20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það var rétt um það bil, þegar þeir 2 hæstv. ráðh., sem mál þetta, sem hér er nú til umr., heyrir einkum undir, höfðu komið hér upp í ræðustólinn og þakkað fyrir skjóta og góða afgreiðslu á málinu í sjútvn. og undirstrikað það mjög, að þeir vildu nú ekki gefa tilefni til frekari umr. um þetta mál en orðið væri og öllu átti að vera lokið, þá skauzt hér upp í ræðustólinn einn nýr þm. úr liði stjórnarinnar og þurfti að bæta hér við nokkrum orðum. Það var greinilegt, að það kom einkum á ráðh., þegar þetta gerðist, og líklega meira á þá en flesta aðra. En hvað um það, menn tóku fljótlega eftir því, að það, sem hér var að gerast, var þessi ósköp venjulegi atburður, að hér var á ferðinni ungur sjálfstæðismaður, sem þurfti að láta birta eftir sig grein í Morgunblaðinu. Hann virtist ekki vera öruggur um að fá greinina birta þar nema koma hér upp í ræðustól og lesa hana upp hér fyrst, jafnvel þó að það kostaði það, að það tefði nokkuð fyrir ríkisstj. að ljúka því málí, sem hún var búin að þakka fyrir afgreiðslu á hér að þessu sinni.

Þessi hv. þm. hafði sýnilega vandað sig mjög, kom hér með samda ræðu, hafði ekki verið alveg tilbúinn til að taka hér þátt í þeim almennu umræðum um þetta mál, sem fram fóru við 1. umr., og hóf mál sitt á því að finna að því við stjórnarandstöðuna, að hún hefði skágengið það í þessum umr. að ræða þann hluta þessa máls, sem væri í rauninni kjarni vandamálsins. Ég vildi strax reyna að hlusta eftir því, hver væri kjarni vandamálsins að áliti þessa hv. þm., og það stóð auðvitað ekki á því, að það kæmi fram. Hann tilgreindi tvennt, sem um væri að ræða sem grundvallarvandamál sjávarútvegsins, eins og nú væri ástatt. Annað væri skyndilegt verðfall á erlendum mörkuðum, hitt væri minnkandi bolfiskafli á bátum, og eins og þm, sagði, hvorugt var á valdi ríkisstj. að ráða við. Ekki gat hún ráðið því, að verðlag féll á erlendum mörkuðum, og ekki gat hún ráðið við það, þó að færri fiskar bitu á krókana en áður. Og eflaust er þetta rétt. Þetta stendur ekki í valdi ríkisstj. að ráða við, og þar með hélt þessi þm., að ríkisstj. væri kvitt og hana væri ekki að sakfella um eitt né neitt í sjávarútvegsmálum, eins og nú væri komið.

Ég hafði gert einmitt nokkuð af þessum atriðum að umtalsefni hér við 1. umr. málsins, og því miður virðist þessi hv. þm. ekki hafa veitt því mikla athygli, sem ég var að tala þá um, og ég neyðist því til þess að endurtaka sumt af því aftur, þó að ég nenni ekki að hafa það hér yfir allt aftur. Ég vil því í tilefni af þessu spyrja hv. þm. að því, m.a. varðandi erfiðleika íslenzks sjávarútvegs í dag: heldur hann, að erfiðleikar togaraflotans í dag stafi af verðfalli á mörkuðum, — heldur hann það? Heldur hann, að ástæðan til þess, að nú eru reknir í landinu aðeins um 16 togarar, en í upphafi viðreisnar voru reknir um 46, — heldur hann, að þessi fækkun stafi af því? Ég get varla trúað, að hann líti þannig á málin, að þetta sé ástæðan til þess, hvernig komið er fyrir íslenzkri togaraútgerð. Hv. þm. virðist halda það líka, að um það hafi verið að ræða nú síðustu árin, að það hafi verið um verulega minnkandi afla að ræða hjá bátaflotanum miðað við þá sókn, sem um hefur verið að ræða hjá bátaflotanum. Það er líka misskilningur. Það er tiltölulega létt að átta sig á því, að þannig liggja málin ekki fyrir. Þegar athugaður er afli jafnt á línuveiðum sem netaveiðum, er ekki um að ræða neinn minnkandi afla á eiginlega einingu. Minnkandi heildarafli hefur beinlínis stafað af því, að það hefur verið um minnkandi þátttöku að ræða hjá flotanum í þessum veiðum. Hún hefur farið minnkandi ár frá ári, og til þess liggja alveg ákveðnar ástæður.

Í framhaldi af þessum hugsanagangi hjá þessum hv. þm. hélt hann því hér fram, að það væri ofureinfalt að leysa þann vanda, sem um væri að ræða í íslenzkum sjávarútvegsmálum nú í dag. Og vandinn eða lausnarorðið, sem hann hafði, var þetta: Til þess að leysa vanda bátaflotans varð að leyfa togveiðar í landhelgi. Og hann endurtók spurningu í sambandi við þetta atriði til mín og fleiri aðila hér, hvort við værum því sammála eða ekki að leysa vandamál bátanna á þennan einfalda hátt? Það er greinilegt, að þessi hv. þm. hefur ekki fylgzt mikið með því, sem hefur verið að gerast í íslenzkum sjávarútvegsmálum á undanförnum árum. Hann heldur kannske, að togveiðar báta í íslenzkri landhelgi hafi einhvern tíma átt hér einhvern verulegan þátt í heildarafkomu sjávarútvegsins, en það er mikill misskilningur. Þegar leyfi í þeim efnum voru sem ríflegust á allan hátt, var heildarþátttakan í togveiðum báta og heildaraflamagnið, sem þá kom á land, algert lítilræði borið saman við útgerð bátaflotans í heild. Og það, sem hefur verið að gerast nú hin síðari ár, þegar þrengt hefur að bátaflotanum, á því ekki rætur sínar að rekja til þess, að bátaflotanum sé nú meinað að stunda þær veiðar, sem hann yfirleitt telur sér hagstæðari en aðrar veiðar. Það er rétt, að á einstaka stað hefur borið á því nú í seinni tíð, þar sem sérstaklega hefur verið erfitt að manna bátana til annarra veiða og þar sem bátarnir jafnvel hafa ekki fylgt fyllilega á eftir með allan útbúnað og stærð og gerð bátanna, þá hefur sótt nokkuð í það, að menn hafa viljað fá aukin leyfi til landhelgisveiða. En allir, sem þekkja nokkuð til, vita, að hér er í rauninni um hreint aukaatriði að ræða einnig varðandi útgerð bátanna. En svo þyrfti þessi hv. þm. að gera sér grein fyrir því, að jafnvel þó að um það væri að ræða, að fyrir lægi sú spurning, hvort það ætti að veita hinum minni fiskibátum nokkuð aukna heimild til landhelgisveiða með botnvörpu frá því, sem verið hefur, jafnvel þótt um það væri að ræða að veita slíka heimild til þess að greiða lítils háttar fyrir bátum á stöku stað, þá þarf hann að átta sig á því, að það er margt annað og fleira, sem hér fylgir með og gerir það að verkum, að þannig líta þessi mál ekki út í dag, að um það sé að ræða, að hægt sé að greiða fyrir bátunum á stöku stað á þennan hátt. Og þar eru skýrustu fyrirmælin frá hans eigin ríkisstj., þar sem forustumennirnir þar hafa alveg tvímælalaust tekið fram, að þeirra afstaða væri sú, að það kæmi hreinlega ekki til mála að veita bátunum nokkur viðbótarfríðandi til veiða í landhelgi, án þess að togaraflotinn fengi þau líka. Hér hefur því verið um það að ræða varðandi þetta mál, hvort við ættum að breyta okkar aðalreglum í þessu varðandi þessar veiðar og heimila bæði togurum og bátum á tiltölulega mjög víðum grundvelli auknar landhelgisveiðar.

Nú hefur það hins vegar verið upplýst í þessum málum, að okkar aðalfiskifræðingar telja, að það sé ekki um að villast, að nú sé þannig ástatt með þorskstofninn við Ísland, að á Íslandsmiðum beri á því, að allt of mikið sé veitt úr stofninum af smáfiski, af ókynþroska fiski, og þeir hafa varað við þessum miklu veiðum á smáfiski. Þessir sömu fiskifræðingar hafa svo gefið út skýrslur um það, hvaða veiðarfæri það séu, sem séu hættulegust einmitt smáfiskinum. Og hvað kemur út úr því? Þar skera sig tvö veiðarfæri úr, þannig að þau hafa algera sérstöðu, að það er ekki samanlíkjandi á neinn hátt við önnur veiðarfæri, en það eru botnvarpan og dragnótin, þar sem yfirgnæfandi meiri hluti aflans er einmitt þessi smáfiskur, sem þeir vara sérstaklega við, að nú sé farið að bera á ofveiði á. Og á það hefur einnig verið bent af okkar fiskifræðingum og m.a. af mér hér á Alþ. hvað eftir annað, að það væri mjög nauðsynlegt, að við notfærðum okkur þá samninga, sem við höfum við aðrar þjóðir um það að gera samkomulag við þær um að draga úr veiðinni hér á Íslandsmiðum, sem sérstaklega bitnar á ungfiskinum. En það eru til alþjóðlegar samþykktir, sem gefa okkur rétt til þess að heimta það af þessum þjóðum, að þær taki þátt í því að draga úr slíkum veiðum.

Það er mín skoðun, að þetta sé eitt af þýðingarmestu málum okkar, sem við stöndum frammi fyrir nú varðandi íslenzkan sjávarútveg, það sé einmitt að koma því til leiðar með samningum við aðrar þjóðir að fá samkomulag um að friða tiltekin veiðisvæði á Íslandsmiðum, þar sem ofveiðin á smáfiski einkum fer fram. Þetta yrði væntanlega gert á þann hátt, að togveiðar yrðu bannaðar bæði Íslendingum og útlendingum á vissum svæðum í kringum landið á tilteknum tímum a.m.k. En nú sjá það allir menn, að einmitt þegar svona stendur á og þegar þetta kallar að, væri það lélegur undirbúningur að málsókn af okkar hálfu Íslendinga, ef við ætluðum, á sama tíma og við leitum til annarra þjóða um að minnka þessar hættulegu veiðar, sem þær stunda hér alveg sérstaklega á vissum svæðum við landið, — ef við á sama tíma breyttum þannig til okkar fiskveiðireglum, að við heimiluðum stórauknar togveiðar einmitt á uppeldisstöðvum smáfisksins við landið. Slíkt væri heimskulegt og nær vitanlega engri átt. Þetta eru þær kringumstæður, sem hér er um að ræða og hv. þm. hefur ekki gert sér neina grein fyrir sýnilega. Þetta lá alveg greinilega fyrir þeirri mþn., sem var að athuga um þetta spursmál og hefur skilað sérstöku áliti til ríkisstj. varðandi þessi efni og þar sem þm. úr öllum flokkum voru sammála um það, að eins og nú væri ástatt og eins og þessi mál lægju nú fyrir, væri óhyggilegt að opna fyrir frekari veiðum íslenzkra togara og togbáta í landhelgi. Ég hef hins vegar sagt það æðioft, að það er mín skoðun, að það kemur fyllilega til greina á réttum tíma, þegar aðstæður eru eðlilegar, — þá kemur það fyllilega til greina að halla til reglum varðandi veiðar einnig með botnvörpu og dragnót fyrir minni fiskibáta í landhelginni. En við eigum ekki að gera það, sem getur í bezta falli fært okkur tiltölulega lítinn ábata, en gæti hins vegar orðið okkur til stórtjóns, þegar litið er á heildina.

Það er því með öllu þýðingarlaust fyrir þennan hv. þm. að ætla að stilla þessu máli upp þannig nú, að hér sé um eitthvert lausnarorð að ræða fyrir íslenzkan sjávarútveg. Hann ætti að vita það, að mikill meiri hl. útgerðarmanna í landinu, sem á íslenzka bátaflotann, hefur þegar lýst því yfir opinberlega með atkvgr., að þeir eru algerlega á móti því að rýmka þessar reglur, og alveg sérstaklega má heita, að þeir séu svo til einróma á móti þessari rýmkun, ef rýmkunin á að kosta það, að togaraflotinn fylgi á eftir, eins og virðist vera alveg greinileg stefna ríkisstj. og hefur komið fram hvað eftir annað. Það er því ekki um það að ræða að bæta afkomu bátaflotans, eins og nú er ástatt, á þennan hátt, að opna aðeins landhelgina, eða hægt sé að bjarga íslenzkri togaraútgerð með því að hleypa henni enn nær landinu en verið hefur. Slíkt er hrein skammsýni. Það, sem þarf að horfast í augu við varðandi bæði togaraútgerð og bátaútveg, er, að það þarf að grípa til fjölþættra ráðstafana til þess að bæta rekstrargrundvöllinn, því að rekstrargrundvöllur þessara þátta útgerðarinnar hefur verið að raskast á undanförnum árum. Aðalatriðið varðandi togaraútgerðina er vitanlega það, að það þarf með aðstoð ríkisvaldsins að endurnýja íslenzka togaraflotann af þeirri tegund, sem nú ein er orðin rekstrarhæf. Og þar er vitanlega sú skoðun, sem kom fram hjá þessum hv. þm., að gömlu síðutogararnir okkar gætu fyllilega dugað og það væri allsendis ósannað, að þeir væru nokkuð lakari en hin nýjasta tegund af togurum, sem nú þekkist, — slíkur hugsunarháttur er auðvitað orðinn algerlega úreltur og með öllu rangur.

Þessi hv. þm. hefði átt að lesa grein, sem birtist í Morgunblaðinu núna fyrir bara nokkrum dögum frá einum okkar þekktasta togaraskipstjóra í landinu og þeim af togaraskipstjórum okkar, sem mesta reynslu hefur einmitt af því að hafa stundað veiðar jöfnum höndum á síðutogara og á skuttogurum og verksmiðjutogurum. Hann var ekkert myrkur í máli um það, hvað ætti að gera. Og hann lagði það einmitt til í þessari Morgunblaðsgrein, nákvæmlega það, sem ég og fleiri Alþb.- menn höfum verið að leggja hér til á undanförnum árum, að gera ætti í málefnum togaranna. Hann sagði: Það á ekki að hika við það, að það á þegar í stað að kaupa nokkra skuttogara af stærðinni 1400–1800 rúmlestir, og það á vitanlega að útbúa þessi skip þeirri nýjustu tækni, sem við þekkjum í dag, — og þá segir hann: Þá gætum við gert út þessi skip með 17–18 mönnum, í staðinn fyrir að nú höfum við á þessum skipum 32 og upp í 35 menn. Og efast ég þó ekkert um, eins og hann segir, að afköst þessara nýju skipa yrðu þrátt fyrir það miklum mun meiri en afköst gömlu skipanna. — Það er þetta, sem hefði átt að gera á undanförnum árum. Það er þetta, sem ríkisstj. hefur ekki skilið. Það er þetta, sem ríkisstj. hefur ekki viljað gera. Og það er líka alveg augljóst, hver er afstaða þess flokksins, sem ræður fyrst og fremst ríkisstjórnar-stefnunni í þessum efnum, þegar nú svo er komið, að hæstv. sjútvmrh. lýsir því yfir hér á Alþ.,ríkisstj. — sýnilega farin að titra með tilliti til kosninga — sé nú alveg komin að því að gera eitthvað í togaramálunum, að vísu sé það enn þá á borðinu til athugunar að kaupa t.d. 3–4 togara, alla af mismunandi gerðum, til þess að prófa hverja gerð fyrir sig, rétt eins og þetta sé einhver ný uppfinning, eins og enginn hafi prófað þessa hluti áður og menn yfirleitt hafi enga reynslu í þessum efnum. Þetta var þó að mínum dómi stórt spor fram á við frá fyrra skrefi, sem hæstv. sjútvmrh. tók, þegar hann hreyfðist í þessum málum, en þá hafði hann sagt, að hann vildi gjarnan taka einn svona togara á leigu erlendis og prófa hann í leigu, en festa sig ekki í þessum skratta auðvitað, sem menn vissu ekkert um, hvernig myndi reynast hér. En næsta skrefið var þó það, að hann talar um, að nú verði gerðar ráðstafanir til þess að kaupa 3–4 skip af mismunandi stærðum og þetta sé nú í athugun. En þá koma líka nokkrir áhugamenn Sjálfstfl. og kasta fram till. á Alþ., og meginefni till. er það: Nei, farið nú gætilega. Við skorum á ríkisstj. að hlutast til um, að sjútvmrh. fari ekki of hratt í þessu máli, hann athugi alla hluti vandlega, áður en nokkuð er gert í málinu. — Um það er till. Og þar er ýmislegt kostulegt upp talið. En þetta átti sérstaklega að sýna áhuga Sjálfstfl. núna rétt fyrir kosningar varðandi þetta þýðingarmikla mál. Upphaf till. var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Nd. Alþingis ályktar að skora á sjútvmrh. í framhaldi af yfirlýsingu hans um fyrirgreiðslu við smíði nokkurra skuttogara að fela þeim aðilum, sem fara munu með framkvæmd þessa máls, að hafa samráð við samtök togaraeigenda, sjómanna og eigenda hraðfrystihúsa vegna væntanlegrar endurbyggingar togaraflotans.“

Það mátti búast við því, að nú hlypi sjútvmrh. á sig, færi nú allt of hratt og gerði þetta líklega án samráðs við alla. Já, hann þarf að gæta vel að sér, því að í till, segir enn fremur: „Einnig verði athugaðir möguleikar á erlendum lánum.“

Sér er nú hver uppfinningin! Það er rétt að skjóta þessu að sjútvmrh., að togararnir verði ekki keyptir lánalaust og kannske borgaðir út í hönd og landið sett á hausinn. Það hafa ekki verið keyptir togarar hér til landsins, svo að ég muni til, án þess að þeim hafi fylgt allrífleg erlend lán, enda hefur það staðið alveg opið allan tímann, að hægt hefur verið tiltölulega auðveldlega að fá upp í 90% af andvirði skipanna að láni. Það hefur ekki staðið á því, að það vantaði peninga til framkvæmdanna. Það hefur staðið á því, að menn skildu, um hvað var að tefla og hvað átti að gera, og að þeir hefðu vilja til þess að ráðast í hlutina. En þeir, sem eru ekki enn búnir að átta sig á því, að nýjustu tegundir af togurum, eins og skuttogarar, séu betri en síðutogarar, gömlu togararnir okkar, þeir sem eru enn að fálma við það annaðhvort að taka skip á leigu eða fálma við það að kaupa einhverja reynslutogara, eiga auðvitað mikið eftir til þess að nálgast það, að þeir geti leyst vandamál togaraútgerðarinnar í landinu, eins og komið er. Sannleikurinn er sá, að svona hefur þessu verið varið á undanförnum árum með afstöðu ríkisstj. yfirleitt til sjávarútvegsins og nýjunga á vegum hans.

Þessi hv. þm., 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, fór, eins og vill stundum verða, þegar þeir reyna að bera hönd fyrir höfuð stjórnarinnar fyrir hennar aðgerðarleysi, þá hljóp hann í það að reyna að draga mynd upp af því, hvað hefði verið að gerast í þessum málum á vinstristjórnarárunum. Og þar virtist hann ekki vera allt of vel að sér, þessi hv. þm. Hann hélt því fram, að á þeim tíma hefði enginn maður viljað kaupa nýtt skip vegna þess, hvernig ástatt hefði þá verið í íslenzkum útgerðarmálum. En þessu var ekki svona farið. Menn geta að vísu villzt á þessu. Ég hef þurft að benda fleirum en honum á það, — og það er auðvitað svolítil sárabót fyrir hann, að hann sé ekki miklu verri í þessum efnum en sumir hverjir aðrir, þó að hann sjái ekki ýkjalangt, — að þegar menn eru að átta sig á því og fletta upp í gömlum skýrslum, hvernig aukning t.d. skipaflotans hefur átt sér stað, verða menn að átta sig nokkuð á því, hvernig þessi mál ganga raunverulega fyrir sig. Þegar þessi hv. þm. slær upp töflu og lítur á það, hvað var keypt mikið af skipum á árinu 1956 eða 1957, og sér það á skýrslunum, að árið 1957 var komið tiltölulega lítið af nýjum skipum, 1957 var vinstristjórnarár, þar með hefur vinstri stjórnin ekkert gert í málinu, og 1958 kom dálítið meira af skipum, en ekki mjög mikið, aftur 1959 kom mjög mikið af skipum, og 1960 var komin viðreisnarstjórn, þá kom mjög mikið. Menn draga þá ályktun: Það var ekki fyrr en viðreisnarstjórnin kom, sem kom kippur í þessi mál, og þá fóru menn að trúa á framtíðina og þá keyptu þeir skipin. Svona er þessu nú ekki varið. Skipin, sem komu árin 1959 og 1960, þegar meira kom af skipum til landsins en nokkru sinni fyrr, voru pöntuð í tíð vinstri stjórnarinnar og allur grundvöllur lagður að þeim þá, vegna þess að það tekur 1–2 og stundum allt upp í 3 ár, frá því að ákveðið er að kaupa skip og samningar eru gerðir um þau, þar til þau eru komin og skráð og veitt eru lán út á þau hér á landi.

Ef þessi hv. þm. lítur á skýrslur, sér hann einmitt, að svona er þessum tölum háttað. Innflutningur á skipum til landsins var mjög mikill á árinu 1959. Það voru skipin, sem var verið að leggja grundvöllinn að á árunum 1958 og 1957, og á árinu 1960 sérlega mikið, — það voru einmitt þau skip, sem leyfi voru veitt fyrir seinni hluta ársins 1958 og á árinu 1959 í beinu framhaldi með samningum á milli þeirra flokka, sem þá stóðu að kjördæmabreytingunni, — leyfi, sem þeir gáfu út sameiginlega og samkomulag var um þeirra á milli. Og þessi skip voru sem sagt að koma til landsins og komu í gagnið á árinu 1960, og þessi skip voru einmitt keypt samkv. þeim grundvelli, sem lagður var á vinstristjórnarárunum.

Veit þessi hv. þm. það, að fyrsti stálfiskibáturinn, sem fluttur var til landsins og markaði í rauninni alveg tímamót í gerð okkar skipa nú í seinni tíð, var keyptur inn samkv. sérstakri forgöngu vinstri stjórnarinnar? Það kom í minn hlut að senda út sérstakan mann og gera samning um kaup á þessum bát í Noregi, fyrsta 150 tonna fiskibátnum, sem keyptur var til Eskifjarðar og gerbreytti síðan viðhorfum manna til stærðar og gerðar þessara fiskibáta. Og síðan kom hvað af öðru, vinstri stjórnin samdi, beint fyrir milligöngu ríkisins, um kaup á 12 skipum, 250 tonn að stærð, í Austur-Þýzkalandi, sem enn í dag eru einhver beztu skip í íslenzka síldveiðiflotanum. En það var hlutverk Sjálfstfl. á þessum tíma að ráðast alveg sérstaklega að þessum skipum sem sérstökum vandræðaskipum. Og síðan var það hlutverk Sjálfstfl. að taka þannig á móti þessum nýja flota, sem grundvöllurinn var lagður að í tíð vinstri stjórnarinnar, þessum miklu stærri og betur útbúnu skipum, sem voru að koma til landsins á þessum árum, að heil syrpa af þm. Sjálfstfl., 7 talsins, komu hér fram á Alþ. með till. um það, að ríkisstj. gerði sérstakar ráðstafanir til þess að hjálpa þessum stóru skipum við sérstakan útgerðarrekstur við Afríkustrendur, vegna þess, eins og stóð í till. þeirra sjálfstæðismanna, að það væri enginn rekstrargrundvöllur fyrir svona skip á Íslandsmiðum. Svona sáu þeir vel fram í tímann þá. Þetta var þeirra forusta. Hún er ekkert ósvipuð því einmitt, sem kemur fram í málflutningi þessa hv. þm. nú í dag.

En ég hafði af tilviljun hérna hjá mér m.a. fræðirit Efnahagsstofnunarinnar, og þar er m.a. skýrt frá því, hvað var að gerast varðandi okkar fiskiskipastól á þessum árum og þó einkum á fyrri hluta tímabili viðreisnarstjórnarinnar. Þessi skýrsla nær því miður ekki nema aftur til ársins 1960, en það ár var skipainnflutningurinn meiri en hann hefur verið nokkru sinni áður og nokkru sinni síðar. En á árinu 1960, á verðlagi þess árs, þá er verðmæti fiskiskipaflotans, nýrra innfluttra skipa, talið vera 478 millj. kr. En hvað gerðist á árinu 1961 og 1962? Þá hættu menn svo að segja algerlega að kaupa ný fiskiskip til landsins. Þeim leizt ekkert á viðreisnina, og þá hrundu kaupin úr 408 millj. kr. niður í 151 millj. Og það var síðan ekki fyrr en uppgripasíldaraflinn fór að koma til, sem nýju skipin færðu að landi, tiltölulega góður síldarafli á árinu 1961, ágætur síldarafli 1962, þá fóru menn sjálfir að hafa aðstöðu til að geta brotizt í gegn og hefja kaup á nýjum skipum, sem aftur koma svo til landsins á árunum 1963 og 1964. En það var gefið út m.a. af Fiskifélagi Íslands með sérstakri aths. frá fiskimálastjóra, Davíð ólafssyni, að á árunum 1961 og 1962 varð útkoman sú varðandi okkar fiskiskipastól, að hann fór rýrnandi þau tvö ár. Aukningin samsvaraði ekki á þeim árum útstrikunum af skipaskrá. Og enn er rýrnun á flotanum. Ástæðurnar til þessa voru auðvitað þær, að árið 1960 var íslenzkum sjávarútvegi mjög óhagstætt vegna þeirra stefnu, sem þá var tekin upp. Árið 1961 var einnig mjög þungt, og þannig fór versnandi hagur útgerðarinnar áfram. En það er kannske rétt að minna þennan hæstv. þm. með nokkrum orðum á það, hvað aftur hefur raunverulega verið að gerast í málefnum sjávarútvegsins nú síðustu árin, sem hafa verið sjávarútveginum óhagstæð og ber að rekja beint til stjórnarstefnunnar, en hann þykist vilja losa hana undan því að bera ábyrgð á því, hvernig komið er. Kannast þessi hv. þm. við það, að ríkisstj. hafi ákveðið með efnahagsstefnu sinni að stórhækka alla vexti í landinu? Kannast hann við það? Getur hann gert sér það í hugarlund, hvað það muni þýða fyrir íslenzkan sjávarútveg, þegar vextirnir eru stórhækkaðir? Getur hann gert sér grein fyrir því, hvað það muni þýða fyrir t.d. bátaútveginn, þegar stofnlánavextir í stofnlánasjóði sjávarútvegsins eru skyndilega færðir upp úr 41/2% vöxtum upp í 61/2%? Vitanlega er verið að stórauka álögurnar á útgerðinni á þennan hátt, og þegar verið er að knýja hér í gegn samþykkt um að lækka stofnlánatímann úr 20 árum niður í 15 ár, eða úr 15 árum niður í 12 ár, eins og gert var, þá er vitanlega líka verið að leggja viðbótarbagga á útgerðina. En einmitt slíka bagga hefur ríkisstj. verið að leggja á í fjöldamörgum greinum. Ein greinin var þessi, sem ég hafði hér minnzt á og þessi hv. þm. vék að, en það er hið svonefnda ábyrgðargjald í sambandi við kaup á nýjum bátum. Hann hélt, að hann hefði þá þægilegu leið að segja: Ábyrgðargjaldið var líka borgað í tíð vinstri stjórnarinnar. — Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm. Í tíð vinstri stjórnarinnar giltu þær reglur, að þá var frjálst að kaupa skip erlendis frá, þegar menn fengu til þess innflutningsleyfi, en þá var sú regla í gildi, að menn urðu að fá leyfi til þess að kaupa inn skipin, og þá voru engar sérstakar hömlur settar á það, að menn mættu ekki greiða þessi skip með eðlilegum hætti eins og hvern annan innflutning. En í tíð núverandi ríkisstj. voru settar þær reglur, að það er ekki leyfilegt að flytja fiskiskip inn til landsins þannig að það sé borgað út. Það eru þau skilyrði á um lánveitingar úr fiskveiðasjóði, að 7 ára lán verði að fylgja erlendis frá á 70% af andvirði skipsins, og það eru þessar reglur, sem hafa kallað á það, að það þurfti sérstaka bankaábyrgð, og bankarnir fóru þá út í það að taka 1% á ári af ábyrgðinni og komast í það að taka á þennan hátt 1/2 millj. af hverjum venjulegum nýtízku síldarbát, sem keyptur er til landsins núna, — 1/2 milljón. Efast kannske hv. þm. um það? Ég hef nefnilega alveg nýlega séð einn reikning yfir bát, sem fór nokkuð yfir 1/2 millj. En það kann að vera, að á árinu 1958 hafi samt einhverjir bátar verið fluttir inn þannig, að eigendurnir hafi fengið eitthvað að láni erlendis, því að það var ekki bannað, ef það greiddi eitthvað götu þeirra, og í einstaka tilfellum fengu menn viðbótarlán erlendis við þau lán, sem þeir gátu fengið hér úr fiskveiðasjóði. En slíkt hefur verið bannað nú, að taka slík lán til fiskibátakaupa, og þeir hafa þurft að setja bankatryggingu fyrir slíku. En hin almenna regla var ekki svona, enda var það svo, þegar þá var samið við samtök sjávarútvegsins um rekstrargrundvöll bátanna á hverju ári, þá óskuðu þeir aldrei eftir neinni aðstoð varðandi þessi mál. En nú hafa óskirnar komið fram margendurteknar frá hálfu sjávarútvegsmanna og samtökum þeirra um að fá leiðréttingu á þessu. En þeir hafa ekki fengið þá leiðréttingu.

Þessi hv. þm. ætti líka að vita það, að í tíð núverandi stjórnar hefur bátafloti landsins beinlínis með sérstökum stjórnaraðgerðum verið skattlagður til þess að standa undir hallarekstri togaranna í landinu, bæði í gegnum aflatryggingasjóð og eins í gegnum vátryggingakerfið. Og ríkisstj. hefur ekki enn komið því í verk að breyta þessu. Hún heldur sér enn þá við sína stefnu í þessum efnum.

Það eru þessi atriði, sem ég hef m.a. minnzt á nú, ásamt mörgum öðrum, sem ég hef gert að umtalsefni áður, sem í öllu sanna það, að stefna núverandi ríkisstj. í málefnum sjávarútvegsins hefur verið sjávarútveginum fjandsamleg. Þessi atriði öll sýna það og sanna. Og við þetta bætist svo auðvitað það, sem hér skiptir þó allra mestu máli, en það er afstaða ríkisstj. til verðlagsmálanna í landinu. Ríkisstj. virðist beinlínis hafa látið sér það í léttu rúmi liggja á undanförnum árum, hvort verðlagið innanlands stórhækkaði eða ekki. En slíkt hlaut vitanlega að falla á útflutningsatvinnuvegina með auknum þunga og vitanlega með mjög alvarlegum afleiðingum, eins og reynslan hefur sýnt. Ríkisstj. hefur knúið hér í gegn á Alþ. æ ofan í æ löggjöf t.d. um hækkun á söluskatti, fyrst úr 3% í 51/2%, svo úr 51/2% í 71/2% o.s.frv. Þetta hefur hún gert, þó að hún hafi vitað, að þetta hlaut að endurkastast í verðlaginu og valda útflutningsatvinnuvegunum erfiðleikum. Á meðan svo stóð, að verðlagið á mörkuðum erlendis var sjávarútveginum mjög hagstætt og aflinn var einnig mikill, þá gat þetta flotið, þó á þennan hátt, að togaraútgerðin hefur verið að dragast saman og útgerð minni báta hefur einnig verið að dragast saman, en þetta hefur þó skrimt, á meðan þessi ytri skilyrði voru svona hagstæð.

Svo kom þessi hv. þm. og sagði, að nú loksins hefði sjálfstæðismönnum tekizt að brjóta í blað í málefnum sjávarútvegsins, og það var þegar þeir köstuðu hér fram frv. um fiskimálaráð. Þá var brotið í blað í málefnum sjávarútvegsins. Sér er nú hvað! Lagt er til að stofna samkundu, sem gæti í bezta falli verið eins og málfundaklúbbur, hefur í rauninni enga aðstöðu til þess að hafa nein áhrif, vegna þess að þessi samtök ráða ekki yfir neinu fjármagni. Þá fann líka hv. þm. það út, að það væri að vísu rétt, að þessi samtök réðu ekki yfir miklu fjármagni, en ef samtökin reyndust vel svona fjármagnslaus, þá mætti láta þau hafa peninga síðar. Það var gott. Ef þessi samtök reyndust vel peningalaus og aðstöðulaus, þá mátti kannske láta þau hafa peninga síðar. En þannig verða ábyggilega vandamál sjávarútvegsins ekki leyst. Ef á að hafa einhver áhrif t.d. í markaðsmálum, eins og rætt er um, að þetta fiskimálaráð eigi að hafa, þá þarf það að fá allvíðtækt vald. Það þýðir ekki, þó að það jafnvel setti fram einhverjar frómar óskir. Slíkar óskir hafa verið að koma fram frá samtökum útvegsins á undanförnum árum, og hefur ekki verið farið mikið eftir þeim. Ríkisstj. hefur hiklaust reynt að knýja fram þá stefnu, t.d. í markaðsmálum, sem beinlínis hefur skert aðstöðu sjávarútvegsins, sem hefur svipt íslenzkan sjávarútveg góðum mörkuðum, sem áunnizt höfðu.

Þessi hv. þm. sagði, að þann tíma, sem ég hefði verið sjútvmrh., hefði ég ekkert blað brotið í íslenzkum sjávarútvegsmálum. Og það má vel til sanns vegar færa, ef það er slíkt blaðbrot sem hv. þm. talar nú um í sambandi við flutninginn á þessari till. nokkurra sjálfstæðismanna um fiskimálaráð. Um slík blaðbrot var tiltölulega lítið að ræða í minni tíð. En það eru nokkrar staðreyndir, sem liggja alveg óumdeilanlega fyrir frá þeim tíma, sem ég var sjútvmrh. Það liggur m.a. fyrir og er verkefni fyrir þennan hv. þm. að rannsaka það, að þau 21/2 ár, sem ég var sjútvmrh., kom það aldrei fyrir, að íslenzki sjávarútvegurinn stöðvaðist í verkföllum eða neinum öðrum rekstrarstöðvunum. Allan tímann gat bátaflotinn, togaraflotinn og fiskiðnaðurinn gengið fullum gangi. Það var séð um það með samningum við þessa aðila, að það var hægt að fullnýta íslenzkan sjávarútveg á þessum tíma, en það er meira en hægt er að segja bæði um tímabilið á undan og eftir, því að í tíð viðreisnarstjórnarinnar hefur hver stöðvunin rekið aðra. Þannig var það t.d., að árið 1957, sem þessi hv. þm. taldi eitt af góðu árunum í tíð vinstri stjórnarinnar, — en það er líka mikill misskilningur, árið 1957 var mikill aflabrestu. Í fyrsta skipti í langan tíma brást aflinn svo heiftarlega, t.d. hér suðvestanlands á vetrarvertíð, að þá þurfti að greiða sérstakar bætur úr aflatryggingasjóðskerfinu til bátanna hér við Faxaflóa, — en ástæðan til þess, að á árinu 1957 var heildaraflinn þó eins mikill og hann hafði mestur orðið áður eða árið 1956, var sú, að það var um 20% meiri þátttaka í útgerð vélbáta en hafði verið árið á undan. Það voru miklu fleiri bátar, sem stunduðu veiðar, og þeir stunduðu þær miklu lengri tíma. Árið 1958 var hins vegar miklu betra ár, og því er það rétt, sem ég sagði hér, að árin 1958 og 1959 voru hagstæð ár, það voru næstu tvö árin, áður en viðreisnarstefnan tók við.

Hv. 3. þm. Austf., Sverrir Hermannsson, sagði, að í skjóli góðæris hefði ég sloppið út úr sjútvmrh.- starfinu án mikilla áfalla. Hið rétta er sem sagt það, að árið 1957 var íslenzkum sjávarútvegi mjög erfitt, og það var ekki aðeins, að þá væri um miklu minni afla að ræða en á árunum á undan, heldur voru líka ýmis ytri skilyrði mjög óhagstæð það ár. Framan af því ári var verðlag á ýmsum innfluttum vörum til sjávarútvegsins alveg óvenjulega hátt, sem stafaði af ófriðlegu ástandi í heiminum, þegar farmgjöld hækkuðu stórkostlega frá því, sem áður var, og þetta vitanlega skall með auknum þunga á sjávarútveginum. Og þessi hv. þm. gæti líka kynnt sér það, að í minni tíð sem sjútvmrh. var einmitt lagður grundvöllurinn, eins og ég hef vikið hér að nokkuð oft áður, að þeirri nýsköpun í íslenzka sjávarútveginum, sem við höfum byggt á síðan. Og það má kannske minna þennan þm. á það einnig, að það kom í minn hlut að standa fyrir því, að ríkið gerði sérstakt samkomulag við einn af efnilegustu síldarskipstjórum í landinu, Eggert Gíslason, og útgerðarmann hans, Guðmund á Rafnkelsstöðum, um það að kaupa fyrstu stóru hringnótina, sem notuð var við vetrarsíldveiðar við Ísland, og sanna þar með þeim veiðitilraunum, að það var hægt að veiða síld á þennan hátt, eftir þessum leiðum, einmitt hér suðvestanlands. Og það var einmitt upp úr þessu, með gjörbreytingu fiskiskipastólsins að gerð allri og útbúnaði, sem tök urðu á því að notfæra sér þessa nýju veiðitækni og skila öllum þeim árangri, sem síðan hefur orðið. Og það kom einnig í hlut þessarar vinstri stjórnar að leggja allan grundvöll að síldariðnaði þeim, sem allt hefur hvílt á síðan, en núverandi ríkisstj. hefur lagt harla litið til. Þær síldarverksmiðjur, sem mestu máli hafa skipt fyrir okkar síldarútgerð hin síðari ár, voru byggðar með sérstakri forgöngu af hálfu vinstri stjórnarinnar, og þær hafa síðan orðið færar um að leggja sér til fjármagnið sjálfar, en fengið neitun úr þeim lánasjóðum, sem ríkisstj. hefur sérstaklega ráðið yfir.

Hv. 3. þm. Austf. komst þannig að orði, að það væri stefna okkar Alþb.-manna, að vera með nefið niðri í hvers manns koppi, eins og hann orðaði það, varðandi uppbyggingu atvinnuveganna í landinu. En þannig er sem sagt allajafna lýsingin hjá fulltrúum sjálfstæðismanna á því, þegar verið er að taka afstöðu til þess, hvort rétt sé að hafa einhverja skynsamlega stjórn á því, hvernig fjárfestingu í landinu er háttað, þá heitir það þessum nöfnum, að nú séu menn uppi með kröfur um það að hafa nefið í hvers manns koppi. En það verður hins vegar að segjast, að í tíð vinstri stjórnarinnar var engan veginn tekin upp sú yfirstjórn, sem við Alþb.-menn vildum í málefnum atvinnuveganna, við fengum þar okkar kröfum ekki fullnægt. Við vildum taka þar miklu fastar á málum en gert var. Hins vegar var reynt að hafa nokkra íhlutun um, hvernig fjármunum þjóðarinnar var varið, og dómur Sjálfstfl. síðan hefur orðið sá, að við höfum þrengt mjög hag verzlunarinnar í landinu og það hafi verið komið í veg fyrir, að verzlunin gæti byggt sig upp á eðlilegan hátt, og síðan hefur sú mikla aukning, sem orðið hefur nú í tíð viðreisnarstjórnarinnar í byggingu verzlunarhúsa, verið afsökuð með því, að við höfum kreppt svo að verzluninni m.a. í tíð vinstri stjórnarinnar. Það er alveg rétt, að við reyndum að hafa á því nokkrar hömlur þá, og verzlunin, sem hafði vitanlega þá eins og oft áður nokkra sérstöðu um möguleika til þess að geta ráðizt í miklar fjárfestingar, varð að sækja um leyfi til þess að mega ráðast í meiri háttar fjárfestingar. Og það má vel vera, að í einhverjum tilfellum hafi verið synjað um leyfi, sem réttmætt hefði verið að veita. Það vill jafnan verða svo, þegar reynt er að hafa heildareftirlit með þessum málum. En ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar á heildina er litið, var ekki kreppt svo að íslenzkri verzlun í tíð vinstri stjórnarinnar, að það hafi verið þjóðarbúskap okkar til tjóns, síður en svo. En ég efast ekki heldur um, að það, sem verið hefur að gerast nú síðari árin varðandi útþensluna í verzluninni, hefur verið ofviða fyrir íslenzkt efnahagslíf og þar höfum við verið að eyða fjármunum, sem ástæðulaust hefur verið að eyða.

Þessi hv. þm. nefndi svo það, að hann hefði grafið það upp, að t.d. í einu þorpi á Vestfjörðum hefði slæðzt í gegn eitt viðbótarfrystihús og þannig hefðu orðið þrjú frystihús í þessu byggðarlagi, og það hefði gerzt með leyfi vinstri stjórnarinnar. Ekki skal ég nú sverja fyrir þetta, þekki það ekki, en þó er mér sagt það af kunnugum mönnum, að þetta leyfi, sem mun vera eitt það allra minnsta, sem veitt hefur verið til frystihúsabyggingar á landinu og varla teljandi, muni hafa verið veitt af þeirri ríkisstj., sem var við völd, ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., áður en vinstri stjórnin tók við, og ætti hv. þm. að athuga þetta betur. En sem sagt, þarna er þá a.m.k. fundið eitt af frystihúsunum, sem nýja stefnan hjá núv. stjórn ætlar sér að taka til athugunar og ætlar sér sýnilega að leggja niður, því að eitthvað á að leggja niður af frystihúsum, eftir því sem boðað er. Nú ætti hv. þm. að upplýsa það hér á Alþ., hvaða byggðarlag þetta er, svo að það fari ekkert á milli mála og menn geti fengið að vita um það nú þegar, að þarna er þó einn, sem á að slá af. (Gripið fram í.) Já, ég held, að það ætti að koma fram fyrir kosningarnar, ekki væri það lakara.

Ég hef nú vikið hér að nokkrum atriðum, sem hv. þm. gaf tilefni til. Ég skal ekki ræða þetta mál öllu lengur, enda er komið fram að venjulegum matartíma, og verð ég fyrir mitt leyti að biðja hæstv. ríkisstj. afsökunar á því, að það hefur farið nokkur tími í að ræða málið fram yfir það, sem hún hafði gert sér vonir um. En sem sagt, nýjar ræður, sem eiga að birtast í Morgunblaðinu, kosta sinn tíma líka í umr. hér á Alþingi.