06.03.1967
Efri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins heimilar, ef samþ. verður, ríkisstj. að gera ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir og þá einkum með verðuppbótum til hinna ýmsu greina í veiði og vinnslu sjávarafla, þ.e. bátaútvegsins annars vegar og hraðfrystiiðnaðarins í landinu hins vegar. Mun ég hér eftir föngum gera grein fyrir fyrirhuguðum ráðstöfunum og víkja nánar að hverjum þætti þeirra fyrir sig, sem ég tel einkum fólgna í fimm eftirfarandi atriðum:

1. Afkoma bátaflotans og uppbætur á fiskveiðar til sjómanna og útgerðarmanna.

2. Afkoma frystiiðnaðarins og hugsanleg trygging gegn verðfalli.

3. Aðgerðir til endurskipulagningar, endurbóta og uppbyggingar á frystiiðnaðinum í landinu.

4. Saltfisks- og skreiðarverkun.

5. Nauðsynlegar athuganir til að standa undir þeim fjárhagslega nauðsynlegu ráðstöfunum, sem frv. þetta heimilar.

Til að lengja ekki að óþörfu framsögu fyrir frv. mun ég fyrst og fremst reyna að ræða þau atriði í undirstöðu og aðdraganda frv., sem ekki er gerð sérstök grein fyrir í grg. þess og sérstökum aths. ásamt fskj. Bæði hefur grg. frv. nú verið gerð opinber í dagblöðum og því almenningi ljós og hv. alþm. hafa haft allgóða aðstöðu til að kynna sér efni frv. og grg. þess ásamt fskj.

Síðan á miðju þessu ári hefur það verið ljóst, að ný og alvarleg viðhorf væru að skapast í sjávarútveginum og þar með í öllu efnahagslífi landsins, þótt í einstökum atriðum hafi ekki fengizt í þeim endanleg niðurstaða, fyrr en verulega leið á árið. Á undanförnum árum hafði verðlag á útflutningsafurðum landsins farið síhækkandi, og varð þessi hækkun sérstaklega mikil á árinu 1965. Áhrifa af nýrri tækni á vaxandi fiskstofna gætti mjög í stórauknum síldveiðum fyrst og fremst. Jafnframt höfðu orðið verulegar tæknilegar framkvæmdir í fiskvinnslu, ekki sízt í hraðfrystiiðnaðinum. Þessi hagstæða þróun lagði raunhæfan grundvöll að miklum og almennum launahækkunum og meiri aukningu almennrar velmegunar en á flestum öðrum þróunarskeiðum íslenzks efnahagslífs. Á sama tíma skapaði hún hins vegar einnig erfiðleika hjá þeim greinum atvinnulífsins, þar sem ekki var um mikilsverðar tæknilegar breytingar að ræða, eins og í þorskveiðum báta og togara.

Þegar kom fram á árið 1966, varð hins vegar fljótlega ljóst, að verðlag á útflutningsafurðum landsmanna mundi ekki halda áfram að hækka, og síðari hluta ársins tók við mikið verðfall á mjöli og lýsi og frystum fiski. Þessi nýju viðhorf í efnahagsmálum gerðu það nauðsynlegt, að komizt væri hjá frekari hækkun á verðlagi og framleiðslukostnaði innanlands. Beitti ríkisstj. sér fyrir þessu með setningu laga um verðstöðvunina í nóvembermánuði s.l. Var að því stefnt með þessum l., eins og þá var frá greint hér, að verðlag héldist um eins árs skeið a.m.k. óbreytt frá því, sem það hafði verið í ágústmánuði s.l.

Þegar þessi lög voru sett var það hins vegar ljóst, að hversu þýðingarmikil sem setning þeirra væri fyrir sjávarútveginn, mundi frekari ráðstafana vera þörf til þess að tryggja eðlilegan rekstur hans á þessu ári. Nauðsyn bar til þess, að tekjur sjómanna á þorskveiðum hækkuðu til jafns við þá hækkun, sem aðrar starfsgreinar í landi höfðu notið vegna hækkunar kaupgreiðsluvísitölu, frá því að fiskverðið var síðast ákveðið í ársbyrjun 1966. Á hinn bóginn töldu fiskvinnslustöðvarnar sér um megn að taka á sig frekari hækkun á fiskverði og fyrirsjáanlegt, að þær mundu ekki af eigin rammleik geta staðizt afleiðingar verðfallsins.

Miðað við óbreytt aflabrögð og fiskverð jókst rekstrarkostnaður báta lítið eitt á árinu 1966, þótt kaupgjaldshækkanir yrðu nokkrar, en kaupgjald er tiltölulega lítill liður í rekstrarkostnaði báta. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur gert samanburð á rekstrarkostnaði á vetrarvertíð miðað við aðstæður í nóvembermánuði 1965 annars vegar og í nóvembermánuði 1966 hins vegar og komizt að þeirri niðurstöðu, að rekstrarkostnaður fyrir utan fyrningar og vexti af höfuðstól hafi hækkað um tæp 4%. Þær upplýsingar, sem fyrir liggja um afkomu báta af stærðinni 50–100 tonn á vetrarvertíð, benda til þess, að afkoma þeirra hafi verið tiltölulega góð á árinu 1965, farið enn batnandi, nokkuð batnandi á árinu 1966 vegna hækkaðs fiskverðs í upphafi ársins, en þá varð sem kunnugt er 17% hækkun fiskverðs. Áætlanir um rekstur línu- og netabáta á vetrarvertíð sýna litlar breytingar á afkomu millí vertíða 1964 og 1965, en hins vegar mjög bætta afkomu á árinu 1966, sem að mestu mun haldast óbreytt fram eftir ári 1967, miðað við óbreytt fiskverð, afla og sömu veiðiaðferðir. Þessar niðurstöður eru byggðár á reikningum báta, sem reikningaskrifstofa sjávarútvegsins hefur unnið úr, svo og upplýsingum, sem Landssamband ísl. útvegsmanna og Fiskifélag Íslands hafa unnið. Á hinn bóginn miðast þessar athuganir við vetrarvertíðarúthaldið, en ekki úthald bátanna yfir allt árið. Rökstuddar líkur benda til, að afkoma bátanna sé mun lakari miðað við allt áríð en á vetrárvertíð einni saman. Verksvið þessara báta á undanförnum árum hefur þrengzt vegna breyttrar aðferðar við síldveiðar norðanlands og austan. Síldarleysið suðvestanlands hefur einnig komið hart niður á þessari stærð báta. Tekjuþróun síldarsjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna í landinu hefur verið miklu hagstæðari en sjómanna við þorskveiðar, sem aftur hefur skapað erfiðleika við að manna bátana og einkum þá minni. Þannig fækkaði bátum, sem stunduðu þorskveiðar með öðrum veiðarfærum en nót, úr 371 í 337 eða um 9% á milli vertíðanna 1965 og 1966. Fjöldi báta, sem stunduðu veiðar með nót ásamt eða án annarra veiðarfæra, lækkaði úr 148 í 121 eða um 18%. Aftur á móti fjölgaði úthaldsdögum, sjóferðum, og aflinn á bát á úthaldsdag jókst á vetrarvertíð 1966 frá vetrarvertíð 1965. Minni afli á vertíðinni 1966 en á vertíðinni 1965 stafar því eingöngu af minni þátttöku þessara báta í veiðunum.

Til að styrkja rekstrargrundvöll útgerðarinnar og til þess að jafna þann mismun, sem orðið hafði á kjörum sjómanna á þorskveiðum og annarra starfshópa, tilkynnti ríkisstj. yfirnefnd verðlagsráðsins, áður en til ákvörðunar fiskverðs kom um áramótin, að hún væri reiðubúin til að beita sér fyrir því, að á árinu 1967 yrði greidd 8% viðbót á verð landaðs afla, annars en síldar og loðnu. Með tilliti til þessarar yfirlýsingar ákvað yfirnefndin, að fiskverð skyldi standa óbreytt frá því, sem verið hafði árið 1966. Með 5. gr. frv. þess, sem hér er lagt fram, er þessari yfirlýsingu ríkisstj. fylgt eftir. Sú viðbót, er þannig skal greiða á fiskverð, skiptist á þann hátt, að 5% greiðist mánuðina marz og apríl, en 11% aðra mánuði ársins. Auk þessarar uppbótar á fiskverð hefur veríð ákveðið, að eins og á tveímur undanförnum árum verði varið 20 millj. kr. til verðbóta á línu- og handfærafisk. Það er gert ráð fyrir þessum verðbótum í 3. gr. frv. Eins og Alþ. er kunnugt, hafa einnig ýmsar aðrar ráðstafanir verið gerðar í samræmi við till. vélbátaútgerðarnefndar til að baeta hag þessarar útgerðar, t.d. með lengingu lána, frestun afborgana á lánum o.fl. Í samræmi við þessa till. n. var gert réð fyrir að greiða viðbótaruppbætur á línufisk á s.l. hausti, og veitir 4. gr. frv. heimild til þeirra greiðslna. Þar sem till. n. og ráðstafanir samkv. þeim hafa ýtarlega verið ræddar nú nýlega á Alþ., er óþarft að endurtaka það hér. Þó er rétt að benda sérstaklega á það, að megintill. í nál., sem afhent var í júlímánuði s.l., var um hækkun fiskverðsins.

Þær ráðstafanir til styrktar fiskveiðum, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, hafa mikla óbeina þýðingu fyrir fiskvinnsluna. Eigi að síður var það ljóst í byrjun ársins, að verðfallið erlendis var svo mikið; að vinnslustöðvunum hlaut að vera um megn að bera byrðar þess án sérstaks stuðnings. Athuganir, sem Efnahagsstofnunin hefur gert á afkomu frystihúsanna, benda til þess, að hún hafi farið batnandi á árunum 1960–1965 og verið góð á árunum 1964–1965. Jafnframt bentu athuganir til, að afkoman hafi versnað verulega á árinu 1966. Kemur hér til hækkun fiskverðs í byrjun ársins og þess hluta, sem hraðfrystihúsin þá tóku á sig af þeirri hækkun, minnkun hráefnis og hækkandi rekstrarkostnaður á árinu. Hér hefði þó ekki verið um það vandamál að ræða, sem íðnaðinum sjálfum hefði ekki verið viðráðanlegt, ef hið mikla erlenda verðfall hefði ekki komið til sögunnar. Verðlag á frystum fiski erlendis hefur hækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Á árunum 1961–1964 nam þessi hækkun um 6% á ári til jafnaðar. Á árinu 1965 varð síðan mjög mikil hækkun á verði fiskblokka í Bandaríkjunum. Verðhækkun hélt áfram fyrri hluta ársins 1966, þar sem verðhækkun sú, sem orðið hafði í Bandaríkjunum á árinu 1965, orsakaði hækkun freðfiskverðsins til Sovétríkjanna. Á miðju s.l. ári fór markaðsverð í Bandaríkjunum hins vegar að lækka, og á s.l. hausti varð mikið verðfall á fiskblokkum. Verðfalls þessa tók ekki að gæta fyrr en seint á árinu 1966. Þó má gera ráð fyrir, að meðalverð ársins 1966 reynist allmiklu hærra en meðalverð ársins 1965. Hefur sú hækkun verið áætluð tæplega 7% eða milli 61/2% og 7%. Verðlækkunin í Bandaríkjunum orsakaði, að í samningum um sölu til Sovétríkjanna, er gerðir voru á síðustu dögum desembermánaðar s.l., náðist ekki jafnhátt verð og áður. Nam verðlækkunin í þeim samningum um 7% frá því verði, sem í gildi hafði verið í fyrri samningum. Samkv. upplýsingum um verðlag um áramótin 1966 og 1967 og áætlunum um magn seldra afurða, sem útflytjendur hafa lagt fram, má gera ráð fyrir, að verð um áramótin s.l. hafi verið um 11% lægra en meðalverð ársins 1966.

Um s.l. áramót var verðfalls á freðfiski í neytendaumbúðum lítið farið að gæta á Bandaríkjamarkaði. Þó gerðu freðfisksframleiðendur ráð fyrir því, að verðfallið mundi breiðast út til þessara afurða, jafnvel svo, að þær lækkuðu um 25–30% frá því, sem var á árinu 1966. Hins vegar gerðu framleiðendur ekki ráð fyrir því, að frekara verðfall yrði á blokkum frá því, sem var um áramótin. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, að það verðfall hefur haldið áfram fram að þessu, því miður. Verðið á fiski í neytendaumbúðum hefur einnig haldið áfram að lækka, enda þótt sú lækkun sé enn sem komið er a.m.k. minni en framleiðendur gerðu ráð fyrir. Nær verðlækkunin þó einnig til ýsu, en ýsa hafði þá um langt bil verið stöðugasta tegundin, sem á þeim markaði var. Ef sú verðþróun, sem framleiðendur gera ráð fyrir í söluáætlun sinni, reynist raunhæf, mundi meðalverðlækkunin á freðfiski frá árinu 1966 til 1967 reynast um 20%.

Um allmargra ára skeið hefur neyzla í Bandaríkjunum á fiskstautum svonefndum og fiskréttum aukizt mjög ört. Hefur því eftirspurn eftir fiskblokkum til framleiðslu þessarar vöru aukizt jafnt og þétt. Á hinn bóginn fóru þorskveiðar í Norður-Atlantshafi talsvert minnkandi á árunum 1960–1964, og var ekki búizt við, að á því yrði veruleg breyting. Þegar kom fram á árið 1965 fór að gæta skorts á fiskblokkum í Bandaríkjunum. Leiddi það til verðhækkunar og spákaupmennsku vegna ótta við enn frekari hækkanir. Um áramótin 1965–1966, þegar verðið var í hámarki, voru íslenzkir útflytjendur vongóðir um, að hið háa verðlag mundi haldast, þar sem þeir bjuggust ekki við auknu framboði á fiskblokkum á Bandaríkjamarkaði. En hér fór einnig öðruvísi en ætlað var. Hið háa verðlag í Bandaríkjunum virðist hafa leitt til aukins framboðs frá ýmsum löndum á þeim markaði. Komu nú mörg ný lönd til sögunnar. Fjölgaði þeim löndum, er flytja frystar fiskafurðir á Bandaríkjamarkað, úr 6 í 17 á einu ári. Birgðir af frystum fiskafurðum í Bandaríkjunum jukust þegar mikið síðari hluta ársins 1965. Á fyrri hluta árs 1966 voru þær orðnar miklu meiri en eðlilegt getur talizt. Á hinn bóginn virðist svo, að aukin neyzla fiskstauta og fiskrétta hafi nú stöðvazt, a.m.k. í bili. Allt þetta gerir það að verkum, að telja verður horfur á Bandaríkjamarkaði mjög óvissar á yfirstandandi ári.

Í þessu sambandi er vert að hafa það í huga, að það er verðlagsþróunin á Bandaríkjamarkaði, sem ræður úrslitum um útflutningsverð íslenzkra frystiafurða. Freðfiskur er nú ekki seldur í teljandi magni til annarra landa en Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. En verðið í Sovétríkjunum hefur reynzt á undanförnum árum fylgja verðinu á Bandaríkjamarkaði í stórum dráttum, þótt sveiflur séu á þeim markaði mun minni en á Bandaríkjamarkaði. Sölusamtökin hafa að mestu hætt sölum á brezkum markaði vegna mikilla tollaívilnana, sem nú eru innan landa Fríverzlunarbandalagsins, og hinir háu tollar Efnahagsbandalags Evrópu komu að mestu í veg fyrir freðfiskssölu til aðildarríkja þess.

Undireins og fiskverð hafði verið ákveðið, tók ríkisstj, upp viðræður við fulltrúa frystihúsaeigenda um aðgerðir til stuðnings frystihúsunum vegna verðfallsins. Tilnefndir voru fulltrúar frá báðum aðilum, er kanna skyldu allar aðstæður í þessu efni. Voru það þeir Bjarni V. Magnússon framkvstj. fyrir hraðfrystihús á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga, Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson framkvstj. fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri og Jónas H. Haralz forstjóri fyrir hönd ríkisstj. Taldi ríkisstj. frá upphafi, að leita ætti úrlausnar á vandamálum frystihúsanna annars vegar í bættri uppbyggingu iðnaðarins og fjárhagslegri endurskipulagningu hans, en hins vegar í því að létta byrðinni af verðfallinu. Um þessi tvö atriði hafa viðræður fulltrúa ríkisstj. og frystihúsanna snúizt að undanförnu, og hefur í þeim viðræðum náðst samkomulag um þær aðgerðir, sem þetta frv. felur í sér. Þetta samkomulag hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og hraðfrystihúsin á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga staðfest, þótt þau telji í þeim efnum, að ríkisstj. gangi allt of skammt til móts við óskir þeirra um fjárhagslegan stuðning við þennan iðnað. En samkomulagið er fólgið í eftirfarandi:

1. Ríkisstj. gefur kost á 55–75% verðtryggingu á árinu 1967 miðað við endanlegt verðlag ársins 1966 á þeim frystum afurðum, sem undanfarandi hagræðingarfjárgreiðslur hafa náð til. Verðtryggingin miðast við meginflokka fisktegunda og greiðist frystihúsunum jafnóðum og sölusamtökin greiða fiskandvirðið.

2. Afurðalán verði óbreytt í krónutölu frá því, sem var á árinu 1966.

3. 75% hagræðingarfjár verði greidd við veðsetningu afurða, sem er nýmæli. Hagræðingarfé verði óbreytt frá árinu 1966.

Í samræmi við samkomulag þetta er svo ákvæði 6., 7. og 8. gr. frv. Er gert ráð fyrir því í frv., að stofnaður verði sérstakur sjóður í því skyni að bæta frystihúsunum verðfallið að hluta. Sjóður þessi fengi 130 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1966 til ráðstöfunar, og gæti hann orðið vísir að almennum verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Er gert ráð fyrir, að bætur vegna verðfalls nái til frystra fiskafurða annarra en síldarafurða. Aftur á móti ná bæturnar ekki til annarra frystra afurða en fiskafurða, þ. á m. ekki til frysts humars og rækju. Almenna reglan er sú, að sjóðurinn greiði 55% af verðfalli því, er verða kann á árunum 1966 og 1967. Sé verðfallið meira en 5%, hækka verðbæturnar um 2% fyrir hvert 1%, sem verðið lækkar umfram 5%. Þannig greiðist 65% við 10% verðfall, 75% við 15% verðfall. Ekki er gert ráð fyrir, að frekari hækkun verðbóta eigi sér stað, þannig að 75% greiðist, hversu mikið sem verðið fellur umfram 15%. Verðbæturnar skulu reiknast eftir meginflokkum fisktegunda hverrar fyrir sig.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir hagræðingarfé, 50 millj. kr., á sama hátt og greitt var á síðasta ári. Er Seðlabanka Íslands í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands falin úthlutun þessa fjár.

Eins og sjá má af því, sem hér hefur verið rakið, hafa sveiflur á verðlagi erlendis á undanförnum árum valdið fiskiðnaðinum og þjóðarbúinu í heild ýmsum erfiðleikum, svo sem Íslendingar hafa oft áður orðið að horfast í augu við. Miklar og örar verðhækkanir hafa ýtt undir hækkanir á kaupgjaldi og hráefnisverði, svo sem reynslan sannar, en þessir liðír lækka ekki aftur nema að litlu leyti, þótt verðlækkanir eigi sér stað erlendis. Jöfnun þessara verðsveiflna er því mikið hagsmunamál fyrir fiskiðnaðinn. Jafnframt er nú mikil nauðsyn á endurskipulagningu á allri uppbyggingu frystiiðnaðarins.

Með þessu frv. er ekki lagt til, að endanleg ákvörðun verði tekin um stofnun jöfnunarsjóðs. Hins vegar er gert ráð fyrir, að sá sjóður, sem settur verði á íaggirnar vegna verðfalls á frystum afurðum, geti orðið vísir að slíkum sjóði og undirstaða hans, ef ákveðið yrði að stofna hann að undangenginni nákvæmari athugun, og persónulega sýnist mér, að öll þróun bendi til, að brýn nauðsyn sé á stofnun slíks sjóðs. Það ætti þessi síðasta reynsla okkar að sanna okkur.

Meginmarkmið slíks verðjöfnunarsjóðs yrði að jafna þær sveiflur, sem verða á verðlagi afurðaflokka milli framleiðsluára. Við mat á verðbreytingum yrði að miða við meðaltalsverð sömu afurða á árunum næst á undan. Sé verð á ákveðnum tíma hærra en þetta meðallag, skal greitt í sjóðinn, en úr honum, sé það lægra. Slík verðjöfnun yrði aðeins hluti verðsveiflnanna, e.t.v. ekki nema helmingur þeirra. Fyrir fiskiðnaðinn yrðu verðlagsbreytingar þar með mun minni. Slíkur verðjöfnunarsjóður gæti, ef vel reyndist, einnig náð til annarra framleiðslugreina sjávarútvegsins. Er það og hagsmunamál allra greina sjávarútvegsins, að dregið sé svo sem kostur er úr hinum miklu verðsveiflum. Er augljóst, að skipulag og starfsreglur slíks verðjöfnunarsjóðs verða ekki ákveðnar nema eftir rækilega athugun og rannsókn, svo sem lagt er til í fskj. með frv. og birt er með því. Yrði þar að kanna eðli þess vandamáls, sem hér er við að etja, og þá reynslu, er fengizt hefur af sams konar starfsemi annars staðar í heiminum. Þar sem svo greinilega er gerð grein fyrir þessum hugmyndum í fskj. með frv., sem ber fyrirsögnina: „Aðgerðir til endurskipulagningar hraðfrystiiðnaðarins“, tel ég ekki þörf á því að lengja mína framsöguræðu með tilvitnunum í það, sem öllum hv. alþm. hefur gefizt kostur á að kynna sér. Skal hér áréttað, að æskilegt væri þó, að þessari athugun yrði lokið fyrir haustið, þannig að fyrir næsta Alþ. mætti leggja frv. til l. um verðjöfnunarsjóð, ef sú athugun þætti leiða nauðsyn þess í ljós, og eins og ég áðan sagði, er persónuleg skoðun mín, að svo sé. Athuganir Efnahagsstofnunarinnar benda til, að afkoma saltfisks- og skreiðarverkunar á árunum 1964 og 1965 hafi verið tiltölulega góð, þar sem verðlag á þessum afurðum hefur enn hækkað á árinu 1966 og ekki er vitað um verðlækkanir nú nema á smáfiski. Má gera ráð fyrir, að afkoman breytist lítið á árunum 1966 og 1967 miðað við árið 1965. A.m.k. er ekki nú vitað um neitt, er bendi til alvarlegra verðlækkana á þessum tegundum útflutningsins.

Í l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, er samþ. voru á síðasta Alþ. og reyndar árið þar áður einnig, 1965 og 1966, var heimilað að greiða 10 millj. kr. til verðuppbóta á útflutta skreiðarframleiðslu. Vegna hins hagstæða verðlags á skreið á þessu ári, þykir ekki ástæða til þess nú að ráðstafa fyrir fram þessari fjárhæð til uppbóta á útflutta skreiðarframleiðslu. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir, að sérstök vandamál muni skapast vegna útflutnings annarra afurða, og er þá mikilvægt, að fé sé fyrir hendi til lausnar slíkum vanda. Það er fyrir því séð í 9, gr. þessa frv. Gert er ráð fyrir þessari fjárhæð, þeim 80 millj. kr., sem ætlaðar eru til aðstoðar við sjávarútveginn, samkv. 16. gr. B. 15, og áætlað er, að þessi fjárhæð sé notuð til ótiltekinna verðbóta á útfluttar sjávarafurðir af öðrum fiski en síld og loðnu eftir reglum, sem sjútvmrh. setur. Sennilega munu þær ráðstafanir, sem hér um ræðir og hefur verið gerð grein fyrir, hafa í för með sér um 310–320 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð. Það eru 100 millj. kr. vegna 8% viðbótar við fiskverðið, 140 millj. kr. vegna framlags til verðjöfnunar frystra fiskafurða og 80 millj. kr. vegna annarra ráðstafana. Í 16. gr. B. 15 í fjárl. fyrir árið 1967 er gert ráð fyrir 80 millj. kr. til aðstoðar við sjávarútveginn. Vegna þess að væntanlega verður stofnaður varanlegur sjóður, þ.e. verðjöfnunarsjóður, telur ríkisstj. nú rétt, að framlagið til verðjöfnunar verði greitt af tekjuafgangi ársins 1966.

Á fjárl. ársins 1967 er ekki gert ráð fyrir fjárframlagi til þeirra 8% verðuppbóta á fiskverð, sem frv. heimilar, ef samþ. verður, enda þá ekki séð fyrir um þá nauðsynlegu hækkun fiskverðs, sem raun varð á, eftir að fjárl. höfðu verið samþ., og ekki heldur um niðurstöður á verðlagi útflutnings á mikilvægum mörkuðum eins og í Sovétríkjunum, en sá samningur var gerður allra síðustu dagana í des. s.l., eins og áður er getið. Vegna verðstöðvunarstefnu ríkisstj. kemur skattahækkun ekki hér til greina. Verður því að lækka útgjöld, sem þessum greiðslum svarar. Í 2. gr. frv. er leitað eftir heimild Alþ. til að lækka um 10% greiðslu á fjárl. 1967 til verklegra framkvæmda og framlög til verklegra framkvæmda annarra aðila. Þá er óskað eftir heimild til að lækka greiðslu til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir árið 1966 um 20 millj. kr. frá því, sem ákveðið er í lögum. Vegna áðurnefndra lækkana á greiðslum og framlögum til verklegra framkvæmda er áætlað, að útgjöld ríkissjóðs lækki um 65 millj. kr. Í fjárl. ársins 1966 var ætlað, að greiðslur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna á árinu 1967 mundu nema 162.8 millj. kr., en vegna aukins vöruinnflutnings og viðskipta er nú gert ráð fyrir, að þessi upphæð verði því sem næst 186 millj. kr. 20 millj. kr. af þeim 23 millj., sem tekjur jöfnunarsjóðs reynast hærri en áætlað var, munu því ganga til greiðslu uppbótar við fiskverðið. Áætlað er, að framlag til ríkisábyrgðasjóðs á árinu 1967 reynist 15 millj. kr. lægra en gert var ráð fyrir í 20. gr. fjárl. árið 1967. Samtals lækka því útgjöld ríkissjóðs um 100 millj. kr. vegna þessara aðgerða.

Það er þegar ljóst af ályktunum, að hlutaðeigandi samtök, annars vegar útgerðarmenn og sjómenn og hins vegar samtök hraðfrystiiðnaðarins, sölusamtök hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, —- og með framangreindum ráðstöfunum er verið að rétta hönd að því er ætla verður í tímabundnum erfiðleikum, — þau telja þessar ráðstafanir ganga mun skemmra til aðstoðar en nauðsynlegt var að þeirra dómi talið að gera nú. Af hálfu þessara aðila verður ríkisstj. því vart sökuð um að hafa verið um of laus á fjármuni þess opinbera þessum grundvallaratvinnuvegi til stuðnings. Þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem telja, að lengra hefði átt að ganga í þessum efnum, hljóta því óhjákvæmilega að taka á sig þær skyldur að benda á aðrar leiðir til tekjuöflunar, sem meira fé hefðu gefið án nýrrar skattaálagningar á almenning. Ríkisstj. hafði heitið því undir umr. um fjárlög og frv. til verðstöðvunar á s.l. hausti, að forðazt yrði að grípa til almennra skattahækkana, og við það hefur verið staðið þrátt fyrir þá erfiðleika, sem útflutningsatvinnuvegirnir eiga nú við að etja og innlend stjórnvöld verða vart með rökum sökuð um. Ef okkur greinir ekki á um það atriði, að ríkisstj. hafi ekki reynzt of eftirgefanleg, eins og stundum hefur verið sagt, er að vísu eftir hin hlið málsins, þ.e. eftir hvaða leiðum fjárins er aflað samkv. frv. þessu. Þeir, sem kynnu að hafa aðrar skoðanir, munu væntanlega benda á þær leiðir, og koma þær þá að sjálfsögðu til umr. og athugunar.

Frv. þetta er till. ríkisstj. til lausnar aðsteðjandi vanda í grundvallaratvinnuvegi landsmanna nú að vel yfirveguðu máli, eftir að skipzt hefur verið á skoðunum við hlutaðeigandi aðila og mikla vinnu, sem af mörkum hefur verið lögð af færustu fulltrúum beggja aðila til að finna lausn vandans.

Ég vil í lok máls míns nú flytja öllum þeim, sem hafa lagt fram ómetanleg störf í ýtarlegum rannsóknum og viðræðum, þakkir fyrir störf þeirra að þeirri tillögugerð, er í frv. þessu felst.

Herra forseti. Að lokinni þessari 1. umr. málsins óska ég, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.