21.03.1967
Neðri deild: 58. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

147. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. 2. minni hl (Jón Skaftason):

Herra forseti. Ég hafði ekki eftir þá framsögu, sem ég hafði fyrir nál. okkar í þessu máli í gærdag, ætlað að leggja fleiri orð í belg um þetta frv. En ræða sú, sem hv. 3. þm. Austf. flutti í gær, gefur nokkurt tilefni til aths. af minni hálfu, auk þess, sem fram kom hjá honum í ræðu þeirri, sem hann flutti hér áðan. Ég gæti trúað því, að ræða hv. þm. í gær hafi verið meiri háttar bjarnargreiði við hæstv. ríkisstj. Ræðan var að sumu leyti skemmtileg. Hún var gífuryrt, og víða gætti mótsagna í henni, eins og ég mun reyna að víkja lítillega að, og ýmsir þungir sleggjudómar voru þar kveðnir upp yfir ýmsum aðilum í landinu.

Hv. 3. þm. Austf. vék að því í ræðu sinni í gær, að lítið hefði verið bitastætt í þeirri ræðu, sem ég flutti um frv. við 1. umr. þess í hv. d. En þó sagði hann, að þar hefði verið eitt atriði, sem hefði verið alveg hárrétt hjá mér, en það var þegar ég vék að þeim erfiðleikum, sem sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn ættu við að stríða vegna óðaverðbólgu þeirrar, sem verið hefur hér í landinu öll undanfarandi ár, síðan viðreisnarstjórnin kom til valda, með örlitlum undantekningum. Hann undirstrikaði, að þessi óðaverðbólga hefði skapað marga og mikla erfiðleika í sjávarútvegi og fiskiðnaði, og tel ég það ekki alveg gagnslausa viðurkenningu af hálfu þm. úr stjórnarliðinu. En um hvað fjallaði sú ræða, sem ég flutti hér við 1. umr. frv. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins? Hún fjallaði að langmestum hluta um þá erfiðleika, sem óðaverðbólgan hefur skapað í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Langstærsti hluti ræðu minnar gengur út á það að sýna fram á orsakasamhengið annars vegar á milli óðaverðbólgunnar og hins vegar erfiðleikanna, sem er nú að finna í þessum höfuðatvinnuvegi landsmanna. Það er líka eftirtektarvert, að í grein í Morgunblaðinu, sem birtist í dag og er úr ræðu hv. þm, frá í gær, er þessum hluta ræðunnar algerlega sleppt. Þar er ekki vikið að því einu orði. Ég vil aðeins til upplýsingar og til þess að skerpa skilning hv. alþm., ef hann þá hefur eitthvað sljóvgazt, á þeirri meginstaðreynd, sem hæstv. fyrrv. forsrh. vakti sérstaka athygli á og orðaði mjög vel á fyrstu dögum viðreisnarstjórnarinnar, en þá komst hann þannig að orði, að ef ekki tækist að ráða við verðbólguna, mundi flestallt annað unnið fyrir gýg. Þessi setning held ég, að hafi brennt sig inn í hugskot margra manna, sem á þau hlýddu og lásu þau í Morgunblaðinu. Ég hygg því, að þegar menn nú reyna að meta árangur viðreisnarstjórnarinnar, hljóti þetta atriði að vera mjög þungt á metaskálunum. Ég hygg, að það verði ekki um það deilt, að óðaverðbólgan hefur geystst fram með svo miklum krafti á síðustu árum viðreisnarstjórnarinnar, að engin dæmi finnist slíks úr stjórnmálasögu Íslands síðustu áratugina.

Þá vék hv. ræðumaður að þeim ummælum mínum og taldi þau hreina fjarstæðu, að stjórnarstefnan væri sjávarútvegi og fiskiðnaði fjandsamleg í grundvallaratriðum. Mér þykir leitt að þurfa að endurtaka ýmislegt af því, sem ég hef áður sagt, bæði í umr. um þetta frv. og raunar oft áður, en ég kemst þó ekki hjá því að rekja nokkur aðalatriði þessu til sönnunar.

Í fyrsta lagi, og það er meginástæðan, sem réttlætir þessi ummæli mín, tel ég, að hæstv. ríkisstj. hafi á margan hátt haft forustu um þá verðlagsþróun, sem hér hefur orðið innanlands undanfarin ár og hefur orðið sjávarútveginum sérstaklega erfið. Þær gífurlegu hækkanir, sem hér hafa orðið á útgerðarkostnaði og framleiðslukostnaði, eru ekki sízt tilkomnar vegna þess, að ríkissjóður hefur þurft að leggja álögur á landsmenn í síauknum mæli til þess að standa undir þeim kröfum, sem til ríkisvaldsins eru gerðar á hverjum tíma. Þetta sést bezt, ef menn athuga upphæð fjárl. eins og hún var 1958 og eins og hún er nú árið 1967. Það er staðreynd, að fjárlögin hafa hækkað á þessum tíma á milli fimm- og sexfalt. Við höfum orðið vitni að því hér á hv. Alþ., að hvers kyns skattar, bæði beinir skattar og óbeinir skattar, hafa verið hækkaðir ár eftir ár og ýmis önnur gjöld, bæði til ríkisins, til sveitarfélaganna og til ýmissa þjónustufyrirtækja í landinu hafa fylgt fast á eftir. Við búum nú við það ástand, að fjárhagur ríkissjóðs er undir því kominn, að hægt sé að halda uppi hömlulausum innflutningi til þess að afla tekna í ríkissjóðinn og til þess að standa undir hinum ýmsu útgjöldum hans. Úr þessum vítahring, sem við erum nú staddir í, verður ekki auðvelt að komast.

Í öðru lagi tel ég, að stórhækkaður fjármagnskostnaður í sjávarútvegi og í fiskiðnaði sé ein af ástæðunum fyrir erfiðleikunum, sem þar er að finna nú. Það var minnzt á það hér áðan í ræðu þeirri, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti, að vextir hafa verið hækkaðir um 21/2% á stjórnartímabili viðreisnarstjórnarinnar og dráttarvextir hafa verið tvöfaldaðir á sama tímabili. Því til viðbótar má nefna, að stofnlán hafa verið stytt mjög verulega hjá stofnlánasjóðum sjávarútvegsins, og hefur þetta allt verkað í þá stefnu að auka á erfiðleikana, sem fyrir eru í þessum atvinnuvegi.

Í þriðja lagi hefur ríkisstj. beitt sér fyrir því og látið framkvæma lækkun afurðalána úr 67% í 55%.

Í fjórða lagi vil ég nefna að sú viðskiptastefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt, hefur óneitanlega skapað vissa erfiðleika í sambandi við markaðsmálefni sjávarútvegsins. Það hefur verið á það minnt hér í umr. um þetta mál, að vegna þeirrar stefnu, sem ríkisstj. fylgir, hafi verið að glatast markaðir, t.d. fyrir frysta síld, bæði í Póllandi og í Tékkóslóvakíu, á undanförnum árum. Ég er hér með fyrir framan mig samþykkt, sem gerð var á framhaldsaukafundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 12. jan. s.l., sem víkur að þessu atriði sérstaklega, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framhaldsaukafundur SH, haldinn 12. jan., átelur, að ekki skuli hafa verið endurnýjaðir vöruskiptasamningar í því formi, sem þeir áður voru, við Pólland og Tékkóslóvakíu, þ.e. á jafnvirðiskaupagrundvelli með ákveðnum vörulistum. Telur fundurinn, að unnt hefði verið að ná viðskiptasamningum á óbreyttum grundvelli. Þessi lönd hafa verið meðal helztu kaupenda á freðsíld frá Íslandi, og hefur nú komið í ljós, að ekki reynist unnt að selja þeim nema brot af því magni, er þau áður keyptu af freðsíld, og mun breyttu viðskiptafyrirkomulagi hér aðallega um að kenna. Afleiðingin af þessu er, að frystihúsin hafa neyðzt til þess að hætta frystingu síldar.“

Fleiri atriði mætti nefna. Það t.d. vekur dálítið umtal og furðu nokkra, að á sama tíma og norsk yfirvöld hafa verið að þrengja að markaði fyrir íslenzkar afurðir í Noregi, eins og t.d. útflutt saltkjöt, en nú eru uppi raddir í Noregi um að afnema algerlega þann kvóta, sem er fyrir íslenzkt saltkjöt þar, þá keppumst við Íslendingar við að byggja flestöll okkar skip í Noregi, þrátt fyrir það að við gætum sennilega aflað sjávarútveginum stórfelldra og hagstæðra markaða í Póllandi, ef við vildum kaupa af Pólverjum í staðinn þau skip, sem við nú látum smíða í Noregi. Og mér er fortalið af þeim, sem þekkja þessi mál vel, að Pólverjar geti bæði um gæði skipanna, um lán til skipanna og aðra fyrirgreiðslu verið fullkomlega samkeppnisfærir við það, sem er í Noregi.

Fimmta atriðið, sem ég vil nefna og rennir stoðum undir, að það er rétt hjá mér, þegar ég segi, að stefna ríkisstj. sé í mörgum atriðum sjávarútvegi og fiskiðnaði fjandsamleg, er það afskiptaleysi, sem ríkisstj. hefur sýnt á rúmlega 7 ára valdaferli sínum gagnvart t.d. hnignun togaraflotans í landinu og gagnvart þeim samdrætti, sem orðið hefur í byggingu og rekstri smærri báta. Það hefur verið upplýst, að allt þetta tímabil hefur enginn nýr togari verið byggður. Togurunum, sem voru um 46, að ég ætla, í upphafi valdaferils viðreisnarstjórnarinnar, hefur nú fækkað í rekstri niður í kringum 20, og bátaflotinn undir 100 rúml., sem á árinu 1958 var að tölu 614 skip, er nú á árinu 1967 kominn niður í 577 skip. Og það er eftirtektarverð yfirlýsing, sem hv. 3. þm. Austf. gaf í , umr. í gær og var að vikið hér af hv. 5. þm. Norðurl. v. áðan, að hann segir, að það sé þýðingarlaust að endurnýja fiskiskipaflotann, meðan enginn rekstrargrundvöllur sé til fyrir þessa báta. Vissulega má þetta til sanns vegar færa, en hvað hefur þá hæstv. ríkisstj. gert á undanförnum 7 árum til þess að reyna að skapa þann rekstrargrundvöll, svo að hægt væri að halda áfram uppbyggingu þessa fiskiflota, sem er nauðsynleg forsenda þess, að hráefnisöflun frystihúsanna sé í lagi? Ég hygg að það sé næsta fátæklegt.

Í sjötta lagi, og það skal vera síðasta dæmið, vil ég nefna þá fjölmörgu sérskatta, sem lagðir hafa verið á sjávarútveg og fiskiðnað undanfarandi ár. Hv. 5. þm. Norðurl. v. vék að þessu áðan og hann las upp að mig minnir, 24 eða 25 dæmi um ýmsa sérskatta á þessari atvinnugrein, svo að ég skal láta það nægja um það atriði.

Hv. 3. þm. Austf. talaði mikið í gær um auknar veiðiheimildir til togveiða innan núv. landhelgi og taldi, að ef það yrði gert, mundi það vera allra meina bót. Ég er nú ekki eins sannfærður um, að það sé rétt ályktað hjá honum, þó að ég geti vel lýst því yfir sem minni skoðun, að mér finnst ekki óeðlilegt, að það sé tekið til athugunar í sambandi við t.d., ef samþ. verður sú þáltill., sem ég hef flutt og fleiri um hagnýtingu fiskimiðanna, þá sé tekið til athugunar, að hve miklu leyti togveiðar skuli stundaðar í skipulögðum veiðum landsmanna. En ég held, að fyrri reynsla gefi ekki ástæðu til þess að mega álykta sem svo, að það, þó að togveiðiheimildir yrðu auknar og útfærðar frá því, sem er, mundi verða einhver allsherjarlausn.

Eitt þeirra vandamála, sem var athugað í svokallaðri bátanefnd, var einmitt þetta atriði um auknar togveiðar innan landhelgislínunnar fyrir minni bátana. Í n. voru, eins og hv. alþm. er kunnugt, 5 alþm. úr öllum flokkum, og um þetta atriði urðu þeir sammála um eftirfarandi niðurstöðu, sem mig langar til að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Að þessu öllu athuguðu telur n., að mjög takmarkaður árangur yrði af því að veita allt að 100 rúml. bátum leyfi til fiskveiða með botnvörpu í landhelgi, og auk þess þarf mjög sérhæfðar áhafnir til botnvörpuveiða, þannig að óvíst verður að telja, að auðveldara yrði að fá menn til þeirra en til annarra veiða af umræddri bátastærð. Með hliðsjón af þeim samningum við erlenda aðila um friðun fiskimiða utan landhelgi, sem n. mælir eindregið með, að hafnir verði, álítur hún, að nú sé ekki hentugur tími fyrir Íslendinga til að auka sínar eigin togveiðar í landhelgi, hvorki með smáum né stórum skipum. Telur hún hyggilegra, eins og ástatt er, að við geymum okkur réttinn til að auka botnvörpuveiðar í landhelgi, þar til séð verður, hvaða undirtektir það fær hjá hlutaðeigandi þjóðum, að gerðar verði ráðstafanir til þess að friða ókynþroska fisk á tilteknum svæðum utan landhelginnar.“

Sem sagt, niðurstaðan er sú, að nú sé ekki tímabært að breyta þeim reglum um togveiðar í landhelgi, sem í gildi eru, og það sé gert vegna þess, að nú sé tímabært að leita samninga við erlendar þjóðir um aukna vernd fyrir smáfiskinn fyrst og fremst, sem er drepinn í stórkostlegum stíl hér við landið og fiskifræðingar eru sammála um, að sé meginástæðan fyrir minnkandi fiskgengd á Íslandsmiðum.

Af mörgu skemmtilega fráleitu, sem hv. 3. þm. Austf. staðhæfði í gær, var þó sú staðhæfing hans fráleitust, að það væri fyrst nú í tíð hæstv. ríkisstj., sem umtalsverð skipulagning á öllum okkar þjóðarbúskap væri hafin. Ríkisstj. hefði gert sér ljóst, að þörf væri á sem nákvæmustum áætlunarbúskap í þjóðfélagi okkar, sagði hv. þm. Ég verð nú að segja, að mér kom þetta nokkuð spánskt fyrir eyru, ef svo má segja, því að hingað til hef ég alltaf heyrt það básúnað út og þá sérstaklega úr herbúðum þess stjórnarflokksins, sem hv. þm. tilheyrir, að frelsisskipulagið væri það, sem hentaði okkur bezt, og yfirleitt hefur sá flokkur, sem hann tilheyrir, ekki lýst sig í meginatriðum fylgjandi áætlunarbúskap á Íslandi. Ég veit ekki, hversu hrifnir hæstv. ráðh. eru af þessari yfirlýsingu þessa nýja þm., en allt um það er það staðreynd, að á rúmlega 7 ára valdaferli ríkisstj. hefur farið næsta lítið fyrir því, að hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir skipulagi eða skipulagningu í uppbyggingu atvinnuveganna eða ræki þjóðarbúskap okkar í átt við það, sem nefna mætti áætlunarbúskap. Það er eftirtektarvert, að það er nú fyrst á síðustu dögum þessa þings nokkrum mánuðum fyrir alþingiskosningarnar, að hrúgað er inn í þingið frv. af hálfu stjórnarliða, sem vekja athygli á þörfinni fyrir því, að nú sé breytt um vinnubrögð og tekin upp skipulagning í sambandi við uppbyggingu atvinnuveganna. Hví hefur hæstv. ríkisstj. eða liðsmenn hennar ekki flutt þessi frv. fyrr? Hafa þeir ekki haft allan tímann fyrir sér til þess að koma þessum hlutum í þann farveg, sem hv. 3. þm. Austf. sagði, að núv. ríkisstj. hefði sérstakan áhuga á?

Hv. 3. þm. Austf. nefndi sem dæmi um þennan logandi áhuga hæstv. ríkisstj. frv. 8 sjálfstæðisþm. hér í Nd. um fiskimálaráð. Í grg. frv. segir m.a., að hlutverk fiskimálaráðs sé að móta heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og markaðsmálum. Ekki ber þessi tilvitnun úr grg. 8 sjálfstæðisþm. vott um, að miklum áætlunarbúskap hafi verið fylgt á undanförnum árum í sambandi við uppbyggingu sjávarútvegsins. Þau voru nú brosleg, þau stóryrtu orð, sem hv. þm. hafði um frv. flutning þennan, sem að mínu viti er ekki neitt sérstakur, en hv. þm. lá svo mikið á, að hann sagði, að með frv.-flutningi þessum væri brotið blað í sögu íslenzks sjávarútvegs og fiskiðnaðar.

Í gær var lagt hér fram á borð hv. þm. stjfrv. um skipulag framkvæmda á vegum ríkisins. Í grg. með því frv. segir m a.: „Frv. er tilraun til þess að reyna að komast út úr þeim vítahring, sem opinberar framkvæmdir hafa verið í um árabil og allir þekkja.“ Ekki ber þessi tilvitnun úr grg. stjfrv. um jafnveigamikinn þátt framkvæmda í þjóðfélaginu eins og opinberar framkvæmdir eru vottur um, að hér hafi verið fylgt áætlunargerð eða sérstakri skipulagningu í sambandi við ríkisframkvæmdir.

Fyrir nokkrum vikum, held ég að ég megi fullyrða, var frá því skýrt með stærsta letri í Morgunblaðinu, að svonefnt iðnþróunarráð hafi verið sett á laggirnar. Ég held, að meðal verkefna þess hafi verið það að vinna að bættri skipulagningu í sambandi við uppbyggingu iðnaðarins. Ég held því, að það sé nærri því sama, hvar hendinni er drepið niður í þessi mál, þá sé sú staðreynd yfirgnæfandi, að það er fyrst og fremst skipulagsleysi, sem hefur ríkt, bæði í sambandi við uppbyggingu atvinnuveganna og eins í sambandi við opinberar framkvæmdir hjá ríkinu. Þetta er viðurkennt í verki með frv.-flutningi þeim, sem ég m.a. gat um, og ýmsum þeim yfirlýsingum, sem hægt væri að endurflytja hér og ýmsir stjórnarliðar hafa gefið við ýmis tækifæri. Ég skal ekki fara út í það núna, enda lítill tími til þess.

Ég vil svo að síðustu aðeins víkja örfáum orðum að þeirri ræðu, sem hv. 3. þm. Austf. flutti hérna áðan. Það var að vísu ekki margt í henni, sem gefur tilefni til andsvara af hálfu okkar framsóknarmanna, enda var ræðan að mestu leyti upplestur úr grein í Þjóðviljanum eftir Jóhann J. Kúld, sem út af fyrir sig getur verið ágætt. En hv. þm. vék að uppgjafaryfirlýsingu forsrh. vinstri stjórnarinnar og fór nokkuð háðulegum orðum um hana. Um það getum við haft skiptar skoðanir, hann og ég. Það kemur vafalaust til af því, að við höfum sennilega ólíkar skoðanir á því, hvort ríkisstj. beri að sitja yfirleitt, eftir að þær koma ekki fram þeim stefnum, sem þær hafa lýst yfir við þjóðina, að þær muni fylgja. Ég vil aðeins segja hv. þm. m.a. frá því, að á árinu 1962, held ég að það hafi verið, var stofnuð ríkisstj. í Finnlandi undir forsæti Karialainens, að mig minnir. Þetta var ríkisstj. Bændaflokksins og minnir mig einhvers hægri flokks í finnska þinginu. Hún setti í upphafi fram sem stefnuskráratriði að halda verðbólgunni innan ákveðinna marka, mig minnir, að hún mætti ekki vaxa um meira en 3.5% yfir árið, ef henni tækist það ekki, þá mundi hún segja af sér. Þetta mistókst ríkisstj. finnsku, held ég strax á þriðja ári, og hún tók afleiðingunum af þessu og sagði af sér.

Hæstv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin okkar, gaf mikla stefnuyfirlýsingu á fyrstu mánuðum ársins 1960, þegar hún kom til valda. Aðalyfirlýsing hennar var sú, að hún ætlaði að tryggja blómlegan rekstrargrundvöll atvinnuveganna í landinu. Henni hefur mistekizt þetta fyrir löngu, en hún hefur ekki brugðizt mannlega við þeim mistökum, því að hún hefur beitt þrásetu í stað þess, sem heiðarlegum ríkisstj. ber að gera, að taka afleiðingum af meiri háttar mistökum og segja af sér.

Hv. þm. vék líka að uppbyggingu síldveiðiflotans, sem verið hefur allmikill nú hin síðari árin, og vildi þakka það stjórnarstefnunni. Hér er tvímælalaust rangt með farið. Að sjálfsögðu er sú mikla uppbygging í síldveiðiskipunum, sem er staðreynd nú hin síðustu árin, fyrst og fremst að þakka þeim gífurlega miklu aflabrögðum, sem verið hafa á síldveiðum, og hagstæðu verðlagi síldarafurða erlendis. Á það má minna, að langmestur hluti þeirra lána, sem ganga til uppbyggingar síldveiðiflotans, kemur með greiðslum frá sjávarútveginum sjálfum, og að sjálfsögðu hefur í þessu tilfelli fiskveiðasjóðurinn orðið mjög öflugur vegna hinnar miklu síldveiði undanfarin ár og getað lánað mjög mikið til uppbyggingar síldveiðiflotans. En ég held, að það sé ljóst, að það sé ekki á nokkurn hátt stjórnarstefnunni sem slíkri að pakka. Þar ráða ytri aðstæður fyrst og fremst.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil undirstrika það, að ég greiddi frv. atkv. til 3. umr. þrátt fyrir það, að felldar væru þær brtt., sem við framsóknarmenn fluttum við það, því að ég tel, að ástandið sé svo slæmt hjá þessari atvinnugrein, að sá fjárstuðningur, sem frv. ráðgerir til hennar, sé brýn nauðsyn.