13.03.1967
Neðri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Frv. það um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem hér er verið að ræða, hlýtur að vekja til umhugsunar um þá stjórnarstefnu, sem hér hefur verið ríkjandi undanfarandi ár. Frv. er ætlað að koma í veg fyrir meiri háttar stöðvun í þorskveiðum og hraðfrystiiðnaði hér á landi um nokkurt skeið. Hér er óumdeilanlega um bráðabirgðaaðgerð að ræða, og fer víðs fjarri, að rekstrargrundvöllur sé nú fyrir hendi fyrir þessar mikilvægu framleiðslugreinar í meðalárferði hvað aflabrögð og viðskiptakjör á erlendum mörkuðum snertir. Hvernig stendur á því, að svona er komið eftir margra ára samfelld aflauppgrip í sjávarútveginum, ef á heildina er litið? Talsmenn hæstv. ríkisstj. vilja kenna verðfalli því, sem varð á síðari hluta árs 1966 á frystum fiskafurðum, um þetta ástand. Vissulega hefur það haft sín áhrif. En ég tel, að hinar raunverulegu orsakir liggi aðallega annars staðar og þá fyrst og fremst í þeirri óðaverðbólgu, sem hér hefur verið, í því skipulagsleysi, sem einkennt hefur uppbyggingu atvinnuvega okkar undanfarandi ár, á viðreisnartímabilinu, og í minnkandi þorskafla miðað við sóknareiningu. Að kenningin um verðfallið síðari hluta ársins 1966 sé ekki rétt sem meginástæða fyrir ráðstöfunum þeim, sem verið er að fá lögfestar, má m.a. marka af því, að strax á árinu 1964 var 43 millj. kr. varið til uppbóta á framleiðslu frystra fiskafurða til frystihúsanna, 1965 33 millj. kr. og á árinu 1966 50 millj. kr. Á árunum 1964 og 1965 var um mjög verulega hækkun á frystum fiski að ræða á erlendum mörkuðum, sem þó nægði frystihúsunum ekki til þess að greiða hækkandi hráefnisverð og standa undir innlendum hækkunum framleiðslukostnaðarins, án þess að aðstoð þyrfti úr ríkissjóði. Enn fremur má á það minna, að 1964 var talið óhjákvæmilegt að greiða 6% uppbót á nýfiskverðið úr ríkissjóði allt það ár til þess að standa straum af hækkandi útgerðarkostnaði bátanna og bæta upp kjör sjómannanna á þorskveiðum. Þessar staðreyndir ásamt ýmsu öðru fleira sýna vel, að þrátt fyrir hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum hefur orðið að veita verulegan fjárhagsstuðning til vissra greina sjávarútvegsins og fiskiðnaðarins að undanförnu, enda vita allir, sem vilja vita, að afkoma þessara framleiðslugreina nú er mjög bágborin. Þær hafa orðið fórnarlömb þeirrar þróunar, sem hér hefur verið að gerast undanfarandi ár, og upp á það hefur verið horft af skilningssljóum augum valdhafanna, af því að góðærið í ýmsum greinum hefur forðað þjóðarskútunni frá strandi til þessa. En er mikil fyrirhyggja í slíku? Geta Íslendingar verið tómlátir um þorskveiðarnar og hraðfrystiiðnaðinn, saltfiskverkunina og skreiðarverkunina? Ég fyrir mitt leyti svara því afdráttarlaust neitandi.

Ég vil nú í fáum orðum reyna að greina frá meginástæðunum fyrir því óheillaástandi, sem nú ríkir í mikilvægum greinum sjávarútvegs og fiskiðnaðar.

Hæstv. sjútvmrh. hefur ítrekað hér á hv. Alþ. talað um tímabundna erfiðleika hjá þessum atvinnugreinum án þess að færa fyrir því nokkur rök. Af ræðu þeirri, er hann hélt hér áðan, þar sem hann talaði um verðfallið á bandaríska markaðnum og um erfiðleika þá, sem sjávarútvegurinn á við að stríða vegna markaðsbandalaganna í Evrópu, þá sýnist mér, að leiða megi þá niðurstöðu af þeim orðum, að hér geti því miður verið um meira en tímabundna erfiðleika að ræða.

Það var yfirlýstur megintilgangur hæstv. ríkisstj. í upphafi valdaferils síns að koma málum þannig fyrir, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna væri skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hefðu átt við að búa undanfarandi ár. Alveg sérstaklega var tekið fram í hinni góðu bók, Viðreisn, sem nú virðist ófáanleg af óskiljanlegum ástæðum, að útflutningsframleiðslan skyldi rekin hallalaust án bóta og styrkja. Hin marglofaða viðreisnarstefna átti að tryggja þetta. Í dag, rúmum 7 árum frá því að fyrirheit þetta var gefið, ásamt ýmsum fleirum, því að stjórnarherrarnir voru í þann tíma ákaflega ósparir á loforðin, þá má sjá í hnotskurn af fjárl. yfirstandandi árs, hversu gersamlega viðreisnarstefnan hefur brugðizt í meginatriðum. Af tekjum ríkissjóðs 1967, sem áætlaðar eru á fjárl. rúmir 4.7 milljarðar, ganga 1 milljarður 276 millj. kr. til uppbóta og niðurgreiðslna á vöruverði innanlands, en tilgangurinn með niðurgreiðslunum er að sjálfsögðu sá að halda niðri kaupgjaldsvísitölunni og koma þannig í veg fyrir kauphækkanir, sem menn telja, að stofnatvinnuvegirnir fái ekki undir risið. Þessi upphæð skiptist þannig, að um 320 millj. kr. ganga til sjávarútvegsins og hæstv. sjútvmrh. gerði grein fyrir því áðan, hvernig sú fjárhæð skiptist. 248 millj. kr. ganga til þess að verðbæta útfluttar landbúnaðarvörur og um 708 millj. ganga til niðurgreiðslna á vöruverði innanlands. Er hér þá aðeins talið það eitt, sem í þrengstu merkingu er talið undir níðurgreiðslur og uppbætur, en auðvitað kemur fleira til sem fjárstuðningur við atvinnuvegina úr ríkissjóði. Þessar eru þá staðreyndir hinna köldu talna um hinn trausta grundvöll atvinnulífsins, sem viðreisnarstjórnin ætlaði að leggja.

Það er ómögulegt að afsaka lélega aðstöðu atvinnuveganna nú með einhverjum verðfallsútskýringum, ef á heildina er litið. Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. viðskmrh., upplýsti þannig nýlega hjá kaupmannasamtökunum í Reykjavík, eða nánar tiltekið 28. febr. s.l., að þjóðarframleiðsla á mann hefði aukizt um 3.7% á tímabilinu frá 1960 til 1965, en aukning þjóðartekna hefði á sama tíma numið árlega 5.7% á mann vegna síbatnandi viðskiptakjara ár frá ári á öllu þessu tímabili.

Ég gat um í upphafi ræðu minnar, að meginástæðurnar fyrir erfiðleikunum í sjávarútveginum væru aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi og meginástæðan er sú gífurlega verðbólga, sem hér hefur ríkt undanfarandi ár. Í öðru lagi má rekja erfiðleikana í vissum greinum útvegsins til minnkandi þorskfiskafla og skyldra tegunda. Og í þriðja lagi má rekja það til þess skipulagsleysis, sem hefur ríkt bæði í sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum landsmanna um atvinnuuppbyggingu. Ýmis fleiri atriði koma til greina, sem ég hef ekki tíma til nú að víkja að, en ég skal reyna að gera í nokkrum orðum grein fyrir þessum staðhæfingum mínum.

Undanfarin ár hefur dýrtíðarvöxturinn verið með eindæmum á Íslandi, í V.-Evrópu og N.- Ameríku. Afleiðingar þessa segja til sín á flestum sviðum þjóðlífsins og þá ekki hvað sízt í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegi og fiskiðnaði, sem er eini gjaldeyrisaflandi atvinnuvegur landsmanna, svo að nokkru nemi. Á árunum 1960–1965 hækkaði neyzluvöruverðlag hér um 12.4% að meðaltali á ári, á sama tíma og verðlagshækkun í helztu viðskiptalöndum okkar nam aðeins 1/4 hluta þessarar hækkunar. Tilkostnaðurinn við útflutningsframleiðsluna hækkaði að sjálfsögðu nokkuð tilsvarandi, eða nálega 3–4 sínnum meira hjá okkur en hjá helztu keppinautum okkar um markaðina. Augljóst er, að slík þróun hlýtur fyrr eða síðar að leiða til alvarlegra vandræða innanlands, til stöðvunar í stofnatvinnuvegum þjóðarinnar og atvinnuleysis, sem Íslendingar hafa síðustu árin verið blessunarlega lausir við. En á s.l. vetri virðist því miður á vissum svæðum landsins hafa bólað á því að nýju. Þannig er mér t.d. vel kunnugt um, að nokkuð víða í mínu kjördæmi hefur á þessum vetri verið um tilfinnanlegt atvinnuleysi að ræða, sérstaklega hjá kvenfólki. Undanfarin ár hafa síldarútgerðin og fiskiðnaðurinn getað tekið á sig þennan stórhækkaða framleiðslukostnað sökum stórfelldra aflauppgripa og hagstæðrar verðlagsþróunar í markaðslöndum okkar. Á árunum 1960–1965 hefur aflamagnið þannig vaxið um 50.9%, en mjög misjafnt á einstakar fisktegundir. Þannig hafa síldarafurðir aukizt um 300–400% á tímabilinu, en magn frysts fisks aðeins um 6.7%. Rétt er að hafa í huga, þegar þessi magnvöxtur er virtur, að tilkostnaðurinn við öflun hans hefur stórvaxið, skipin eru stærri og dýrari, veiðarfæri og veiðitæki sömuleiðis, en athyglisvert er, að fjöldi starfandi sjómanna, sem þennan aukna afla hefur sótt í greipar Ægis, hefur haldizt svo til óbreyttur allt þetta árabil. En að vísu hefur síldveiðitíminn lengzt og vinna síldveiðisjómannanna þar af leiðandi aukizt. Á þessum árum hefur meðalverð útfluttra sjávarafurða hækkað að meðaltali um 45%, en nokkuð misjafnt eftir verkunartegundum og fisktegundum.

Þetta tvennt, aukning aflamagns og hækkandi markaðsverð, hefur ásamt umtalsverðri hagræðingu í rekstri fiskvinnslustöðvanna gert útflutningsatvinnugrein þessari fært að standa undir hækkandi framleiðslukostnaði. En öllum hugsandi mönnum hefur verið það ljóst lengi, að þetta kynni að breytast fyrr en varði, og nú virðist að þessu komið, um sinn a.m.k. Fregnir berast nú um verulegt verðfall á frystum fiski og raunar fleiri afurðum, en frystur fiskur var árið 1965 næststærsti liðurinn í útflutningi okkar, að upphæð 1700 millj. kr., aðeins fiskimjöl og lýsi var stærri þáttur, en á honum hefur líka orðið nokkurt verðfall, þó að það sé farið að hækka aftur. Við vitum að sjálfsögðu ekki, hvort verðfall þetta verður áframhaldandi. Við vonum, að svo verði ekki, en við verðum þó að játa, að um það ráðum við sáralitlu eða engu. Það fer að mestu eftir velgengni keppinauta okkar í austri og í vestri, hvernig verðlagið þróast fyrir okkur á frysta fiskinum.

Í þessu sambandi vil ég minna á og undirstrika þann fasta ásetning ýmissa þjóða, t.d. Rússa, Pólverja, A.-Þjóðverja o.fl., að verða sjálfum sér nógir í náinni framtíð um fiskafurðir og gerast öflugir útflytjendur fisks til annarra landa og þannig keppinautar okkar um markaðina. Það hefur þegar borið á þessu.

Mér er t.d. kunnugt, að við erum farnir að mæta samkeppni á nokkrum mörkuðum frá Rússum í sambandi við sölu saltaðrar síldar héðan frá Íslandi, og eru því miður mjög miklar horfur á því, að sú samkeppni eigi eftir að fara vaxandi. Þegar þessar staðreyndir eru virtar, þá er ljóst, hversu gífurlegt áfall og blóðtaka það er þessari atvinnugrein, að óðaverðbólgan hefur ætt jafnhratt áfram og raun ber vitni á viðreisnartímabilinu nær öllu. Menn deila um orsakir verðbólgunnar, en um eitt ætti ekki að þurfa að deila, og það er það, að eðli málsins samkvæmt verður ríkisstj. og sá þingmeirihluti, er hana styður, að teljast ábyrg fyrir þessari óheillaþróun, enda margt það í sjálfri stjórnarstefnunni, sem beinlínis hefur stuðlað að þessu, en tímans vegna vil ég ekki rekja það nánar nú, enda hef ég gert það æðioft við ýmis önnur tækifæri.

Af þeim fáu orðum, sem ég hef sagt um áhrif verðbólgunnar á sjávarútveginn, ætti öllum að vera ljós skaðsemi hennar á hagsmuni hans. Í rökréttu framhaldi af því má fullyrða, að hver sú ríkisstj., sem mistekst að halda verðbólgu í skefjum, vegi að undirstöðu blómlegs sjávarútvegs og það þeim mun meir, því verr sem henni gengur í baráttunni við verðbólguna. En fleiri höfuðvandamál er við að glíma í þessari atvinnugrein nú en verðbólguna. Hráefnisskortur frystihúsa á þorski og skyldum tegundum hefur verið tilfinnanlegur að undanförnu, og nú er svo komið, að mörgum frystihúsum hefur verið lokað, og ómögulegt er að fullyrða um, hversu mörg þeirra kynnu að verða opnuð aftur. Ástæður hráefnisskortsins eru tvær aðallega: Í fyrsta lagi verðbólguvöxtur síðustu ára, sem eyðilagt hefur grundvöllinn undir hagkvæmum rekstri þeirra fiskibáta og togara, sem hafa aflað vinnslustöðvunum hráefnis á undanförnum árum. Í öðru lagi er um að ræða minnkandi afla á hverja sóknareiningu, sem virðist mega rekja til ofveiði á helztu nytjafiskum á Íslandsmiðum. Mig langar til að víkja örfáum orðum að þessu hvorutveggja.

Ég átti sæti í svokallaðri bátanefnd, er athugaði sérstaklega vandamál báta undir 120 smálestum að stærð. Við unnum að athugun þessari fyrri hluta s.l. árs og skiluðum mjög ýtarlegri álitsgerð um þessi mál til sjútvmrh. um mánaðamótin júní–júlí s.l. Í fáum orðum sagt, þá er niðurstaða okkar þessi: Með því að bera saman afkomu meðalbáts á vetrarvertíð árið 1962 annars vegar og árið 1965 hins vegar, þá sást, að afkoma bátsins hefur á þessu tímabili versnað um 13%. Til þess að bæta þetta upp, hefði fiskverð á árinu 65 þurft að hækka um 18%. Frá og með 1. jan. 1966 hækkaði fiskverð um 15.5% fyrir utan sérstakar aukagreiðslur á línufisk, sem námu 50 aurum á kg. Þetta dæmi sýnir, að þrátt fyrir umtalsverða hækkun fiskverðs á þessum fjórum árum, sem hækkandi verðlag erlendis hefur gert fiskvinnslustöðvunum fært að greiða auk aðstoðar frá ríkissjóði, hefur hækkandi útgerðarkostnaður bátsins, fyrst og síðast af völdum vaxandi verðbólgu, gleypt hana og talsvert umfram það. Annað atriði, sem veldur lélegri afkomu smærri bátanna, er sú breyting, sem orðin er á göngu síldarinnar. Fyrir nokkrum árum var algengt, að 60–70 tonna bátar og stærri færu norður á síldveiðar að aflokinni vetrarvertíð og stunduðu veiðar fram á haust með sæmilegum árangri. Að aflokinni sumarvertíð tók við haust- og vetrarvertíð síldar við Suðvesturland. Nú hefur síldin horfið af norðurslóðum og heldur sig langt úti í hafi út af Austfjörðum, og öll síldin er horfin úr Faxaflóa og við Suðvesturland s.l. þrjú ár. Minni bátarnir hafa með því svo til alveg misst af síldveiðunum, en sitja margir hverjir uppi með rándýran síldveiðiútbúnað, sem kemur þeim að engu gagni nú.

Reynt hefur verið að bæta úr þessum dauða tíma með því að gera út á dragnót og togveiðar, og hefur það gefizt misjafnlega, en skapar þó mikla vinnu í frystihúsum, sérstaklega á sumrin. Við þessar aðstæður er ljóst, að útgerð smærri bátanna, sem að meginhluta hafa aflað hráefnis til frystihúsanna, er vonlaus nú. Þeir geta ekki keppt við stóru síldarskipin um hinn takmarkaða fjölda sjómanna, og endurtekið rekstrartap þeirra ár eftir ár hefur komið fram í því, að vanskil á greiðslum stofn- og rekstrarlána hrúgast nú upp í lánastofnunum landsins. Þannig er mér kunnugt um það, að 1. júní s.l. námu vanskil smærri báta á afborgunum einum saman hjá fiskveiðasjóði tæpum 54 millj. kr. Ofan á þessa erfiðleika bátanna bætist svo minnkandi aflamagn á þorskveiðum, sem ég gat um áður. Sem dæmi þessa nefni ég, að á vetrarvertíð 1964 fiskuðu 393 bátar 234146 lestir, en á síðustu vetrarvertíð, 1966, fiskuðu 397 bátar 173982 lestir, eða rúmum 60 þús. lestum minna.

Fiskifræðingar slá því nú föstu, að meira sé tekið úr íslenzka þorskstofninum en hann þoli. Í grein Jóns Jónssonar fiskifræðings í tímaritinu Ægi frá 1. marz s.l., þar sem hann skýrir niðurstöður, sem fram komu á ráðstefnu North East Atlantic Fisheries Commission, er á voru fiskifræðingar margra þjóða, kom fram, að á tímabilinu frá 1954–1964 hafi sóknin í íslenzka þorskstofninn aukizt um 87%, en heildarafli þó minnkað um 22%.

Á valdatíma hæstv. ríkisstj. hefur togaraútgerðin verið í stórfelldri afturför. Á rúmum 7 árum hefur togurum í rekstri fækkað úr rúmum 40 í um 20 skip nú. Togararnir hafa undanfarandi ár aflað mikils hluta af því hráefni, sem frystihúsin hafa fengið, og mikið af afla þeirra hefur einmitt borizt húsunum á þeim tíma, þegar bezt hefur hentað fyrir þau, þ.e.a.s. þegar lítið hefur verið um framboð fisks af smærri bátunum. Öryggið fyrir frystihúsin, sem felst í blómlegum rekstri togaranna, er því ákaflega mikið. En engin endurnýjun hefur orðið í togaraflota okkar allt tímabil viðreisnarstjórnarinnar. Margir þeirra hafa verið seldir úr landi eða liggja bundnir og yfirgefnir inni á sundunum hér við Reykjavík. Þeir fáu, sem enn þá eru í rekstri, eru reknir með miklu tapi og liggur við stöðvun. Halldór Halldórsson skipstjóri á metaflaskipinu Maí frá Hafnarfirði hefur lýst því yfir í viðtali í dagblaði nýlega, að þótt íslenzkur togari afli fyrir 100 þús. kr. á dag, sé tap á útgerðinni á honum, en enskur togari eða þýzkur togarí, sem aflar helmingi minni dagsafla, virðist skila góðum arði samkv. upplýsingum Halldórs. Þannig er ástandið í togaraútgerðinni hjá okkur í dag. En menn skyldu minnast þess vel, þrátt fyrir að erfiðlega gangi þar nú, að með tilkomu togaranna inn í íslenzkt atvinnulíf er fyrsti vísirinn lagður að stórvirkum vinnuafköstum hér á Íslandi. Og togararnir hafa sennilega átt meiri þátt í þeirri uppbyggingu, sem verið hefur hér síðustu áratugina en flest önnur framleiðslutæki landsmanna. Þess vegna er það furðulegt skilningsleysi að hafa horft upp á án þess að aðhafast að ég kalla nokkuð til þess að rétta við hag þeirra, að þessi stórvirku framleiðslutæki væru svo að segja að grotna niður og útgerð þessara skipa að syngja sitt síðasta vers.

Ég fagna vissulega síðbornum yfirlýsingum hæstv. sjútvmrh., sem hann gaf hér í hv. Ed. s.l. föstudag, þar sem hann tilkynnti, að hæstv. ríkisstj, mundi beita sér fyrir kaupum á 3–4 nýtízku skuttogurum. En um þá yfirlýsingu má segja, að hún kemur allt of seint. Hæstv. ríkisstj. telur frelsi í viðskiptum og framkvæmdum æðsta takmark sitt, fyrir því verði allt annað að víkja. Ekki vil ég gera lítið úr frelsinu, fjarri sé mér það. En allt frá því að fjölgun varð í mannheimi með tilkomu Evu er það viðurkennd staðreynd, að einhverjar reglur verða að gilda í sambúðarmálum mannanna, jafnt í viðskiptum og framkvæmdum sem á öðrum sviðum. Ríkisstj. ber m.a. að reyna að sjá til þess, að landsgæði séu nýtt og framkvæmdum hagað þannig, að sem flestum verði að notum. Undir engum kringumstæðum ber ríkisstj. að láta afskiptalausa þróun, er sannanlega vegur að rótum sjálfra stofnatvinnuvega þjóðarinnar, sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Það er fráleitt, að efnahagslíf okkar þoli til lengdar það ástand, að ríkisstj. eigi tilvist sína og síns meiri hluta undir því að afla síaukinna fjármuna í ríkissjóðinn með hömlulausum og raunar hvöttum innflutningi af hálfu ríkisstj., innflutningi bæði þarfra og óþarfra vara, svo að hægt sé að ná inn nægum tekjum í ríkissjóðinn af innflutningi og dæla svo út úr honum í síauknum mæli styrkjum og uppbótum til þess að forða frá því, að atvinnuvegirnir stöðvist alveg. Í frábæru erindi, sem Magni Guðmundsson flutti í þættinum um Daginn og veginn síðastliðinn mánudag, vék hann að þessu á mjög svo eftirminnilegan hátt og sýndi vel fram á þann vítahring, sem við Íslendingar stöndum í í dag með efnahagsmál okkar. Ég vil hvetja hv. alþm., hafi þeir ekki hlustað á það erindi, að reyna að verða sér úti um það. Það skipulagsleysi, sem sjávarútvegurinn hefur búið við undanfarandi ár í sambandi við uppbyggingu sina, líkt og aðrir atvinnuvegir, sökum skorts á heildarstefnu og forustu hæstv. ríkisstj., er orðið honum og þjóðinni æðidýrt. Ekkert samræmi hefur verið á milli fjárfestingar í fiskvinnslustöðvum annars vegar og fjárfestingar til aukningar á veiðiflotanum, sem afla hefur átt hráefnis. Jafnvel hv. þm. Sjálfstfl., þess mikla frelsisflokks, eru nú farnir að sjá, að svona getur þetta ekki gengið. Það sannar flutningur frv. þeirra um fiskimálaráð, sem lagt var fram hér í hv. Nd. að ég held s.l. fimmtudag. Þar er lagt til í því frv., að heildarskipulag sé tekið upp og heildarstefna mörkuð í sambandi við uppbyggingu sjávarútvegsins, og má þakka, þótt að vísu komi þetta nokkuð seint, að þessi viðurkenning liggur þó fyrir. Við stjórnarandstæðingar munum í kosningabaráttunni deila harkalega á hæstv. ríkisstj. fyrir ástand mála í þjóðfélaginu og höfum þá þetta plagg frá stuðningsmönnum stjórnarinnar í höndunum.

Þetta frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins er það fjórða í röðinni, sem flutt er fyrir forgöngu hæstv. ríkisstj. til stuðnings sjávarútveginum í einni eða annarri mynd á valdatímabili hennar. Eins og ég vék að í upphafi ræðu minnar, hefur allt frá og með árinu 1964 orðið að gera einhverjar ráðstafanir til stuðnings sjávarútveginum. Einhverjir kynnu því að vilja álykta sem svo, að sjávarútvegurinn sé vandræðaatvinnuvegur, sem þjóðin gæti jafnvel verið án. Oft hef ég heyrt greinda og mæta menn segja í hálfgerðum hneykslunartón: Á nú enn þá einu sinni að fara að styrkja sjávarútveginn? — Staðreyndin er þó sú, að sjávarútvegurinn er enn þá a.m.k. langgjöfulasti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá, er flest annað í þjóðfélaginu byggist á. Fiskimiðin umhverfis landið eru mesta auðlind þjóðarinnar og framleiðni í sjávarútvegi er nú meiri en í nokkrum öðrum atvinnuvegi, ef á heildina er litið. Það, sem veldur erfiðleikum hans, eins og ég hef reynt að sýna fram á, eru fyrst og fremst afleiðingar rangrar stjórnarstefnu, sem í grundvallaratriðum er sjávarútveginum fjandsamleg. Sjávarútvegurinn er í þeirri aðstöðu að þurfa að selja framleiðslu sína svo til alla á erlendum mörkuðum og hlíta því verði, sem þar fæst í harðri samkeppni við aðra framleiðendur sjávarafurða. Hann býr ekki við vernd, sem felst í háum aðflutningsgjöldum og innflutningsbanni samkynja varnings. Það er enginn verðbólgumarkaður, sem ákvarðar laun og afrakstur þeirra, er í sjávarútvegi starfa og fiskiðnaði. En þeir þurfa að kaupa allt til rekstrar sins á verðbólgumarkaðsverði hér innanlands. Hæstv. ríkisstj. gerir mikið úr þeim fjárhæðum, sem nú á að verja til stuðnings sjávarútveginum með frv. þessu. En það er minna um það rætt, að á s.l. ári einu fékk ríkissjóðurinn í hreinar umframtekjur á milli 800 og 900 millj. kr. með því fyrst og fremst að leggja tolla á hvers kyns innflutning til landsins, sem gjaldeyrisöflun sjávarútvegsins gerir mögulegan.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni. Ég mun við 2. umr. málsins víkja að einstökum greinum þess og þá öðru því, sem mér finnst tilefni til þess að gera aths. við og fram kom í ræðum þeirra tveggja hæstv. ráðh., sem talað hafa fyrir frv. hér í dag.