06.03.1967
Neðri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

127. mál, afnám einkasölu á viðtækjum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég kann ekki við að láta þetta frv. fara svo til n. að lýsa ekki afstöðu minni til þess, sem hér er að gerast, sérstaklega með tilliti til þess, sem nokkuð hefur komið fram í blöðum kaupsýslumanna hér, að fagnað er mjög yfir því, að Viðtækjaverzlunin sé lögð niður, og sagt, að fleira af því, sem ríkið hefur rekið, þurfi að koma á eftir.

Það er náttúrlega lítill vandi, þegar kaupsýslustéttin hefur höfuðáhrifin á ríkisvaldið, að stjórna þannig rekstri ríkiseinkasala, að þær verði óvinsælar og síðan verði þær að hálfu leyti leystar upp og svo að lokum lagðar niður. En það er rétt, um leið og svona mál eru rædd, — þó að það sé í raun og veru erfitt, eins og komið var með viðtækjaeinkasöluna, — að gera sér ljóst, út í hvað verið er að stefna með þessu móti. Ástandið er þannig, að meira og meira af því, sem almenningur kaupir, hvort sem það eru sjónvarps- eða útvarpstæki, bílar, vélar, heimilistæki eða annað slíkt, — það er að verða þannig með þetta hér á Íslandi núna, að þjónustan með allt þetta er að verða gersamlega ómöguleg. Skipulagsleysið í innflutningnum á þessum hlutum er að verða þannig, að það veldur þjóðfélaginu og hverjum einstaklingi, sem eitthvað hefur með þetta að gera, stórtjóni. Í raun og veru erum við að lífa það, að hið svokallaða einkaframtak er að svíkjast um að fullnægja því, sem fram að þessu hefur verið gengið út frá, að það hefði vissar forsendur til að fullnægja betur en ríkið, eins og það vissulega oft og tíðum getur haft, ef einhver ofurlítil hemja er á því, hvernig þarna er að farið. Við vitum, að það er ákaflega mikið valfrelsi, sem fólk hefur núna, hvað snertir að það getur valið kannske á milli 50 og 100 bílategunda. Vafalaust getur það farið að velja á milli fjöldans af alls konar viðtækjum, sjónvarpstækjum og öllu mögulegu slíku. Það er enginn efi á því, að þegar um er að ræða að selja þessi tæki, eru ótal prangarar til, sem pranga þessu inn á almenning. En hvernig fer svo á eftir, um leið og þarf að fara að gera við þetta? Hvernig er með varahlutina í bílategundirnar hér á Íslandi? Hvernig stendur einkaframtakið sig með það? Sannleikurinn er, að svo og svo mikið af öllum þeim tækjum, sem hér eru flutt inn, er meira eða minna ónýtt almenningi rétt á eftir, vegna þess að þetta einkaframtak fullnægir ekki þeirri skyldu að hafa nægar varahlutabirgðir af þessu öllu saman. Það, sem við höfum lifað í sambandi við öll þessi tæki, er algert gjaldþrot einkaframtaksins í þessum efnum og svik þess við þjóðfélagið, sem að miklu leyti stafa af því, að þessir aðilar hafa fengið frelsi til að flytja inn hvað sem þeir vilja án þess að hafa nokkrar skyldur til þess að sjá almenningi fyrir því á eftir, að almenningur eigi að geta haft fullkomið valfrelsi um varahluti í sambandi við þetta.

Það er snakkað í blöðum kaupsýslustéttarinnar hér um valfrelsi. Hvar er valfrelsi hvað snertir varahluti í það, sem heimilin og fólkið almennt þarfnast? Það er ekki til. Það er alger óreiða og hreint hneyksli í öllum verzlunarmálum Íslands hvað þetta snertir. Svo og svo mikið af því, sem fólk flytur hér inn, er því meira eða minna ónýtt rétt á eftir, vegna þess að það vantar varahluti. Og svo er bara prédikað: Menn hafa valfrelsi. — Jú, menn geta kastað því, sem fyrir er, og keypt sér nýtt. Það geta kannske þeir, sem hafa efni á því, en það geta ekki aðrir.

Ég álít, að hið opinbera, sem ber ábyrgð á því, hvers konar skipulag eða skipulagsleysi og óreiða ríkir í þessum efnum, verði að gera svo vel að skipta sér dálítið af þessu. Það veit hver einasti maður, hvað það er ópraktískt fyrir okkur Íslendinga að hafa alla þá tugi bílategunda, sem hér eru. Það verður engin þjónusta við almenning með þessu móti. Við kæmumst af með miklu færri bílategundir og gætum þá haft tiltölulega sæmilegar varahlutabirgðir handa fólki af þessu. En á hvern hátt ætla menn að sjá um að gera slíkt? Það verður ekki gert með þessari svokölluðu frjálsu verzlun nú. Einkaframtakið gerir það ekki. Það er algerlega gjaldþrota og máttlaust og ómögulegt í þessum efnum. Það stendur uppi eins og þvara. Almenningur hefur ekkert valfrelsi í þessum efnum. Um leið og hann er búinn að kaupa eitt tæki og þarf að fá einn hlut í það, stendur allt fast.

Ég álít, að hið opinbera verði að gera svo vel að athuga dálítið, hvað um er að ræða í þessum efnum. Hér er komið og sagt við okkur af hæstv. verzlunarmrh., viðskmrh., að það sé sparnaður fyrir þjóðfélagið að leggja niður Viðtækjaverzlunina. Ég skal ekkert um það segja. Það er hægt auðvitað að deila heilmikið um, þegar búið er að koma Viðtækjaverzluninni í það ástand, sem hún er í núna, hvernig þetta sé. En verður það nokkur sparnaður fyrir þjóðfélagið á eftir? Hvað fáum við margar viðtækjaverzlanir hérna? Hvað fáum við upp margar sjónvarpstækjaverzlanir nýjar? Mér sýnist ein vera að rísa upp á dýrasta horninu í Reykjavík, á horninu á milli Austurstrætis og Lækjargötu. Það væri gott að vita, hvað álagningin er á vörunni, ef þetta er dýrasta pláss, sem til er í Reykjavík. Ég er því miður ekki svo kunnugur, ég veit ekki, hvort það er frjáls álagning á þessum hlutum, en það getur hæstv. viðskmrh. upplýst, en við vildum gjarnan fá að vita það, áður en þetta er samþ. hér. Hvað eiga margir að fá að starfa við að selja sjónvarpstæki í Reykjavík, ef Viðtækjaverzlunin er afnumin og annað slíkt? Hver ætlar að tryggja okkur, að það verði ekki 50 eða 100 manns, sem komi til með að vinna við þetta, í staðinn fyrir það, sem þyrfti, svo framarlega sem það væri ríkiseinkasala á því? Eins og nokkur maður þurfi að telja okkur trú um það í dag, að það væri ekki heppilegra fyrir þjóðfélagið, að það væri einkasala á bilunum, en frjálst hins vegar að kaupa þá, ekki nein skömmtun, og ríkið réði, hvað það væru margar bílategundir, sem inn væru fluttar. Eins og nokkur maður þurfi að telja okkur trú um, að allar bílahallirnar hefðu risið inn við Suðurlandsbraut, ef það hefði verið ríkiseinkasala á bilunum, og eins og það væri ekki hægt að hafa þjónustu við almenning og valfrelsi á varahlutum eitthvað dálitið skárra en það er núna, svo framarlega sem það væri þarna ríkíseinkasala. Að vísu skal ég viðurkenna, að það er hægt að reka ríkiseinkasölu svo illa, að hún yrði afnumin, og það er hægt að hafa það mikla spillingu í sambandi við hana, að það yrði látið fokka. Við munum, hvernig fór með þá gömlu. En það þýðir ekki, að við verðum að horfa upp á það endalaust, að það eigi að verða slík óreiða með alla þessa hluti í þjóðfélaginu, að almenningur standi uppi varnarlaus, alveg varnarlaus gagnvart hinum og þessum pröngurum, sem pranga hinum og þessum vélum inn á menn, sem geta verið góðar vélar, en svo stendur allt í vandræðum með að fá varahluti í þær, þegar að því kemur, engin þjónusta við almenning, ekkert valfrelsi til. Það er bezt, um leið og kaupsýslulýðurinn hér í Reykjavík er að byrja að fagna yfir því, að það sé verið að leggja Viðtækjaverzlunina niður, og segja, að svona þurfi fleiri einkasölur að fara, að honum sé sagt alveg til syndanna með það, hvernig hann hefur svikizt um allt það hlutverk, sem honum var falið á hendur með því að gefa verzlunina frjálsa. Það er almennt viðurkennt í Reykjavík í dag, að þeir, sem betri hafa efni, sigla til Bretlands eða fljúga til að kaupa inn, en kaupa ekki hérna í Reykjavík. Af hverju? Af því að það er ekki einu sinni nægilegt valfrelsi á fötum og öðru slíku. Svo þykist einkaframtakið hafa staðið sig vel hér. Jú, þeir hafa staðið sig með tertubotna, kannske farnir að flytja inn jarðveg frá Ameríku. En hvers konar ástand er þetta? Og svo eru blöð til hér í þjóðfélaginu og það voldug blöð, sem leyfa sér að útbásúnera það, hve gífurlega almenningur eigi við góð kjör að búa hvað þetta snertir, hvernig hann geti valið á milli varahluta og skorti aldrei nokkurn tíma neitt. Ég held, að það verði alvarlega að athuga þessa hluti. Einkaframtakið hefur enga ástæðu til þess að hrósa neinum sigri þarna. Það hefur staðið sig skammarlega, og það er þess vert fyrir hæstv. ríkisstj, að athuga það, hvernig hún ætlar að sjá almenningi fyrir þeim nauðsynjum, sem hann þarf að fá.

Ég þykist vita, að það verði nóg til af alls konar viðtækjum og sjónvörpum, um leið og þetta er gert, það hefur verið það undanfarið. En hvernig verður með allt, sem heitir varahlutir og viðgerðir og annað slíkt, á eftir? Það þarf að athuga þessi mál öll niður í grunn. Mér þætti mjög vænt um að fá frá ríkisstj. skýrslu um það, hvað bílainnflutningurinn kostar Ísland í dag, hvað það eru margir, sem vinna við hann, hvað miklu er stungið undan í sambandi við hann. Þá vildi ég, að hæstv. ríkisstj. tryggði okkur það, að allt, sem nú verður látið renna til einstaklingsframtaksins, það komi allt saman fram til skatts. Vill hæstv. ríkisstj. taka að sér að ábyrgjast það? Það er vaninn, svo framarlega sem ríkið sér um þessa hluti, að þá kemur það fram. Er máske ein ástæðan að pumpa fé frá almenningi, án þess að það komi nokkurn tíma fram til skatts hjá þeim, sem flytja hlutina inn? Ég veit ekki til þess, að menn hafi þá reynslu af bílainnflutningnum og öðru slíku, að þeir vilji tryggja það. Ég efast ekki um, að það verður hægt að sjá almenningi fyrir tækjunum til þess að byrja með og verður vafalaust gert mjög vel og sómasamlega. En svo þegar kemur til þess að eiga að sjá fólki fyrir viðgerðum á þessu og þegar þetta eru orðnar ótal tegundir og engir varahlutir til í svo og svo margar gerðir, þá stendur fólkið uppi eins og þvara.

Ég vildi segja þessi fáu orð, bara vegna þess, að ég álít síður en svo, að hvernig sem um þetta frv. fer, þá sé nokkur ástæða fyrir einkaframtakið hér á Íslandi að vera að hrósa einhverjum sigri í þessu sambandi. Ég álít, að það væri þvert á móti nauðsynlegt að taka öll verzlunarmálin til endurskoðunar vegna þessa raunverulega pólitíska gjaldþrots, sem við höfum lifað hjá einkaframtakinu í verzluninni, sem er svo samfara því, að verzlunin gerir meiri kröfur til lána úr ríkissjóði. Það er minnzt hér á, að vanti 40–50 millj. í starfsfé fyrir þessa ríkiseinkasölu. Má ég spyrja: Hvað á að lána marga tugi millj. meira, þegar farið verður að reka þetta sem einstaklingsframtak? Hvað eru margir tugir millj. í þessu núna? Það er bezt, að við fáum að vita þetta, það er ekki til þess að slá um sig með svona við okkur. Við vitum ósköp vel, hvernig lánað er í verzlun nú sem stendur, og við vitum, hvað þar stendur fast, þannig að um leið og banki fer að hreyfa við einhverjum féglæframanninum hérna, þá er það bara heil keðja, sem fer á eftir, og þá er stöðvazt við. Svo á að tala um ríkið, að ríkið geti ekki fengið 30–40 millj., en einstaklingar í verzluninni, verzlunarauðmagnið hefur aukið mest lánin og fengið mest af lánaaukningunni út úr bönkunum. Eina undantekningin hefur verið, ef það hefur verið alveg sérstaklega mikil síldveiði og verið lánað út á hana, af því að birgðirnar hafa aukizt svo.

Ég er hræddur um, að við verðum alvarlega að athuga þessa hluti, áður en að lengra er gengið í þessum efnum, og ég vil mjög mælast til þess, að sú n., sem fær þetta til athugunar, rannsaki þetta niður í kjölinn. Almenningur á kröfu á því, að honum sé sýnd almennileg þjónusta. Ég er ekki að tala um endilega, að það eigi við þetta, en ég er að eiga við það, sem einkaframtakið hefur fengið laust á undanförnum áratugum, ekki sízt af tækjum, bílunum og öðru slíku. Ég held það þurfi að fara að staldra alvarlega við um, hvert verið er að halda með þessu. Það er tvíbent að leggja fyrst niður einkasölur, fá einstaklingunum þetta í hendur, lána þeim stórfé úr ríkisbönkunum til þess og láta svo ríkisbankana tapa stórfé á því að hafa lánað þeim, eftir að almenningur hefur fengið slæma þjónustu allan tímann. Ég vildi aðeins láta þetta í ljós, um leið og þetta frv. er til 1. umr.