09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við umr. þessa máls síðast gerði hv. 5. þm. Vesturl. grein fyrir brtt., sem hann flytur við brtt. á þskj. 256, frá hv. 5. þm. Reykv. Þessi brtt. er þess efnis, eins og hann gerði grein fyrir, að frádráttarrétturinn samkv. till. hv. 5. þm. Reykv. er takmarkaður við það, að til viðmiðunar skuli koma, hver er heildartekjuupphæð viðkomandi aðila. Þetta er vitanlega til verulegra bóta frá hinni upphaflegu brtt. og gerir minna það misrétti, sem fram kynni að koma milli þeirra aðila, sem njóta tryggingabóta, og annarra, sem hafa jafnvel mun minni heildartekjur. En engu að síður er þó málið þess eðlis, að ég teldi það mjög óheppilegt, að þessi breyting væri gerð. Má í því efni benda á, að með þessari brtt. hv. 5. þm. Vesturl. mundi vera í rauninni skertur réttur þessara sömu aðila í sveitarfélögum, þar sem veitt er jafnvel í dag meiri frádráttarheimild en hér er gert ráð fyrir, þannig að við sjáum á þessu, að þetta mál er alls ekki eins einfalt og það kann að líta út á blaði.

Sannleikurinn er sá, eins og ég gerði grein fyrir í minni ræðu þá, að þessi útsvarsmál og raunar bæði útsvars- og skattamál eru margslungin og flókin og að ætla að fara að taka út úr því einstök atriði er ákaflega varasamt og getur raskað öðrum þáttum málsins og þarf ekki að leiða til þess, að um sérstakt réttlæti verði að ræða. Hitt er annað mál, eins og ég skýrði frá í ræðu minni þá, að það er vissulega réttlætiskrafa í mörgum tilfellum, að þessar bætur séu undanþegnar útsvarsálagningu, og það má vel vera, að það ætti að gera það að skyldu í vissum tilfellum, en ekki aðeins heimild eins og nú er. En ég tel aðeins, að það þurfi að athuga þetta í sambandi við ýmis önnur atriði tekjustofnalaganna um frádráttarrétt í ýmsum öðrum tilfellum, sem kann að vera alveg eins mikið réttlætismál að sé aukinn eins og í því tilfelli, sem, þessi brtt. fjallar um.

Ég skýrði frá því þá, að þetta mál allt, tekjustofnamál sveitarfélaga, mundi hljóta að koma til heildarathugunar í sambandi við staðgreiðslukerfið, ef það ætti að takast upp, og þá yrðu í flestum greinum að koma skylduákvarðanir um frádrátt í staðinn fyrir heimildir, vegna þess að það má ekki vera munur á frádráttaraðferðum frá einu sveitarfélagi til annars, ef slíkt kerfi ætti að takast upp. Og þegar kemur að því að ræða það mál hér efnislega, er að sjálfsögðu hægt að taka þetta til athugunar. Ég teldi því vera óheppilegt, ef þessar brtt., hvor sem væri, væru samþ. við þetta frv. nú, sem er um algerlega afmarkað atriði í tekjustofnalögunum. Ég tel hins vegar sjálfsagt og vil mjög fyrir mitt leyti ganga til móts við óskir þessara hv. þm. um það að láta taka þetta mál til endurskoðunar, hvað sem annarri endurskoðun líður, þannig að þetta verði tekið til athugunar nú milli þinga og skoðaðar þær röksemdir, sem fram hafa komið frá báðum hv. flm. varðandi málið. Ég vonast til, að hv. flm. till. þessara geti á grundvelli þessarar yfirlýsingar minnar fallizt á, að þessar till. þeirra nú komi ekki til samþykktar varðandi frv. eins og það nú liggur fyrir, vegna þess m.a., að það er alveg ljóst, að í hugum ýmissa hv. þm., bæði hér í þessari hv. d. og í Ed., en þar var engin breyting gerð á málinu, þar eru uppi ýmsar óskir um það, að breytingar verði gerðar á tekjustofnal., en þeir hafa fallið frá að gera einmitt með hliðsjón af þeirri ósk minni, að það væri ekki verið að blanda inn í málið fleiri atriðum, en aðeins takmarka sig við ákvörðun þá á skattvísitölunni, sem frv. fjallar um.