20.03.1967
Neðri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

137. mál, Búreikningastofa landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og var samþ. þar nær óbreytt. Frv. er samið af n. og allrækilega undirbúið. Formaður þessarar n. var prófessor Ólafur Björnsson. Búreikningaskrifstofan hefur starfað í nær 30 ár, en oftast við allt of þröngan fjárhag. Hún hefur þess vegna ekki getað innt af hendi í nægilega ríkum mæli það verkefni, sem henni var upphaflega ætlað. En verkefnið var frá upphafi að stuðla að því, að bændur færi búreikninga, og færsla búreikninga er mjög nauðsynleg, bæði fyrir bændurna sjálfa og mætti segja fyrir þjóðfélagið í heild. Ef bændurnir færa búreikninga á glöggan hátt, eiga þeir hægara með en annars að gera sér grein fyrir því, hvaða búgrein borgar sig, hvaða búgrein borgar sig verr og í hvaða þætti búrekstrarins þarf helzt umbóta við. Og þetta er vitanlega ákaflega mikið atriði. Í öðru lagi er það mikið atriði, að nægilega margir búreikningar liggi fyrir og glöggir, þegar um verðlagningu búsafurða er að ræða. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt, þegar við það er miðað að verðleggja búsafurðirnar þannig, að bændur hafi ekki minni tekjur en aðrar vinnandi stéttir. En það hefur vantað á, að það væri hægt að leggja gögnin nægilega vel á borðið hvað þetta snertir.

Með því að gera þetta frv. að lögum er ætlazt til, að úr þessu verði bætt, sérstaklega með því, að búreikningaskrifstofan hefur nú fengið aukin fjárráð. Síðustu 3 árin hafa fjárráð búreikningaskrifstofunnar verið aukin, og sérstaklega nú á yfirstandandi fjárl. er sú upphæð veitt til búreikningaskrifstofunnar, að ætla má, að hún geti nú innt af hendi það hlutverk, sem henni hefur verið ætlað. Og nú er kominn til Búnaðarfélagsins vel fær maður til þess að hafa á hendi stjórn þessarar reikningsfærslu.

Við samningu þessa frv. hefur verið stuðzt við þá reynslu, sem hefur fengizt á undanförnum árum. Það hefur nokkuð verið stuðzt við reynslu Breta og Hollendinga, sem leggja kapp á að færa slíka reikninga. Það hefur vitanlega verið stuðzt við búskaparhætti íslenzkra bænda, og það hefur verið miðað við það, að bókhaldsþekking íslenzkra bænda er af eðlilegum ástæðum takmörkuð, og reynt að hafa reikningsformið þannig, að þeir bændur, sem vilja leggja sig eftir því að færa reikningana, geti það.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. við þessa 1. umr. Það fylgir því allskýr grg., sem gerir málið ljóst. En ég held, að það sé til mikilla bóta, að þetta frv. verður að lögum og búreikningaskrifstofan fær tækifæri til að vinna eftir þeim reglum, sem hér er gert ráð fyrir, að lögfest verði.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.