10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það var aðeins ein setning í ræðu hæstv. sjútvmrh., sem gefur mér tilefni til aths. Hæstv. sjútvmrh. sagði eitthvað á þá leið, að hann gæti ekki séð, að það væri mikil hætta af þessum vankanti á bótaskalanum, sem ég var að benda á, — það væri ekki mikil hætta á því, að framleiðendur leituðu eftir, að verðfall yrði á ákveðnu stigi, eins og ég held, að hann hafi orðað það. Þetta gefur mér tilefni til þess að láta í ljós vonbrigði yfir því, að hæstv. sjútvmrh. skuli sjá ástæðu til þess að beita þeim málflutningi í þessu sambandi, að ég hafi verið sérstaklega hræddur við það, að frystihúsin eða sölusamtök þeirra færu að nota sér þetta á einhvern hátt. Mér finnst það ekki vera í samræmi við þann drengilega málflutning, sem ég veit, að hæstv. sjútvmrh. vill gjarnan temja sér, að vera að gefa í skyn, að það hafi verið það, sem fyrir mér vakti. Ég tók einmitt þvert á móti fram, að hér væri um svo litla fjármuni að ræða, að það skipti í sjálfu sér ekki miklu máli, og bætti einnig því við, að sízt sæi ég ástæðu til þess að gera ráð fyrir því, að menn færu að misnota þetta. En það, sem ég lagði áherzlu á, var það, að það er óeðlilegt — mér liggur við að segja ósæmilegt — að hafa verðuppbótarreglur með þessum hætti, jafnvel þótt maður geri sízt ráð fyrir því, að neinir færu að gera sér leik að því að misnota þetta.