28.02.1967
Efri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Lagaákvæði um einkasölu ríkisins á útvarpsviðtækjum munu upphaflega hafa verið sett í lög um útvarpsrekstur ríkisins frá 1930, og þessi ákvæði héldust síðan lítið eða ekkert breytt við hina gagngerðu endurskoðun laga um ríkisútvarp, sem gerð var 1934. Þessi lagaákvæði um einkasölu á útvarpstækjum voru frá upphafi heimildarlög. Ríkisstj. ákvað á sínum tíma, eftir að lögin voru fyrst sett, að nota þessa heimild. Og eins og kunnugt er, þá rann allur hagnaður af þessari einkasölu til ríkisútvarpsins mörg fyrstu árin, sem einkasalan starfaði, og var ein af stoðunum undir fjárhag ríkisútvarpsins. Síðar var breytt til að því leyti, að um skeið rann hagnaðurinn af viðtækjaeinkasölunni til greiðslu á byggingarskuldum þjóðleikhússins. Og loks var þessum ákvæðum breytt þannig, að hagnaðurinn af viðtækjasölunni skiptist og hefur á undanförnum árum skipzt milli þjóðleikhúss og sinfóníuhljómsveitar. Sem sagt, allan tímann hefur hagnaðinum af þessari einkasölu verið varið til menningarstarfsemi, sem á hverjum tíma hefur verið mjög fjárþurfi.

Ég hygg, að rökin fyrir því að koma á einkasölu á þessu sviði hafi á sínum tíma verið þau, sem nú skal greina, og séu það að mestu eða öllu leyti enn í dag.

Það er í fyrsta lagi, að eins og margvíslegur annar varningur, þá eru útvarpsviðtæki misjöfn að gæðum, og það er frá þjóðhagslegu sjónarmiði mikil spurning, hversu margar tegundir á að flytja inn til landsins, allt frá hinum beztu og viðurkenndustu tækjum og til hinna, sem lakari eru. Viðtækjaeinkasalan stuðlaði að því, á meðan hún var og hét, að hér væru á boðstólum nokkrar, hóflega margar, vil ég segja, tegundir frá hinum viðurkenndustu framleiðendum. En þetta hefur verið með ýmsum hætti, þar sem hið fullkomna frjálsræði hefur ríkt, bæði nú eftir að einkasalan var raunverulega lömuð og á öðrum sviðum, þar sem innflutt hafa verið til þessa lands tugir, ef ekki hundruð tækja eða merkja, þó að frá þjóðhagslegu sjónarmiði hefði vafalaust verið hentugra að flytja inn færri tegundir, nokkrar þær, sem bezt reyndust.

Í öðru lagi er enginn efi á því, að þegar innflutningur slíks tækis sem þessa er á einni hendi, þá er hægt í mörgum tilfellum að ná betri viðskiptakjörum, þegar mikið er hægt að kaupa af einhverri vörutegund í einu.

Í þriðja lagi er enginn efi á því, að með einkasölufyrirkomulaginu er hægt að komast af með miklu minni fjárfestingu, með miklu minni birgðir af tækjum og varahlutum heldur en þegar innflytjendurnir skipta mjög mörgum tugum.

Í fjórða lagi hygg ég, að það sé miklum mun auðveldara að fylgjast með og hafa nokkurn hemil á ólöglegum innflutningi, þ.e.a.s. innflutningi tollsvikinna viðtækja, þegar um einkasölufyrirkomulag er að ræða, heldur en þegar mjög margir innflytjendur fást við þetta og merkin eru nær óteljandi.

Í fimmta lagi hygg ég, að það hafi vakað fyrir mönnum og reynslan hafi sýnt það, að mannafli við þessa starfsemi hafi verið miklu minni og miklu minna fé og húsnæði bundið í þessum innflutningi með einkasölufyrirkomulaginu heldur en því, þegar hið fullkomna frjálsræði ríkir, eins og það er nú kallað.

Og loks er það, og það er að vísu ekki minnsta atriðið, en þó aðeins eitt af mörgum, að með einkasölufyrirkomulaginu var tryggt, að allur hagnaður af þessari verzlun, þessum viðskiptum, rynni til nauðsynlegrar menningarstarfsemi í landinu.

Fyrstu árin, sem Viðtækjaverzlunin starfaði, var hún rekin sem raunveruleg einkasala, það voru ekki aðrir, sem höfðu með höndum innflutning eða sölu á viðtækjum, heldur en hún. Og það er mála sannast, að á þessum tíma náði einkasalan ágætum árangri og náði fyllilega tilgangi sínum. Ég veit ekki betur en það hafi verið almælt, að hún hafi veitt góða þjónustu. Hagnaður af rekstri hennar var mikill, og honum var öllum varið til fyrrgreindrar starfsemi, sem ég hef áður gert grein fyrir. En smám saman á hinum síðari árum var farið að brjóta þetta ríkisfyrirtæki niður, og það er alveg sérstaklega áberandi nú hin síðustu ár, eftir að sú varð yfirlýst stefna stjórnarvalda að afnema sem mest allan opinberan rekstur, a.m.k. þann, sem einhver hagnaður gat verið á, að eftir það hefur þessi starfsemi ríkisins verið mjög lítilfjörleg, vil ég segja, og engan veginn þjónað tilgangi sínum, vegna þess að það var búið að brjóta hana niður.

Það er vitanlega skiljanlegt, að sú stétt manna, sem fæst við kaupsýslu, geri kröfur í þessum efnum og haldi fram þeim kenningum, sem að því lúta, að hér eigi að ríkja hið fullkomna viðskiptafrelsi, eins og það er kallað. Og það hefur ekki skort að gera kröfur frá þessum aðilum til stjórnarvalda, að lagður skuli niður allur sá ríkisrekstur, þar sem hugsanlegt er, að hagnaður geti orðið. Hins vegar má þjóðnýta allan rakinn taprekstur. Og undan þessum kröfum hefur verið látið alveg sérstaklega í tíð hæstv. núv. ríkisstj. Það er sagt, eins og hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, að þetta eigi að tryggja aukið vöruframboð og bætta þjónustu, og jafnvel talað um, að það geti tryggt lægra verð. Ég held, að þetta sé í því tilfelli, sem hér um ræðir, algjörlega ósannað mál, enda næsta ósennilegt, og skal ég nefna nokkur atriði í sambandi við það. Í þeirri grg., sem fylgir frv., er um það rætt, að það kosti svo og svo mikið, það kosti 40–50 millj. kr. og allt að 30 manna starfslið, ef ætti að koma einkasölu með viðtæki á laggirnar að nýju á þann veg, að hún geti fullnægt kröfum landsmanna um innflutning og sölu á þessari vöru. En það liggur hins vegar ekkert fyrir og virðist ekki hafa verið gerð tilraun til að athuga, hvort það er meiri eða minni mannfjöldi og meira eða minna fjármagn, sem liggur í þessum innflutningi og dreifingu þessarar vöru með þeim hætti, að nokkuð margir tugir innflytjenda eru með hana á boðstólum og þurfa vitanlega að hafa sitt fólk við þetta, sín húsakynni og sitt fjármagn eða hið almenna lánafjármagn í þessu bundið. Það hefur ekki verið gerð tilraun til að athuga þetta. Og mér þætti líklegt, að það kæmi í ljós, ef það hefði verið gert, að þá væru það miklu hærri upphæðir og miklu meiri fjöldi manna, sem við þetta væri bundinn, með þeim hætti að láta fjölda innflytjenda og seljenda hafa þetta með höndum, heldur en með skipulögðum hætti hjá vel rekinni einkasölu.

Hv. frsm. talaði um það, að frjálsræðið í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum kæmi fyrst og fremst viðskiptavinunum, neytendunum, eins og svo eru nefndir, til góða. Nú hef ég ekki heyrt, að kaupendur útvarpstækja hafi á sínum tíma haft uppi sérstakar athugasemdir við rekstur viðtækjaeinkasölunnar, og ég hef ekki orðið var við það, að frá þeim eða samtökum þeirra kæmu nein þakkarávörp í sambandi við hið aukna frjálsræði í þessum efnum eða í sambandi við flutning þessa frv. Hins vegar liggur það fyrir, að innflytjendurnir, samtök heildsalanna, fagna þessu máli mjög og hafa alveg nýlega birt sérstakt þakkarávarp í sambandi við flutning þessa frv., sem hér um ræðir, og þeir óska vitanlega eftir meira af svo góðu, þeir fara fram á það, að nú sé haldið áfram á þessari braut, og vilja vitanlega losna við einkasölu á tóbaki, á eldspýtum, á grænmeti o.fl., og eins og segir í ályktun, sem samþykkt var á aðalfundi Félags íslenzkra stórkaupmanna núna fyrir skömmu, þar segir svo, með leyfi hæstv, forseta:

„Aðalfundur Félags íslenzkra stórkaupmanna 1967 beinir því til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir eftirtöldum atriðum: a. Að afnema með lögum einkasölu ríkisins á tóbaksvörum, eldspýtum og grænmeti, enn fremur að afnema einkasölu á bökunardropum, ilm- og hárvötnum. Fagnar fundurinn fram komnu frv. ríkisstj. á Alþingi um niðurlagningu Viðtækjaverzlunar ríkisins“ — og síðan er farið út í aðra sálma.

Þetta er að sjálfsögðu skiljanlegt, að þeir, er hafa það að atvinnu sinni að annast innflutning ýmissa vara, vilji njóta sem mests frjálsræðis til þess. En mér er spurn: Verður ekki haldið áfram á þessari braut? Hv. frsm. meiri hl. n. talaði um, að það gegndi dálítið öðru máli um vöru eins og áfengi, sem menn væru almennt sammála um að rétt væri að hafa vissan hemil á og væri sérstaklega skattlagt sem gróðalind, en ef tóbakið kæmi til að mynda næst og þar yrði hið fullkomna frjálsræði og innflytjendur hefðu betri aðstöðu en áður til þess að útbreiða það og selja, kemur þá ekki næst krafan um áfengið, og verður þá staðið gegn henni af hálfu þess ríkisvalds, sem telur, að hið fullkomna frjálsræði í viðskiptum fyrst og fremst eigi að ríkja? Hvað skyldi í sjálfu sér vera athugaverðara við það, að innflutningur á áfengi verði gefinn frjáls, heldur en til að mynda innflutningur á tóbaki, sem kaupmannasamtökin eru nú að fara fram á að frjáls verði gefinn? Að mínu viti hefði í stað þess að afnema þau heimildarlög, sem hafa gilt frá 1930 um Viðtækjaverzlun ríkisins, átt að endurskoða þessa löggjöf með það í huga, hvort ekki væri þjóðhagslega hagkvæmt að efla hana á ný og láta hana þjóna hinum upprunalega tilgangi sínum, auk þess sem hún fullnægði þörfum landsmanna í sambandi við innflutning og sölu á þessum tækjum, að standa undir nauðsynlegri menningarstarfsemi í landinu, að svo miklu leyti sem tekjurnar hrykkju til þess. Og ég hefði talið fulla ástæðu til þess að athuga einnig, hvort slík einkasala ætti ekki nú að ná til sjónvarpsviðtækja líka. Og ég hygg, að öll hin sömu rök og ég hef áður nefnt séu fyrir hendi í dag. En það er ekki að sjá, að þetta hafi verið athugað hið minnsta. Það er aðeins talað um, að þetta mundi kosta nokkuð mikið, þetta mundi kosta 30 manna starfslið hjá einkasölunni og 40–50 millj. kr. rekstrarfé. Kann að vera, að þetta séu réttar og raunhæfar tölur, en ég vil endurtaka: Hve mikið starfslið og hve mikið fjármagn er bundið í þessari verzlun, þessum innflutningi og þessari verzlun í dag, og hve mikið verður það, þegar frjálsræðið verður alveg fullkomið með afnámi þessara heimildarlaga? Ætli það sé minna en um er talað í grg. frv.? Ég held tæplega. Ég held, að það sé um meiri mannafla og hærri fjárupphæðir að ræða. Hitt er svo alveg rétt, að starfsemi Viðtækjaverzlunar ríkisins hefur síðustu árin verið lömuð það mikið, að hún hefur verið lítið annað en innheimtufyrirtæki, og ég viðurkenni það fyllilega, að í núverandi formi, að öllu óbreyttu, á þessi starfsemi mjög takmarkaðan rétt á sér. Það er búið að lama fyrirtækið þannig, að það nær á engan hátt tilgangi sínum. En ég hefði talið, að í staðinn fyrir að segja, að fyrst búið er að lama þetta ríkisfyrirtæki, eins og gert hefur verið, þá eigi nú að draga alveg á barkann á því, þá hefði átt að kanna, hvort ekki hefði verið hagkvæmara þjóðhagslega séð að byggja þessa einkasölu upp að nýju, þannig að hún gæti náð upphaflegum tilgangi sínum.

Ég get ekki stillt mig um að minna á það, að Alþfl. stendur að flutningi þessa frv. um afnám ríkisrekstrar á þessu tiltekna sviði, og það er einn af forustumönnum þess flokks, hæstv. menntmrh., sem ber þetta frv. fram og mælti fyrir því hér í d., og ég hefði haft ánægju af því að ræða þetta mál dálítið við hæstv. ráðh., en ég sé, að hann er nú ekki viðstaddur þessar umr., svo að ég mun stytta það mál mitt, sem ég hefði annars viljað við hann segja af þessu tilefni, en þó aðeins drepa á það, að annað hefur verið viðhorf þessa flokks og þessa hæstv. ráðh. áður og það lengi vel gagnvart þjóðnýtingu, jafnvel á þeim sviðum,. þar sem einkasala eða þjóðnýting var engan veginn eins auðveld og einföld í framkvæmd og varðandi innflutning og jafnvel einnig sölu á útvarpsviðtækjum. Mig langar aðeins í þessu sambandi að vitna til ágætrar bókar, sem ég hef oft litið í og er sammála mörgu, sem þar stendur, hef miklar mætur á þessari bók, — hún er að vísu ekki alveg ný, þó er hún samin alllöngu eftir stríð, — þessi bók heitir „Jafnaðarstefnan“, og höfundur hennar er Gylfi Þ. Gíslason, hæstv. núv. menntmrh., bókin kom út hjá Helgafelli árið 1949. Þar segir svo á bls. 73, með leyfi hæstv. forseta, þar er verið að ræða um innflutningsverzlunina:

„Hún,“ þ.e. innflutningsverzlunin, „er þjóðfélaginu óeðlilega dýr. Hún hefur orðið sjálfstæður atvinnuvegur, og hana annast mikill fjöldi fyrirtækja, svo mikill fjöldi, að í henni er bundið allt of mikið fjármagn og allt of mikill mannafli, og hún er þjóðfélaginu óeðlilega dýr, einmitt vegna einkarekstrarins. Innflutningsverzlunina á að þjóðnýta vegna þess, að þá er hægt að annast hana á miklu hagkvæmari hátt en meðan hún er í höndum mikils fjölda fyrirtækja og margra smárra. Innkaup er hægt að gera í stærri stíl og þá við lægra verði, flutningur getur orðið ódýrari og dreifing til smákaupmanna hagkvæmari. Af þessum sökum gæti því erlent vöruverð lækkað. Þjóðnýtingin kæmi einnig í veg fyrir, að innflutningsverzlunin yrði einstaklingunum slík gróðalind sem verið hefur, við það gæti vöruverð lækkað til viðbótar. Ef aðstæður eru þannig á vissum sviðum, að ástæða þyki til að haga verðlagningu innfluttrar vöru þannig, að hagnaður verði á verzluninni, þá er sjálfsagt, að sá hagnaður renni í sameiginlegan sjóð borgaranna, en ekki í vasa einstaklinga.“

Þetta kann að þykja nokkuð ströng kenning, og ég játa, að stundum kann að mega ná svipuðum markmiðum og fyrir höfundi þessara orða vakti eftir öðrum leiðum en þjóðnýtingarleiðinni. En hitt held ég þó að standi óhaggað, og ég vil leggja á það áherzlu, að til þess þurfa að liggja góð og gild rök, ef leggja á niður ríkiseinkasölu, sem vel hefur gefizt, meðan hún fékk að starfa og var ekki lömuð.

Í sambandi við flutning þessa máls tel ég, að enn skorti allar sannanir fyrir því, að það sé hagkvæmara þjóðfélagslega séð að láta einstaklinga annast innflutning viðtækja heldur en ríkisstofnun. Ég vil fyrst og fremst láta kanna þetta. Það liggur ekkert á að afnema þessi heimildarlög, sem á að afnema samkv. þessu frv. Það liggur ekkert á því fyrr en slík könnun liggur fyrir, og verði niðurstaða slíkrar könnunar sú, að einkasölufyrirkomulagið sé hagstæðara frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, eins og hv. menntmrh. hefur haldið fram, þá á vitanlega að fara þá leið að efla Viðtækjaverzlunina, þá á að gera henni kleift að starfa og styrkja menningarstarfsemi í landinu, en eins og hv. alþm. vita, eru flestar eða allar menningarstofnanir fjárvana. Þess vegna legg ég til, að þetta frv. verði afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem deildin telur rétt, að Viðtækjaverzlun ríkisins verði efld og henni gert kleift að annast innflutning og sölu útvarps- og sjónvarpsviðtækja, og í trausti þess, að ríkisstj. skipi 5 manna nefnd, 4 eftir tilnefningu þingflokkanna og 1 án tilnefningar, til að endurskoða fyrir næsta þing gildandi löggjöf með fyrrgreint markmið fyrir augum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Að þessari dagskrá felldri mun ég sem hreinn og beinn jafnaðarmaður og lærisveinn höfundar bókarinnar „Jafnaðarstefnan“ greiða atkv. gegn þessu frv.