10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl (Helgi Bergs):

Herra forseti. Mér þykir út af fyrir sig vænt um það, að hæstv. fjmrh. skyldi hafa tekið eftir ummælum mínum um ríkisábyrgðasjóð, en það fór ekkert á milli mála, að hann hafði gert það, og til þess var líka minn leikur gerður. Ég held, að það geri ekkert til, þó að hæstv. fjmrh. tæki sig til og kynnti sér svolítið nánar þau mál. Við höfðum skýrslur um stöðu ríkisábyrgðasjóðs og skuldara hans á undanförnum árum. Ég hef kynnt mér þessar skýrslur, og ég veit ósköp vel, hvað ég er að segja. Ríkisábyrgðasjóður er, eins og við vitum, ekki lánastofnun í eðli sínu, heldur stofnun til þess að tryggja innheimtu fyrir aðrar lánastofnanir, og eðli málsins samkvæmt er ekki eðlilegt, að stofnað sé til langtíma samningsskulda við ríkisábyrgðasjóð, og þaðan af síður er það eðlilegt, að hann gefi einstökum aðilum eftir stórfé, án þess að að þeim sé gengið. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslur um það, að á árabilinu frá 1962 til ársins 1965 mun ríkisábyrgðasjóður hafa breytt skuldum, sem stofnað hefur verið til við hann, í skuldabréf, gefið þær eftir eða afskrifað þær, að upphæð talsvert yfir 200 millj. kr. Það er enginn smápeningur, sem er um að ræða. Ég hef líka skýrslur um það, hverjir þeir aðilar eru, sem samið hefur verið um að gera skuldir þeirra við ríkisábyrgðasjóð að langtímaskuldum og gefið eftir og afskrifað hjá, og það væri svo sem hægt að rekja það, en ég held, að ég láti það hjá líða að sinni. Það gefast væntanlega til þess önnur tilefni innan skamms.

Mér þótti út af fyrir sig líka vænt um það, að hæstv. fjmrh. skyldi segja, að það væri misskilningur hjá mér sá skilningur minn á 10. gr., að ríkisábyrgðasjóður skyldi hafa forustu um skuldaeftirgjafir með þeim hætti, að það væru fyrst og fremst skuldir við hann, sem hann gæfi eftir. Mér var að vísu ljóst, að það er gert ráð fyrir því, að einnig aðrir gefi eftir skuldir, en það er gert ráð fyrir algerri forustu ríkisábyrgðasjóðs um slíkt, og til þess að hann geti gefið eftir skuldir, þurfa menn væntanlega að skulda honum eitthvað. Mér þykir vænt um það, að hæstv. fjmrh, skuli lýsa því yfir, að þessi skilningur minn sé ekki réttur, en þá álít ég líka, að orðalag gr. sé óþarflega óljóst.

Það kom einnig fram hjá hæstv. fjmrh., að hann taldi, að þetta væri eðlilegt, að ríkisábyrgðasjóður hefði þarna forustu, þar sem aðrir kröfuhafar hefðu í mörgum tilfellum tryggingu í ríkisábyrgðasjóði og gætu þess vegna ekki gefið eftir skuldir nema í samráði við ríkisábyrgðasjóð. Mér sýnist þetta nú hafa nokkurn svip af því, sem ég taldi heldur óviðfelldið, ef sú leið yrði farin að láta skilamenn, sem þyrfti að aðstoða í þessu sambandi, fyrst fara í vanskil, svo að ríkisábyrgðasjóðurinn verði kröfuhafinn, áður en hægt væri að greiða fyrir þeim.

Mér finnst þess vegna, að á þessu öllu saman sé sá svipur, sem ég á erfitt með að fella mig við. Ég álít, að það sé útlátalaust fyrir hv. þm., ef þeir hafa sama skilning á þessu og ég hef og mér virtist, að hæstv. fjmrh. hefði líka, þá sé útlátalaust að gera þessi ákvæði skýrari með því að samþykkja síðustu brtt. okkar í 1. minni hl.