10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að fá fram það, sem hv. 6. þm. Sunnl. hér áðan sagði um ríkisábyrgðasjóð og efni þeirra röksemda, sem mér skilst, að hafi staðið að baki þeirri fullyrðingu hans í fyrri ræðu, að hér væri um mjög alvarlega mismunun að ræða. Mér skildist á orðum hans nú, að þetta byggðist á því, að hann hefði fyrir sér skýrslu um margvíslegar eftirgjafir hjá ríkisábyrgðasjóði og að skuldum hefði verið breytt í langtímalán á undanförnum árum eða allt frá því að sjóðurinn tók til starfa og til ársins 1965. (Gripið fram í.) Já, 1962–1965, ég held, að hann hafi tekið til starfa þá.

Þetta kemur mér ekki nokkurn hlut á óvart, vegna þess að þetta átti sér stað í stórum stíl, og hitt kæmi mér mjög á óvart, ef þetta hefði gerzt með nokkuð óvenjulegum hætti. Eins og menn muna eftir og ég sagði frá í ræðu minni, var svo ákveðið, að þegar lög um ríkisábyrgðasjóð voru sett, að það skyldi farið í gegnum allar kröfur, sem þá voru í vanskilum við ríkið vegna ríkisábyrgða, og ákveðið með sérstökum hætti, hvað af þeim kröfum yrði gefið eftir og hverju af þeim yrði breytt í langtímalán, og þetta hefur verið að gerast á töluverðu árabili, og hér var um mjög verulegar fjárhæðir að ræða í senn, sem voru eftir gefnar, og hins vegar, sem var breytt í langtímalán. Mér kemur ekkert á óvart, þó að það kunni að vera 200 millj. En að það hafi verið gert með óeðlilegum hætti og einhverju baktjaldamakki, án þess að réttir aðilar kæmu þar við sögu, það var það, sem ég átti við, að ég kynni illa við í staðhæfingum hv. þm. í hans fyrri ræðu, því að það var ómögulegt annað en skilja hans orð þá svo, að hér hefði átt sér stað mjög alvarlegt misferli og rangindi, því að ég lít svo á, að ef menn eru beittir misjöfnum tökum, sé það ófært, og ég er hv. þm. algerlega sammála um það. Þess vegna tók ég nokkuð nærri mér þá fullyrðingu að bera ábyrgð á því að hafa stjórn sjóðs, sem þannig aðferðum beitti. Það eru til síðar samningar um lán, eftir að þessar ákvarðanir voru gerðar í upphafi, sem byggðar voru á l. um ríkisábyrgðasjóð, þá eru til nokkrir samningar, að breytt hafi verið vanskilum í langtímalán. En það hefur alltaf verið gert að mjög vandlegu mati Seðlabankans og ríkisábyrgðasjóðs og eingöngu í því skyni gert að tryggja hag sjóðsins og sjá til þess, að þetta grynntist, m.a. með þeim hætti að taka nýjar ábyrgðir og tryggingar, og í sumum tilfellum hefur með þessum hætti hreinlega tekizt að bjarga tugmilljónum kr., sem voru í algerri óvissu vegna ríkisábyrgða, sem teknar höfðu verið á sínum tíma. Ég er ekkert að saka neinn, sem að því stóð. Það var við allt aðrar aðstæður, en síðar kom í ljós, að það voru stórkostlegar áhættuábyrgðir.

Við skulum taka t.d. togarana, þar sem eingöngu voru tryggingar teknar á sínum tíma í togurunum og auðvitað raunverulegt verðgildi þeirra ekkert í námunda við það, einkanlega nýju togaranna, sem nemur ríkisábyrgðunum. Í ýmsum svona tilfellum hefur verið samið, en í öllum tilfellum að vel yfirveguðu ráði og með eindregnum meðmælum Seðlabankans og mati hans á því, að hér væri verið að tryggja hagsmuni ríkissjóðs, en ekki það gagnstæða.

Hitt er svo allt annað mál, sem hv. þm. sagði og er ákaflega oft í mannlegu lífi raunalegt, ekki aðeins varðandi ríkisábyrgðasjóð, heldur í öllu viðskiptalífi, að það eru sumir, sem leggja sig meira fram um að standa í skilum en aðrir. Þetta er alveg hárrétt. Og það verður ekki alltaf komið við viðurlögum í þessu efni. Það hefur verið reynt að nota allar aðferðir, halda eftir ýmiss konar fé, sem ríkið hefur átt að greiða til vanskilaaðila, og eitt og annað gert í þessu efni. En vitanlega hefur þetta oft og tíðum faríð svo, að sumir aðilarnir borga skilvíslega, leggja sig fram um það, aðrir leggja sig ekki eins fram um það. Og það getur vel verið, að menn hafi út úr þessu nokkurn hag, þegar til uppgjörs kemur, eins og hér er rætt um, sem enginn er glaður yfir, en er ákaflega erfitt að tryggja sig gegn.

Ég vildi mega vænta þess, að þær athuganir, sem hv. 6. þm. Sunnl. gerir á þessum málum varðandi ríkisábyrgðasjóð, sannfæri hann um það, að hér hafi ekki verið tilefni til að halda fram, að neinum rangindum hafi verið beitt. Og ég fullvissa hann um það, þó að það sé auðvitað ekki tími til þess hér, eins og hann sagði, að fara út í einstök atriði í þessu efni, að ég er ákaflega vel reiðubúinn til þess að ræða við hann og aðra hv. þm., hvort sem er hér í þingi eða persónulega, ef það eru einhver atriði, sem þeir telja, að þarna hafi ekki verið með þeim hætti, sem þau hefðu átt að vera, og er jafnfús til þess að beita mér í því efni að lagfæra það, ef mér er sýnt fram á með rökum, að það hafi ekki verið rétt á málum haldið.