10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það var nú hálfgerð fljótaskrift á meðferð þessa frv. í sjútvn. 1. umr. lauk á þriðjudag. Á miðvikudagsmorgun var málið tekið fyrir á fundi sjútvn. og þá ákveðið, að 2. umr. skyldi fara fram í gær. Hv. 3. þm. Norðurl. e. og ég höfðum skilað nál. okkar, þegar ákveðið var að fresta umr. um einn dag, og kann að vera, að við hefðum gengið eitthvað öðruvísi frá nál. okkar, ef meiri tími hefði verið til ráðstöfunar, en um það skal ekki sakazt.

Við 1. umr. þessa máls hafði ég tækifæri til þess að ræða almennt um þau efni, sem frv. snertir, og þó að varla verði sagt, að þau efni hafi þá orðið útrædd, skal ég nú láta að mestu við það sitja og snúa mér að einstökum gr. frv. og þeim brtt., sem við flytjum, eins og þingsköp gera ráð fyrir að gert sé við 2. umr. mála. Ég vil þó fyrst aðeins til áréttingar því, sem áður hefur verið sagt, minna á þær grundvallarástæður, sem til þess liggja, að þessar atvinnugreinar, sem hér um fjallar, eru í þeim erfiðleikum sem þær eru.

Það er ljóst og vitað, að árið 1966 var mjög erfitt frystihúsarekstrinum í landinu. Á því ári mun verulegur hluti frystihúsanna hafa verið rekinn með talsvert miklum halla, flest með talsvert miklum halla eftir þokkalega afkomu næstu árin á undan. Orsaka þessara breytinga er ekki að leita í verðfalli á erlendum mörkuðum, því að það kom ekki til fyrr en seinni hluta ársins og vó ekki upp þær verðhækkanir, sem höfðu orðið á fyrri hluta þess. Meðalverð ársins 1966 var þess vegna hagstæðara en nokkurs árs á undan. Þetta segi ég út af fyrir sig ekki til þess að gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem verðfall á erlendum mörkuðum kann að valda þessum atvinnuvegum. En ég segi það til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd, að mjög erfið aðstaða þessara atvinnuvega er til komin, áður en verðfallið byrjaði. Og af því er það fullljóst, að þar er ekki að leita hinna eiginlegu orsaka. Orsakirnar eru fyrst og fremst tvær, annars vegar stórfelldar hækkanir tilkostnaðar innanlands af völdum verðbólgunnar og hins vegar minnkandi hráefnismagn vegna hnignunar vélbáta- og togaraútgerðarinnar. Stuðningurinn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir til útgerðarinnar óg frystihúsanna, er sjálfsagt óhjákvæmilegur til þess að koma í veg fyrir stöðvun þessara undirstöðuatvinnugreina á næstu mánuðum, en hann leysir engan vanda til frambúðar. Það er hvergi í þessu frv. komið að þeim kjarna málanna, sem þarf að taka á til þess að leysa þann vanda. Það þarf núna, eins og ég hef áður tekið fram, ný og markviss vinnubrögð og markvissa stefnu til þess að lagfæra þá hluti. Það verður að kryfja vandamál þessa atvinnuvegar til mergjar, eins og raunar annarra atvinnuvega, og marka stefnuna í framtíðinni og hefja markvissar aðgerðir. Bráðabirgðaráðstafanir af því tagi, sem hér er um að ræða, geta í bezta falli komið í veg fyrir stöðvun um stundarkorn.

Ég gerði við 1. umr. grein fyrir ýmsum atriðum, sem ég taldi nauðsyn að leiðrétta í þessum efnum og þyrftu að vera grundvallarsjónarmið í sambandi við þá stefnumörkun, sem fram þarf að fara, og ég skal ekki endurtaka það hér. Við framsóknarmenn höfum tekið upp ýmis af þessum atriðum í frv. og till., sem við höfum flutt hér á hv. Alþ., og við sjáum eftir atvikum ekki ástæðu til þess að taka það upp að nýju í þessu sambandi sem brtt. við þetta frv. Það hefur sýnt sig, að frv. af þessu tagi eru afgreidd með það miklum hraða, að till. af því tagi, sem við hefðum löngun til að flytja, fá ekki neina eðlilega meðferð eða afgreiðslu og okkur hefur því þótt hentugra, að þau kæmu fram sem sérstök mál.

Ég skal þá snúa mér að einstökum atriðum þessa frv. og einstökum greinum þess og gera um leið grein fyrir brtt. okkar.

Um 1. gr. er það að segja, að hún og það sama má raunar segja um 3. gr. — er hluti af samkomulagi, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert við þá aðila, sem hlut eiga að máli. Með þeim stuðningi, sem þar er gert ráð fyrir, er sjálfsagt sízt of langt gengið, og við þá samninga er því eðlilegt, að staðið sé, og ég geri ekki aths. við þessar greinar.

Við 2. gr. flytjum við hins vegar brtt., sem gerir ráð fyrir því, að í stað þess að skera verklegar framkvæmdir ríkisins og aðrar framkvæmdir, sem ríkið veitir fé til, niður um 65 millj. og taka 20 millj. af því fé, sem jöfnunarsjóður sveitarfélaga á að fá af verðtolli og söluskatti, — í stað þessara 85 millj. sé veitt heimild til þess að greiða þessar 85 millj. af greiðsluafgangi ársins sem leið. Það hefur komið í ljós á undanförnum mánuðum, að ríkissjóður hefur þegar tekið það fé, sem til þess þarf, og miklu meira til af landsmönnum. Á s.l. ári fóru tekjur ríkissjóðs stórlega fram úr áætlun, munu hafa numið 800–900 millj. kr. meira en fjárlög gerðu ráð fyrir, og þrátt fyrir miklar umframgreiðslur til margvíslegustu eyðslu er talið, að greiðsluafgangur ársins 1966 muni skipta mörgum hundruðum millj. kr., og við teljum því einsýnt, að af því fé beri að taka það, sem þarf til að bæta upp þær 85 millj., sem við leggjum til að falli niður.

Mér þykir líka rétt að benda á í þessu sambandi, að mikið af þeim opinberu framkvæmdum, sem fé er veitt til á fjárl., eru hlutir, sem þegar er búið að gera og eftir er að borga. Með því að skera niður framkvæmdaféð verður árangurinn sá í þessum tilfellum, að þeir aðilar, sem um framkvæmdirnar eiga að sjá, sitja eftir með skuldirnar. Hér er ekki um að ræða stærri upphæð en svo, að það verður vart séð, að þessi ákvæði geti beinlínis stefnt að því að ná þeim peningum, sem til þessara ráðstafana þarf. Það hlýtur hins vegar að rifjast upp fyrir manni í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. hefur við ýmis tækifæri látið uppi þá skoðun sína, að framkvæmdir þyrftu að dragast saman. Það rifjast upp í þessu sambandi, að í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, sem seinast kom hingað til lands í haust, var vakin á því sérstök athygli, að mikla nauðsyn bæri nú til þess að rýma til á framkvæmdamarkaðinum hér innanlands, til þess að hægt væri að koma álverksmiðjunni áfram. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun, þegar um svona litla upphæð er að ræða í samanburði við þær fúlgur, sem ganga í gegnum ríkissjóðinn, að það sé í rauninni ekki tekjuöflunarspursmál, sem hér er á ferð, og kannske hefur hitt ekki síður vakað fyrir hæstv. ríkisstj., að koma nú í framkvæmd þeirri ósk sinni að draga eitthvað úr framkvæmdum í landinu. En skoðun mín og okkar framsóknarmanna hefur jafnan verið sú, að innlendar nauðsynjarframkvæmdir eigi ekki að rýma fyrir framkvæmdum á borð við álverksmiðjuna.

Í sambandi við þetta þykir mér líka rétt að vekja athygli á því, hvaða áhrif sýnilegt er að hljóti að verða af því, ef framlög til jöfnunarsjóðs verða skorin niður um 20 millj. Eins og hv. þm, er öllum kunnugt, ákvað borgarstjórn Reykjavíkur, þegar hún lagði á útsvörin síðast, að taka þau til endurskoðunar á miðju sumri. Og allmörg sveitarfélög og ýmis stór bæjarfélög munu hafa farið að dæmi Reykjavíkurborgar í þessu efni. Mér virðist, að það hljóti að liggja æðibeint við, að ef framlög til jöfnunarsjóðs verða skorin niður um 20 millj., muni það leiða til þess eins, að útsvörin verði annaðhvort í sumar eða þá næst hækkuð um þessar 20 millj. Hæstv. fjmrh. hefur ekki kært sig um það að verða staðinn að því að hækka skattana og hefur þess vegna viljað láta sveitarfélögin hafa fyrir því að hækka útsvörin um þessar 20 millj., þegar þar að kæmi.

Í þessu sambandi þykir mér líka rétt að minna á það, að á síðasta þingi voru sett lög um lánasjóð sveitarfélaganna, og þar birtist í enn einu formi sú kenning hæstv. ríkisstj., að menn eigi að leggja fram fé til að lána sjálfum sér. Í 5. gr. þeirra laga er ákveðið, að jöfnunarsjóður sveitarfélaga skuli leggja fram 15 millj. á ári til lánasjóðsins, í fyrsta sinn árið 1967. Um leið og þessi baggi er lagður á jöfnunarsjóðinn, er svo talið hæfilegt að draga 20 millj. frá honum með þeim hætti, sem ég var að lýsa. Af þessum ástæðum, sem ég nú hef rakið, teljum við, að þær ráðstafanir, sem 2. gr. gerir ráð fyrir, séu óeðlilegar og það sé sjálfsagt og eðlilegt að greiða það, sem þarna þarf, af hinum mikla greiðsluafgangi ársins 1966.

Í sambandi við 4. gr., sem felur í sér efndir sjútvmrh. á tillögu bátanefndar um 10% fiskverðshækkun á árinu 1966 og 50 aura viðbót á kg af línu- og handfærafiski, hef ég í sjálfu sér ekkert að athuga annað en það, að hæstv. sjútvmrh. svaraði ekki þeirri fsp. minni við 1. umr. þessa máls, hvað gera mætti ráð fyrir að þeir peningar, sem eftir er að nota af þessum 20 millj., muni gera marga aura á kg af þeim línu- og handfærafiski, sem lagður var upp á þessu tímabili, sem 4. gr. ræðir um, frá 1. okt. til 31. des.

Ég er þá kominn að 5. gr., sem er algjörlega í samræmi við venju, sem hefur skapazt á undanförnum árum og gefur ekki tilefni til athugasemda. Það gerir 6. gr. raunar ekki heldur. Ég hef þegar lýst yfir stuðningi mínum við þær verðjöfnunarhugmyndir, sem hér hafa komið fram, í grundvallaratriðum, hvernig sem fer um framkvæmd þeirra, og nú sé ég, að meiri hl. hv. sjútvn. hefur flutt brtt. við þessa gr. um, að í staðinn fyrir 130 millj. komi 140 millj. og um það hef ég raunar ekki annað að segja en það, að það er eðlilegt, að þessi upphæð sé í samræmi við það, sem þeir, sem bezt til þekkja, telja, að hún þurfi að vera, til þess að gagni megi koma. Og ég geri ráð fyrir að hv. meiri hl. sjútvn. flytji ekki þessa till. að tilefnislausu, og er þá ekki um það meira að segja.

Ég kem þá að því að ræða um 7. gr. frv., sem felur í sér reglur um það, hvernig verðbætur skuli greiddar á árinu 1967. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir öðru við 1. umr. þessa máls en að þessar reglur væru eðlilegar, og ekkert kom fram við meðferð málsins í sjútvn., sem gaf tilefni til þess að fara nánar að skoða þær. En við nánari yfirlestur þessarar gr. hef ég fengið tilefni til þess að gera aths., sem mér þætti vænt um að mega ræða um við hæstv. sjútvmrh. Gr. hljóðar svona, — sá málsl. hennar, sem fjallar um verðbæturnar: „Verðbætur þessar skulu nema 55% af verðlækkun, er verða kann miðað við verðlag, er fékkst fyrir sömu framleiðslu á árinu 1966. Verði verðfall á árinu 1967, er nemi meiru en 5% miðað við verðlag á árinu 1966, skulu verðbæturnar hækka til viðbótar um 2% af heildarverðlækkuninni fyrir hvert 1%, sem verðlag lækkar umfram 5%.“ Við lestur þessarar gr. vekur það athygli, að það er gert ráð fyrir því, að verði verðfallið einhvers staðar á bilinu milli 5 og 15%, skuli verðuppbæturnar hækka mjög ört, og þetta gaf mér tilefni til þess að kanna, hvernig þetta mundi koma út í reynd. Ef við athugum, hvaða áhrif verðuppbæturnar hafa á verðið til frystihúsanna, verðið, sem frystihúsin fá, þ.e.a.s. söluverð og uppbætur samanlagt við mismunandi mikið verðfall, og ef við tökum sem reikningslega einingu það magn, sem fékkst 100 kr. fyrir á árinu 1966, kemur eftirfarandi í ljós:

Ef verðfallið reyndist 1%, yrði söluverð þessa magns 99 kr. og sjóðurinn mundi borga 55% af þeirri 1 kr., sem á vantaði, eða 55 aura, verðið til frystihúsanna yrði 99.55 kr.

Ef verðfall yrði 5%, yrði söluverð þessarar einingar 95 kr. Sjóðurinn mundi borga 55% af 5 kr., sem á vantaði, og verðið til frystihúsanna yrði 97.75 kr. Af þessu 5 kr. verðfalli borgaði sjóðurinn þá 2.75 kr., en frystihúsin sjálf 2.25 kr. Ég geri ráð fyrir, að hugmyndin með þessu sé sú, þar sem sjóðurinn borgar ekki verðfallið allt, að það sé talið eðlilegt, að frystihúsin beri einhvern hluta af verðfallinu, m.a. kannske til þess að skapa hjá þeim áhuga á því, að verðið sé sem allra hæst, þó að í sjálfu sér þurfi ekki að vefengja áhuga þeirra á því.

En verði nú verðfallið 10% í staðinn fyrir 5%, verður söluverðið 90 kr., en þá yrði uppbótin ekki lengur 55% af þessum 10 kr., sem á vantar, heldur 65%, þannig að sjóðurinn borgar 6.50 og verðið til frystihúsanna verður 96.50 kr. Af þessu 5 kr. verðfalli frá 95 og niður í 90 hefur sjóðurinn þá borgað 3.75 kr., en frystihúsin 1.25 kr. Þarna er skiptingin á tjóninu orðin töluvert mikið önnur, eins og við sjáum.

En ef nú verðfallið yrði 14%, yrði söluverðið 86 kr., en uppbæturnar komnar upp í 73% af 14 kr., sem eru 10.22 kr., og þá yrði verðið til frystihúsanna 96.22 kr. Á þessu 4 kr. bili borga frystihúsin þá aðeins 28 aura, en sjóðurinn borgar 3.72 kr. Það munar sem sagt frystihúsin nær engu, 28 aurum af 100 kr., hvort verðfallið er 10% eða 14%, og það munar frystihúsin einum eyri, einum einasta eyri af 100 kr., hvort það er 13% eða 14%. Mér finnst, að þetta séu óeðlilegar reglur. Mér virðist, að ef sjóðurinn ætlar ekki að bæta tjónið allt, sé það óeðlilegt, að sjóðurinn geti þurft að borga 3.72 kr. á verðfallssviði, sem kostar frystihúsin aðeins 28 aura á hverjar 100 kr.

Það kastar nú fyrst tólfunum, ef verðfallið yrði 15%, því að þá fá frystihúsin meira fé en ef verðfallið yrði 14% eða 13%. Uppbæturnar á þessu bili hækka meira en verðfallinu nemur. Fyrir krónu verðfall á bilinu frá 86–85 eða frá 14–15% verðfalls borgar sjóðurinn meira en krónu. Hann borgar á aðra kr. Það er samkv. þessum reglum, sem hér liggja fyrir, óvefengjanlegt, að það er fjárhagslega hagkvæmara fyrir frystihúsin, að verðfallið yrði 15% heldur en það yrði 14% eða 13%. Þetta munar ekki miklu í fé, ég skal viðurkenna það, en það munar fé samt, og mér virðist það í alla staði óeðlilegt. Mér virðist það í alla staði óeðlilegt, að frystihúsin gætu beinlínis hagnazt á því, þó að mér detti ekki í hug að gera því skóna, að þau geri það viljandi, að verðfallið yrði frekar 15% en 13%.

Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessu og eins hinu, að mér virðist það algerlega óeðlilegt, hvað munurinn er orðinn lítill þarna á stóru sviði. Það munar aðeins 25 aurum af hverjum 100 kr. fyrir frystihúsin, hvort verðfallið verður 10% eða 15%. Þessar reglur virðast mér ekki vera eðlilegar, og ég tel Alþ. tæpast geta samþ. svona reglur.

Nú vil ég gjarnan beina því til hæstv. sjútvmrh., þar sem hefur verið samið um þessar reglur við frystihúsin, hvort þetta er haft svona að kröfu hæstv. sjútvmrh. eða kröfu frystihúsanna eða hvort þetta er svona kannske bara af vangá. En svo mikið er víst, að svona uppbótarreglur á ekki að semja að mínum dómi, og Alþ. á ekki að láta svona nokkuð frá sér fara. Og þá er eðlilegt, að menn spyrji, af hverju ég hafi ekki flutt við þetta brtt. Ég var að tala við hæstv. sjútvmrh. Það má spyrja, af hverju ég flytji þá ekki brtt. um þetta, og því er til að svara, að þó að ég telji, að þessu þurfi nauðsynlega að breyta, sé eðlilegra, að hæstv. sjútvmrh. beiti sér fyrir því, að samkomulagið við frystihúsin sé endurskoðað að þessu leyti núna, meðan Alþ. hefur frv. til meðferðar, heldur en verið sé að fleygja fram brtt., sem kannske væru ekki í samræmi við óskir aðila. Og ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til hæstv. sjútvmrh., að hann geri ráðstafanir til þess, að þessir vankantar, sem ég nú hef verið að lýsa og mér finnst ótækir, séu leiðréttir. (Félmrh.: Fæ ég kannske ræðuna?) Að sjálfsögðu.

Þá kem ég að 8. gr. Við hana flytjum við brtt., hv. 3. þm. Norðurl. v. og ég, 1. minni hl. sjútvn. Sú brtt. byggist á þeirri hugsun, að það er nú komið fram í þessu máli, að hinu svokallaða framleiðniaukningarfé eða hagræðingarfé er varið þannig, að því er úthlutað í beinu hlutfalli við framleiðsluverðmæti hvers frystihúss um sig án nokkurs tillits til þess, hvort verið er að vinna að sérstökum aðgerðum til framleiðniaukningar eða ekki. Við teljum, að við höfum mjög einlægan áhuga á allri viðleitni til framleiðniaukningar og hagræðingar, en teljum það ekki til framdráttar, heldur þvert á móti til skaða allri slíkri viðleitni, að verið sé að kalla það hagræðingarfé, sem samkv. því, sem hv. formaður sjútvn. upplýsti á fundi hennar, er úthlutað sem hreinum verðbótum á freðfisk. Þess vegna leggjum við til orðalagsbreytingu á þessari gr., það er ekki í henni fólgin nein efnisbreyting af neinu tagi, heldur aðeins orðalagsbreyting, þar sem sneitt er hjá því að kenna slíkar verðbætur við framleiðni eða hagræðingu.

Um 9. gr. hef ég ekki neitt að segja. Ég sé, að það er komin fram við hana brtt. frá hv. meiri hl. Mér finnst sú brtt. eðlileg. Þessar 10 millj., sem um ræðir í þessari gr., hafa áður verið veittar til skreiðarframleiðenda, en nú á að gefa hæstv. sjútvmrh. frjálsar hendur um að nota þær til annarra þarfa. En kannske þykir það óeðlilegt, að skreiðarframleiðslan skuli ekki nefnd í því sambandi í gr., og að því lýtur brtt. hv. meiri hl., sem ég get vel fellt mig við.

Ég kem þá að 10. gr. Ég ræddi nokkuð um efni hennar við 1. umr. þessa máls, og ég sé raunar, að blöð Sjálfstfl. hafa tekið sér þar tilefni til þess að snúa duglega út úr því, sem ég hafði um hana að segja, og láta að því liggja, að ég hafi sagt um hana allt aðra hluti en ég raunverulega sagði, og um það þýðir ekki að sakast. Ég legg það ekki í vana minn að svara blöðunum úr ræðustól Alþ. En af því tilefni þykir mér þó rétt að taka fram, ef einhverjir fleiri skyldu hafa viljað misskilja mig, að ég hef ekki út af fyrir sig neitt við það að athuga, að reynd sé framkvæmd þeirra hugmynda, sem lýst er í grg. og í aths. við hana og fskj. Ég vakti hins vegar athygli á því, að það eru í þessum efnum ýmsir hlutir, sem er hægara um að tala en í að komast, og það hefði verið skynsamlegra fyrir hæstv. ríkisstj. að hugsa um skipulegar aðgerðir í þessum efnum, meðan var verið að byggja upp, en ekki nú, þegar á að fara að loka. En þó að ég sé efnislega samþykkur þeim hugmyndum, að framkvæmd þeirra sé reynd, sem á bak við þessa gr. liggja, hlýt ég samt að gera við hana aths., enda höfum við í 1. minni hl. sjútvn. flutt við hana brtt. Mér virðist ástæða til þess að skilja gr., eins og hún er orðuð, þannig, að ríkisábyrgðasjóður skuli hafa frumkvæðið um það að gefa eftir kröfur til einstakra frystihúsa, ef það yrði talið óhjákvæmilegt til þess að koma þeim á viðunandi grundvöll. Að vísu er gert ráð fyrir því, að aðrir kröfuhafar fallist einnig á eftirgjafir, en fyrsta skrefið virðist þó samkv. þessu vera það, að ríkisábyrgðasjóður geri það. Og sú spurning hlýtur þá að vakna, hverrar fyrirgreiðslu þau frystihús megi vænta í þessu sambandi, sem ekki skulda ríkisábyrgðasjóði neitt. Er það kannske hugsunin að láta þau fyrst komast í vanskil við aðra, þannig að þau yrðu skuldug ríkisábyrgðasjóði? Má vera. En þá verð ég að segja, að mér finnst það næsta ógeðfelld aðferð, ef á að þvinga þá, sem hafa lagt mikið á síg til þess að standa í skilum, til þess að fara í vanskil, áður en þeir gætu fengið hjálp á borð við vanskilamenn.

Ég ætla ekki núna að fara að rekja það, hvernig ríkisábyrgðasjóður hefur á undanförnum árum verið stórlega misnotaður sem lánasjóður fyrir einstaka aðila. Um það höfum við á undanförnum árum fengið skýrslur hér á hv. Alþ., sem tala sínu máli, og ég skal láta það liggja á milli hluta að þessu sinni, nema sérstakt tilefni gefist til. En ég vil ítreka, að það hlýtur í hæsta máta að vera óeðlilegt, að það sé forsenda fyrir því, að frystihúsin geti fengið þá aðstoð, sem hér er gert ráð fyrir, að þau séu skuldug ríkisábyrgðasjóði. E.t.v. er það ekki meiningin, en eins og gr. er orðuð virðist mér, að hún hljóti að verða skilin þannig. Og til þess að koma í veg fyrir það, höfum við flutt brtt., sem gerir þetta skýrara á þann hátt, að í staðinn fyrir, að ríkisábyrgðasjóður einn er nefndur, leggjum við til, að einnig sé nefndur Fiskveiðasjóður Íslands, Framkvæmdasjóður Íslands og aðrir opinberir lánasjóðir ásamt ríkisábyrgðasjóði. Við þessari till. eða við þessari hugmynd hef ég heyrt tvenns konar andmæli: annars vegar á þann veg, að það séu fyrir hendi lagaheimildir til þess, að fiskveiðasjóður, framkvæmdasjóður og fleiri sjóðir geti gefið eftir og þurfi þess vegna ekki frekari lagafyrirmæli hér, en ef það er svo, er útlátalaust að taka þetta með, til þess að gr. verði þá ekki misskilin. Önnur mótbára, sem ég hef heyrt um þetta, er sú, að einhver verði að hafa forustu um þessar aðgerðir, hún sé hugsuð og ætluð ríkísábyrgðasjóði og því sé hann þarna nefndur. En það er að sjálfsögðu hægt að fela ríkisábyrgðasjóði alla forustu í þessu máli, þó að ljóst sé, að heimildir séu um leið hjá öðrum lánastofnunum til þess að veita þær eftirgjafir, sem nauðsynlegar kunna að reynast í þessu sambandi.

Ég skal svo ekki taka meiri tíma að sinni, en við leggjum til, að brtt. okkar þrjár verði samþ. og frv. verði samþ. svo breytt.