13.03.1967
Neðri deild: 53. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir allmiklum fjárgreiðslum úr ríkissjóði til stuðnings sjávarútveginum. Hæstv. sjútvmrh. gerði ráð fyrir því í ræðu sinni, að hér væri um að ræða fjárupphæð, sem næmi eitthvað rúmi. 300 millj. kr. og greiða á á yfirstandandi ári. Mér sýnist, eins og ég mun koma nánar að síðar, að margt bendi til þess, að hér geti verið um allmiklu meiri fjárgreiðslur að ræða en hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir. En það er eins og hefur verið sagt í þessum umr., það er ekki óeðlilegt, þegar frv. af þessu tagi liggur hér fyrir, að þá reyni menn að gera sér nokkra grein fyrir því, hvernig á því stendur, að það þarf að grípa til slíkra ráðstafana sem þeirra, sem í þessu frv. felast, og það á endurtekinn hátt svo að segja árlega.

Þeir hæstv. ráðh., sem hér hafa talað í þessu máli, vilja halda því fram, að ástæðurnar til þess, að nú þarf að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum, séu þær, að verðlag á erlendum mörkuðum á framleiðsluvörum sjávarútvegsins hafi lækkað og það sé vegna þessa verðfalls, sem nú þurfi að gera þessar ráðstafanir. Því verður ekki neitað, að um allmikið verðfall er að ræða á sumum útfluttum sjávarafurðum, og slíkt verðfall hlýtur auðvitað að valda þessari framleiðslugrein talsverðum örðugleikum. En það getur ekki verið, að þessir hæstv. ráðh. trúi því í raun og veru, að erfiðleikar íslenzks sjávarútvegs í dag stafi allir af þessari verðlækkun, sem hér er um að ræða. Ég trúi því varla, að þeir hafi ekki gert sér betur grein fyrir því, hvernig ástatt er í íslenzkum sjávarútvegsmálum en svo, að þeir vilji reyna að halda því fram, að allur vandinn sé aðeins bundinn við þessa verðlækkun, sem þarna er um að ræða. Nei, hér er um miklu meira vandamál að ræða og víðtækara en það, sem aðeins stafar af þeirri verðlækkun á nokkrum tilgreindum útflutningsvörum, sem allar horfur eru nú á, að muni dynja yfir.

Mig langar til þess að rifja upp í fáum orðum nokkur athyglisverð efni um stöðu sjávarútvegsins í dag, eins og þetta litur út frá mínum sjónarhól séð, og ég hygg, að æðimargir í landinu sjái nú hið sama. Við skulum fyrst taka þann þáttinn í okkar sjávarútvegsmálum, sem tengdur er við okkar togaraútgerð. Hvernig er það komið? Þar er óumdeilanlega um þá staðreynd að ræða, að í upphafi viðreisnartímabilsins, á árinu 1960; voru hér gerðir út á Íslandi 46 togarar, en nú er talið, að það sé hægt að ræða um útgerð á 16–17 skipum. Hér er ekki um neina smáræðisbreytingu að ræða. Ekki hefur þessi breyting orðið vegna þess, að á þessu tímabili hafi sótt að okkur mikil verðlækkun á framleiðslu þessa þáttar sjávarútvegsins. En sem sagt, á viðreisnartímanum nú s.l. 7 ár hefur þetta verið að gerast, að íslenzki togaraflotinn hefur verið að eyðast, íslenzk togaraútgerð hefur verið að leggjast út af. Og hver hafa svo verið ráð hæstv. ríkisstj. til þess að hamla gegn þessari ógæfuþróun. Jú, ráðin hafa verið þessi m.a.: Fyrir nokkrum árum flutti ríkisstj. hér frv. á Alþ. um það að stórhækka álögur á bátaútveg landsmanna í gegnum aflatryggingasjóð, til þess að hægt væri að miðla togurunum ákveðnum peningum úr aflatryggingasjóði þannig frá bátaflota landsmanna. Á þennan hátt var skotið til togaraútgerðarinnar nokkrum milljónatugum, og þannig stendur þetta enn í dag. Togararnir fengu þarna auðvitað smávægilega hjálp, sem ómögulega gat leyst þá úr þeim vanda, sem þeir voru komnir í. En sem sagt, ráðið, sem ríkisstj. fann, var þetta, að ætla bátaútgerð landsmanna að standa undir þessum vanda.

Ríkisstj. kunni fleiri ráð til þess að reyna að bæta að nokkru hag togaraútgerðarinnar. Þá var það fundið út að láta bátaflotann í landinu og einkum og sérstaklega þann hluta bátaflotans sem stundar síldveiðar, raunverulega taka að sér í gegnum ákveðið útflutningsgjald, síhækkandi útflutningsgjald, að borga vátryggingaiðgjöld togaraflotans í landinu. Og þannig hefur þetta verið nú í allmörg ár, að það má segja, að í öllum aðalatriðum sé bátaflotinn í landinu látinn borga vátryggingaiðgjöld togaraflotans, auðvitað með tilheyrandi erfiðleikum fyrir þær greinar sjávarútvegsins, sem voru látnar standa undir þessum greiðslum. En ríkisstj. þóttist vera með þessu að hjálpa togaraútgerðinni, og vissulega var skotið að íslenzkri togaraútgerð nokkurri fjárfúlgu á þennan hátt. En svo gerði ríkisstj. meira. Á sama tíma og þetta gerðist, og þessar greiðslur voru vitanlega togaraútgerðinni algerlega ófullnægjandi og voru svona tilkomnar, framkvæmdi ríkisstj. sína almennu stefnu í efnahagsmálum, sem leiddi til þess, að útgjöld togaraútgerðarinnar í landinu, eins og útgjöld annarrar útgerðar, hlutu að fara stórkostlega hækkandi. Vextir af lánum voru stórhækkaðir, lánskjör voru gerð miklu verri en þau voru áður, föst lán voru yfirleitt stytt. Þau lán, sem höfðu verið veitt sem stofnlán um margra ára skeið sem 20 ára lán, voru færð með lögum eða tilskipunum ríkisstj. niður í 15 ár. Hin, sem höfðu verið í 15 árum, voru færð niður í 12 ár o.s.frv. Og nú í dag býr togaraútgerðin við það, eins og reyndar aðrar greinar sjávarútvegsins, að í ýmsum tilfellum verða þessir aðilar, þegar þeir geta fengið stofnlán í sambandi við sínar framkvæmdir, sem þeir þurfa allajafna að standa í, þá verða þeir í mörgum tilfellum að borga vexti, sem eru 10% af stofnlánum. Hér var vitanlega um að ræða almenna stefnu í peningamálum, sem þýddi stórkostlegar álögur á framleiðsluna í landinu og þar með á togaraútgerðina líka. Þá má einnig minna á það, að á þessu tímabili hefur ríkisstj. hvað eftir annað hækkað söluskatt og ýmsar álögur, sem allar hlutu að koma út í hækkandi verðlagi í landinu, og hækkandi verðlag bitnaði auðvitað á togaraútgerð landsmanna, sem svona stóð nú á fyrir, eins og öðrum atvinnuvegum landsmanna.

Þessi stefna ríkisstj., sem rekin hefur verið á undanförnum árum í efnahagsmálum, hefur svo leitt til þess, sem allir vita, að verðlag í landinu hefur tvöfaldazt á nokkrum árum. Þetta síhækkandi verðlag hefur vitanlega bitnað m.a. þannig á togaraútgerðinni, sem hefur verið að veslast upp, að hún hefur orðið að borga t.d. í launakostnað hærri fjárhæðir en hún hefði annars þurft, því að hún hefur orðið að reyna að fylgjast nokkuð með í þeim almennu kauphækkunum, sem orðið hafa í landinu í beinu hlutfalli við hækkandi verðlag. Ég tel, að það sé enginn vafi á því, að það sé engu öðru að kenna, hvernig komið er fyrir íslenzkri togaraútgerð, heldur en rangri stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og sinnuleysi hennar um það, hvað þurfti að gera í málefnum togaranna. Við stóðum frammi fyrir því á þessu tímabili, viðreisnartímabilinu, frá 1960 –1966, að við þurftum auðvitað að gera hliðstæðar ráðstafanir í okkar togaramálum og aðrar togaraþjóðir. Það var að ganga yfir mjög mikil breyting á gerð skipanna og veiðitækni allri, og við urðum að taka þátt í þessu eins og aðrir, en það var ekki gert hér á landi. Við Alþýðubandalagsmenn höfum flutt till. hér þing eftir þing um það, að ráðizt verði í endurnýjun togaraflotans og þá einmitt á þeim grundvelli, sem markaður hefur verið hjá öðrum þjóðum, sem sóttu fram í þessum efnum, að við notfærðum okkur hina nýju tækni og nýju aðstöðu til veiða. En okkar till. hafa ekki fengizt samþ. um þetta efni. Þær hafa ýmist verið felldar, þegar þær hafa verið fluttar sem brtt., og ef við höfum flutt hér sjálfstæð frv., hafa þau verið látin sofna í nefnd. Afrek ríkisstj. eru sem sagt þessi: Hún getur státað af því, að hún er um það bil að verða búin að drepa íslenzka togaraútgerð. Það er sannleikur málsins. Upp á síðkastið hefur ríkisstj. séð það eitt ráð til hjálpar togaraútgerðinni að vilja hleypa þessum fáu togurum, sem eftir eru, svo að segja upp í harða land, vegna þess að þeim hefur auðvitað ekki dugað það, að þeir hafa nú undanþágur til þess að veiða víða við landið upp að 4 mílum og annars staðar upp að 6 mílum mikinn hluta af árinu, — það hafa verið uppi till. um það frá hæstv. ríkisstj., það hefur ekki farið á milli mála, hverjar hennar óskir hafa verið í þeim efnum, að leysa vanda togaranna, hinna stóru skipa, með því að hleypa þeim enn nær landi en þeir hafa haft leyfi til, fá að veiða þar. En þó vita auðvitað allir, að það hefði ekki getað bjargað íslenzkri togaraútgerð, eins og nú er komið fyrir henni. Það hefði hins vegar getað spillt mikið fyrir öðrum.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, hugsar ríkisstj. sér að halda áfram gömlu og góðu stefnunni gagnvart togaraútgerðinni, halda áfram því ástandi, að bátaútvegurinn eigi að rétta togaraútgerðinni nokkurn styrk í gegnum aflatryggingasjóð, að bátaútvegurinn eigi að standa undir erfiðleikum togaranna með greiðslum úr aflatryggingasjóði og að svo megi gjarnan koma til viðbótar smágreiðslur beint úr ríkissjóði, en annars skuli þar vera um óbreytta stefnu að ræða og áframhald á þessari líka skemmtilegu þróun, sem ég var nú að lýsa um málefni togaranna. Svona er þá ástatt um þennan þáttinn í okkar sjávarútvegsmálum.

Við skulum svo víkja hér að öðrum þætti. Hvernig er þá ástandið í málefnum bátaflotans? Það hefur nýlega farið fram nokkur athugun á málefnum bátaflotans af sérstakri stjórnskipaðri n., sem vann allmikið í þessari athugun og hefur sent frá sér nokkuð langt og mikið álit um þessi mál, og það fer ekkert á milli mála, að það hefur verið álit þessarar n., að hagur bátaflotans í landinu, báta sem eru undir 120 rúmlestum að stærð, sé illa kominn. Það er auðvitað ekkert um það að villast, að þessi hluti bátaflotans er í rýrnun, hann fer minnkandi ár frá ári og þátttaka hans í útgerð fer minnkandi, bátunum beinlínis fækkar. Hér er ekki um endurnýjun að ræða, og útgerðartíminn styttist með hverju ári sem líður vegna mikilla erfiðleika, sem þessi hluti útgerðarinnar á við að stríða. Þeir erfiðleikar, sem kvartað er undan af eigendum þessa hluta bátaflotans, stafa ekki af þeim verðlækkunum, sem menn eru nú að gera ráð fyrir að muni skella á varðandi frosinn fisk á erlendum mörkuðum á árinu 1967. Þessir erfiðleikar hinna minni báta voru allir komnir til, áður en um var að ræða þessa verðlækkun á mörkuðunum. Hver er þá ástæðan til þess, að það hefur hallað svona undan fæti hjá þessum hluta útgerðarinnar á undanförnum árum? Hver er ástæðan til þess? Ástæðan er ekki sú, sem maður hefði getað haldið samkvæmt því, sem orð féllu hér hjá hæstv. sjútvmrh. og fram kemur í grg. með þessu frv., að fiskverðshækkun hafi orðið mjög mikil eða jafnvel of mikil á undanförnum árum, vegna þess að markaðsverðið erlendis hafi hækkað mjög mikið. Að því hefur verið látið liggja, að vegna þess að markaðsverðið hefur hækkað mikið á undanförnum árum erlendis, þá hafi það leitt til hækkandi kaupgjalds í landinu og of mikillar hækkunar á fiskverði. Þetta er hreinlega að snúa staðreyndunum við að mínum dómi. Svona liggja málin ekki. Sannleikurinn er sá, að það hefur verið reynt að hækka kaupgjald í landinu til samræmis við þá hækkun á almennu verðlagi, sem orðin var sem bein afleiðing af ríkisstjórnarstefnunni. Síðan hefur verið reynt að hækka fiskverð til báta þannig, að það veitti sjómönnum ekki miklu lakari kjör í samanburði við aðrar vinnustéttir. Það er ekkert um það að villast, að bæði hið almenna kaupgjald verkafólks hefur ekki fylgt á eftir verðlagshækkuninni að fullu og fiskverðið til bátanna hefur ekki einu sinni fylgt á eftir því, að það gæti veitt sjómönnum hliðstæða kauphækkun og verkamennirnir hafa fengið. Hér hefur því ekki verið um það að ræða, að fiskverðið á undanförnum árum hafi hækkað jafnvel of mikið. Það hefur alltaf legið aftur úr. Að þessari niðurstöðu komst m.a. þessi mþn., sem athugaði sérstaklega um afkomu hinna minni fiskibáta. Hún tók strax eftir því, að á undanförnum árum hefur fiskverðið til bátanna alltaf verið ákveðið of lágt með tilliti til hins almenna verðlags í landinu og í rauninni lækkandi. Ástæðurnar til þess, að afkoma þessa hluta sjávarútvegsins hefur farið versnandi, liggja fyrst og fremst í þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi í efnahagsmálum. Ríkisstj. hefur gert hvað eftir annað ráðstafanir, sem hafa orðið til þess að íþyngja þessum þætti framleiðslunnar. Ég hef áður bent á t.d. ráðstöfun eins og þá að stórhækka vextina, allar vaxtagreiðslur þessarar útgerðar. Fiskveiðasjóður Íslands, sem er einn af stærstu stofnlánasjóðum, sem starfa í okkar landi, er fyrst og fremst byggður upp af fjármagni, sem sjávarútvegurinn hefur lagt honum til sjálfur. Fiskveiðasjóður gat því veitt stofnlán til sjávarútvegsins með hagstæðum kjörum, og hann gerði það um langan tíma, en þegar viðreisnarstefnan var tekin upp, var ákveðið með beinni fyrirskipun í gegnum Alþ., að það skyldi hækka stofnlánavexti hjá fiskveiðasjóði um 2% til bátanna, algerlega án þess að það væri nokkur þörf á slíkri ráðstöfun. Hér var bara um aukabagga að ræða, sem verið var að leggja á útgerðina. Þá var einnig ákveðið að stytta stofnlán bátanna frá því, sem áður hafði verið, en það þýddi auðvitað í framkvæmd aukin útgjöld, aukin árleg útgjöld. Þessi pólitík hefur verið framkvæmd alveg þvert í gegn, enginn þáttur hefur þarna mátt liggja eftir. Þannig hefur það t.d. verið, að dráttarvextir hjá fiskveiðasjóði, — þó að þeir væru mjög háir, voru þeir nokkru lægri en dráttarvextir á ýmsum öðrum lánum veittum í landinu, m.a. á víxlum og öðru slíku, það var rekið í gegnum Alþ. með ofsa, að það skyldi hækka dráttarvextina líka á þessum lánum og auka enn álögurnar á bátaútveg landsmanna. Og það var grátlegt til þess að vita, að þeir menn, sem sátu hér á Alþ. og töldu sig vera forsvarsmenn sjávarútvegsins, skyldu vera látnir greiða atkvæði með því eins og hinir. Þannig hefur stjórnarstefnan í efnahagsmálum hreinlega miðað að því að auka álögurnar á sjávarútveginn, að íþyngja honum, og stefnan hefur því í vaxandi mæli leitt til þess, að slík vandamál koma upp eins og við stöndum frammi fyrir nú. Og hin almenna verðbólgustefna, sem hér hefur verið ríkjandi um margra ára skeið, hefur leitt til þess, að fiskverðið til bátanna hefur alltaf verið lækkandi í hlutfalli við annað verðlag í landinu, en það þýddi auðvitað í framkvæmd versnandi afkomu þessarar atvinnugreinar.

Mþn., sem ég hef hér minnzt á og í áttu sæti menn úr öllum þingflokkum, komst að þeirri niðurstöðu, að árið 1965 hefði fiskverðið þurft að vera 18% hærra til bátanna en það var, til þess að bátarnir héldu jafnræði við það, sem það var á árinu 1962. Það er mjög sennilegt, að þetta of lága fiskverð þýði fyrir bátaflotann í landinu upp undir 200 millj. kr. þetta ár. Á meðan þessu fór fram, hvar var þá sjútvmrh. á Íslandi? Tók hann eftir þessu? Gerði hann sér grein fyrir þessu? Gerði hann einhverjar athugasemdir við þetta? Nei, hann virtist hvorki sjá né heyra. Hann lét þetta allt yfir ganga, og síðan hefur tilhneigingin verið sú að reyna að skýra þetta á eftir með því, að hér væri um óviðráðanlegar ástæður að ræða. Það er rétt að gera hér alveg fulla grein fyrir því, að það er stefna hæstv. ríkisstjórnar á undanförnum árum í efnahagsmálum, sem hefur leitt af sér þennan vanda.

Það hafa svo komið hér fram á Alþ. ýmsar till. um það, hvað gera mætti m.a. til þess að bæta nokkuð hag þessa bátaflota, og m.a. komu fram allmargar till, frá mþn., sem athugaði um afkomu bátanna. En reynslan hefur orðið sú, að ríkisstj. tekur ekki undir neina af þessum till., gerir blátt áfram ekkert í þá átt að reyna að leysa vanda bátanna á þann hátt, sem gæti orðið eitthvað til frambúðar.

Eitt af því, sem mþn. benti á, var það, að bátar undir 120 rúmlestum að stærð ættu í nokkrum erfiðleikum margir hverjir vegna breytinganna, sem orðið hafa á síldveiðum landsmanna undanfarandi ár. Það sem sagt liggur fyrir, að margir bátar af stærðinni 70–120 rúmlestir höfðu keypt sér alldýr tæki til þess að taka þátt í síldveiðum, höfðu útbúið sig með hinni nýju kraftblökk, og þeir höfðu keypt dýr síldarleitartæki og ráðizt í ýmiss konar annan útbúnað og keypt sér veiðarfæri til þess að taka þátt í síldveiðum. En svo hafa málin þróazt þannig, að þessi tæki notast ekki þessari útgerð, en útgerðin situr uppi með tækin og að sjálfsögðu með þau lán, sem stofnað var til vegna kaupa á þessum tækjum. Og eins og komið er, er vitanlega nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að létta þessum bagga af þessari útgerð með alveg sérstökum ráðstöfunum. En þó að mþn. gerði tillögur í þessa átt, hefur enn ekkert verið aðhafzt af hálfu ríkisstj. til þess að leysa þennan vanda — ekkert. Mér sýnist því, að það hafi ríkt á undanförnum árum sama sinnuleysið, sami sljóleikinn varðandi hagsmunamál þessa hluta sjávarútvegsins, bátanna, eins og varðandi togaraútgerðina. Þar hefur allt verið látið dankast. Og meira að segja álögur, sem lagðar hafa verið á bátana á óréttmætan hátt til þess að standa undir vandamálum togaranna, hafa ekki einu sinni fengizt af teknar. Enn eru bátarnir látnir standa undir þeim álögum.

Við skulum svo víkja með nokkrum orðum að ástandinu hjá frystiiðnaðinum. Hvernig er ástandið þar? Jú, það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, sem oft hefur verið sagt hér í þessum umræðum og öðrum, að verðlag á útfluttum fiskafurðum hefur farið mjög hækkandi á undanförnum árum, allt fram á síðari hluta s.l. árs. Og verðhækkanirnar voru eiginlega ótrúlega miklar í mörgum greinum. Þetta hefði auðvitað átt að leiða til þess, að fiskiðnaður okkar hefði búið við tiltölulega góða afkomu. En reynslan sýnir allt annað. Reynslan sýnir það, að afleiðingarnar af stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum hafa orðið fiskiðnaði landsmanna svo dýrkeyptar, að nú verður að hlaupa undir bagga með þýðingarmestu grein fiskiðnaðarins, til þess að sú grein leggist ekki alveg út af. Það mun láta nærri, að verðlag t.d. á frosnum fiski hafi hækkað á liðnum 4 árum um um það bil 40%. Nú er hins vegar talað um verðlækkun, sem gæti numið 10–20%. Það sjá því allir, að verðlagsþróunin, þegar litið er yfir 4–5 ára tímabil, hefur í rauninni ekki verið óhagstæð, jafnvel fyrir frysta fiskinn, sem nú á í mestum erfiðleikum. En þá verðlækkun, sem nú er um að ræða, getur þessi iðnaður ekki tekið á sig, vegna þess að útgjaldaaukningin hefur verið svo gífurlega mikil í þessari atvinnugrein á undanförnum árum, að það er búið að eyða öllum tekjuaukanum, sem kom frá hækkandi afurðaverði á erlendum mörkuðum, það er búið að eyða þeim tekjuauka til þess að standa undir síhækkandi útgjöldum á öðrum sviðum eða yfirleitt innlendum útgjöldum. Og það fer ekkert á milli mála, að það er hægt að rekja þessi hækkandi útgjöld, t.d. frystihúsanna, alveg beint til þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur rekið í efnahagsmálum. Og ríkisstj. hefur haldið sig við þessa stefnu alveg fram á þessa stund. Ég minnist þess t, d., að þegar fyrir ári eða rúmlega ári var verið að afgreiða fjárlög, kom hér hæstv. fjmrh. og gerði kröfur um það, að ýmsir tekjustofnar ríkisins yrðu gerðir drýgri fyrir ríkissjóð en þeir höfðu verið áður og ýmsum útgjöldum yrði létt af ríkissjóði, af því að ríkissjóður þyrfti á því að halda. Í þessum efnum krafðist hæstv. fjmrh. þess m.a., að létt yrði af ríkinu greiðslum, sem nema í kringum 40 millj. kr. á ári, vegna halla, sem hafði verið á rafmagnsveitum ríkisins og ríkissjóður hafði fengið tekjur til þess að standa undir, því að hann var búinn að standa undir slíkum greiðslum í mörg ár og hann hafði fengið sínar tekjur til þess að standa undir þessum greiðslum. En fjmrh, sagði: Ég vil losna við þessi útgjöld, og það verða aðrir að borga þau, af því að það þarf að bæta hag ríkíssjóðs. — Og hann fékk sitt mál fram og stóð fyrir því að hækka allt rafmagnsverð í landinu sem þessu nam. Afleiðingin varð svo sú, að rafmagnsverðið m.a. stórhækkaði hjá frystiiðnaði landsmanna — stórhækkaði. Hækkunin var mjög misjöfn á hinum ýmsu stöðum, en mjög víða var hér um tilfinnanlega hækkun að ræða. Ég minnist þess, að ég benti hér á við umræður um þetta mál, að þessar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. hlytu að leiða til þess að íþyngja enn meir en þá var orðið útflutningsatvinnuvegum landsmanna, því að þótt þetta bætti í svipinn hag ríkissjóðs, hlyti þetta að þýða, að útgjöld annarra í landinu hlutu að hækka sem þessu næmi. Og það er enginn vafi á því, að þær ráðstafanir, sem gerðar voru um þetta leyti, munu hafa hækkað tekjur ríkissjóðs á milli 200 og 300 millj. kr. En þær hafa líka aukið útgjöld annarra aðila í landinu um sömu upphæð. Og einn er sá aðili, sem yfirleitt getur ekki velt slíkum hækkunum af sér, en það er sá aðili, sem á öll sín viðskipti við erlenda markaði, þ.e. útflutningsframleiðslan. Hún sat eftir með baggann að langmestu leyti. En fjmrh. fékk sitt fram, og tekjur ríkissjóðs voru auknar, og í árslokin gat hann svo auðvitað státað af því og ríkisstj. öll, að tekjur ríkissjóðs hefðu reynzt miklar. Þær munu hafa farið 800 eða 900 millj. kr. fram úr áætlun. Og þó að útgjöld ríkissjóðs hafi líka farið 300–400 millj. fram úr áætlun, voru eigi að síður eftir í kassanum, þegar upp var staðið, 400–500 millj. kr. (Forseti: Ég vil spyrja hv. 5. þm. Austf., hvort hann vilji gera hlé á ræðu sinni eða hvort hann treystir sér til þess að ljúka henni á örfáum mínútum.) Ég treysti mér ekki til þess að ljúka henni á örfáum mínútum, en hefði gjarnan viljað halda henni áfram. (Forseti: Eins og áður er getið, var gert ráð fyrir, að fundinum yrði fram haldið til kortér yfir 4. Ég bið hv. þm. afsökunar á, að ræðan skuli trufluð, en með hans samþykki verður fundinum þá frestað til kl. 5. Fundinum verður fram haldið aftur kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði fyrr í ræðu minni vikið að nokkrum aðalþáttum sjávarútvegsins, hvernig ástatt væri fyrir þeim rekstrarþáttum nú og hvaða ástæður lægju til þess, að svo væri komið sem komið er fyrir þessari atvinnugrein. Ég hafði sýnt fram á, að það, sem mestu veldur um erfiðleika sjávarútvegsins, er röng stefna ríkisstj. á undanförnum árum í efnahagsmálum í mörgum greinum, en þau vandamál, sem nú eru að koma upp vegna verðfalls á frosnum fiski á erlendum mörkuðum, eru í rauninni alveg umfram þann almenna vanda, sem ég var hér að gera að umtalsefni og steðjar að þessari atvinnugrein.

Þegar núv. stjórnarflokkar tóku við stjórn sjávarútvegsmála og byrjuðu að framkvæma sína nýju stefnu, viðreisnarstefnuna, mátti segja, að hagur sjávarútvegsins í landinu væri mjög sæmilegur, enda er það viðurkennt af öllum sjávarútvegsmönnum. Árið 1958 var sjávarútveginum mjög hagstætt ár. Afli var þá mikill, og þá voru málefni sjávarútvegsins leyst það ár með víðtækum samningum við útvegsmenn, og við þá samninga var staðið í öllum greinum, og það mátti þá segja, að jafnt hagur togaraútgerðarinnar sem annarrar útgerðar í landinu þá og annarrar fiskvinnslu væri tiltölulega góður. Það ár var almennt talið, að togararnir hefðu skilað talsverðum tekjuafgangi. Sama var að segja um árið 1959, það var tiltölulega mjög hagstætt ár fyrir íslenzka útgerð, og einnig það ár var togaraútgerðinni gott ár. Þegar viðreisnarstefnan var því tekin upp, áttu öll skilyrði að vera tiltölulega hagstæð til þess, að hún hefði getað heppnazt. Sá vandi, sem þá var við að glíma, var það, hvernig ætti að koma fyrir í íslenzku hagkerfi þeirri millifærslu, sem átt hafði sér stað með millifærslukerfinu þá um nokkurra ára bil, og það gerði ríkisstj. með nýrri skráningu á verðgildi íslenzkrar kr., fyrst á árinu 1960 og síðan aftur á árinu 1961. En þessar gengisbreytingar áttu að tryggja það, að eftir þær ætti sjávarútvegurinn almennt séð að búa við ekki lakari kjör en hann hafði búið við áður eftir uppbótakerfinu. Og síðan kom til stefna viðreisnarinnar og hefur staðið allan tímann þar til nú, og það er ekki undan því að kvarta, að þessi viðreisnarár hafi verið óhagstæð varðandi árferði. Það mun enginn reyna að halda því fram, að erfiðleikar sjávarútvegsins á þessu tímabili stafi af illu árferði. Og þá er í rauninni engu öðru til að dreifa en því, að það eru þau kjör, sem við höfðum búið þessari atvinnugrein á þessum árum, það eru þau, sem eru röng. Sem sagt, við upphaf tímabilsins hafði staðið tiltölulega vel hagur bæði báta, togara og fiskiðnaðar í landinu. Afkoman var tiltölulega góð reikningslega séð, og síðan hefur verið um gott árferði að ræða öll árin, en samt er svona komið, eins og bent hefur verið hér á, um afkomu sjávarútvegsins. Það er því í rauninni engu öðru til að dreifa en því, að stefnan, sem ríkt hefur í landi okkar í efnahagsmálum og verðlagsmálum almennt séð, hefur verið þessari atvinnugrein óhagstæð. En það virðist nú vera svo, að hversu oft sem þetta er sagt þeim mönnum, sem standa að viðreisnarstefnunni, breytir það sáralitlu. Þeir a.m.k. halda áfram að þræta, og þeir lemja höfðinu við steininn og virðast enn vilja halda sér í þessa alröngu stefnu.

Þegar maður lítur aftur til hinna erlendu markaða, hafa, eins og hér hefur oft verið bent á í þessum umr., öll skilyrði þar verið hin hagstæðustu á þessu tímabili. Það er ekki aðeins, að frosni fiskurinn hafi stórhækkað á þessum árum á erlendum markaði. Saltfiskurinn hefur hækkað enn meir. Skreiðin hefur hækkað tiltölulega mikið, þó ekki eins mikið og þessar tvær framleiðsluvörur. Og yfirleitt aðrar útfluttar sjávarafurðir hafa hækkað mikið í verði. Það hefur verið mjög hagstætt árferði að þessu leyti til. Hins vegar verður maður að játa það, að hin almenna viðskiptastefna, sem ríkisstj. hefur haldið uppi, hefur líka reynzt sjávarútveginum óhagstæð og hefur m.a. komið fram í sambandi við markaðsmálin. Ég hef áður bent á það, að mjög þýðingarmiklir og góðir markaðir, sem við höfðum unnið okkur upp, t.d. í löndum Austur-Evrópu, hafa nú glatazt vegna viðskiptastefnu ríkisstj. Það er mjög eftirtektarvert dæmi, dæmið um markaðinn í Tékkóslóvakíu, þar sem Íslendingar höfðu á nokkrum árum unnið sér upp markað fyrir frosinn fisk, sem var á milli 7 og 8 þús. tonn á ári. Þetta er land, sem hvergi liggur að sjó, og það mun því mjög seint verða sjálfu sér nóg um öflun á fiskmeti. Þetta var því mjög þýðingarmikill markaður, ekki sízt þegar það er haft í huga, að þessi markaður borgaði meira fyrir fiskinn okkar en nokkur annar markaður. En viðskiptastefna ríkisstj. hefur leitt til þess, að nú erum við búnir að glata þessum markaði. Nú seljum við svo að segja ekkert af frosnum fiski til Tékkóslóvakíu, vegna þess að stjórnin hefur skipulega unnið að því og margsinnis hælt sér fyrir það að hafa náð árangri á þessu sviði, að hún væri að reyna að brjóta niður verzlunina við vöruskiptalöndin. Þetta hefur reynzt útflutningsframleiðslunni óhagstætt. Hún hefur því orðið í þessum greinum að víkja af hagstæðum mörkuðum, sem hún hafði þarna unnið sér upp, og leita inn á miklu óstöðugri og verri markaði.

Mjög skýrt dæmi kom fram í þessum efnum nú á s.l. hausti. Ég veit ekki, hvort hv. alþm. hafa veitt því athygli, að einmitt um það leyti, sem einna mest var að veiðast af síld á Íslandi og það flæddi eiginlega svo að segja út úr öllum döllum af síld, kom tilkynning um það, að frystihúsunum væri bannað að frysta meira af síld en þau þá höfðu gert. Nú lá það þó fyrir, að það var búið að frysta um þetta leyti miklu minna magn af síld en gert hafði verið um mörg ár. Hvernig stóð á þessu? Jú, það stóð þannig á því eins og fram hefur komið m.a. í samþykktum frá samtökum frystihúsamanna, þar sem þeir hafa verið að mótmæla stefnu ríkisstj. í viðskiptamálum við tiltekin lönd, sem leitt hafa þetta af sér. Það gerist sem sagt á s.l. sumri, að viðskmrn. ákveður, að nú skuli nýir viðskiptasamningar gerðir á þeim grundvelli við Tékkóslóvakíu og Pólland eftir kenningum þeirra Jóhannesar Nordals o.fl., að nú skuli öll viðskipti Íslendinga við Pólland og Tékkóslóvakíu vera gerð upp á frjálsum gjaldeyrisgrundvelli, þ.e.a.s. ef það halli eitthvað á í viðskiptunum á vissu tímabili, átti sá aðili, sem hallaðist á, að borga í frjálsum gjaldeyri. Útflytjendur, m.a. frystihúsamenn, bentu ríkisstj. á það hvað eftir annað, að þessi breyttu samningaviðhorf mundu leiða til þess, að þessar þjóðir keyptu ekki af okkur jafnmikið af frosinni síld og þær hefðu gert til þessa, en til þess höfðu þær skuldbundið sig með samningum til tiltekins tíma. En þegar þær stóðu orðið frammi fyrir því, að þær áttu að eiga viðskipti við Íslendinga á frjálsgjaldeyrisgrundvelli, mátti búast við því, að þær notuðu sinn gjaldeyri, sem þær eignuðust hér, til þess að kaupa aðrar vörur, sem þær höfðu um langan tíma sótzt hér meira eftir að fá, en ekki fengið, eins og m.a. síldarmjöl og síldarlýsi og fleiri vörur. Það stóð ekki á því, að reynslan sýndi, hvor hefði á réttu að standa, þeir, sem stjórnuðu Seðlabankanum, og þeir, sem réðu í viðskrmn., eða framleiðendurnir, sem mótmælt höfðu þessari nýju stefnu. Útkoman varð eins og frystihúsamenn höfðu sagt, hún varð til þess, að Pólverjar svo að segja hættu að kaupa frosna síld og Tékkóslóvakía hætti sömuleiðis. Við töpuðum þessum mörkuðum, en við sáum hins vegar, að á sama tíma voru sendar sendinefndir frá Norðmönnum, keppinautum okkar, til þessara landa, og þeir hirtu þessa markaði frá okkur. En við, mitt í miðju síldarfiskiríinu, gátum sem sagt staðið frammi fyrir því, að við hættum að notfæra okkur síldina á þennan hátt, sem við höfðum gert áður.

Frelsið í viðskiptamálunum getur verið dýrt. Það getur kostað peninga. Menn geta beinlínis glatað niður mörkuðum, sem þeir halda því aðeins, að þeir taki eitthvert tillit til allra aðstæðna varðandi framleiðslumál eða önnur viðskipti. En þetta hefur hæstv. ríkisstj. vitað, að hún var t.d. í þessum tilfellum og í mörgum fleirum að gera ráðstafanir, sem hlutu að verða útflutningsframleiðslunni kostnaðarsamar. En ríkisstj. skeytti ekkert um það. Hún fór þvert gegn þeim ráðleggingum, sem framleiðendurnir beindu til hennar, og hún fór eins og fyrri daginn eftir kenningum þeirra Seðlabankamanna og þeirra, sem réðu ríkjum í viðskmrn., en það voru fyrst og fremst innflytjendur í landinu, kaupsýslumenn. Hún fór eftir þeirra kenningum, en það varð til þess að gera hag útflutningsframleiðslunnar lakari en hann var áður.

Auðvitað er enginn vafi á því, að íslenzka þjóðarbúið hefur tapað á framkvæmd þessarar stefnu, því að þegar við eigum nægilegt af síldarskipum fyrir og við eigum öll veiðarfæri, sem við þurfum á að halda, og við höfum mannafla og við höfum frystihúsin ónotuð, var það vitanlega fengur fyrir okkur að geta margfaldað verð síldarinnar með því að frysta hana og flytja hana út þannig, í stað þess að geta ekki hirt hana, láta hana liggja ónotaða, eins og útkoman varð á s.l. hausti. Það er auðvitað í miklu fleiri greinum, sem svona er að farið. En það er ekki verið að minnast á það, hvað þetta viðskiptafrelsi kostar okkur mikið, þegar því er beitt m.a. þannig, að það er ekkert tillit tekið til hagsmuna útflutningsframleiðslunnar.

Það má skjóta því inn í í leiðinni, að það er státað mikið af því, að við eigum gjaldeyrisvaras jóð erlendis, sem nemur í kringum 2000 millj. kr. Og út af fyrir síg getur verið gott að eiga nokkurn gjaldeyrisvarasjóð, m.a. til þess að tryggja liðleg viðskipti. En menn verða líka að gera sér grein fyrir því, að við borgum mikið fyrir það að eiga þennan sjóð. Hvað halda menn, að við fáum í vexti fyrir þessar 2000 millj., sem við geymum í bönkum erlendis? Meðaltalsvextirnir, sem við fáum fyrir þessa upphæð, liggja á milli 3 og 4%. En á sama tíma borgar Seðlabankinn hér heima þeim aðilum, sem binda féð hjá honum á móti þessari fjárhæð, 8–9% í vexti. Hann tapar á því að eiga þessa upphæð upp undir 40 millj. kr. á ári. (Gripið fram í.) Já, það getur leikið nokkuð á því, því að þessi upphæð sveiflast dálítið til. Ég vil ekki segja það, að hún sé alveg stöðugt 2000 millj., en það er alls ekki undir 40–50 millj., sem bankinn tapar á þessu á hverju ári.

Það er rétt að gera sér grein fyrir því, að þessi pólitík varðandi hin frjálsu gjaldeyrisviðskipti kostar líka sitt. Þó getur það verið réttlætanlegt að taka á sig slíka bagga sem þessa varðandi vaxtamismuninn, en þá fyrst kastar tólfunum, þegar við förum að haga okkar málum þannig, að við getum ekki nýtt okkar framleiðslumöguleika, við getum ekki nýtt þau tæki, sem við eigum. Vegna þessarar viðskiptastefnu höfum við verið að glata mörkuðum, en þannig hefur verið haldið á þessum málum að undanförnu.

Þegar svo hæstv. ríkisstj. stendur frammi fyrir því, að sjávarútvegurinn er kominn í þann vanda, sem hann er kominn í, á hún ekki önnur úrræði en grípa til uppbótagreiðslna, sem hún hafði þó algerlega fordæmt sem alveg forkastanlega leið. Hún verður að grípa til þess nú eftir 7 ára viðreisn. Ríkisstj. vill láta svo vera, að þetta sé nú aðeins til eins árs eða svo og hér sé ekki um ýkjaháa fjárhæð að ræða. En fjárhæðin, sem hún notar í uppbótagreiðslur, er miklu hærri en hún vill vera láta. Hæstv. sjútvmrh. talaði hér um, að þessi millifærsla gæti verið samkv. þessu frv. í kringum 310–320 millj. kr. Ég held, að það megi búast við því, að þessi greiðsla verði miklum mun hærri. Og auðvitað er réttmætt að leggja þarna við einnig þær aðrar fjárgreiðslur, þó að þeirra sé ekki sérstaklega getið í þessu frv., sem eru algerlega af sama toga spunnar og eru uppbótagreiðslur alveg eins og þessar. Ég skal nefna m.a. nokkrar greiðslur, sem nú eiga sér stað.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að greiða til sérstakrar fiskverðshækkunar 100 millj. kr., og samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því að greiða í svonefnt hagræðingarfé til frystihúsanna og fiskiðnaðarins 80 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir samkv. þessu frv. að leggja fram fé til verðtryggingar til þess að mæta verðfallinu, sem frystihúsin verða fyrir, gert ráð fyrir því að leggja fram 140 millj. kr., en það er aðeins áætlunarupphæð, vegna þess að í frv. er beinlínis gengið út frá því, hvernig á að reikna verðlækkunina, og samkv. frv. er ríkissjóður skuldbundinn til þess að borga alla verðlækkunina, þó að hún fari langt yfir 140 millj. kr. Og þá þarf vitanlega bara að bæta við fé. Ef t.d. er miðað við þá áætlun, sem frystihúsamenn hafa gert, sem þeir telja sé líklegast að megi búast við um verðlækkun á yfirstandandi árí, reikna þeir með því, að verðlækkunin verði 20%. Hvað yrðu þá ábyrgðir ríkissjóðs miklar samkv. því? Ekki undir 180 millj. kr. miðað við það framleiðslumagn, sem hér gæti komið til greina eða hefur verið nú síðustu árin. Þá mundu þessar 140 millj. ekki duga. Sannleikurinn er sá, að 140 millj. kr. mundu samkv. ákvæðum þessa frv. ekki duga til þess að standa undir meiri verðlækkun en þeirri, sem fyrir lá, að orðin var um áramótin s.l., eða rétt um 12% : 11.8%. En síðan hefur verðið lækkað talsvert mikið. Auðvitað veit maður ekki um það, hvernig þessi verðlækkun kemur til með að standa á frosna fiskinum allt árið 1967. En þeir, sem þar þekkja bezt til, hafa reiknað með því, að verðlækkunin yrði ekki undir 20%, og þá yrði hér um að ræða greiðslur samkv. þessu frv., sem ríkissjóður væri skuldbundinn að standa við, upp á 180 millj. kr. Til viðbótar við þessar fjárhæðir er svo um raunverulegar styrkjagreiðslur að ræða til togaranna gegnum aflatryggingasjóð og á annan veg frá ríkinu, þannig að það er ekki hægt að reikna þar með minna en 50–60 millj. kr. Ef reiknað er eftir sömu reglum og gert var hér á uppbótatímanum fyrir viðreisn, á vitanlega að taka hér einnig inn í uppbótakerfið allar vátryggingagreiðslurnar, eins og þær voru teknar þá, þó að sérstakt innheimtukerfi sé nú byggt upp til þess að afla tekna í þetta vátryggingakerfi. En þar er um að ræða greiðslu á hverju ári, sem mun fara nokkuð yfir 200 millj. kr.

Ég held því, að beinar greiðslur til sjávarútvegsins, sem flokkast verða undir uppbótakerfi eða millifærslukerfi eða hvað menn vilja kalla það, á hliðstæðan hátt og áður var, verði ekki undir 600 millj. kr. á árinu 1967. Til viðbótar við þetta koma svo allar almennar niðurgreiðslur á vöruverði og útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir, svo að upphæðin, sem fer í millifærslukerfið, er ekki orðin neitt smáræði. Og það, sem hefur verið að gerast í þessum efnum, er þetta: Ár frá ári þarf að bæta við þetta kerfi, þarf að auka við það með ýmsum hætti, og þessi er þá útkoman hjá mönnunum, sem ætluðu að bjarga þjóðinni undan uppbótakerfinu. En menn hafa nú ýmsa tilburði í frammi til þess að reyna að dylja þetta, telja þetta ekki allt saman fram, og þar undir má flokka skilgreiningu þá, sem hér kom fram hjá hæstv. fjmrh. um mismunandi leiðir til fjáröflunar í sambandi við hinar einstöku greinar þessa frv. Fyrst setur hann upp dæmið og segir: Það þurfti auðvitað að afla fjár til þess að standa undir greiðslunum á þessum 100 millj., sem áttu að fara í það að hækka fiskverðið til bátanna. Þar er um beina greiðslu að ræða, hrein útgjöld. Og af því varð að fara þá leið að lækka framkvæmdafé ríkissjóðs um 65 millj. kr. og tekjur bæjar- og sveitarfélaga í landinu um 20 millj. kr., samtals 85 millj. kr., og svo voru eftir 15 millj. kr., sem ekki notuðust nú alveg upp hjá ríkisábyrgðasjóði, og þannig fengust þessar 100 millj. Aftur á móti, segir hæstv. fjmrh., á að gilda allt annað um verðtrygginguna á afurðaverðinu. Til þess þurfti ekki að afla fjár með sama hætti, vegna þess að þar er raunverulega verið að mynda sérstakan sjóð, þar er raunverulega verið að mynda sérstakan verðjöfnunarsjóð, eða stefnt er að því. En þetta er algerlega rangtúlkun bæði á frv., eins og það er orðað, og þeim samningi, sem gerður hefur verið við frystihúsamenn. Sannleikurinn er sá, að greiðslurnar vegna verðfallsins á afurðunum á að greiða framleiðendunum beint út úr þessum sjóði og þær eru óendurkræfar. Þeir, sem hafa fengið þessar greiðslur vegna verðfallsins, hafa fengið þetta fé í sinn kassa og eru alls ekki skyldugir til þess að skila því aftur, ekki frekar en hinir, sem fá hækkað fiskverð. Hér er um beinar, óafturkræfar greiðslur að ræða. Á ákveðnu stigi samninganna á milli fulltrúa ríkisstj. og fulltrúa frystihúsanna reyndi ríkisstj. að hafa þetta á hinn veginn. Hún kom fram með till. um það, að hún legði fram 130 millj. kr. í sérstakan verðjöfnunarsjóð og sjóðurinn ætti þessa peninga, og ef greitt yrði úr sjóðnum til þeirra, sem yrðu fyrir verðfallinu, ætti sjóðurinn áfram peningana og það yrði að skila honum þessum peningum aftur síðar, m.a. af hækkandi útflutningsverði á afurðum, þegar það kæmi til. En þessu neituðu frystihúsamenn alveg þverlega og sögðust aldrei semja upp á þessi býti. Þeir sögðu alveg skýrt og skorinort: Verði verðfall, fáum við okkar greiðslu, sem er endanleg greiðsla, og þar með búið. — Þeir gengu hins vegar inn á það, að ef ekkert verðfall yrði, þyrfti ekki heldur að greiða neitt. En það er vegna þess, að menn reikna núna með því, að það verði verðfall. Allt útlit er á því. Og þannig standa málin núna. Þá verða menn vitanlega að áætla upphæðina, og ég hef ekkert við það að athuga fyrir mitt leyti, að hæstv. ríkisstj. áætli þessa upphæð 140 millj. kr. eða gangi út frá því, að verðfallið muni nema kringum 12%. Það getur Vissulega orðið minna, og það gæti líka orðið meira. Þetta er áætlunarupphæð, og það er líka réttmætt að tala um það, að það gæti orðið hugsanlega einhver afgangur af þessum 140 millj., af því að verðfallið væri ekki svona mikið, og þá ætti sá afgangur að verða stofnsjóður að væntanlegum verðjöfnunarsjóði, ef hann verður þá myndaður. En það er vitanlega algerlega rangt, þegar hæstv. fjmrh. reynir að túlka þetta á þann veg hér fyrir þinginu, að þessar 140 millj., séu raunverulegur stofnsjóður, þetta sé stofnfé að ákveðnum sjóði. Það er beinlínis Verið að gera ráð fyrir því, að það þurfi að greiða út þetta fé vegna verðlækkunar, sem menn vita af nú í dag. Það er því enginn munur á þessari greiðslu og greiðslunni vegna fiskverðsins. Og þegar hæstv. fjmrh. gengur inn á það eða þeir sérfræðingar, sem hann hefur sér við hlið, að það megi taka þessar 140 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1966, mátti vitanlega alveg nákvæmlega á sama hátt taka þær 65 millj., sem nú á að taka af framkvæmdafé ríkisins vegna fiskverðsins, af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1966, og það mátti líka taka þær 20 millj., sem nú á að taka frá sveitarfélögunum, það mátti vitanlega taka þá upphæð líka á sama hátt af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1966. Hér er alveg greinilega um falsrök að ræða. En hitt mun vera sönnu nær, að þær 400–500 millj., sem hæstv. fjmrh. er með í kassanum hjá sér líklega enn sem afgang frá árinu 1966, að þar eru nokkuð langir fingur, sem eru að krækja utan um þessar fjárhæðir hjá honum og vilja fá þær, og þeir, sem ráða málum í Seðlabankanum og virðast ráða æðimikið yfir ríkissjóði líka, þeir segja: Þessa upphæð ætla ég að fá. — Þeir eru búnir að taka þetta frá, það virðist vera svo, að hæstv. ríkisstj. ráði ekki sjálf yfir þessari upphæð lengur. En hið rétta er auðvitað það, að ríkissjóður oftók á árinu 1966, hann tók of miklar tekjur inn á því ári, miðað við sínar þarfir. Hann varð því þess valdandi á árinu 1966, að verðlag í landinu hækkaði meira en það þurfti að hækka, og af því átti hann vitanlega að skila þessari fjárhæð til baka til þeirra, sem stóðu varnarlausir fyrir verðhækkunaröldunni, sem yfir skall. Það voru einmitt útflytjendur. Það var það réttmætasta að skila þessari upphæð til þeirra. Hún átti ekki að fara í Seðlabankann, það er alrangt. Hann þurfti ekki á þessu fé að halda. En hitt virðist nú vera sjónarmið hæstv. ríkisstj., að plokka heldur af því fé, sem búið er fyrir nokkrum mánuðum að ákveða að átti að fara til opinberra framkvæmda, og kroppa svolítið af því fé, sem átti að fara til sveitarfélaganna í landinu, heldur en að taka þessa fjárhæð af þeim greiðsluafgangi, sem fyrir lá og var vissulega til ráðstöfunar.

Ég verð svo að lýsa yfir þeirri undrun minni, að hæstv. fjmrh. skuli enn halda hér fyrir Alþ. upplýsingum um það, hver var raunverulegur greiðsluafgangur hjá ríkissjóði á s.l. ári. Ég efast ekkert um það, að hann hefur þessar upplýsingar, a.m.k. svo nákvæmar, að þær séu frambærilegar hér á hv. Alþ. Þeir, sem stjórna Seðlabankanum, eru búnir að gera svo upp allt heila ríkisbúið, að þeir geta sagt nokkurn veginn — og hafa birt um það tölur í blöðum, hver sé afkoma þjóðarbúsins í heild á árinu, og þá efast ég ekkert um það, að hæstv. fjmrh. getur lesið það út úr bókhaldi ríkisins, hver muni verða nokkurn veginn greiðsluafgangurinn hjá ríkissjóði á árinu 1966, enda virtist hæstv. utanrrh., form. Alþfl., vita þetta nokkurn veginn, þegar hann var að tala við blaðamenn í sjónvarpi hér fyrir nokkru. Það kom svolítið á hæstv. ráðh., þegar um þetta var talað, og sagði hann, að það væri nú kannske ekki búið að skýra frá þessu annars staðar, en að það væri ekkert með það, að það væri á milli 400 og 500 millj. kr., sagði hann. Ég álít, að ekki sízt þegar slíkt mál sem þetta liggur hér fyrir til afgreiðslu á Alþ. og um það er einnig að ræða að ráðstafa m.a. 140 millj. kr. af greiðsluafgangi s.l. árs, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, en manni er jafnhliða sagt, að það sé ekki hægt að taka af þessum greiðsluafgangi til viðbótar 85 millj. kr., af því að þær séu ekki til, þá álít ég, að það hvíli á hæstv. fjmrh. sú skylda að skýra Alþ. frá því, hver þessi greiðsluafgangur var. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði hér, eins og haft var eftir honum í Ed., að að svo komnu máli vildi hann ekki skýra Alþ. frá þessu, því að þetta lægi ekki svo algerlega fyrir, en Alþ. yrði skýrt frá þessu innan tíðar. Hvers vegna að vera að dylja fyrir Alþingi þessar staðreyndir, þegar nauðsynlegt er einmitt fyrir Alþingi að fá að vita um þetta mál? Þetta tel ég mjög óviðeigandi, og ég vil því vænta þess, að hæstv. ráðh. skýri hér frá því, hver er talinn muni verða greiðsluafgangurinn hjá ríkissjóði á árinu 1966.

Það er svo út af fyrir sig táknrænt um stefnu hæstv. ríkisstj., að þegar hana vantar nú 85 millj. kr., skuli hún grípa til þess að skera niður fjárframlög til verklegra framkvæmda á vegum opinberra aðila. Sjálf hefur þó ríkisstj. viðurkennt það í skýrslum, að á undanförnum árum hefur einmitt borið á því, að sá þáttur framkvæmdanna í landinu, sem er tengdur við opinbera aðila, þ.e.a.s. ríki og sveitarfélög, hefur fremur farið minnkandi, hlutfallslega miðað við heildarfjármunamyndun í landinu, en þeir þættirnir, sem eru á valdi einstaklinga og hlutafélaga og annarra slíkra aðila, hafa aftur jafnt og þétt farið vaxandi. Einmitt þegar þetta liggur fyrir, sér ríkisstj. ástæðu til þess að skera niður framlög til verklegra framkvæmda hjá þessum aðilum, hjá hinum opinberu aðilum, en gerir engar ráðstafanir til þess að draga úr fjárfestingunni hjá öðrum, engar.

Í sambandi við þetta mál er svo vikið að því, að ríkisstj. hugsi sér að láta taka til sérstakrar endurskoðunar uppbyggingu hraðfrystiiðnaðarins í landinu, og það er kunnugt, að fulltrúar ríkisstj. í samningum við frystihúsaeigendur, þeir Jóhannes Nordal og Jónas Haralz, hafa sent frá sér hugmyndir um það, hvað fyrir þeim vaki í þessum efnum, og það, sem þeir telja m.a. brýnast, var m.a. þetta, — það var fyrsti punkturinn í því, hvað gera skyldi. Fyrsti punkturinn í því, hvað gera skyldi varðandi frystiiðnaðinn í landinu við endurskipulagninguna, hann hljóðaði þannig: Að finna lausn á þeim vandamálum, sem stafa af of mikilli framleiðslugetu í hraðfrystiiðnaðinum. Þar lá aðalvandinn í, að við eigum orðið frystihús, sem geta framleitt allt of mikið. Næsti punktur hljóðaði á þessa leið: Unnið verði að sameiningu frystihúsa, þar sem það þykir henta, en annars staðar verði óarðbær og illa staðsett hús lögð niður. Það er ekkert um að villast, að það, sem þessum mönnum kemur fyrst til hugar, er að draga verulega úr framleiðslugetu frystihúsanna í landinu og leggja talsvert af frystihúsum niður. Ég er á nokkuð annarri skoðun í þessum efnum. Ég held hins vegar, að það væri mikil þörf á því beinlínis að auka afkastagetu frystihúsanna víða á landinu. En ég skal játa það, að að óbreyttum öllum aðstæðum er vitanlega ekki þörf á öllum þessum frystihúsum, ef svo á að halda áfram, að togaraflotinn verði látinn eyðast að fullu og öllu, a.m.k. fyrir íslenzkan fiskiðnað. Og ef bátaflotinn verður látinn ganga saman, sá bátafloti, sem þjónar fyrst og fremst fiskiðnaðinum, eins og hann hefur gengið saman á undanförnum árum, og starfstími bátanna verður látinn styttast jafnt og þétt, eins og hann hefur verið að styttast, þá höfum við auðvitað ekkert við fleiri frystihús að gera, þá má eflaust fara að loka einu og einu, og þá, held ég, að þau lokist eitt og eitt eða hvert af öðru af sjálfu sér. En mín skoðun er sú, að það sé hægt að nýta okkar frystihús miklu betur en gert er, ef rétt er staðið að málunum og ef ríkisvaldið vildi beita áhrifum sínum til þess að gera það kleift. Ég held, að við eigum að vinna að því að stórauka togaraútgerð okkar og alveg sérstaklega með það fyrir augum, að sá togarafloti geti lagt á land heilfrystan fisk til endurvinnslu í frystihúsum landsins, en það mundi síðan skapa frystihúsunum allt aðra rekstrarmöguleika en þau hafa haft. Slík vinnsla sem þessi er þegar byrjuð hér í löndunum í kringum okkur, eins og t.d. í Noregi, og það er enginn vafi á því, að þessi vinnsla á mikla framtíð. Það hefur þegar tekizt alveg að leysa þann tæknilega vanda, sem við þetta er bundinn í sambandi við gæði vörunnar, en það tekur vitanlega nokkurn tíma að byggja upp þessa vinnslu að nýju, og það þarf talsvert fjármagn til þess, og þegar við hverfum að því, þurfum við sannarlega á öllum þeim afköstum að halda, sem við höfum í frystihúsum landsins nú í dag. Ég held líka, að það muni reynast mönnum heldur erfitt að ætla að sameina mörg frystihús í landinu, sem nú eru auðvitað smá og dreifð, vegna þess að fiskverin við landið eru smá og dreifð, sjórinn er sóttur af fiskimönnum allt í kringum landið og það þarf því óhjákvæmilega á mörgum vinnslustöðvum að halda.

Hitt er svo annað mál, að það er ekki nema eðlilegt, að í fiskiðnaði okkar í öllu því skipulagsleysi, sem ríkt hefur í okkar framkvæmdum, hafi orðið alls konar misvöxtur á undanförnum árum og að víða hafa risið upp fiskverkunarstöðvar, sem ekki eiga rétt á sér til frambúðar. Slíkt getur vitanlega átt sér stað og hefur átt sér stað. En það er ekkert aðalatriði varðandi þau vandamál, sem þessi iðnaður á nú við að stríða. Það er enginn vafi á því, að frystiiðnaður okkar Íslendinga er eini iðnaðurinn, sem hér er rekinn, sem er fullkomlega samkeppnisfær við hliðstæðan iðnað í nágrannalöndum okkar. Allt fram til þessa er ekkert um það að villast, að frystiiðnaðurinn á Íslandi hefur staðið mun framar en frystiíðnaðurinn í Noregi. Það var eina grein sjávarframleiðslunnar, þar sem við vorum verulega fremri en Norðmenn. Við framleiddum árlega mun meira magn af frystum fiski en þeir, en þeir framleiddu tvöfalt magn á við okkur bæði af saltfiski, skreið og saltsíld og annarri sjávarvöru, en af frosnum fiski stóðum við þeim fremri, og þeir sendu menn hingað til Íslands til þess að kynna sér uppbygginguna hjá okkur, og það er enginn vafi, að við höfðum í þessum efnum forskot á margan hátt. En þrátt fyrir þetta vil ég ekki draga úr því, að það sé þörf á því áfram hjá okkur, eins og verið hefur, að betrumbæta margt í rekstri frystiiðnaðar okkar. Á því er mikil þörf. En það sýnir að mínum dómi skammsýni ráðunauta ríkisstj. að vilja fyrst grípa til þess, þegar erfiðleikar steðja að frystiiðnaðinum, að minnka afköst frystiiðnaðarins í landinu.

Í sambandi við endurskipulagningu hraðfrystiiðnaðarins er svo talað mikið um verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, og menn tala um þennan verðjöfnunarsjóð, sem þeir eru að draga upp í huga sér, sem eitthvert allsherjar hjálpræði. Og menn segja ákaflega fallega: Ef við hefðum svona verðjöfnunarsjóð, gæti hann tekið af allar þessar óþægilegu verðsveiflur, sem átt hafa sér stað t.d. á undanförnum árum í okkar útflutningsframleiðslu. — En hvað meina menn í rauninni með þessu? Þeir hljóta að meina það, að þegar verðlagið t.d. á frosnum fiski fer hækkandi á erlendum mörkuðum, ætla þeir sér að taka nokkurn hluta af þessari verðhækkun og leggja til hliðar, láta hann ekki ganga út í fiskverðið, láta hann ekki ganga til sjómannanna. En alveg óumdeilanlega eiga fiskvinnslumenn og fisköflunarmenn í landinu þessa peninga, sem fengizt hafa fyrir afurðirnar á erlendum vettvangi gegnum hækkað verð. Út af fyrir sig er vel hægt að hugsa sér þessa aðferð, að nokkur hluti af verðhækkuninni sé lagður í sérstakan sjóð, en þá verður vitanlega að setja um það sterkar reglur, að þessi sjóður komi sömu aðilum að notum, þegar á þarf að halda, og hann verði fullkomlega undir stjórn þeirra, sem hann eiga. Það mun ekki reynast neitt léttaverk að ætla að taka nokkurn hluta af útflutningsverðinu, sem eftir allri okkar uppbyggingu í okkar sjávarútvegi er að hálfu leyti eign sjómannanna í landinu, að taka þessa upphæð af þeim. Þeir munu reyna að sjá um það í gegnum sín samtök, að þessi hluti verði ekki tekinn, að hann verði í mesta lagi geymdur og að hann komi réttum aðilum að gagni, þótt síðar verði.

Það kemur líka fljótt í ljós, þegar þessi mál eru rædd við sérfræðinga ríkisstj., að það er ekki í rauninni þetta, sem þeir meina. Það, sem þeir greinilega meina er það, að þeir vilja halda enn lengra áfram á þeirri braut, sem þeir hafa þegar komizt inn á, illu heilli, að skattleggja vissar greinar framleiðslunnar til stuðnings við aðrar greinar hennar. Núna er það kerfi í gangi, að útfluttar síldarafurðir eru skattlagðar stórkostlega umfram aðrar útfluttar sjávarafurðir, þessi skattlagning er tekin í ákveðinn sjóð og honum ráðstafað til greiðslu til allt annarra framleiðslugreina. Á þennan hátt er verið að snuða bæði síldarsjómenn og síldarútgerðarmenn í gegnum þetta kerfi, og það er það, sem vakir fyrir þessum verðjöfnunarsjóðsmönnum nú, það er að geta raunverulega á einn eða annan hátt látið vissa þætti sjávarútvegsins standa undir vandamálum annarra þátta. Menn hafa að vísu sagt, þegar farið var að ræða þessi mál frekar, að þeir ætluðust til þess, að hinar einstöku framleiðslugreinar hefðu sína sérdeild í sjóðnum, en svo mættu bara deildirnar lána hver annarri eftir þörfum. Þetta kerfi þekkjum við alveg nákvæmlega frá aflatryggingasjóði og vitum, hvernig það hefur gefizt. Þetta er bara leið til þess að færa yfir á milli framleiðslugreinanna, og þetta er það þægilega kerfi, sem sumir efnahagssérfræðingar okkar hugsa sér að byggja hér upp, að ef sem sagt gengur illa með rekstur togaranna í landinu, m.a. vegna rangrar efnahagsstefnu, þá á að segja annaðhvort við smábátamenn eða frystihúsamenn, ef það gengur aðeins betur hjá þeim: Nú stýfum við þennan litla hagnað, sem getur komið út hjá ykkur, tökum hann af ykkur og færum hann yfir til togaranna. — Þar með er málið leyst. En með slíku útjöfnunarkerfi, miðað við uppbyggingu atvinnulífsins, eins og það er á Íslandi nú í dag, þá mundu menn fljótlega kála íslenzkum sjávarútvegi algerlega, það yrðu ekki margir, sem tækju þátt í honum, miðað við þá áhættu, sem í honum er núna, ef slíkt kerfi yrði byggt upp. Ef ætti að hverfa að því að byggja upp verðjöfnunarsjóð til þess að miðla nokkuð á milli, þegar verðið er tiltölulega hagstætt á erlendum mörkuðum, og á hinum tímanum, þegar verðið er óhagstætt, yrðu þessir verðjöfnunarsjóðir raunverulega að vera margir og sjálfstæðir og undir stjórn þeirra, sem þar eiga hlut að máli. En hvernig haldið þið, að þessum sjóði yrði stjórnað, ef það yrði búið til eitt svona samsull hér? Hver halda menn, að yrði formaðurinn? Hver er formaðurinn í flestum peningastofnunum í landinu, flestum sjóðum, sem nú eru settir á fót? Ætli menn fari ekki nokkuð nærri um það, hver það er, og ætli menn fari ekki nokkuð nærri um það, hverjir mundu stjórna þessum sjóði, ef honum yrði komið upp?

Nei, það er mikill misskilningur, að þær verðhækkanir, sem hafa orðið á undanförnum árum, t.d. á frosnum fiski og saltfiski, að þær verðhækkanir, sem orðið hafa á þessum árum, hafi verið bölvaldurinn í íslenzkum efnahagsmálum undanfarin ár. Nú eru hér til menn, sem segja, að vegna þess að þessar miklu verðhækkanir komu til og vegna þess að þær fengu að fara út í hagkerfið og hækka fiskverðið of mikið og stóðu undir of mikilli kauphækkun, þar frá stafi öll ólukkan. Svona liggur þetta ekki. Vandinn stafar ekki af þessum ástæðum. Vandinn hefur stafað af þeirri stefnu, sem hefur verið látin viðgangast í íslenzkum efnahagsmálum eða beinlínis framkvæmd að yfirlögðu ráði í sumum tilfellum hér innanlands á undanförnum árum. Nú hefur það sem sagt heitið viðskipta- og verzlunarfrelsi, að margir þeir aðilar, sem ráða yfir verðmyndunarkerfinu í landinu í gegnum sölu á vörum og þjónustu og ekki síður þjónustu, hafa mátt verðleggja eftir eigin vild, og vegna þess hefur verðlagið í landinu m.a. stórhækkað umfram það, sem þurft hefði, og vegna hinnar almennu fjármálastefnu ríkisstj. Það er ekki verðhækkunin á útflutningsvörum þjóðarinnar, sem hér hefur verið bölvaldurinn.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. verði að gera sér grein fyrir því, að sá vandi, sem nú steðjar að íslenzkum sjávarútvegi, stafar af allt öðru en verðlækkunum á frosnum fiski, sem menn reikna með að muni skella á á þessu ári, og af því leiðir, að ríkisstj. hlýtur að verða að gera sér grein fyrir því, að ráðstafanir af því tagi, sem felast í þessu frv., geta vitanlega ekki dugað nema í stuttan tíma, þær bjarga aðeins í stuttan tíma. Það kann að vera, að ráðstafanir í þessa átt bjargi því m.a. fram yfir kosningar á næsta sumri, að meginhluti framleiðslunnar haldi áfram. Ég held þó fyrir mitt leyti, að það sé enginn vafi á því, að þó að togaraútgerð okkar fái þær krónur, sem henni eru ætlaðar samkv. þessu frv., þá taki hún ekkert að hjarna við þrátt fyrir það. Og ég býst líka við því, að það verði ósköp svipað með bátaútveginn í landinu. Hann verður að vísu gerður út á þessari vertíð, eða a.m.k. yfir þá mánuði, sem mest aflast. Hins vegar býst ég við því, að þeir hætti nú næstum að segja allir með vorinu, sem hætt geta. Þeir hafa ekki meiri áhuga á útgerð en svo, miðað við þann rekstrargrundvöll, sem bátaútvegurinn býr við, og ég óttast því, að það geti farið svo, miðað við þessar ráðstafanir, að afkoma fiskiiðnaðarins í landinu á árinu verði tiltölulega léleg. En þetta kann nú samt að drasla fram yfir kosningar. En hvað gerist svo? Hvað gerist svo, eftir að málin eru komin á þann veg, sem allir vita? Hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér að halda áfram? Hún vill kannske afgreiða það mál á þann hátt, að um það þurfi hún ekkert að segja nú fyrir kosningar, það megi gera það mál upp síðar.

Það er auðvitað býsna flókið mál að ætla að tilgreina það nákvæmlega, hvað skuli gera til viðréttingar íslenzkum sjávarútvegi í öllum greinum. En á því leikur enginn vafi að mínum dómi, að það, sem fyrst þarf að gera af öllu, það er að viðurkenna þá staðreynd, að sú meginstefna, sem ríkt hefur í efnahagsmálum okkar að undanförnu, fær ekki staðizt lengur, þar þarf að verða breyting á. Stefnan t.d. í vaxtamálum og lánveitingamálum til framleiðsluatvinnuveganna er alröng, og þeir, sem ráða ríkisfjármálunum, verða að gera sér grein fyrir því, að þeir mega ekki stuðla að hækkandi verðlagi í landinu nema þá til fulls samræmis við það, sem útflutningsatvinnuvegirnir þola. Þeir eiga ekki að hafa svo þröng sjónarmið, að þeir segi með einhverjum einstefnuakstri: Ríkiskassinn þarf á meiru að halda, því næ ég í þessar tekjur, hverjar sem afleiðingarnar kunna að verða varðandi verðlagsmyndunina í landinu og hvaða afleiðingar, sem af þessu verða svo fyrir útflutningsframleiðsluna. — Þeir, sem stjórna fjármálum ríkisins, eða viðkomandi ríkisstj. verður að miða rekstur ríkisbúsins við það, að hann valdi ekki útflutningsatvinnuvegunum þeim þyngslum, sem þeir fá ekki undir risið. Það þarf m.ö.o. að gera ráðstafanir til þess að reyna að halda verðlaginu innanlands sem mest í skefjum, og það tel ég fyrir mitt leyti, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert á undanförnum árum. Og þó að hún hafi gripið til þess nú að fyrirskipa verðstöðvun, held ég fyrir mitt leyti, að þó að slík verðstöðvun sé góðra gjalda verð, á meðan hún stendur, hvíli sú verðstöðvun nú á brauðfótum, hún fái ekki staðizt til lengdar. Það þarf nefnilega að gera ýmsar aðrar ráðstafanir með verðstöðvun, sem gera hana raunverulega, þannig að hún fái staðizt, en það hefur ekki verið gert.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál hér við 1. umr. Það gefast eflaust tækifæri til þess að ræða hér einstakar greinar þessa frv. nánar, þegar það kemur úr nefnd.