21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það urðu nokkrar umr. hér í gær um þessi mál, og það var einkum það, sem kom mér til þess að standa upp og segja nokkur orð.

Ég vil taka það fram í byrjun um þetta frv., að ég geri ráð fyrir, að það sé nauðsynlegt að samþykkja það, og ég mun greiða atkv. með því, þrátt fyrir það að ég álít, að það sé ekki stefnt í rétta átt með þessu frv. Það á að gera ráðstafanir til þess að lækka rekstrarkostnaðinn við sjávarútveginn með skynsamlegum ráðstöfunum, m.a. með ýmsum löggjafarákvæðum. En mér er alveg ljóst, að það er ekki hægt að koma því við á þessu þingi, vegna þess að það er nærri búið, og það þarf miklu meiri undirbúning en hægt er að framkvæma nú, svo að ég geri ráð fyrir, að það sé óhjákvæmilegt að veita þessa aðstoð nú. Hins vegar get ég ekki fallizt á það, eins og hefur komið fram í atkvgr., að það sé tekið af því fé, sem búið er að úthluta með lögum til sveitarfélaganna. Það er verið að breyta þeim lögum, það er ekki staðið við þá samninga eða við þau ákvæði, sem búið er að gera gagnvart þessum aðilum, og í öðru lagi álít ég það tæpast verjandi af Alþ. að gera það hvað eftir annað að ákveða fjárveitingar til verklegra framkvæmda og breyta því svo á sama þingi. Þeir aðilar, sem standa að þessum framkvæmdum, búast við þessu fjárframlagi, hafa gert ráð fyrir því, og þetta er varla sæmandi, þetta er í raun og veru ekki að standa við samninga af ríkisins hálfu. En það er nú búið að fella till. um þetta, svo að ég skal ekki ræða meira um það. En þetta er mín afstaða til málsins í stórum dráttum.

Hér urðu talsverðar umr. í gær um sjávarútvegsmálin, og það kom hér nýr þm., sem ekki hefur verið á þessu þingi fyrr, og talaði í þessu máli, og ég verð að segja, að það komu fram atriði, sem eru eftirtektarverð, í ræðu hans, því að þar var talað af dálítilli þekkingu og viti. Ég sleppi því, þó að hann færi að skamma stjórnarandstöðuna, það er nú eins og gengur, að menn deila alltaf hver á annan, og viðvíkjandi því, að við höfum sýnt ábyrgðarleysi í stjórnarandstöðu, má vel vera, að framsóknarmenn hafi ekki sýnt eins mikla ábyrgðartilfinningu í vissum tilfellum og vera bæri af stjórnarandstöðu. En ég held, að við höfum a.m.k. þá getað lært af sjálfstæðismönnum, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu frá 1956–1958, því að þeir kiknuðu ekki undan ábyrgðartilfinningunni þá, og ég efast um, að það hafi verið illvígari stjórnarandstaða nokkurn tíma en einmitt þá. Hitt er annað mál, að mér er það alveg ljóst, að það er mjög áríðandi, að stjórnarandstaða sé ábyrg á hverjum tíma, og það er í raun og veru undirstaðan undir því, að við getum búið við heilbrigt þingræði, að stjórnarandstaðan sýni á hverjum tíma ábyrgðartilfinningu, ekki sízt þegar ríkisstj. hefur jafnlítið framkvæmdavald og hér. Hér styðst ríkisstj. ekki við her, og þar er yfirleitt látið allt eftir öllum. En það, sem kom fram hjá þessum ræðumanni, hv. 3. þm. Austf., var t.d. sú setning, að það væri þýðingarlaust að ræða um endurnýjun á fiskibátaflotanum frá 40–120 tonn, skulum við segja, nema skapa heilbrigðan rekstrargrundvöll. Þetta er alveg satt. Menn fást vitanlega ekki til að kaupa þessi skip og gera þau út, ef það er ekki rekstrargrundvöllur fyrir hendi, og þá verður bara að finna, hvaða leiðir eru til þess. Þetta var rætt hér m.a. af sérfræðingi Alþb. í sjávarútvegsmálum. Hann benti á nokkur atriði, en ég sá enga lausn gagnvart bátunum viðvíkjandi þeim atriðum, sem hann benti á. En það kom fram hjá hv. 3. þm. Austf. athyglisverð ábending.

En þessa spurningu skulum við bara leggja fyrir okkur, og við skulum reyna að svara henni. Við verðum að gera okkur þetta ljóst. Það er ekki hægt að búast við því, að það sé hægt að efla útgerð þessara báta, nema það sé fundinn einhver rekstrargrundvöllur fyrir þá. Það kom fram hjá hv. 5. þm. Austf., hann talaði um skuttogara, þeir áttu að leysa allan vanda, og skammaði ríkisstj. fyrir að hafa ekki keypt skuttogara eða gert ráðstafanir til þess. En hvaða ávinningi getum við búizt við af skuttogurum? Brezkar skýrslur telja, að þeir gefi um 5% meira aflamagn. Ég miða ekki við, þó að einstakir menn skrifi áróðursgreinar í Morgunblaðið um þetta, en opinberar skýrslur í Bretlandi telja þetta. Það er enn fremur talið, að það þurfi færri menn. Tryggvi Ófeigsson, sem er allra manna reyndastur í togaraútgerð hér á landi, telur, að það muni ekki þurfa miklu færri menn, nema það sé breytt eitthvað vinnutilhögun, sem hefur ekki fengizt breytt á togurum hér. Má vera, að það fáist, ef önnur togaragerð fæst. En við skulum segja, að þetta sé eitthvað talsvert hagstæðara. Það má bara vera nokkuð miklu hagstæðara, til þess að það borgi sig að kaupa skip fyrir 60–100 millj., miðað við það, að togararnir núna eru í sáralitlu verði, sem eru reknir hér og bera sig ekki, vantar allmikið á það. Þar fyrir er ekkert á móti því að reyna þetta. En við þurfum ekki að ímynda okkur, að þetta leysi allan vanda, og annað er það, að þessir togarar gera ekkert betur en bera sig hjá Þjóðverjum og Englendingum, og þeir búa við betri söluskilyrði en við. Þeir þurfa ekki að borga innflutningsgjöld af sínum fiski. Þetta munar frá 10–17%, þannig að meðan þeir gera ekki betur en bera sig hjá þeim, eru engar líkur til, að þeir geti borið sig hjá okkur. Við þurfum að búa við sömu skilyrði hvað það snertir að selja fiskinn, til þess að þeir geti borið sig jafnvel hjá okkur. En það er ekkert nema gott um það að segja að prófa þessar leiðir, en við skulum ekki blekkja okkur á því, að þetta leysi allan vanda, og þetta leysir alls ekki vanda bátanna.

Þá talaði hv. 5. þm. Austf. líka, — mér þykir leiðinlegt, að hann er ekki við, og ég ætla ekki að hefja neinar árásir heldur á hann og allra sízt persónulega, hann segir margt vel í sjávarútvegsmálum og hefur athugað þau mál vel, — hann ræddi um vextina, og þar erum við allir sammála, sem viljum á annað borð ræða það rólega, að vextirnir hafa gert sitt til að auka kostnað útgerðarinnar og þó minnst báta af þessari gerð, vegna þess að þeir voru flestir keyptir áður en vextirnir hækkuðu og búa því við hagstæðari vaxtakjör. En fyrir mitt leyti álít ég alveg sjálfsagt að lækka vexti á stofnlánunum, einkum hjá þessum bátum.

Hv. 5. þm. Austf. hafði tækifæri til þess að láta ljós sitt skína gegnum störf bátaútvegsnefndar, sem starfaði á s.l. ári og skilaði áliti. Ég býst við, að það hafi flestir lesið þetta nál. En þó að þessar till. séu yfirleitt jákvæðar hjá nefndinni gagnvart bátunum, er ekki fengin nokkur einasta lausn, endanleg lausn á vandanum. Þýðingarmesta atriðið var, að það var 10% hækkun á fiski, og hvar átti að taka það? Ríkissjóður átti að borga það. Það er því alveg sama lausnin og kemur fram í þessu frv., þ.e. að ríkið borgi, og það, að atvinnuvegirnir beri sig ekki og ríkið borgi hallann, leiðir undantekningarlaust af sér gengislækkun. En ef peningamálum er hagað þannig, að fólkið geti ekki treyst því, að peningarnir haldi sínu verðgildi, myndast eyðslusemi og verðbólga eins og núna. Menn reyna að koma peningum sínum í einhver verðmæti, sem þeir halda að séu varanleg, og þá myndast þetta ástand, sem hefur verið núna undanfarin ár: of mikil fjárfesting, of lítið fjármagn til þess að lána til atvinnuveganna, rekstrarfjárskortur og verðbólga. Það er alger undirstaða undir því að hafa heilbrigt efnahagslíf, að menn geti treyst genginu, — alger undirstaða, — og til þess að geta treyst gengi verða atvinnuvegirnir að bera sig. Þess vegna var alveg rétt stefna hjá ríkisstj., þegar hún lagði af stað 1960 eða 1959 og lýsti því yfir, að höfuðstefnumál hennar væri að láta atvinnuvegina bera sig. Þetta var alveg rétt. Ríkisstj. bara gerði þetta ekki. Við vitum, að þeir eru hættir að bera sig, og í því liggja mistökin, en ekki í því, að stefnuskráin væri vitlaus.

Við skulum reyna að gera okkur ljóst, hvað við getum gert, til þess að þessir bátar geti borið sig. Þessari spurningu verðum við að svara. Og ef þeir geta ekki borið sig gerist þetta, sem hefur gerzt undanfarna áratugi. Það var fellt gengið 1950. Það var fellt gengið 1960. Það er tvísýnt, hvort við komumst að árinu 1970, án þess að gengið sé enn fellt, mjög tvisýnt. Það er þess vegna algert undirstöðuatriði fyrir okkar fjármálakerfi að finna lausn á þessum vanda, að sjávarútvegurinn geti borið sig.

Það kom bara ein ábending fram, og það var hjá hv. 3. þm. Austf. í gær, ein jákvæð ábending gagnvart þessum bátum, og það var að heimila þeim að vissu marki togveiðar innan landhelgi. Á hverju haldið þið, að Vestmanneyingar lífi núna? Þeir hafa bara lifað á togbátunum í vetur og eins í fyrra. Hv. 5. þm. Austf. taldi, að þetta skipti þá engu máli, fyrir stríð eða áður en landhelgislínunni var breytt hefði verið sáralítið um togveiðar. Þetta er nú rétt og rétt ekki. Það var alltaf talsvert af því fyrir sunnan og norðan land, en fyrir Austfjörðum og Vestfjörðum hefur þetta sennilega ekki skipt miklu máli. En bara aðstæðurnar eru breyttar. Þá var hægt að fá nógan mannskap til að gera út á línu. Nú er það ekki hægt. Og það er útilokað fyrir sjávarþorpin, bæði sunnan- og norðanlands, að afla sér hráefnis með skaplegum kostnaði, án þess að þessi undanþága sé veitt. Við verðum að gera okkur þetta ljóst. Og þess vegna er að gera það hreinlega upp við sig: Á fólk að búa á þessum stöðum við mannsæmandi lífskjör, eða á þar að vera sama fátæktin og alltaf hefur verið? Þetta verðum við að gera upp við okkur. Það þýðir ekki að vera að blekkja sig svona. Ég hef átt tal um þetta við vissa ráðh., og mér hefur skilizt, að það gæti komið til mála, ef öllum togskipum er leyft þetta. En ég álít bara með stærri togarana, að ef þeir geta ekki veitt nema uppi við strendurnar, þá höfum við ekkert með þá að gera, þá getum við veitt bara á togbáta. Og eins er náttúrlega alveg sjálfsagt að takmarka þetta, og það er gert í frv., sem ég hef lagt fram, það eru alveg takmörk fyrir því. Og það er miklu heiðarlegra og betra að hafa einhverjar skynsamlegar reglur um þetta en hafa það eins og nú er, að það er alls staðar veitt, þar sem hægt er að toga. Ég hef sannar sögur af því, það fer ekki hátt, og það er ekki birt í útvarpinu, en þeir hafa tekið milli 20 og 30 tonn á sólarhring, Vestmannaeyjabátar, núna í vetur alveg uppi í landsteinum náttúrlega. Svo er verið að taka þá í hópum. Það er verið að taka þá, og ekkert er gert, enginn borgar sekt.

Ég kalla þetta ekki þjóðfélag, sem hefur í heiðri sínar réttarreglur. Það er ákaflega heimskulegt að hafa löggjöf, sem ekki er framfylgt. Við eigum að haga löggjöfinni þannig, að hún sé það réttlát, að hægt sé að framfylgja henni. Vitanlega er ómögulegt að taka kannske rétt alla skipstjóra í Eyjum og sekta þá háum sektum eða jafnvel setja í fangelsi, það vitum við. Þess vegna verða reglurnar að vera þannig að það sé hægt að fara eftir þeim. Ímynduðuð þið ykkur, að Vestmanneyingar gerðu þetta, ef þeir þyrftu þess ekki? Þetta er skilyrði til þess að geta lifað. En hugsunarhátturinn er bara þannig fyrir norðan, að það leggur enginn út í að brjóta þessar reglur, og þess vegna vantar okkar þessa báta og vantar þetta hráefni, sem Vestmanneyingar lifa á og Keflvíkingar og fleiri sjávarþorp hér sunnanlands.

Nei, þingið á að sjá sóma sinn í að breyta þessum reglum, færa þær í skynsamlegra horf og búa þannig að þeim aðilum, sem hafa þörf fyrir að fá þetta hráefni, að þeir geti fengið það með skaplegum kostnaði. Þetta er undirstöðuatriði. Svo er annað atriði, að það er ekkert gagn að vera alltaf að bæta upp fiskinn og svo kemur skriðan á eftir og allir kostnaðarliðir hækka. Það eru alveg óteljandi útgjaldaliðir, sem er hlaðið á útgerðina, og ég dreg í efa, að það sé nokkur einasti þm., sem man eftir öllum þeim útgjaldaliðum, sem útgerðin þarf að borga. Og alltaf er verið að bæta á það, alltaf er verið að fjölga sjóðstillögum og öllu mögulegu. Þetta verða menn að athuga. Það verður að gera róttæka athugun á því, hvað gera þarf, til þess að útgerðin geti borið sig, því að það er undirstaðan undir heilbrigðu fjármálakerfi í okkar landi.

Ég ætla nú ekki að halda langa ræðu, en ég skal bara telja upp fáeina liði, sem ýmist hafa verið búnir til hjá þessari ríkisstj. eða eldri, — útgjaldaliði, sem útgerðin verður að greiða. Það er nú fyrst vaxtahækkunin, sem er kannske erfiðasti liðurinn, það er um 21/2% og tvöfaldaðir dráttarvextirnir. Annar liður er hækkað orlof, mjög hár liður, og það þarf að greiða það af hlut, eins og þið vitið. Þriðji liðurinn er launaskattur, mjög hár liður, bæði fyrir fiskvinnslustöðvar og bátana. Fjórði liður er 35% tollur á varahluti í vélar og tæki í skipin. Fimmti liður er 4% tollur á veiðarfæri. Hann var nú einhver áður en þessi stjórn tók við enda er ég ekkert sérstaklega með ádeilur á þessa ríkisstj. viðvíkjandi þessum liðum. En þetta þurfum við að borga, 4% á veiðarfæri. Sjötta, við verðum að borga hlut í veikindaforföllum, sem getur skipt kannske allt að því, — það hefur einn sagt mér, að hann hafi orðið að borga 150 þús. kr. þannig. Menn fá hlut í veikindaforföllum, í staðinn fyrir að eðlilegt væri að hafa bara venjulegt kaup eða tryggingu, og það meira að segja hefur hv. 5. þm. Austf. fallizt á í sínu nál., sem er jákvætt að því leyti til. Sjöunda er veiðarfæraskatturinn, sem er nú óbeint búið að leggja á með því að setja innflutningshömlur á innflutt veiðarfæri, og nú er komið frv. fram um að leggja hann á, 1%. Ég veit ekki, hvort það er samkomulag um það, en vænta má þess, að það fari í gegn, fyrst frv. er komið aftur, og var þegar búið að leggja skatt á útgerðina með innflutningshömlunum, til þess að Hampiðjan gæti lifað. Áttundi liðurinn er framlag til kaupa á síldarleitarskipi, sem fáeinir aðilar buðust til þess að leggja fram. Einstaka síldveiðiskip er vel stætt og vildi bjóða þessa fórn. Níunda er framlag í aflatryggingasjóð. Tíunda er framlag í sjúkrasjóð, það er nú 1%, og það er það, sem veríð er að biðja um lögtaksheimild á núna í þinginu til að geta selt bátagarmana fyrir útgerðarmönnum, af því að þeir geti víst ekki borgað þetta gjald sumir þeirra. Ellefta er, að við þurfum að borga sjúkrasamlagsgjald fyrir alla skipshöfnina, jafnt skipstjóra sem aðra. Tólfta er smáframlag til samtaka sjómanna. Það er breyting, sem var víst gerð núna, en það var ekki bein hækkun, heldur var skipt tillaginu. Þrettánda er til Landssambands ísl. útvegsmanna. Fjórtánda er til byggingar haf- og síldarrannsóknarskips. Fimmtánda er til rannsóknarstofnunar sjávarútvegsins. Sextánda er til fiskimálasjóðs. Seytjánda er til fiskveiðasjóðs. Átjánda, aðstöðugjald á töp af bátum, sem virðist vera býsna ósanngjarnt að borga af töpunum. Nítjánda atriðið, sem er talsverður útgjaldaliður, er þessi endalausu stimpilgjöld af hverju smáláni, sem tekið er í bönkunum. Það væri ósköp auðvelt að breyta þeirri löggjöf þannig að gera þetta auðveldara fyrir útgerðina. Það er gróflega hart fyrir hana, þegar menn fá 200–300 þús. kr. lán og tekinn er 1. veðréttur í afla, að þurfa þá að borga há stimpilgjöld í hvert skipti og endurnýja þetta sí og æ, að menn geti ekki fengið þetta varanlegt einhvern veginn. Tuttugasta er það, að hverju einasta smáláni er þinglýst, sem menn fá í þessum blessuðum bönkum, þ.e.a.s. að Búnaðarbankanum undanskildum. Það er mikill kostnaður við þetta, og væri ósköp auðvelt fyrir löggjafann að breyta þessu og gera þetta einfaldara og kostnaðarminna fyrir útgerðina. Tuttugasta og fyrsta eru skrásetningargjöld fyrir hásetana. Tuttugasta og annað eru alls konar tryggingar, sem ekki er nú óeðlilegt að við borgum, bæði af mannskap og öllu mögulegu, það er í fjöldamörgum liðum.

Tuttugasta og þriðja eru lífeyrissjóðsgjöld, sem togararnir borga, en ekki við, og ég ætla aðeins að minnast á, því að ég hef átt tal um þetta við togaraeigendur, og þeir telja þetta einhverja þyngstu byrðina, sem þeir verða að bera viðvíkjandi útgjaldaliðunum. Og þeir verða að borga 6%, mennirnir 4%. Þetta þýðir a.m.k. 6% kauphækkun. Þetta telja þeir einhvern erfiðasta liðinn. Og þeir segja, að mikið af þessu sé tekið aftur. Þeir verða að borga til útlendinganna, og þegar þeir fara, fá þeir þetta greitt, og eins er með skólafólk, það fær þetta endurgreitt. Það er kannske allt gott um þessi lífeyrissjóðsgjöld að segja. Við verðum bara að gera okkur það ljóst, að atvinnuvegirnir verða að þola þetta. Og þegar þeir bera sig ekki og ef á að bæta þessu gjaldi ofan á, þarf náttúrlega ríkissjóður að styrkja þá enn meira. Þetta er alveg ljóst. Það er alveg sjálfsagt að hafa tryggingar, en þessar tryggingar eru þegar komnar í sæmilegt horf. Við getum alveg eins hækkað dálítið almannatryggingar. En varðandi það að stofna þessa lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, eins og verið er að tala um, verðum við að athuga það, að þá kemur þetta á bátana. Þeir þurfa að fá enn meiri framlög og enn meiri aðstoð. Þetta eru 23 útgjaldapóstar, sem við verðum að borga. Og svo er ráðgerður verðjöfnunarsjóður. Það verður 24. pósturinn. Ég tel víst, að ég hafi gleymt einhverju, en ég skrifaði þetta upp í dag. Þetta er endalaus runa, sem við verðum að borga, og sumt af þessu væri hægt að fella alveg niður, öðru væri hægt að breyta til hagræðis fyrir útveginn, og á annan hátt væri mikið hægt að hjálpa til að lækka rekstrarkostnaðinn.

Svo kem ég að síðasta liðnum. Það er, að öll vinna undanfarið hefur verið keypt á svörtum markaði. Nú segja járniðnaðarmenn, að þeir hafi ekki nóg að gera. Af hverju ekki? Af því að það er ódýrara að sigla með skipin til annarra landa og láta gera við þau þar. Þetta er ósköp einfalt. Það er búið að halda þannig á málunum, að það borgar sig fyrir stærri skipin að fara til annarra landa og láta gera við þau þar. (Gripið fram í.) Það er t.d. mjög mikill orðrómur um, að það sé ekki unnin öll sú vinna, sem reiknuð er. Og þegar eftirspurnin var svona mikil eftir vinnunni, vissi ég ósköp vel, að það þýddi ekki fyrir okkur að segja nokkurn skapaðan hlut. Okkur var bara sagt að þegja eða þeir hættu að vinna. Og ég gæti sagt ótal sögur af því. Kostnaðurinn er því orðinn þetta mikill hér. Það borgar sig fyrir þá, sem það geta, að fara til annarra landa og láta gera við skipin. Við verðum að hafa okkar vinnutilhögun og kostnað við vinnuna þannig, að við séum samkeppnishæfir. Það þýðir ekkert að tala um að smíða skip hér, ef við getum ekki gert það fyrir eitthvað svipað og nágrannaþjóðir okkar geta það. Þetta er undirstaðan, að atvinnulífið beri sig, það verðum við að athuga. En það að hlaða alltaf útgjaldalið ofan á útgjaldalið, skatti ofan á skatt og skatti við skatt er ekki hægt. Og svo verðið þið að athuga það, þegar þetta er komið í þetta horf, að útgerðarmenn eða fulltrúarnir fara til ríkisstj. og segja: Við verðum að fá þetta og þetta margar krónur eða mörg prósent í viðbót við fiskverðið, til þess að við förum af stað. — Hvar haldið þið, að þetta endi? Það eru gerðar endalausar kröfur. Ábyrgðartilfinningin minnkar og sjálfsbjargarviðleitnin. Það er reynt að gera þessa útkomu sem versta hjá frystihúsum og bátum, koma svo og heimta meira og meira. Þetta á raunar við fleira en sjávarútveginn.

Það er undirstaðan, að við verðum að reka atvinnulífið á heilbrigðum grundvelli, ef við eigum að hafa heilbrigt fjármálalíf. Við skulum ekki blekkja okkur á þessu. Þess vegna verðum við að horfast raunhæft í augu við það, hvernig við getum látið atvinnuvegina bera sig. Og ég vil spyrja þessa góðu menn, sem vilja ekki gera neinar undanþágur með togbátana: Hvernig viljið þið afla hráefnis handa kauptúnunum í Norðurlandskjördæmi vestra? Svarið þið því. Ég veit, að Vestfirðingar geta aflað síns hráefnis á línu og í net. En við getum það bara ekki. Skýrið þið, hvernig þið viljið afla hráefnisins. Línan ber sig ekki, og það er ekki hægt að stunda línuveíðar nema svona 3–4 mánuði. Hvað á að gera?

Það, sem er að drepa útgerð þessara báta, er, hvað á að gera við þá milli vertíðanna. Það er allt í lagi þessa tvo mánuði, marz og apríl, þá getum við veitt hvað sem er í net.

En svo kemur dauði tíminn, og það er sá tími, sem gerir að verkum, að bátarnir bera sig ekki. Þá fara Vestmannaeyingar að toga. Þeir eru raunar farnir að toga alla vertíðina núna og moka upp ýsunni upp við landsteina. Og það vil ég segja, að geti verið dálítið tvírætt, hvort á að leyfa. Og eins er ég á því, að við eigum að friða viss svæði, hrygningarsvæði, og þar eigum við að hafa strangt eftirlit. Við þurfum að tryggja það, að fiskurinn geti aukið kyn sitt, hann geti hrygnt í næði, og þetta þarf allt að rannsaka. Og fiskifræðingarnir viðurkenna það. Jón Jónsson hefur sagt það við mig. Ég má bera það fyrir mig, hvar sem er. Frv., sem ég kem með, er hann algerlega samþykkur. Hann segir, að það sé ekki vitund hættulegra að veiða í tog en önnur veiðarfæri, ef möskvastærðin sé hæfilega stór, — ekki vitund skaðlegra. Því eigum við þá ekki að hafa heimild til að nota það veiðarfæri, sem er ódýrast, eina veiðarfærið, sem getur borgað sig? Togararnir sigla með fiskinn til útlanda, mikið af honum. Fólkið fær ekki vinnu við það. Það er enginn vandi fyrir sjómenn í sjávarþorpunum norðanlands að fá vinnu. Þeir geta farið vestur á land og verið á bátunum hvar sem er í kringum landið. Það er heimafólkið, sem við verðum að útvega vinnu og það gera ekki aðrir en bátarnir. Þess vegna verðum við að búa þannig að þeim, bæði hvað snertir löggjöf og eins veiðiheimildir, að þeir geti borið sig. Þetta er undirstaðan. Þeir, sem eru á móti þessu, það er bezt, að þeir skýri, hvernig við eigum að afla hráefnis, svo að fólkið geti lifað, fólkið hafi nóg að gera. Bendi þeir á leiðirnar. Og ekki skal standa á mér, ef ég sé, að það er hagkvæmt, — ekki skal standa á mér að vera með því. En það hefur bara ekki komið, og hv. 5. þm. Austf. kom ekki með neitt til lausnar þessu máli. Hann talaði um skuttogara, hann talaði um háa vexti og ýmislegan ódugnað í ríkisstj., en hann benti á enga leið til þess að gera kleift að reka þessa báta, hvorki hvað snerti togveiðar né lækkuð útgjöld á neinu sviði. En þessi stefna að hlaða alltaf útgjöldum á atvinnuvegina endalaust er framkvæmd af mönnum, sem ekki vita, hvað þeir eru að gera, og þess vegna er ekki hægt að vera reiður yfir því. Og þetta veit hver einasti útgerðarmaður í landinu. Þegar við erum að tala saman, viðurkenna þetta allir. Þeir vita ekkert, hvað þeir eru að gera. Og svo endar þetta svona. Það er bara heimtað fé úr ríkissjóði, og þegar það er orðið nógu mikið, þýðir það rangt gengi, og þá er gengið fellt, sem er sú mesta kjaraskerðing, sem hægt er að gera gagnvart fólkinu. Þá er kaupið látið lækka aftur.

Svo eru öll þessi blessuð útgjöld og óendanlegu útgjöld og óendanlegar kröfur. Þetta kemur allt á atvinnulífið fyrr eða síðar, og það er hægt að ofþyngja því. Og þegar það er búið að ofhlaða á atvinnuvegina, er gengið lækkað, og fólkið tekur byrðarnar, svo að þetta er nokkurs konar Kleppsvinna allt saman. (Gripið fram í.) Ég veit það ekki, ég held, að það geti nú ekki liðið á löngu, áður en leiðandi menn okkar fara að sjá þetta, fara að sjá raunveruleikann og geri róttækar, raunhæfar ráðstafanir til þess að laga þetta, því að það er engin lögun að veita hundruð milljóna úr ríkissjóði í verðuppbætur á fiskinn. Það verða bara enn hærri upphæðir að ári. Það er hægt að taka þetta í ár. Við fengum alveg sérstakt ár 1965. Það var stórkostlegur afgangur hjá ríkissjóði. Og svo er þetta hirt af verklegum framkvæmdum og jöfnunarsjóði sveitarfélaga og ríkisábyrgðasjóði. Það er hægt að reyta svona í þetta. En hvar verður það tekið að ári? Með hækkuðum sköttum, sem þýða minni kaupmátt krónunnar og væntanlega gengislækkun, áður en lýkur.

Það eru ekki nema tvær leiðir til. Það er að snúa við, gera með skynsamlegri löggjöf og skynsamlegum ráðstöfunum sjávarútveginum gerlegt að bera sig, eða við förum sömu leið og við höfum alltaf farið: kaupmáttur krónunnar lækkar, og gengið verður lækkað, og það veldur um 30% lækkun á kaupi hvers einasta manns í landinu.