09.03.1967
Neðri deild: 51. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

20. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil taka undir það, sem sagt hefur verið hér, að þetta mál er miklu flóknara en svo, að eðlilegt sé að fara að gera þær brtt., sem hér eru lagðar til við tekjustofnalögin, eins og fram kemur í umsögn stjórnar sambands sveitarstjórnanna, sem leggst eindregið þar á móti, og ég vil leyfa mér að halda því fram, að tillöguflutningurinn sé annaðhvort byggður á misskilningi eða þá vísvitandi tilraun til að telja fólki trú um, að hægt sé að undanþiggja tiltekna tekjuliði gjaldenda, án þess að í stað þess komi hækkaðar álögur á aðra tekjuliði þeirra. Sveitarfélögin verða að fá sitt, það þekkja allir, sem að sveitarstjórnarmálum vinna, og hvort það er réttlætanlegra að undanþiggja fjölskyldubæturnar og hækka álögur á öðrum tekjuliðum þar á móti, er ákaflega mikið álitamál og er áreiðanlega ekki á færi þeirra, sem þessa till. flytja, að færa fullgild rök fyrir því. Það er eðlilegt, að sveitarstjórnarmenn vilji hafa um þetta nokkuð óbundnar hendur innan tiltekins ramma. Sveitarstjórnarmenn þekkja öðrum fremur, hvað þarf að gera og hvað gjaldendur ætlast til að framkvæmt sé í viðkomandi sveitarfélögum, og sveitarstjórnarmennirnir bera á þessu höfuðábyrgð. Og við skulum ekki gleyma hinni pólitísku hlið málsins líka, þeir eru þar fyllilega ábyrgir.

Það var fyrr í þessum umr. vitnað til eins sveitarfélags, sem hefði framkvæmt það, sem till. fer hér fram á, það er Kópavogskaupstaður á s.l. ári. Jú, það er rétt. En ég vil aðeins koma þeirri skýringu fram, að það var valið á milli, hvort heldur hægt væri að undanþiggja fjölskyldubæturnar útsvarsálagningu eða gefa 5% afslátt, eins og gert var í nágrannasveitarfélögum Kópavogs: Það var um þetta að velja, og meiri hl. bæjarstjórnar Kópavogs tók þann kostinn að nota sér það valfrelsi, sem er í tekjustofnalögunum, og í þetta skiptið undanþiggja fjölskyldubæturnar í stað þess að gefa 5% afslátt til einstaklinga. Ég dreg mjög í efa, að við álagningu útsvara í Kópavogi á s.l. ári hefði verið farið inn á þá braut að undanþiggja fjölskyldubæturnar, ef það hefði þýtt, að samsvarandi upphæð þyrfti að bæta á gjaldendur að öðru leyti, þ.e.a.s. bæta ofan á útsvarsstigann. Eins og fram hefur komið hér hjá fjmrh., væri það óheimilt núna, þannig að sú skerðing, sem yrði gerð á tekjumöguleikum sveitarfélaganna með samþykkt þessarar till., mundi þýða það, að líklega yrðu sveitarfélögin að taka sínar fjárhagsáætlanir til endurskoðunar og lækka þær sem því næmi, því að þá væri ekki um það að ræða, að þau mættu hækka útsvarsstigann frá því, sem var. En ég endurtek: Ég tel ólíklegt, að í því sveitarfélagi, sem hér hefur verið vitnað í, hefði verið farið inn á þá braut að undanþiggja fjölskyldubæturnar útsvarsálagningu, ef það hefði þá þýtt, að það þyrfti að jafna niður þeirri upphæð, sem sparaðist hjá þeim gjaldendum, ofan á útsvarsstigann.

Nei, þetta er miklu flóknara mál en svo, að það sé hægt að leysa það með tillöguflutningi sem þessum, og umfram allt ber að forðast að blekkja gjaldendur með því, að unnt sé að létta álögum á einhvern tiltekinn tekjulið, án þess að það bætist ofan á aðra. Það er augljóst mál.