06.03.1967
Neðri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. Í því felst það, að numin eru úr gildi ákvæði laga um heimild til einkasölu á útvarpstækjum. Jafnframt er kveðið svo á í frv., að eignir Viðtækjaverzlunarinnar skuli ganga í framkvæmdasjóð ríkisútvarpsins, þegar skuldir hafa verið greiddar, inneign ríkissjóðs hjá Viðtækjaverzluninni greidd að fullu og jafnframt innt af hendi til þjóðleikhússins greiðsla á 1 millj. kr., sem það er talið munu kosta að ljúka þjóðleikhúsbyggingunni og greiða ógreiddar skuldir skv. lagaheimild til rekstrar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Á undanförnum árum hefur Viðtækjaverzlun ríkisins verið rekin með tapi, sem ríkissjóður hefur þurft að greiða. Auk þess hefur Viðtækjaverzlunin á undanförnum árum ekki starfað með sama hætti og gert var ráð fyrir að hún starfaði, þegar hún var stofnuð fyrir næstum 40 árum. Þá gegndi Viðtækjaverzlunin mjög mikilvægu hlutverki og leysti það af hendi með mikilli prýði. Þá var verið að koma á fót nýrri ríkisstofnun, Ríkisútvarpinu, og það þótti mjög hentugt að haga innkaupum til landsins á útvarpsviðtækjum með þeim hætti, að sem stærstar pantanir væru gerðar í einu og dreifingin væri sem mest á einni hendi. Þessi framkvæmd í viðskiptum tókst mjög vel að því leyti, að um margra ára skeið má telja að verð á útvarpsviðtækjum hafi verið lægra hér á Íslandi en í nálægum löndum, einmitt vegna þess, að innflutningur þeirra og verzlun með þau hér var á einni hendi. Á síðari árum hefur hins vegar innflutningur viðtækja til landsins og verzlun með þau smám saman tekið að dreifast á fleiri og fleiri hendur, m.a. vegna þess, að Viðtækjaverzlunin hefur ekki talið sig hafa bolmagn til þess að annast allan þann verzlunarrekstur, eftir að hann tók svo mjög að aukast sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og ekki hvað sízt eftir að innflutningur og verzlun með sjónvarpstæki kom til skjalanna, en hann hefur verið mjög mikill. Þess vegna var það fyrir allmörgum árum tekið upp af hálfu Viðtækjaverzlunarinnar að heimila öðrum innflytjendum að flytja inn tæki, bæði hljóðvarpstæki og sjónvarpstæki, gegn greiðslu ákveðins gjalds til Viðtækjaverzlunarinnar, sem nefnt var einkasölugjald. Þessir viðskiptahættir hafa tíðkazt mörg undanfarin ár, og hefur gjaldið numið 30% af innflutningsverði tækjanna. Bein verzlun Viðtækjaverzlunarinnar hefur hins vegar færzt saman ár frá ári og átt meginþáttinn í því, að rekstur hennar hefur breytzt í hallarekstur. Í raun og veru hefur Viðtækjaverzlunin undanfarin ár allmörg fyrst og fremst verið innheimtustofnun á opinberu. gjaldi, einkasölugjaldinu, en æ minna og minna kveðið að eiginlegum verzlunarrekstri hjá henni, auk þess sem sá verzlunarrekstur hefur haft í för með sér beinan taprekstur fyrir ríkissjóð.

Þegar þannig var komið, þótti ríkisstj. rétt að skipa n. til þess að athuga starfsgrundvöll Viðtækjaverzlunar ríkisins, og gerði ég það 15. maí 1965. Í n. voru skipaðir Jón A. Bjarnason verkfræðingur, Sigurður J. Briem stjórnarráðsfulltrúi, Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri og Sveinn Ingvarsson forstjóri Viðtækjaverzlunarinnar. Sigurður Briem var formaður n. Í forföllum Sigtryggs Klemenzsonar starfaði Höskuldur Jónsson stjórnarráðsfulltrúi í n. Þessi n. lauk störfum á s.l. vori og var á einu máli um það, að tímabært og eðlilegt væri að leggja niður einkasölurekstur á innflutningi viðtækja. Skýringin á því kemur gleggst fram í þeim ummælum forstjóra stofnunarinnar, sem voru í nál., en þar sagði hann, með leyfi hæstv. forseta: „Eins og málum er nú komið, er mér ljóst, að ekki eru tök á að byggja upp líkan starfsgrundvöll þeim, er Viðtækjaverzlunin starfaði á fyrstu 27–28 árin, því að meðal annarra fullnægjandi skilyrða í þeim efnum yrði að útvega 40–50 millj. kr. sem handbært rekstrarfé og jafnframt auka starfslið stofnunarinnar að þrefaldri tölu við það, sem nú er, að lágmarki.“ En n. í heild sagði í tilefni af þessum ummælum forstjórans, með leyfi hæstv. forseta: „N. telur, að aðstaða íslendinga til að afla sér viðtækja og varahluta í þau sé í dag allt önnur og betri en hún var 1930. Með hliðsjón af fullkominni getu einkafyrirtækja sem og samvinnufélaga til að annast innflutning og dreifingu viðtækja, getur n. ekki mælt með, að ríkissjóður leggi fram 40–50 millj. kr. til rekstrar einkasölu til sams konar þjónustu og bindi þar við 30 manna starfslið. Þar sem mjög óráðlegt virðist að halda áfram rekstri einkasölunnar með núverandi sniði, leggur n. til, að hún verði lögð niður.“

Í samræmi við þetta einróma álit n. hefur ríkisstj. lagt til í þessu frv., að eftir tili. hennar verði farið og einkasalan lögð niður, en nettóeign hennar að því loknu ráðstafað eins og ég gat um áðan.

Upphaflega var gert ráð fyrir því, að hagnaður af viðtækjaeinkasölunni rynni í framkvæmdasjóð ríkisútvarpsins, og í samræmi við það var lagt til í frv., að nettóeign hennar, þegar allar skuldbindingar hafa verið greiddar, renni í framkvæmdasjóð ríkisútvarpsins. Viðtækjaverzluninni var upphaflega ætlað að vera ríkisútvarpinu til stuðnings, og hún verður það endanlega með því móti, að það fái nettóeign einkasölunnar, þegar greiðsluskuldbindingum er lokið. 1951 var hins vegar ákveðið, að hagnaðurinn skyldi renna í ríkissjóð til greiðslu á byggingarskuldum þjóðleikhússins, og síðar var þeim lögum breytt og ákveðið, að hagnaðinum skyldi skipt á milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og þjóðleikhússins. Nú er hins vegar svo komið, að einnig er um að ræða beinar fjárveitingar á fjárlögum, bæði til þjóðleikhússins til rekstrar og byggingar og til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Sjálfsagt þykir þó, að Viðtækjaverzlunin greiði það, sem hún á enn ógreitt vegna fjárhagsskorts eða vegna fjárskorts, það fé til Sinfóníuhljómsveitarinnar og að nettóeign Viðtækjaverzlunarinnar standi undir þeim byggingarframkvæmdum þjóðleikhússins, sem enn er ólokið, enda kveða gildandi lög svo á, að tekjur af Viðtækjaverzluninni megi nota til byggingar þjóðleikhúss, þangað til þeirri byggingu er endanlega lokið.

Jafnhliða þessu frv. flytur ríkisstj. eða fjmrh. annað frv., þar sem lögð er til hækkun á verðtolli á innfluttum sjónvarpstækjum og hljóðvarpstækjum, sem á að koma í staðinn fyrir það 30% einkasölugjald, sem nú hefur verið greitt af öllum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum, sem til landsins hafa verið flutt. Það, sem gerist hér í raun og veru, er það, að innheimta opinberra gjalda af innfluttum hljóðvarps- og sjónvarpstækjum verður einfaldari og ódýrari en nú á sér stað. Í stað þess að innheimta bæði aðflutningsgjöld af þessum innfluttu tækjum og einkasölugjald af hálfu Viðtækjaverzlunar ríkisins verður nú allt, sem neytendur greiða til hins opinbera af tækjunum, innheimt af sama aðila, þ.e. tollyfirvöldunum, og sparast þá auðvitað sá kostnaður, sem af því hefur hlotizt að innheimta einkasölugjaldið á vegum Viðtækjaverzlunarinnar, því að í sjálfu sér kostar auðvitað nákvæmlega jafnmikið að innheimta 70% verðtoll af þessum tækjum við innflutning eins og að innheimta 100% verðtoll af þeim. Af þessari kerfisbreytingu mun því óhjákvæmilega hljótast verulegur sparnaður fyrir hið opinbera og þjóðfélagið í heild.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.