28.02.1967
Efri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, en eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur hún ekki náð samstöðu um málið, þannig að við, sem stöndum að nál. meiri hl. á þskj. 272, mælum með því, að frv. verði samþykkt, en þó áskilja einstakir nm., sem að álitinu standa, sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að verða bornar. En einn nm. hefur skilað séráliti á þskj. 275, það er hv. 5. þm. Reykn., er leggur til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá. En þó að ágreiningur sé þannig um afstöðu til þessa máls, sem hér liggur fyrir, þá hygg ég það rétt skilið, að hann sé ekki af því sprottinn, að allir séu ekki sammála um, að það fyrirkomulag, sem nú er, sé óhagkvæmt og óeðlilegt, því að eins og greinargerðin með frv. ber með sér, hefur Viðtækjaverzlunin undanfarið naumast verið rekin sem verzlunarfyrirtæki, heldur fyrst og fremst sem gjaldheimtustofnun, og væru menn sammála um það, að hún eigi ekki öðru hlutverki að gegna, er auðvitað hagkvæmara og ódýrara að sameina hana öðrum opinberum gjaldheimtustofnunum, eins og raunar er lagt til í frv. En það, sem ágreiningurinn er hins vegar um, er það, hvort gera eigi þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, eða endurreisa Viðtækjaverzlunina sem einkasölu, þannig að hún gegni því hlutverki, sem henni var ætlað, er hin upphaflegu lög um hana voru sett.

Ég ætla ekki að fara út í það hér að ræða þá spurningu almennt, hvaða fyrirkomulag eigi að vera á innflutningsverzluninni, enda munu sjónarmið okkar sem að þessu nál. stöndum, vera mismunandi í því efni, þannig að hætt yrði við, að ég freistaðist þá til að fara út fyrir það umboð, sem mér hefur verið falið sem frsm. fyrir þessu nál. Ég skal þó taka það fram, að mín skoðun er sú, að ekki sé hægt að svara því með neinni einfaldri eða algildri formúlu, því að þótt ég telji að vísu, að samkeppni í innflutningsverzluninni hafi þá kosti, að þeir, sem mæla með öðru fyrirkomulagi, svo sem ríkiseinkasölu, hafi þar sönnunarbyrðina, þá er mér hins vegar ljóst, að þær aðstæður geta verið fyrir hendi, sem gert geta hið síðarnefnda fyrirkomulag nauðsynlegt. En afstaðan til þess, hvort innflutningurinn eigi að vera frjáls eða í höndum ríkiseinkasölu, hlýtur að mínu áliti að markast af því, hverra hagsmunir það eru, sem fyrst og fremst er tekið tillit til. Eiga það að vera hagsmunir neytenda eða innflytjenda? Að mínu áliti á aðalreglan að vera sú að velja það fyrirkomulag, sem bezt þjónar hagsmunum neytendanna. En ríkiseinkasala er fyrirkomulag, sem ólíklegt er til þess að þjóna vel óskum og þörfum neytenda, ekki sízt á því sviði, sem hér um ræðir, þar sem eru innkaup og dreifing útvarpstækja. Það, sem fyrst og fremst er heimtað af forstjóra ríkiseinkasölu, er, að hann skili þeim hagnaði, sem fjárlög gera ráð fyrir. Bregðist það, er hann vitanlega kallaður fyrir rétt af fjmrh., endurskoðendum ríkisreikninga og öðrum, sem eftirlit eiga að hafa með störfum hans. Hins vegar þarf hann ekki að standa neinum reikningsskil fyrir því, hvernig hagsmunum neytendanna hafi verið þjónað, hvort sú vara, sem á boðstólum er, sé ódýr miðað við gæði, hvort nægileg fjölbreytni sé í vöruvali o.s.frv. Það er heldur ekkert til viðmiðunar, þar eð allur innflutningur er á einni hendi. Og þar sem forstjórinn veit, að störf hans verða metin eftir því, hverju hann skilar í ríkissjóðinn, ekki eftir hinu, hvernig þörfum neytendanna er þjónað, þá er það ekki nema mannlegt og eðlilegt, að tillitið til neytendanna sitji á hakanum. Öðruvísi er, ef innflutningur er frjáls, þá verður hver einstakur innflytjandi að vera samkeppnisfær við aðra innflytjendur um verð og gæði vöru sinnar, ef hann á ekki að verða fyrir töpum og heltast úr lestinni.

Rökin fyrir því að fara þá leið, sem lagt er til í þessu frv., fremur en að hverfa aftur að einkasölunni, hljóta því að vera þau, að annað henti ekki hagsmunum neytendanna. Hitt er svo annað mál, að í öðrum tilvikum geta það verið önnur sjónarmið en tillitið til þess að þjóna sem bezt óskum og þörfum neytendanna, sem látin eru ráða því, hvaða fyrirkomulag vörudreifingarinnar sé talið heppilegast. Sem dæmi um það má nefna áfengisverzlunina. Flestir munu sammála um það, að áfengisneyzla, nema þá í miklu hófi, sé skaðleg bæði einstaklingnum og umhverfi hans. Þar er því ekki sama ástæða til að leggja sömu rækt við þjónustu við neytendurna eins og þegar um notkun menningartækja, sem útvarpstæki verða að teljast, er að ræða. Dreifing áfengra drykkja þjónar því öðrum markmiðum, nefnilega í fyrsta lagi því að skattleggja skaðlega neyzlu og í öðru lagi því að takmarka neyzluna. Til þess að þjóna slíkum markmiðum er ríkiseinkasala hentugt tæki, enda hygg ég það eiga fáa formælendur utan þings né innan, að innflutningur áfengis verði gefinn frjáls.

Ég get því að gefnu tilefni ekki látið hjá líða að nota þetta tækifæri til þess að andmæla þeim áróðri, sem oft er hafður í frammi gegn frelsi í innflutningsverzluninni, að slíkt frelsi þjóni aðeins hagsmunum innflytjenda eða jafnvel aðeins einstaklinga, sem innflutningsverzlun hafa með höndum. En það leiðir af því, sem ég hef nú bent á, að þegar slíku er haldið fram, er sannleikanum alveg snúið við. Við sjálfstæðismenn erum því að vísu vanir, að okkur sé borið það á brýn að sjá ekki annað en sérhagsmuni heildsalanna. Hitt er ekki að sama skapi daglegt brauð, að Alþfl. og Framsfl., sem stundum hafa þó lagt hönd á plóginn til þess að auka verzlunarfrelsi, eins og t.d. með því að standa að undirbúningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, og því nál., sem ég nú mæli fyrir, marki einnig málefnaafstöðu sína með tilliti til sérhagsmuna heildsalanna. Allt er það líka úr lausu lofti gripið, að frjáls innflutningsverzlun sé fyrst og fremst hagsmunamál heildsalanna. Þeim eru ekki sköpuð nein forréttindi með því að gefa innflutninginn frjálsan, enda hefur raunin engan veginn orðíð sú, að aukið frjálsræði í innflutningsverzluninni hafi leitt til útrýmingar annarrar innflutningsverzlunar en þeirrar, sem er á vegum einstaklinga. S.Í.S. er enn stærsta innflutningsfyrirtæki landsins, auk þess sem mikill innflutningur á sér stað á vegum annarra félagssamtaka og innkaupastofnana ríkis og bæjarfélaga og fyrirtækja þeirra. Það eru ekki innflytjendurnir, heldur neytendurnir eða almenningur, sem nýtur góðs af þeirri hagkvæmni, sem leiðir af frelsi í innflutningsverzluninni. Ef hlýða þykir hins vegar, svo sem áfengisverzlunin er dæmi um, að fyrirkomulag vörudreifingarinnar sé notað sem tæki til þess að skattleggja neytendurna í þágu innflytjandans, sem þar er ríkisvaldið, þá býst ég ekki við, að neinn ágreiningur sé um það, að einkasala sé þar hentugt tæki. Það getur líka átt við, þegar neyðartímar eru, svo sem styrjaldarástand, þegar sérstakir örðugleikar eru á því að útvega vöruna, að einkasölufyrirkomulag henti eða sé jafnvel óhjákvæmilegt. En sem betur fer er ekki nú um slíkt að ræða, þótt hin almennu vandræði, sem við var að etja á kreppuárunum, þegar núgildandi löggjöf um einkasölu á viðtækjum var sett, hafi ef til vill réttlætt slíkt fyrirkomulag þá. En afstöðu til þess, hvort það fyrirkomulag, sem rétt kann að hafa átt á sér fyrir 30 árum, miðað við þær aðstæður, sem þá voru fyrir hendi, ber auðvitað að taka með tilliti til þeirra ástæðna, sem nú eru fyrir hendi. En skv. því, sem ég hef sagt, verður að telja, að endurreisn einkasölu ríkisins á viðtækjum mundi vera andstæð hagsmunum notenda þessara tækja.