20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 2. m inni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum þeirra, sem hér hafa talað af hálfu tveggja hluta sjútvn., þá klofnaði n. í afstöðu sinni til málsins. Við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. höfðum skilað sérstöku nál., sem við lögðum inn til skrifstofunnar í morgun, en sökum mikilla anna í prentsmiðju hefur ekki enn þá verið lokið við að prenta nál. og liggur það því ekki frammi núna við umr., en er væntanlegt á hverri stundu.

Afstaða okkar til frv. er sú, að við mælum með því með vissum breytingum, sem við flytjum og prentaðar eru í nál. Þessar brtt. eru þær sömu og fluttar voru af hálfu fulltrúa flokksins í Ed., og tel ég því, að jafnvel þó að nál. yrði ekki komið úr prentun, áður en gengið er til atkvgr., þá sé hægt að greiða atkv. um brtt., því að þær liggja frammí á þskj, og nál. framsóknarmanna úr Ed. Mun ég afhenda forseta þær hér á eftir.

Ég talaði alllangt mál um frv. þetta, þegar það var hér til 1. umr. í hv. d. Ég leitaðist þá við að sýna fram á, að þeir erfiðleikar, sem sjávarútvegurinn á nú við að búa og frv.-flutningur þessi ber vott um, ætti meginrætur að rekja til þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið á valdatímabili hæstv. núverandi ríkisstj. eða í rúm sjö ár. Ég reyndi að sýna fram á, að ýmsir meginþættir þeirrar stefnu væru sjávarútveginum, sem býr við nokkra sérstöðu umfram aðra atvinnuvegi landsmanna, í meginatriðum beinlínis fjandsamlegir. Ég vék einnig að því, að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, séu auðsjáanlega einungis bráðabirgðaráðstafanir, þær lagi engan þann meginvanda, sem nú er til staðar, og þurfi þar annað og meira til að koma og þá fyrst og fremst gjörbreyting á sjálfri stjórnarstefnunni. Ég get því verið stuttorður um frv. nú og skal ekki víkja að mörgum þáttum málsins.

Eins og ég sagði, þá er tilgangur með frv. sá að koma í veg fyrir stöðvun í rekstri frystihúsa og þorskveiðiskipa um nokkurt skeið með því að verja fé úr ríkissjóði til stuðnings þessum aðilum. Er hér um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, þá fjórðu í röðinni frá árinu 1964 að telja, en auk þessa hefur rekstur togara verið styrktur úr ríkissjóði allt valdatímabil viðreisnarstjórnarinnar. Þessar staðreyndir eru þungur áfellisdómur um árangur stjórnarstefnunnar, sem ríkt hefur í landinu í 7 1/2 ár og hafði það að aðalmarkmiði að koma atvinnulífinu á heilbrigðan grundvöll og tryggja, að útflutningsframleiðslan yrði rekin hallalaust án uppbóta og styrkja. Af fjárlögum yfirstandandi árs sést m.a., að um 1.3 milljarði kr. á að verja af ríkistekjum ársins, sem nema alls um 4.7 milljörðum, til uppbóta og niðurgreiðslna til þess að forða frá stöðvun í atvinnulífinu, en raunar er fjárhæð þessi mörg hundruð millj. kr. hærri, ef allur fjárstuðningur við atvinnuvegina úr ríkissjóði væri talinn með. Ég hygg því, að óhætt megi fullyrða, að af hverjum 3 kr., sem ríkissjóður tekur til sín með sköttum og álögum á landsmenn, gangi rúmlega 1 kr. til þess að standa undir þessum uppbótum og níðurgreiðslum. Þrátt fyrir þetta eru erfiðleikar stofnatvinnuveganna nú meiri en oftast áður. Ekkert verðfall erlendis né samdráttur í þjóðarframleiðslu fær skýrt þetta. Þjóðartekjur á mann hafa á tímabilinu frá 1960–1965 vaxið um 5.7%, sem er sennilega mesta hagvaxtarskeið síðustu áratuga hér á landi, en þessi hagvöxtur á að miklu leyti rót að rekja til síbatnandi viðskiptakjara við útlönd.

Frv. þetta fjallar um einn þátt þessara vandamála, rekstrarvandamál frystihúsanna, smærri bátanna og togaranna. Er í veðri látið vaka af þeim, sem að flutningi þess standa, að verðfall á frystum fiskafurðum á erlendum mörkuðum hafi skapað þessa erfiðleika. Að mínu áliti er ekki nema hluti sannleikans þar með sagður og stærstu ástæðunum alveg sleppt, sem eru síaukinn útgerðarkostnaður af völdum óðaverðbólgunnar, sem dafnað hefur óvenjuvel á valdatímabili viðreisnarstjórnarinnar, en óðaverðbólgan hefur vaxið hér þrisvar til fjórum sinnum hraðar en í helztu viðskiptalöndum okkar og hjá keppinautum okkar um markaðina. Árið 1966 er talið, að frystihúsin hafi tapað á milli 50 og 100 millj. kr., en einmitt það árið hefur Efnahagsstofnunin upplýst í skýrslu sinni til Hagráðs, að meðalverð útfluttra frystra þorskafurða hafi það ár verið 10% hærra en meðalverð ársins 1965 og meðalverð skelfiskafurða um 5% hærra. Árin 1964–1966 voru frystihúsunum veittar uppbætur á framleiðslu sína, samtals 126 millj. kr. Uppbætur þessar voru veittar til þess að standa undir hækkandi fiskverði. Öll þessi ár seldust frystar fiskafurðir fyrir síhækkandi verð á erlendum mörkuðum. Þannig segir í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs, að markaðsverð frystra afurða hafi hækkað um 45% árin 1960–1965. Ég minnist á þetta hér til þess að sýna fram á haldleysi þeirra staðhæfinga, sem nú er haldið uppi af hálfu stjórnarliða í umr. um frv. þetta, að ástæðan fyrir erfiðleikunum sé eingöngu verðlækkun sú, sem fór að gæta á hraðfrystum fiski síðustu mánuði s.l. árs og hefur því miður haldið enn áfram.

Á s.l. ári skilaði n. alþm., sem athugaði rekstrarvandamál báta undir 120 smálestum að stærð, áliti. Niðurstaða þeirrar nefndar var í fáum orðum sú, og um hana voru allir alþm. sammála, að enginn rekstrargrundvöllur væri til fyrir þessa báta í dag. Með samanburði á afkomu þeirra á milli ára var sýnt fram á, að rekstraraðstaða meðalbátsins hafði versnað, útgerðarkostnaður hafði vaxið hraðar en tekjur bátsins þrátt fyrir umtalsverðar hækkanir á fiskverði. Hnignun í togaraútgerð er alkunn, og fækkar þeim togurum nú jafnt og þétt, sem eru í rekstri. Enginn rekstrargrundvöllur er til fyrir þessi skip í dag, og eru þau rekin með stórfelldu tapi.

Eins og ég sagði áðan, á frv. þetta að forða frá stöðvun í þessum atvinnugreinum næstu mánuðina. En meira þarf til. Stefnubreyting, þar sem horfið er frá óðaverðbólgu, er nauðsynleg. Mótun stefnu í uppbyggingu bátaflotans, fiskiðjuvera og nýtingu fiskimiða er einnig nauðsynleg. Það þarf að létta álögum af sjávarútveginum í mörgum greinum, og það þarf að lækka þann gífurlega háa fjármagnskostnað, sem bundinn er í honum. Við nokkrir þm. Framsfl. höfum á undanförnum þingum flutt fjölda mála í þessa stefnu, en annaðhvort hafa þau verið svæfð eða felld af ráðandi meiri hl. í Alþ.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að fjár verði aflað til hækkunar fiskverðs og til myndunar verðjöfnunarsjóðs. Fjárins verði aflað með því að rýra framkvæmdafé á fjárlögum og klípa um 20 millj. af jöfnunarsjóðsframlagi sveitarfélaganna, auk þess sem fella á niður ríkisframlagið til ríkisábyrgðasjóðs.

Við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. getum ekki fallizt á þessa leið. Ríkissjóður hefur sannarlega haft á s.l. ári í hreinar umframtekjur á milli 800 og 900 millj. kr. Þessi aukna skattheimta á m.a. sök á þeim vanda, sem útvegurinn á við að stríða, og við teljum því eðlilegt, að hluti af þessum greiðsluafgangi ríkissjóðs verði notaður í þessu skyni. Um það fjallar 1. brtt. okkar.

Þá er það upplýst í umr. í Ed. og raunar víðar, að svokallað hagræðingarfé til frystihúsanna er ætlað eingöngu til þess að standa undir hærra fiskverði, en ekki sérstaklega til framleiðniaukningar í hraðfrystihúsunum. Við teljum, að nefna beri hlutina réttum nöfnum og flytjum brtt. um það, sem er 2. brtt. okkar.

Síðasta brtt. miðar að því að gera ákvæði 10. gr. frv. skýrari. Við teljum óeðlilegt að takmarka eftirgjafir fjárkrafna við ríkisábyrgðasjóðinn einan, en þannig skiljum við greinina, eins og hún er nú. Við leggjum til, að þessu verði breytt eins og fram kemur í 3. brtt. okkar.

Ég vil svo að endingu aðeins lýsa því yfir, að við munum á engan hátt leggjast gegn því, að frv. þetta nái fram að ganga, eða tefja framgang þess á nokkurn hátt. Eins og ég sagði í upphafi, mælum við með samþykkt frv. með vissum breytingum, sem ég var að skýra hér frá.