13.03.1967
Efri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

137. mál, Búreikningastofa landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Lög um búreikningaskrifstofu ríkisins hafa nú verið í gildi um 30 dr. Lengst af þann tíma mun Búnaðarfélag Íslands hafa haft einhverja slíka starfsemi á sínum vegum, en skoðanir hafa verið skiptar um gagnsemi þeirrar skrifstofu. Ætlast núgildandi lög til m.a., að félög bænda annist búreikningahald, og skólabúum í landinu er gert að skyldu að skila búreikningum. Slík félög munu aldrei hafa verið stofnuð, og þess vegna hefur þetta verið dauður bókstafur. Og í öðru lagi virðist óeðlilegt, að ríkisbú og skólabú séu höfð til þeirrar viðmiðunar, sem lögin ætlast til. Nú er þetta hvort tveggja fellt niður í því frv., sem hér liggur fyrir.

Í grg. segir, að hlutverk búreikningahalds sé tvíþætt: Að vera bændum til leiðbeiningar um, hvaða fyrirkomulag búrekstrar henti bezt á hverjum stað og hvaða búgreinar gefi beztan arð. Það er að sjálfsögðu afar þýðingarmikið, að búreikningurinn gefi nokkurn veginn öruggar ábendingar um þessi grundvallaratriði. Í öðru lagi er búreikningunum ætlað, segir í grg., að veita þeim, sem verðlagsmál landbúnaðarins hafa með höndum, sem allra gleggstar upplýsingar um kostnað við búið eða búvöruverðið, og skiptir þá að sjálfsögðu höfuðmáli, að úrtök þau, sem valin eru í þessu tvíþætta skyni, gefi sem allra réttasta mynd.

Eins og nú háttar um verðlagningu búvöru, virðist rétt færsla á hæfilega mörgum búreikningum mjög nauðsynleg til að koma í veg fyrir ágreining um raunverulegt kostnaðarverð á búvörunni, svo að framleiðandinn geti þá fengið fyrir sinn snúð það, sem lög um framleiðsluráð landbúnaðarins raunverulega ætlast til, miðað við grundvallarbú, sem nú er talið 315 ærgildi, að ég ætla. Í grg. segir einnig, að stuðzt hafi verið við reynslu Breta og Hollendinga að því er snertir færslu búreikninga, og verður að telja, að það séu allþung rök, þar sem stuðzt er við reynslu þá, sem bezt hefur gefizt í þessu efni. Í grg. er einnig gerð rækileg grein fyrir þeim göllum, sem eru á gildandi 1. um þetta efni, og hvernig vinna eigi að þessum málum eftirleiðis, ef frv. verður samþ., en það er í 4. gr. aðeins. Ég álít, að frv. sé tvímælalaust til bóta, miðað við eldri 1., sem eru frá 1936, nr. 12., 1. febr. það ár.

Landbn. taldi ekki ástæðu til að senda þetta frv. til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, þar sem það mun vera samið að mestu leyti af starfsmönnum þess og í fullu samráði við stjórn Búnaðarfélagsins.

Eins og fram kemur í nál., leggur landbn. til, að frv. verði samþ., en geta má þess, að tveir nm. voru fjarverandi, þegar það var afgreitt úr nefndinni.