10.03.1967
Efri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ræða hv. 3. þm. Norðurl. v. kom mér nánast sagt nokkuð á óvart, vegna þess að öllum hv. þdm. er það kunnugt, að hann yfirvegar sitt mál vel og gerir sér grein fyrir staðreyndum mála, oftast nær a.m.k., þegar ekki er nauðsynlegt af flokkspólitískum ástæðum að taka málin öðrum tökum, en sleppum því. Ég var af þessum ástæðum mjög hissa að hlusta á ræðu hans og hvernig hann lagði út orð mín hér áðan. Hann lagði á það sérstaka áherzlu, að það væri einkennilegt orðalag og fráleitt að tala um greiðsluafgang á pappírnum, eins og ég hefði orðað það. En ég mun hafa sagt í ræðu minni áðan, án þess að ég muni það nákvæmlega orðrétt, að það mætti auðvitað segja, að á pappírnum væri greiðsluafgangur til þess að mæta þessum útgjöldum, sem hér er um að ræða. Þegar ég notaði þetta orðalag, átti ég við, að ég kalla það greiðsluafgang á pappírnum, ef maður vanrækir að greiða algerlega óumsamdar yfirdráttarskuldir, þegar vel árar. Það er nákvæmlega eins og ef menn yfirdraga bankareikning sinn raunverulega í heimildarleysi eða út úr neyð, eins og gert var hjá ríkissjóði á árunum 1964–1965 og síðan. Ef vel árar og menn fara aftur að hafa einhvern hagnað, hygg ég, að það sé almennt og sjálfsagt viðskiptalögmál og enginn banki mundi una því, að menn héldu áfram að yfirdraga reikning sinn óg ráðstöfuðu öllu því fé, sem þeim þá hefur áskotnazt, á annan veg eða til nýrrar eyðslu, í stað þess að greiða þessar yfirdráttarskuldir. Og það hefur, held ég, af öllum fjmrh. verið álitin grundvallarregla og það ekki síður af hv. núv. formanni Framsfl., sem ég man eftir í sinni tíð, að við höfðum mikið saman að sælda um fjármál, og hann var ákveðið þeirrar skoðunar og ég tel það hárrétt, að það væri auðvitað alls ekki verjandi, ef ríkinu áskotnaðist greiðsluafgangur, að greiða þá ekki upp lausaskuldir. Og þetta er það, sem ég meina nákvæmlega með það, að greiðsluafgangur sé á pappírnum, þegar ég tala um, að það megi að vísu segja, að greiðsluafgangur á árinu 1966 hafi bókhaldslega orðið svona og svona mikill, en hins vegar, ef taka á tillit til þess, hvað yfirdreginn hefur verið reikningur ríkissjóðs í Seðlabankanum með alveg óeðlilegum hætti, sé ekki verjandi að ráðstafa þessu fé og raunverulega sé maður þá ekki að ráðstafa greiðsluafgangi, heldur peningum Seðlabankans. Þetta held ég, að öllum hv. þdm. hljóti að vera ljóst, að er rétt.

Ég vil einnig leggja áherzlu á það, að það fólst ekki í mínum orðum, enda tók ég það skýrt fram við 1. umr. þessa máls, að það væri, jafnvel þótt greiðsluafgangur væri, réttlætanlegt að greiða þetta fé af greiðsluafgangi, vegna þess að það hefur aldrei verið talið eðlilegt að nota greiðsluafgang til þess að greiða með venjuleg rekstrarútgjöld ársins. Ég lít svo á, að þessi stuðningur við bátaútveginn sé venjuleg rekstarútgjöld ríkissjóðs á sama hátt og styrkur á fjárl. undanfarin ár, en það megi mun fremur verja það, þó að megi segja, að það sé álitamál, að taka af greiðsluafgangi fé, sem gert er ráð fyrir, að sé stofnfé í tiltekinn sjóð, enda kunni svo að fara, ef vel gengur, að svo og svo mikið af því renni til ríkissjóðs aftur eða þurfi ekki á því að halda. Það er allt annað mál og miklu eðlilegra að beita þá þeirri aðferð.

Varðandi síðustu ummæli hv. þm. fæ ég ekki heldur skilið, að jafnglöggur maður skuli ekki átta sig á því til fullnustu, og trúi ekki annað en hann í rauninni geri það, að með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að gera um skerðingu á framkvæmdafé ríkisins, sem veitt er í fjárl. þessa árs, er vitanlega ekki verið að draga úr útgjöldum ríkissjóðs frá því, sem var, þegar fjárlög voru sett, og með því, eins og hv. þm. segir, að viðurkenna það, að raunverulega hafi fjárl. verið verðbólgumyndandi. Hitt liggur í augum uppi, að það er hér verið að tala um að leggja á ríkissjóð 85 millj. kr. ný útgjöld, og það er verðbólgumyndandi að leggja slík útgjöld á með þeim hætti að nota til þess fé, sem raunverulega er alls ekki til staðar. Það var það, sem ég átti við í minni ræðu, að nota fé, sem eingöngu er fengið með þeim hætti að greiða ekki upp lausaskuldir ríkissjóðs og valda með því algerlega óeðlilegum fjárráðstöfunum eða útgreiðslum úr Seðlabankanum, sem hefur undir öllum kringumstæðum þau áhrif á viðskiptalífið og peningaveltuna í landinu, að það yrði þá, ef ekki ættu að verða verðbólguáhrif af þessu, að draga úr útlánum lánastofnana að sama marki. Þetta er grundvallarlögmál.

Það er of langt mál að fara út í það hér, en lánastofnanir á síðasta ári, eins og hv. þdm. er kunnugt, juku útlán sín um rúmlega eða kringum að ég hygg 500–600 millj. kr. umfram það, sem sparifjáraukningunni nam. Þetta hefði verið útilokað að gera nema með stórkostlega alvarlegum afleiðingum fyrir efnahagskerfið, ef staða ríkissjóðs hefði ekki bætt þetta upp. En hún hefur látið nærri á s.l. ári að bæta þetta upp. Sú rýrnandi staða ríkissjóðs, sem mun verða á þessu ári, sem því miður er full ástæða til að óttast, að verði slæm, hlýtur að hafa þær afleiðingar, ef ekki á að verða verðbólguaukandi, ef ekki eiga að vera verðbólguáhrif varðandi efnahagskerfið og lánastarfsemina í landinu í heild, þá þrengist hagur lánastofnananna að þessu marki. Það er þá ekki hægt að jafna umframútlán þeirra upp með þessari batnandi stöðu ríkissjóðs. Og við sjáum það í hendi okkar, að ef við ætlum þess vegna að fara að ráðstafa að verulegu leyti peningum af greiðsluafgangi, sem þarf til þess að greiða yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum, hlýtur það að segja til sín með þeim hætti, að annaðhvort verði aukin verðbólga eða þá verði að þrengja að útlánastarfseminni í þjóðfélaginu á öðrum sviðum. Og það geri ég ekki ráð fyrir, miðað við það, sem við allir vitum, hversu þröngt er á lánamarkaði, að nokkur maður telji æskilegt, að sú leið yrði farin.

Þetta vænti ég, að hv. þm. geri sér grein fyrir, og veit raunar, að hann gerir það og það þurfi ekki að fara á milli mála, að við skiljum hvor annan, hvað við meinum í þessu efni.