sveitarstjórna. Ég hef haft símasamband við meiri hl. stjórnarmanna sambandsins og eru þeir sömu skoðunar varðandi téða brtt., er þér senduð til umsagnar, enda er efni hennar sama eðlis, en gengur enn lengra í skerðingarátt.

Þetta tilkynnist yður hér með.

Virðingarfyllst,

Magnús E. Guðjónsson“.

Umsögn ráðuneytisstjóra félmrn. hljóðar þannig:

„Sem svar við bréfi hv. heilbr.-og félmn. Nd. Alþ., dags. 23. febr. 1967, þar sem óskað er umsagnar um brtt. við frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, skal eftirfarandi tekið fram:

Brtt. þessi er í því fólgin, að bætur almannatrygginga skuli vera undanþegnar útsvarsálagningu, en samkv. gildandi l. er aðeins heimilt að undanþiggja bætur þessar útsvarsálagningu. Sumar bótategundir eru þó nú þegar undanþegnar álagningu útsvars og tekjuskatts. Svo er t.d. um slysadagpeninga og sjúkradagpeninga, sbr. lög nr. 90 1965, 13. gr. F. Sama gildir um sumar aðrar slysa- og sjúkrabætur. Sveitarfélög hafa notað undanþáguheimildina meira og minna og með ýmsum hætti. Það er því út af fyrir sig ekki fráleit hugmynd að undanþiggja allar bætur almannatrygginga álagningu útsvars. Rökrétt væri þá að undanþiggja bæturnar líka álagningu tekjuskatts. Þó ber að íhuga það, að síðan efnahagsviðmiðun var numin úr lögum í sambandi við bótagreiðslur almannatrygginga, eru fjárhagslegar ástæður bótaþega mjög misjafnar, svo að nauðsyn undanþágunnar getur verið afar misjöfn gagnvart einstökum bótaþegum. Brtt. mundi vera mjög hagstæð fyrir bótaþega, sem hafa háar tekjur, en mundi litlu eða engu máli skipta fyrir þá bótaþega, sem ekki hafa verulegar tekjur auk bótanna. Þá verður einnig að hafa í huga, að þau sveitarfélög, sem hafa lagt útsvör á bætur almannatrygginga, munu verða fyrir töluverðum tekjumissi, ef brtt. verður samþ. Í þessu efni er fróðlegt að vita það, að á árinu 1965 námu bætur þessar samtals ca. 860 millj. kr. Útsvarsbyrði sveitarfélaga er mjög misjöfn, allt frá 85% afslætti frá útsvarsstiga upp í 20% álag á stigann. Þau sveitarfélög, sem lægst útsvör hafa, þola breytinguna vel, en önnur sveitarfélög miður. Nauðsynlegt virðist, að gagnger rannsókn fari fram á afkomu ýmissa sveitarfélaga, áður en brtt. þessi verður samþykkt.

Virðingarfyllst,

Hjálmar Vilhjálmsson.“

Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er alveg neikvæð, og má segja um niðurstöðu í umsögn ráðuneytisstjórans, að hún sé einnig neikvæð að því leyti, að hann telur, að gagnger rannsókn þurfi að fara fram á afkomu ýmissa sveitarfélaga, áður en brtt. yrði samþ.

Um þetta mál vil ég að öðru leyti segja það, að það mun liggja nokkuð ljóst fyrir í þeim gögnum, sem fyrir hendi eru í félmrn., að mjög mörg sveitarfélög, sérstaklega munu það vera kaupstaðirnir, hafa um verulegt bil undanfarin ár undanskilið vissan hluta af bótum almannatrygginga niðurjöfnun útsvara. Er þar um að ræða fyrst og fremst elli- og örorkulaun, sjúkrabætur og barnalífeyri til einstakra mæðra. Þetta mun vera orðin mjög algeng regla hjá öllum hinum stærri sveitarfélögum, að haga því þannig til við niðurjöfnun útsvara að undanþiggja þennan hluta bóta almannatrygginganna. Hins vegar mun það vera mjög fátítt, að fjölskyldubætur hafi verið undanþegnar útsvarsálagningu. Mér er þó tjáð, að þetta muni hafa verið gert í einum kaupstað s.l. ár, Kópavogskaupstað, og er það eini kaupstaðurinn, sem ég veit til, að þetta hafi gert.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisstjórans, getur það verið tvíeggjað að undanþiggja bætur almannatrygginganna, — hann ræðir þar um elli- og örorkulífeyrinn, — þar sem hann bendir á, að það komi fyrst og fremst til hagræðis fyrir þá, sem háar tekjur hafa, en síður fyrir þá, sem lægri tekjur hafa, og liggur þetta að sjálfsögðu alveg í augum uppi, þar sem stór hluti þeirra aðila, sem elli- og örorkulaun fá, verður hvorki útsvars- né skattskyldur, nær ekki því lágmarki, sem gert er ráð fyrir að lagt sé á, hvort heldur er til útsvars eða tekjuskatts. Þetta kemur enn frekar fram í sambandi við fjölskyldubætur, og hygg ég, að það, sem hefur komið sveitarstjórnum undanfarið til að undanskilja þær ekki við útsvarsálagningu, er, að það liggur alveg ljóst fyrir, að það mundi geta í mörgum tilfellum verkað þannig, að það yrði eingöngu til hagræðis fyrir þá, sem hærri tekjurnar hafa, og kæmi þar af leiðandi að vissu leyti niður á þeim, sem lægri tekjur hafa.

Ég tel rétt, að álit þessara aðila, sem til var leitað í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir, sé kynnt hv. Alþ., og n. ræddi þetta mál á fundi í dag, gerði ekki um það neina sérstaka ályktun, en fram kom þar, að meiri hl. n. treystir sér ekki til þess að mæla með samþykkt tillögunnar.