20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér til 1. umr., ræddi ég í alllöngu máli um þau viðhorf, sem nú eru í okkar sjávarútvegsmálum, og gerði þá sérstaklega að umtalsefni, hvernig komið væri ýmsum þýðingarmestu þáttum sjávarútvegsins nú eftir 7 ára viðreisnarpólitík. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, tekur í raun og veru ekki á vandamálum sjávarútvegsins eða þeim þeirra, sem mestu máli mundi skipta að taka á, eins og nú er komið. Hér er í rauninni aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, ráðstöfun, sem aðeins getur linað kvalirnar lítið eitt og í stuttan tíma, en það er allsendis ótrúlegt, að þeir, sem kynnt hafa sér ástandið í okkar sjávarútvegsmálum nú í dag, geti búizt við því, að þessar ráðstafanir endist nema tiltölulega stuttan tíma.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að bæta við nokkrum greiðslum frá ríkinu til nokkurra þátta sjávarútvegsins. Það er sem sagt miðað við það að auka við hið margfordæmda uppbótakerfi talsvert frá því, sem orðið var. Í nál., sem ég hef lagt fram á þskj. 359, bendi ég m.a. á, að það má telja mjög líklegt, að nú sé svo komið, að á yfirstandandi ári verði millifærslugreiðslur vegna sjávarútvegsins eða uppbótagreiðslur eða hvað menn vilja kalla þær nokkuð yfir 600 millj. kr., og ef síðan er bætt við þær fjárhæðir greiðslum, sem ganga eiga til niðurborgunar á vöruverði og í útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðum, er sýnilegt, að þessar millifærslur til stuðnings atvinnuvegunum á beinan eða óbeinan hátt munu nema á yfirstandandi ári a.m.k. 1700 millj. kr. Það er því ekkert um það að villast, að uppbóta- og styrkjakerfið er enn í fullum gangi, þó að liðin séu 7 ár síðan núverandi stjórnarflokkar tóku að sér að leggja það niður. Það mun ekki í annan tíma hafa komizt í hærri fjárhæðir en einmitt nú, og þó hygg ég, að allir sjái, að þannig stefnir, að það má fyllilega búast við því, að þessar fjárhæðir fari stöðugt vaxandi, ef ekki verða gerðar einhverjar aðrar meiri háttar breytingar í okkar efnahagsmálum.

Það, sem hefur raunverulega verið að gerast í málefnum sjávarútvegsins á undanförnum árum, er það, að meginatriðin í efnahagsstefnu ríkisstj. hafa verið íslenzkum sjávarútvegi óhagstæð, hafa beinlínis aukið á erfiðleika sjávarútvegsins og þar af leiðandi hefur þurft að grípa til þessara millifærslugreiðslna, sem þó átti aldrei að grípa til. Ríkisvaldið hefur hagað málum þannig, að margvíslegar álögur hafa farið hækkandi á sjávarútveginum og rekstraraðstaðan hefur verið versnandi. Þannig, eins og ég benti hér á við 1. umr. málsins, hafa t.d. hin almennu lánaviðskipti sjávarútvegsins verið gerð stórum miklu verri en þau voru áður, en þau hafa vitanlega feiknalega mikið að segja, þegar til rekstrarins kemur. Vextir hafa verið stórhækkaðir jöfnum höndum á rekstrarlánum sem á stofnlánum, og krafizt hefur verið miklu örari eða hærri afborgana en áður var. Þetta vitanlega hefur verið sjávarútveginum mjög óhagstætt. Þar að auki hefur svo stefnan, sem framkvæmd hefur verið, einkum í hinum almennu viðskiptamálum og þar með í markaðsmálum, verið útflutningsatvinnuvegunum mjög óhagstæð og gert rekstrarafkomuna mun lakari en hefði þurft að vera.

Ég segi í þessu nál., sem ég hef lagt fram um afgreiðslu þessa máls, að það er mín skoðun, að sjávarútveginum veiti ekki af þeim fjárgreiðslum, sem gert er ráð fyrir að hann fái samkv. þessu frv., og þó sé miklu líklegra, að ýmsar greinar hans þyrftu á mun meiri fjárframlögum að halda en í frv. felast. Ég vil því ekki á neinn hátt standa á móti því, að þessar fjárhæðir renni til sjávarútvegsins. Ég álít, að eins og komið er, verði ekki undan þessu vikizt, en hins vegar tel ég, að það hljóti að eiga að vera verk þeirra, sem hafa ráðið málunum á þennan veg á undanförnum árum, að bera ábyrgð á þessari afgreiðslu, sem felst í þessu frv. Ég er þeirri afgreiðslu út af fyrir sig ósamþykkur. Ég tel, að hér sé um mjög veika bráðabirgðalausn að ræða, sem taki engan veginn á aðalvandamálinu. Og það er víst, að það verður ekki tekizt á við þetta vandamál að óbreyttri stefnu í efnahagsmálum. Þar þarf að gjörbreyta um stefnu, ef nokkur árangur á að fást.

Í frv. er á það minnzt, að það vaki fyrir ríkisstj. að taka nokkuð öðrum tökum á þessum málum en gert hefur verið, einkum varðandi fiskiðnaðinn. Það er á það minnzt, að það þurfi að koma upp sérstökum verðjöfnunarsjóði, sem dregið geti úr sveiflum í verðlagi á útfluttum sjávarafurðum, og það er einnig vikið að því, að það þurfi að taka skipulagsmál fiskiðnaðarins nýjum tökum. En allt er þetta svo óljóst og óákveðið og í rauninni ekki gerðar neinar beinar ráðstafanir í þessu frv. í þessa átt. Það er aðeins vikið að þessum málum í almennu orðalagi, svo að það mun nú ekki skipta miklu máli fyrst um sinn, þó að eitthvað sé á þetta drepið í grg. Raunverulega er, eins og segir í sjálfri grg. frv. frá hendi ríkisstj., með þessu frv. ekki tekin nein ákvörðun um stofnun verðjöfnunarsjóðs. Það mál liggur aðeins í athugun. Og enn eiga menn eftir að átta sig á því, að hvaða gagni slíkur verðjöfnunarsjóður gæti komið og hvernig ætti í rauninni að byggja hann upp. Svipaða sögu er að segja um hina hugmyndina, sem minnzt er á, að það þurfi að taka skipulagsmál fiskiðnaðarins til athugunar. Þar er aðeins lauslega drepið á það, hvað þurfi að gera. Það er verið að minnast á, að það þurfi helzt að fækka frystihúsum í landinu, það þurfi, eins og þar segir, að draga úr afkastagetu frystiiðnaðarins og vinna að því að sameina fiskiðnaðarfyrirtæki þá væntanlega í stærri heildir. Allt er þetta svo óljóst og óákveðið, að það tekur því varla á þessu stigi málsins að ræða um það í löngu máli.

En í sambandi við þessar hugleiðingar hlýtur maður að minnast á, að það hefur einmitt verið eitt af því, sem við Alþb.- menn sérstaklega höfum fundið að efnahagsstefnu ríkisstj. á undanförnum árum, það er einmitt skipulagsleysið varðandi þróun atvinnuveganna og framkvæmdir í landinu yfirleitt. Við höfum talið, að það þyrfti að vera nokkuð virk yfirstjórn í landinu á því, hvernig fjárfestingu landsmanna væri háttað, í hvað það fjármagn færi, sem þjóðin gæti sett í föst verðmæti, og við höfum flutt hér mörg frv. í þessa átt og till. um að taka upp þessi vinnubrögð. En þetta er einmitt eitt af því, sem efnahagssérfræðingar ríkisstj. og síðan ríkisstj. hafa barizt hvað mest á móti. Efnahagssérfræðingar ríkisstj. hafa komizt það lengst í þessum málum, að þeir hafa viljað setja upp svonefndar áætlanir, sem í rauninni hafa verið töflur um það, hvað væri sennilegast, að gerast mundi í atvinnuþróuninni í landinu á komandi árum, en þeir hafa ekki viljað gera neinar till. um, hvað raunverulega ætti að gera og hvað síðan ætti að lögfesta til þess að sjá um framkvæmd á því, sem æskilegt væri. Kenningar ríkisstj. hafa verið þær varðandi þessi mikilvægu atriði, að hér ætti að vera hið fullkanna og frjálsa efnahagskerfi, þ.e.a.s. að þeir, sem réðu yfir fjármagninu, ættu óhindrað að fá að ákveða það, í hvað fjármagnið færi, hvernig fjárfestingin í landinu yrði, og það mundi að lokum gefa bezta raun fyrir þjóðarbúskapinn. En sem sagt, þegar þeir nú standa frammi fyrir því, að illa er komið m.a. í fiskiðnaði landsmanna, í þeirri þýðingarmiklu starfsgrein, og það þarf að grípa til þess ráðs að styrkja fiskiðnaðinn með beinum fjárframlögum frá ríkinu, er fyrst farið að minnast á, að skipulagið í okkar fiskiðnaði sé ekki hið ákjósanlegasta, þar hafi ýmislegt verið að gerast á undanförnum árum, sem sé býsna óhagstætt og hefði átt að vera á annan veg. Ég hlýt að vekja athygli á þessu, en þá ekki síður á hinu, að það hefur ekki aðeins verið á þessu eina sviði, sem þróunin hefur verið okkur óhagstæð eða kannske of kostnaðarsöm undir þessu skipulagsleysi öllu, sem við höfum hér búið við. Það er ekki aðeins á því sviði, að það hafi risið upp fiskiðnaðarfyrirtæki, sem ekki eru í hinu æskilegasta formi, og að sums staðar hafi jafnvel verið um það að ræða, að fiskiðnaðarfyrirtækin hafi komið upp óeðlilega mörg miðað við allar kringumstæður. Það er ekki aðeins á þessu sviði, sem skipulagsleysið er farið að segja til sín í okkar efnahagsmálum. Ég vil segja, að á ýmsum öðrum sviðum þjóðlífsins er þetta skipulagsleysi og hefur kostað okkur miklum mun meira en það kostar okkur í okkar fiskiðnaði. Það væri ekki síður ástæða til þess að líta t.d. eftir því, hvernig við höfum farið með okkar fjármuni í sambandi við verzlunaruppbygginguna í landinu á undanförnum árum og uppbyggingu á fjöldamörgum öðrum sviðum. En þarna erum við einmitt komin að því meginatriði, þar sem greint hefur á milli okkar Alþb.-manna og þeirra, sem ráðið hafa efnahagsmálastefnunni á undanförnum árum. Við höfum haldið því fram, að eitt af því þýðingarmesta væri einmitt að reyna að gera sér fulla grein fyrir því, í hvað fjármagnið á að fara á hverjum tíma, í hverju við eigum að fjárfesta og hvað mikið í hverri grein, en ekki að búa við það skipulagsleysi, sem við höfum búið við, og það hefur ekki aðeins átt við af okkar hálfu varðandi undirstöðuatvinnuvegina, heldur ekkert síður ýmsa aðra þætti í efnahagslífi landsins. En sem sagt, niðurstaðan hefur orðíð þessi eftir skipulagsleysi viðreisnarstefnunnar. Nú erum við að súpa seyðið af þeirri stefnu og verðum að borga býsna háar upphæðir í aukaálögur vegna þessarar röngu fjárfestingarstefnu.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. meiri hl. sjútvn., sem hér talaði fyrir frv. ríkisstj., komst þannig að orði í lokaorðum sínum, þegar hann var að mæla fyrir þessu frv., að vegna þess að ýmislegt hefði unnizt jákvætt við stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum á undanförnum árum, gæfist mönnum nú meira tóm en stundum áður til að átta sig á vandamálum sjávarútvegsins og atvinnuveganna. Það er nú svo. Það virðist nú ekki vera allt of mikið tóm, sem hæstv. ríkisstj. hefur unnizt til þess að átta sig á því, því að mér sýnist í rauninni allt benda til þess, að eftir 7 ára viðreisn sé ríkisstj. ekki enn búin að fá nægilega langan tíma til að átta sig á þeim aðalvandamálum, sem við er að glíma í íslenzkum sjávarútvegsmálum nú í dag. Nei, ég held, að hitt sé miklu sannara, sem ég sagði um þessi mál, að sannleikurinn sé sá, að það eru afleiðingarnar af hinni röngu stefnu ríkisstj. á liðnum árum í efnahagsmálunum, sem valda mestu um þá erfiðleika, sem við stöndum nú frammi fyrir í okkar atvinnumálum, en ekki hitt, að það hafi unnizt svo mikið jákvætt við stefnu ríkisstj., að maður geti farið að setjast niður í rólegheitum og átta sig á þeim vandamálum, sem að steðja í okkar atvinnulífi. Því miður, þá er ekki ástandið þannig nú í dag.

Ég skal ekki að þessu sinni ræða þetta frv. í ýkjalöngu máli. Ég ræddi um það ýtarlega við 1. umr., af því að ég tel, að þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, gefi fyrst og fremst tilefni til þess að gera nokkra úttekt á því, hvernig komið er með okkar undirstöðuatvinnuveg nú í dag, sjávarútveginn, eftir sjö ára framkvæmd á þeirri efnahagsmálastefnu, sem núverandi ríkisstj. hefur haldið sig fast við. Þá úttekt gerði ég hér við 1. umr. málsins. En þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, það hefur ekki ýkjamikið að segja að ræða það út af fyrir sig í löngu máli. Varðandi það, hvort ákveðið er, að ríkisstj. skuli nú leggja til hliðar 140 millj. kr. í sérstakan sjóð til þess að greiða úr honum síðan styrki til frystihúsanna í landinu vegna fallandi verðs á útfluttum frosnum fiskafurðum, eða hvort menn hefðu haft í þessari grein upphæðina 180 millj. kr., — mér sýnist, að hér sé fullt eins líklegt, að um það verði að ræða, þegar ríkið þarf að standa við þær skuldbindingar, sem það tekur á sig skv. ákvæðum frv., því að skuldbindingar ríkisins við frystiiðnaðinn í landinu takmarkast ekki við þessar 140 millj. kr., heldur við ákveðna greiðslureglu, sem þar er sett upp, og ef verðlækkunin á frosnum fiski verður eitthvað í námunda við það, sem þeir segja, sem bezt þekkja til þeirra mála og hafa sett fram sínar hugmyndir þar um, þá er miklu líklegra, að greiðslur ríkisins verði skv. þessu frv. 180 millj. kr., en ekki 140 millj. kr. Það er því miklu líklegra, að svo fari, að það verði enginn afgangur af þessum 140 millj. kr. og það þurfi því ekki að vera að gera ráð fyrir því, að sá afgangur eigi að mynda einhvern stofnsjóð að væntanlegum verðjöfnunarsjóði, ef löggjöf verður þá sett um þennan verðjöfnunarsjóð. Það er miklu líklegra, að til hins mundi koma, að það þurfi að bæta við upphæðina, þessar 140 millj., til þess að standa við þær skuldbindingar, sem ríkið er að taka á sig með frv. Svipað er að segja um önnur bein ákvæði í þessu frv. Þau eru í rauninni ekki þess eðlis, að það taki að ræða þau í löngu máli. Þannig er t.d. um hina aðalupphæðina, sem gert er ráð fyrir að greiða skv. þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir því að greiða í kringum 100 millj. kr. til hækkunar á fiskverði til fiskibáta. Þar er um að ræða slíka verðhækkun, að það vita allír, sem til þekkja, að hún samsvarar engan veginn því, sem bátaútvegurinn þyrfti að fá, eins og nú er ástatt fyrir honum. Þessi upphæð er rétt aðeins til þess að tryggja það, að fiskimennirnir á bátaflotanum geti á árinu 1967 fengið hliðstæða verðlagsuppbót á kaup sitt eins og aðrir launþegar fengu á árinu 1966. Það er svona rétt aðeins verið að ná þeim hala, en lengra er ekki komið í þessum efnum. Það er því eins og ég sagði, það er miklu frekar um það að ræða, að þær fjárhæðir, sem nefndar eru í þessu frv., muni reynast of litlar til þess að ná hér fullum árangri og það aðeins í bili, en þessar greiðslur, sem hugsaðar eru skv. þessu frv., geta aldrei náð því, að þær geti skipt neinu afgerandi um það, hvernig fer með framhaldið í okkar sjávarútvegsmálum. Þar þarf á nýrri stefnu að halda. Það þarf að gjörbreyta ýmsu því, sem nú er í gildi og sett var í framkvæmd með viðreisnarstefnunni.

Ég skal svo ekki að þessu sinni ræða málið frekar. Ég mun ekki, og við Alþb.-menn munum ekki standa á móti því, að þetta frv. nái fram að ganga, en ég ætla, að ég hafi lýst okkar afstöðu til þessa máls í öllum aðalatriðum.