09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst till. frá hv. 5. þm. Vesturl. á þskj. 292. En í sambandi við málið í heild vil ég segja það út af till. hv. 5. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, að ég er fylgjandi því, að það sé yfirleitt ekki lagt á bætur almannatrygginga, sérstaklega finnst mér fráleitt að leggja á ellilaun og örorkulífeyri og sömuleiðis á fjölskyldubætur, a.m.k. eftir að börnunum fjálgar. Ég hef hins vegar haft þá skoðun persónulega, að ekki væri ástæða til, að fjölskyldubætur væru greiddar með fyrstu tveim börnunum, þar sem það væri lágmarksskylda heilbrigðra foreldra að endurnýja sjálf sig, og þeir, sem hefðu eðlilegar tekjur, ættu að geta séð fyrir þeim börnum án fjölskyldubóta. En hér er reyndar annað mál á ferðinni í sambandi við fjölskyldubætur hér á landi, vegna þess að þær eru notaðar sem liður í niðurgreiðslu og til þess að halda vöruverði í landinu í skefjum og ekki framkvæmdar eins og venjulegar fjölskyldubætur nú síðustu árin. En út af till. hv. 5. þm. Vesturl. vil ég segja það, að ef hún yrði að l., væri felld niður sú heimild, sem sveitarstjórnir hafa nú, eins og hæstv. fjmrh. kom að hér áðan, til þess að undanþiggja bætur almannatrygginga, nema að þeirri takmörkun, sem hann gerir ráð fyrir. Eftir það væri öllum sveitarfélögum skylt að leggja á allar fjölskyldubætur og að leggja á örorku- og ellilífeyri, þegar kæmi yfir það mark, sem hv. 5. þm. Vesturl. leggur til.

Við nánari athugun á því sýnist mér svo, að ef þetta hefði verið í lögum s.l. ár, 1966, hefði framkvæmdin orðið þannig, að þetta hefði aðeins náð til þeirra manna einhleypra, sem voru útsvarslausir hvort sem var. Upphæðin, sem hér um ræðir, hefði verið 27400 kr., en samkv. útsvarsstiga hefði einhleypur maður, sem hefði haft 54800 kr. í tekjur, sem hefði verið tvöföldun á þessari upphæð, átt að greiða 1500 kr. í útsvar, það er svo lækkað hér um 5%. Það þýðir, að maður er samkv. lögum útsvarslaus. Þess vegna mundi þessi tili. ekki bæta mikið úr fyrir þessum gjaldanda. Þetta er ekki alveg eins fráleitt, þegar um fjölskyldu er að ræða. Þegar um hjón er að ræða, sem bæði fá ellilaun, þá hefði þetta orðið lækkun á þeirra útsvari. En aðalatriðið er það, að öll frekari tilslökun vegna tryggingabótanna er felld úr gildi með þessari till., ef samþykkt yrði. Þess vegna vil ég undirstrika það og leggja ríkt á við hv. þm., að þeir snúist gegn þessari till., þegar hún kemur hér til atkv., vegna þess að hún mun í flestum tilfellum verða til þess að gera þeim óhægra, sem tryggingabóta njóta, heldur en er nú í gildandi lögum. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að það er nauðsyn að endurskoða þetta ákvæði, og verði horfið að því ráði að taka upp staðgreiðslu hér á sköttum, verður að gera það, en það mun hins vegar taka einhvern tíma, en þangað til þarf að endurskoða þetta, og eðlilegast finnst mér, að flestar tegundir trygginganna verði útsvars- og skattfrjálsar. Það mun sýna sig, að það er heppilegra að haga þessum bótum þannig, að svo sé, og eðlilegt, að þannig verði. En till. hv. 5. þm. Vesturl. mundi verða til þess, ef samþykkt yrði, að skattskylda megnið af þessum bótum.