10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í þessar umr. og skal ekki lengja þær mjög mikið. En þau orð, sem hæstv. fjmrh. lét falla í fyrri ræðu sinni varðandi greiðsluafgang, þóttu mér svo merkileg, að ég get ekki alveg látið þau fram hjá mér fara án þess að vekja á þeim athygli. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að um greiðsluafgang væri að ræða. Hann var að vísu ekki við því búinn að upplýsa nákvæmlega, hverju hann hefði numið á s.l. ári. Aðrir ráðh. hafa þó látið frá sér fara, að ég hygg, nokkrar tölur, að vísu ekki sérlega nákvæmar, í því efni. Þó að ekki sé gerð krafa til þess, að hæstv. fjmrh. sé við því búinn nú að gefa upplýsingar um það, hverju greiðsluafgangurinn hafi numið upp á við skulum segja millj., þá fer ekki á milli mála, að hæstv. fjmrh. hefur nokkuð glöggar hugmyndir um það, hverju greiðsluafgangurinn muni nema. Og hann viðurkenndi það sem sagt, að greiðsluafgangur hefði orðið verulegur. Hann viðurkenndi, að sá greiðsluafgangur hefði út af fyrir sig leyft það, að mér skildist, að af honum hefðu verið greiddar þessar 85 millj., eða hvað það nú er, sem hér er um að ræða, en greiðsluafgangurinn væri að vísu ekki lengur til nema á pappírnum. Nú er mér ekki alveg ljóst, hvað hæstv. fjmrh. á við með slíku orðalagi. Ég veit það í mínum barnaskap, að greiðsluafgangur ríkissjóðs er ekki geymdur í kassa hjá ríkisféhirði. Ég geri ráð fyrir því og hef alltaf gert ráð fyrir því, að hann væri geymdur eins og annað fé ríkissjóðs í Seðlabankanum. En ég held, að það sé ekki hægt að segja, að sá greiðsluafgangur, sem þannig er geymdur, sé aðeins til á pappírnum sem greiðsluafgangur. Mér er ekki kunnugt um, að greiðsluafgangi þessum, sem orðið hefur, hafi verið ráðstafað af Alþ. til þessa. Ég verð þess vegna að álíta, að sá greiðsluafgangur, sem orðið hefur, sé enn til ráðstöfunar.

En það, sem alveg sérstaklega vakti athygli mína, var það, að ráðh. tók í sjálfu sér undir það, að það gæti verið réttlætanlegt að verja af greiðsluafgangi fé í þessu skyni, sem hér er gert ráð fyrir. En hann sagði aðeins, að það væri ekki hægt nú og eins og á stæði, nema það yrði verðbólguaukandi. Ég held, að ég hafi skilið hans orð rétt á þessa lund. En hvað er þá hæstv. ráðh. að segja með þessu? Hann er að segja það, að það mundi vera verðbólguaukandi, ef staðið yrði við nýlega samþ. fjárlög á Alþ. og fjárveitingar til verklegra framkvæmda ekki skornar niður um 10%, því að það er það, sem hér er um að ræða, og jöfnunarsjóður látinn fá sitt. Ég fæ ekki betur séð en með þessu komi alveg nýtt sjónarmið fram í þessu máli varðandi þessa ráðstöfun, sem hér er um að ræða, og það séu þá komin ný rök af hálfu ríkisstj. fram fyrir þeim niðurskurði verklegra framkvæmda, sem hér er ráðgerður, sem sé, hann sé frá þeirra sjónarmiði nauðsynlegur til þess að hamla á móti verðbólguþróun. Ég verð að segja það, að þetta eru nokkuð nýjar upplýsingar fyrir mér, og mér finnst þær svo merkilegar, að ég vildi ekki láta hjá líða að vekja á þeim athygli. En ég býst við því, að það fari fleirum eins og mér, að þeim þyki það nokkuð furðulegur málflutningur, að það skuli nú boðað, að það sé verðbólguaukandi, ef staðið er við þær fjárveitingar, sem samþykktar hafa verið í fjárl. Það er það, sem hæstv. fjmrh. er í raun og veru að segja með þeim orðum; sem hann sagði hér áðan, enda þótt hann orðaði það á aðra leið og ræddi um það, hvaða afleiðingar það heiði, ef einhverjum hluta af greiðsluafganginum væri varið í þessu skyni.